Bak við hurð

Takk enn og aftur fyrir hamingjuóskir.  Elsta systir mín segir að nú verði ég að blogga öðru hvoru svo ég gleymist ekki. Ég átti skemmtilega stund í gær þegar ég fór og heimsótti Dómkórinn minn (ath. ég syng ekki í honum, bara hlusta) á æfingu til að þakka fyrir hvað þau sungu fallega fyrir mig á þriðjudaginn. Ég kom á réttum tíma til að hitta á þau í pásunni, laumaðist upp á kirkjuloftið, heyrði daufan söng og fann að það var æfing í gangi svo ég beið. Þarna beið ég að hurðarbaki og hlustaði á stjórann fara yfir raddir og svo hljómaði skyndilega allt svo fallega og ég beið í andakt og fann strauminn gegnum gættina. Svo heyrðist mér stjórinn segja: "Er Eyþór kominn" og þá fattaði ég að ef ég kæmi ekki inn myndi Marteinn æfa áfram og kórinn ekki fá neina kaffipásu þetta kvöldið svo ég lét sjá mig og þarna sat kórinn svo stilltur og prúður eins og börn í sex ár bekk. Þau voru sem betur fer glöð að sjá mig og tóku mér eins og alhvítum hesti. Ég reyndi að þakka fyrir mig með því að lesa tvö ljóð. Það gekk svo vel að ég var klappaður upp! Sagði svo bless og stökk út því söngurinn blífur. Og það er svo merkilegt með þennan kór að maður er alltaf jafnástfanginn af honum, hvort sem hann er í Frúarkirkjunni í Dresden, Hólum í Hjaltadal eða bara bak við hurð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Eyþór og síðbúnar hamingjuóskir.

Pabbi hefði verið stoltur af þér - enda mikill ljóðaunnandi - og þú sannur Skálhyltingur sem hann alltaf hafði svo miklar mæur á! (Má ég ekki kalla þig það!?)

Ég sendi þér til gamans í morgunsárið eitt óbirt ljóð frá pabba.

Gangi þér allt í haginn!

 

Guðað á glugga.

 

 

Kenndu mér þína glöðu ljóðaleiki,

listfagri háttur, meðan þessi stund

fer yfir sviðið. Enn er ég á kreiki

 

og óðfús vil ég skunda á þinn fund.

Ég kasta ellibelg og báðum höndum

beiti upp í vind af fornri karlmannslund.

 

Nú siglum við í stormi undan ströndum

og stikum kátir úfinn Boðnar sjó,

uns hvergi djarfar framar fyrir löndum

 

og fæst ei minnsta hvíld né hugarró,

en hafsins árar keyra skáld á skriði

og skelin dansar, þar sem naður smó. -

 

Hún skoprar þarna ein á ysta miði.

 

 

                               Heimir Steinsson.

 

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 08:50

2 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Já Þórhallur, hann faðir þinn hafði frjótt og flott tungutak.

Skagfirskar hamingjuóskir til þín Eyþór.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 16.10.2009 kl. 15:13

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Ohhhhh - nú fæ ég barasta tár í augun.....Enn og aftur til hamingju Eyþór!

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 16.10.2009 kl. 16:30

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innilega til hamingju. Þú ert flottur

Ásdís Sigurðardóttir, 16.10.2009 kl. 16:51

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Eyþór. Rétt hjá henni systir þinni að þú bloggir meira, en segðu henni frá mér að þú gleymist ekki svo glatt. Gott að lesa snilldar texta, það hvílir frá neikvæðni bullinu sem flýtur um alla ranghala bloggsins.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.10.2009 kl. 23:17

6 identicon

Til hamingju með þetta Kv frá Skagfirðingi

(IP-tala skráð) 19.10.2009 kl. 16:17

7 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Til hamingju með vegtylluna. Gaman að sjá þig með Agli í sjónvarpinu,"réttu" megin við tökuvélarnar. Klikkaðir ekki á skyrtunni!

Hallmundur Kristinsson, 22.10.2009 kl. 18:22

8 Smámynd: Bjarni Harðarson

Til hamingju - vel að verðlaunum kominn enda hundgáin skagfirska hin skemmtilegasta.-b.

Bjarni Harðarson, 23.10.2009 kl. 02:27

9 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Hjartans hamingjuóskir! 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 23.10.2009 kl. 02:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband