Austurdalur .is

Í kvöld fyrir norðan í félagsheimilinu Héðinsminni er haldinn aðalfundur Gangnamannafélags Austurdals. Ég sendi pistil:

Austurdalur.is 2011

Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum

Í himnasal er hunangsvín í malnum
því himnaríki er í Austurdalnum.
Þar elt menn hafa hrotta
og einnig býr þar skotta
og ýmsum forðum bumbult varð af hvalnum

Gangnamannafélag. Mikið er þetta fallegt orð. Þarna rennur eitthvað saman í einskonar rammáfengt brjóstbirtusólskin. Vááááá. Maður fær hlaupasting í hjartað og fæturnir taka léttan sving hér á malbikinu eins og maður sé að hoppa yfir læk eða sveigja fyrir fjárhóp en það er auðvitað tálsýn því hér sést aldrei sauðkind á beit nema innmúruð í húsdýragarðinum. Já hér rennur bara æseiffljótið um göturnar eins og Kotaskriðurnar og fyllir alla kjallara af leiðindum og sjónvörpin springa af harmi um allt land. En fyrir norðan er Austurdalurinn gamli góði og lætur sér fátt um finnast og þar renna árnar ósnortnar af öllu mannheimsfjasi. Og áður en við vitum af verður komið vor og svo kemur sumar og svo koma göngur. Já einmitt, göngur. Það er svo mikill söngur í þessu orði, idolkeppni í fjárlögum sem breytist síðan í heimsmeistarakeppni í eltingaleik. Og nöfnin á plássunum herra minn trúr, kveikja í manni eins og gömul lög með Hljómum og frosin ber bragðast eins og marsipanlakkrís úr gamla skúrnum hans Lindemans. Já göngur eru einhvern veginn svo mikill draumur, eitthvað svo mikið stuð, einhverjar minningar um fögnuð og gleði og þreytu og æsing. Já þetta ber mann nær ofurliði, því allt er eins og í rósrauðu sólarlagi í fjarlægðinni og allt er þetta samt óskiljanlegt því oftast voru þetta bara eltingaleikir, erfiði og streð. En hvað er það þá við tilhugsunina um göngur sem gerir manni svo glatt í sinni? Kannski er það söngurinn, fjöllin, lyktin af frelsinu, sjá sumarið renna heim hlíðina eða kannski er það minning um tilfinninguna þegar maður er kominn að, búinn að jafna sig aðeins, fara í þurr föt og búinn að borða nestið sitt og gömlu mennirnir teygja úr sér sinadráttinn, lygna aftur augum og segja sögur í rökkrinu og hlæja undurfallega. Þeir ungu hlusta andaktugir á og líða svo örþreyttir út af og lenda milli draums og vöku... og fyrr en varir kemur fjárhópur eftir götunni undan sárfættri hundgá sem blandast jarminu og þunganum úr Jökulsánni og svo koma heimfúsir hestarnir niður dalinn. Við stígum af baki í Fögruhlíðinni og sprettum af klárunum sem velta sér meðan við söfnum saman sprekum og kveikjum bál, tínum epli af trjánum og hitum baunadós yfir eldinum og leggjum síðan ilmandi haustlauf við líkþornin sem hverfa á augabragði. Svo höllum við okkur út af og horfum upp í áfengan himin yfir dalnum og látum húmið segja okkur að lífið sé kannski ekki svo slæmt eftir allt saman.

Í höfuðstaðnum háleitur ég stend
og horfi inn til dalsins – já my friend
En augnablikin líða
ég læt til skarar skríða
og skelli mér í það að ýta‘ á send

Skál dalsins!


Haugsnes 2010

 

 

Grjótherinn

                                                                   - Drápa til Sigga Hansen

 

 

Ef ég væri steinn myndi mér finnast það viðunandi örlög að vera dreginn upp úr ískaldri á, komið fallega fyrir meðal vina og félaga í blóðugasta stríðsdansi Íslandssögunnar. Já hvar varst þú staddur steinn minn góði þegar Brandur var höggvinn á grundinni þar neðra... Kannski varstu langt uppi í gili. Kannski varstu enn upp við brún í Tungufjallinu hver veit. Rúllandi steinn - rolling stone kemur þú svo niður, kemur í stökkum niður gilið eins og rammfældur hestur - wild horse, búinn að lemja þúsund milljón trommusóló niður allan dal, orðinn rúnnaður og fínn, og nú ertu ekki lengur steinn í gili, steinn í á, nei þú ert bardagamaður - street fighting man, já eins langt og það nær gegnum spunahjól tímans og tíminn er taumlaus hani, já sem gólar á mann allt of snemma, jafnvel klukkan fjögur situr hann á haugnum og galar eins og fjandinn en sýnum biðlund - sympathy for the devil... En þú steinn minn góður! Þú ert mættur í slaginn og vertu stoltur þar sem meistari Siggi setti þig niður - þú getur ekki alltaf fengið það sem þú vilt og ég held þú getir vart komist hærra í metorðastiga rúllandi steina en í grjóther Sigga Hansen því þessi her er sko hot stuff skal ég segja þér, ósigrandi svo langt sem augað eygir, enda veistu um hvað ég er að tala því þú ert hrjúfur eins og vanginn á Keith Richards... Og nú þegar ágústnóttin nálgast ætla ég að ganga í herinn og spenda the night together með þér - halla mér upp að þér gamli steinn og bíða því 19. apríl ár hvert mun herinn lifna við og taka vopn sín. Fylkingarnar munu skella saman, gnýrinn berast um land víða og fólk mun spyrja í angist: Eru Rolling Stones með tónleika - eða er Katla byrjuð að gjósa?

                                                                            

                                                                   14. ágúst 2010

 


Flug fyrir Ómar

16.9. 2010

 

                            

Krækiberin springa með hvelli því það er komið haust og hvellgeiri er kominn eins og elding já kemur fljúgandi uppúr rykföllnum sólgulum tíma og kastar kaðli til okkar sem bíðum á snösinni með brimskaflinn spilandi undir einskonar lag ættað úr tveggja hæða skemmtara með öllum fídusum og svo óma allar raddir hvellgeira ragnarssonar á blasti í loftinu yfir og ragnarök gætu verið skammt undan því brimskaflarnir ganga yfir stóru hátalaraboxin og kæfa hljóðið af og til svo maður heyrir bara aðra hverja línu en það er bara til bóta því það rímar allt í botn og allsgáði útherjinn hoppar eða jafnvel stríðsdansar á brúninni eins og ójarðtengd rafstöð á bryggjusporði um nótt með vírana allsbera í djúpinu og gneistaflugið er svo mikið að maður þarf að setja upp rafsuðugleraugu... jess sör og svo stendur blár strókurinn eins og elding afturundan flauginni sem rennir sér marga hringi um esjuna og yfir og áfram norður og háu ljósunum er blikkað í bítlaóðum takti undir hafnarfjalli og húddið gengur í bylgjum eins og fax á bleikálóttum hesti á hundrað og fimmtíu og hrekklaus pússar geiri svellið eins og krulluleikmaður með sóp og kippir svo heilli þjóð upp í flaugina og veitir aðhlynningu og fyrstu hjálp, ber smyrsl á sólblettina sem sitja eftir á baksíðu tímans þar sem hann hóf sig til flugs fyrir löngu með því að kasta út burstaklipptum sg-frisbídiski... og nú þar sem flaugin strýkur snarrótartoppana á brúninni með tvílyftum sögum og vísum um hund og kött og annað kvikfé, gæsir fljúga og gamall eldbrunninn hattur brosir, hafði ekki frétt af hvellgeira fyrr - en já, tímanlega er hann mættur og upp á firnindin er hann kominn á undan flóðinu, langt á undan öllum gosum, við flest ekki vöknuð þegar ómar er kominn á borðið og dansar eins og prins kringum kökurnar og sveiflar vísum og sögum af týndum símum og úrum og andrésum og hífir kátínuna upp í það sem æsingalaust má kalla augnablik hinnar hvelltæru gleði.

 


HM - dagur tvö

Hvað er hægt að segja um dag tvö. Jú Englendingar voru ekki með þetta í dag. Að vinna ekki Bandaríkjamenn í fótbota er náttúrlega skandall. Já skandall! Og þó að markmannsgreyið hafi gert þessi hroðalegu mistök (ég hefði varið þetta skot - á góðum degi) áttu þeir bara að skora fleiri mörk og vinna. Þessir heimilisvinir okkar sem hafa verið inni á gafli hjá okkur í mörg ár, vinir Eiðs Smára og ég veit ekki hvað og hvað. Nei þeir bregðast manni og ég er hættur að halda með þeim... a.m.k. þangað til í næsta leik! En Argentínumenn það er allt annað mál. Þvílík ást á fótbolta og Maradona sem ég var aldrei neitt ofsalega hrifinn af í gamla daga... hann er maðurinn! Hann kyssti alla og sá um að vippa boltanum upp í hendurnar á mönnum svo þeir þurftu ekki að beygja sig eftir honum í innköstum. Strax á öðrum degi er þetta að gerast: Mistökin og snilldin - gleðin og sorgin... Svo er auðvitað MESSI maðurinn sem ég held mest upp á... á eftir Rooney. Mikið hefði verið gaman hefði Messi skorað í dag. En þeir eiga eftir að skora Rooney og Messi, og nú held ég með Argentínu... alla vega þangað til á morgun!

HM - dagur eitt

Jæja þá er þetta byrjað. Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er hafin. Já takk fyrir það. Og útlit fyrir að ég geti horft á nokkuð marga leiki alveg ótruflaður. Já takk. Veröldin er kannski ekki eins slæm og stundum er sagt. Og það er ekki bara í S-Afríku sem er gott fótboltaveður. Hér í Reykjavík er akkúrat svona veður þegar mann langar til að reima á sig skóna og hlaupa út á gras og skjóta á mark. þ.e. ef maður ætti skó og treysti sér til að taka sveiflu án þess að togna! Annars voru svona kvöld ómetanleg í den. Logn og upplagt að skjóta í mark og stilla kíkinn á rifflinum. Gallinn við það var hávaðinn sem því fylgdi. En það var hávaði á leikjunum áðan. Óþolandi helvítis lúðrablástur, svo maður heyrði ekki einu sinni hvort heimamenn fögnuðu þessu glæsilega marki sem opnaði keppnina. Ég hélt með S-Afríkudrengjunum í fyrsta leiknum og hefði verið mjög glaður ef þeir hefðu unnið. Annars er ég ekki búinn að velja mér lið. Ég held allaf með hinum og þessum. Að vísu viðurkenni ég strax að ég held með Dönum! Já ekki segja neitt. En ég held ekki með Frökkum. Ég þoli þá ekki. Alltaf með einhvern svip sem fer í taugarnar á mér. Að vísu var ég hrifinn af Ribery í dag. Hann hleypur af ákafa og er eitthvað svo wild með örið. En sem sagt, ég hélt með Úrúgvæ. Alltaf verið svolítið hrifinn af Diego Forlan. Hann er með einhvern eld í augunum. Sem sagt fyrsti dagur búinn og allt upp í loft í riðlinum, eða allt í járnum. allt kyrrt, allir með eitt stig. Og kvöldið hér við Flóann með afbrigðum fallegt og Esjan blá eins og fótboltabúningur. Já takk, HM er farið af stað.    

Gangnamannafundur

Í gærkveldi var haldinn í Héðinsminni aðalfundur Gangnamannafélags Austurdals. Ég átti ekki heimangengt úr höfuðstaðnum en sendi pistil:

 

Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum – Austurdalur.is 2010

 

Mig hefur alltaf dreymt um að eiga svifnökkva. Hann myndi koma að góðum notum í umferðarstraumnum hér í höfuðstaðnum sem er stundum eins og Norðurá í stólpaflóði. En ég á bara bíl.

            Og þegar ég sest upp í bílinn og keyri um göturnar hér hef ég þá áráttu að glápa, svona eins og af gömlum vana, jafnmikið út um hliðarrúðurnar eins og framrúðuna. Það getur verið varasamt, jafnvel þótt maður sé á svifnökkva.

           Þessi gamli vani að glápa svona útundan sér er sennilega frá því þegar sveitin átti mann með húð og hári. Maður var alltaf á ferðinni með augun út um allt; kíkjandi eftir tófum eða gæsum, nú svo auðvitað sauðkindum, hvernig læt ég. Silfrastaðafjallið var enn krókótt, ræsin stökkpallar og Helluhæðin blindhæð og hundar á hverjum bæ. Geðveikir hundar eða kannski voru þeir bara svona lífsglaðir að þegar rykmökkurinn sást koma voru þeir horfnir niður eða upp á veg og bitu sig fasta við drullusokkana og létu draga sig bæjarleið og komu svo hróðugir heim með ýmsar tegundir af drullusokkum og þeir bændur sem áttu duglega hunda þurftu aldrei að kaupa sokka undir jeppana. Kannski voru þeir af vitlausri tegund en í þá daga var ekki verið að væla yfir svoleiðis smámunum og allir fengu hvítan miða.

         En hér á götunum er enginn hundur á leið að bíta í mig enda allir hundar í bandi og búnir að fara í hundaskóla og kennt að kúka og ekki bíta í drullusokka nema þá kannski í útrásarvíkinga og sennilega er vissara fyrir þá að ganga með legghlífar framvegis eða þá að fá sér tréfætur.

         En svo ég haldi mig við efnið þá var ég á ferð eftir Hringbrautinni um daginn með augun leitandi um allt, þótt ég viti að gatan sé fjárlaus og fullsmöluð. Þá gerist það að hrafn flýgur meðfram bílnum og tekur framúr mér og sest á ljósastaur hjá bakaríinu og kjaftar heil ósköp. Mér fannst þetta ekkert óeðlilegt og áttaði mig ekki á neinu. Það var ekki fyrr en eftir marga daga og margar ferðir eftir Hringbrautinni og hrafninn alltaf á fartinni að mig fór að renna í grun að hann vildi mér eitthvað.

          Svo segir dagatalið bingó og konudagurinn kemur upp og mér ekki annað fært en að skreppa í bakaríið og blómabúðina. Og ég ákveð að vera sniðugur og byrja að æfa fyrir göngurnar í haust og athuga svona í leiðinni hvort hrafninn sé þarna ennþá. Og viti menn. Þarna er hann. Situr svartur og úfinn og eitthvað fjaðralaskaður á ljósastaur fyrir framan elliheimilið Grund, hallar undir flatt og krunkar undarlega. Minnti mig helst á barkasöngvarana frá Tuufa. Svo kem ég nær og þá byrja ég að fatta og greini orðaskil: „Krunk, kronk, krank, krenk …“

            Ég nenni ekki að skrifa þetta allt upp hérna enda ekki sérstaklega góður í fuglastafsetningunni en ég heyrði greinilega að krummi bað mig skila kveðju norður, segist vera orðinn gamall og ekki hafa vængi lengur til að fljúga alla leið yfir firnindin í nótt til að ná einni skál. Hann er líka búinn að fara á Vog og hættur að drekka en unir sér þó sæmilega í Esjunni og lætur Hallgrímskirkju nægja þegar hann þarf syndaaflausn þótt lítil gömul kirkja norður í landi með glugga fyrir altarinu komi alltaf upp í hugann.

            „Ég man eftir Bólu-Hjálmari, Ábæjarskottu og mögnuðum smalamönnum en lítið eftir þér,“ segir hann svo. „Já, það er ekkert skrítið,“ segi ég. „Ja, þú gerðir nú engar rósir þarna,“ segir hann, „en pabbi þinn var helvíti magnaður“ og svo byrjar hann að telja ykkur alla upp. „Já einmitt,“ segi ég og verð montinn fyrir hönd menningarsmalans og ykkar.                                     Og krummi er kominn á flug þarna uppi á staurnum og heldur áfram: „Þegar ég er búinn að tína upp mola hér á götunum blaka ég mér upp til Esju og læt mig dreyma að ég sé á svifi yfir Austurdal. Ég sé nokkra menn ríða inn dalinn, það er glatt yfir hópnum. Ég renni mér niður og sest á stein ekki langt frá götunni og krunka glaðlega og mér finnst eins og þeir kinki til mín kolli meðan söguhlátrar fylla dalinn. Og hundarnir hlaupa geltandi til mín og reyna að ná mér og ég krunka á móti en lyfti mér upp um leið. Þetta er leikur sem við þekkjum. Og við erum glaðir að hittast. Það er ekkert gagn að þessum stásshundum hér, þeir líta vart á mann. – En farðu nú að kaupa köku og blóm drengur minn. Ég ætla að skreppa niður á háu blokkirnar á Skúlagötunni og taka nokkur svif og láta mig dreyma í leiðinni að ég sé að svífa yfir dal fyrir norðan þar sem á rennur ósnortin af öllu fjasi. Og vertu svo blessaður.“

             Hrafninn lyfti sér af staurnum og sveif í átt sjávar en ég fór inn í blómabúðina og varð mér auðvitað til skammar því ég bað um hrafnaklukkur en enginn skildi mig því ég gleymdi að skipta yfir í íslensku úr hrafnamálinu. En það rættist nú samt úr því.

             Ég kem heim, fæ gott fyrir blómin og kökuna en dreg mig svo til hlés, næ í landakort og breiði úr því. Austurdalur liggur fyrir framan mig. Þessi dalur sem er svo kraftmikill að hann getur látið mann verða myrkfælinn um hábjartan dag.

             Ég les mig eftir kortinu, niður dalinn og reyni að muna hvaða þverdalur kemur næst. Hvaða á þurfi þá að vaða og í hvaða átt hún skyldi renna. Hvort Hvítá sé hvít, hvar Stórihvammur sé eiginlega, hvar næsta greni sé og hvort þessi steinn sé flöskusteinn. Já og spekúlera í hvort Ábæjarskotta sé til í alvörunni og viðurkenna að Ugla í Atómstöðinni sé stúlkan sem maður hefur alltaf verið ástfanginn af en aldrei þorað að segja.

            En alla vega: Ævintýri eru enn til og ef maður getur ekki gripið í þau er bara að láta sig dreyma. Draumar kosta ekki neitt. Maður verður ekki móður, ekki sveittur, ekki rasssár og þarf ekki að útbúa nesti.

 Ég ek Hringbrautina og læt mig dreyma að ég sé svartur hrafn að svífa yfir löngum, löngum dal djúpt fyrir norðan. Svo starta ég svifnökkvanum og við Stebbi Hrólfs smölum fjöllin á augabragði og sandstrókinn eftir okkur ber við himin séð neðan úr sveit og hundarnir sperra eyrun.

Skál dalsins!

 

 

 


Sólarlag 2009

Það var núna einn daginn milli jóla og nýárs að síminn var þögull og sólarlagið óvenju fallegt. Gyllt rönd neðst í skýjabakkanum á suðvesturhimninum og rúmlega hálft tungl á leið yfir Landakot. Ég hugsaði: já takk, meira svona. Og svo hélt þetta áfram og í gær var fegurð himinsins og fjallanna í kring þannig að fátt var í stöðunni nema bíða eftir að það liði hjá! Já það er undarlegt hvað ég verð meyr þegar ég horfi á tunglið með vinstra auganu og sólarlagið með því hægra og árið að síga í hafið eða kannski sökkva ... Já og þá sprettur fram gömul bloggþörf sem hefur eiginlega legið í dvala þetta árið (svona eitt blogg á mánuði).

            Og hér sit ég á gamlársdagsbrúninni. Sigmaðurinn kemur upp með egg, en árið er bara farið og kemur ekki aftur. Árið er samt eins og sigmaðurinn í bjarginu; alltaf að færa manni eitthvað, okkur sem bíðum á brúninni og teygjum álkuna út fyrir og svarrandi brimið fyrir neðan.Og svo húmar að; við liggjum við bálið og spælum okkur egg eða fáum okkur baunir úr dós eins og Tom Waits syngur um.

             Já, það er hvítt yfir að líta, kuldinn bítur í kinnarnar og flugeldarnir koma í kvöld, já það er lagt hart að mér að fara út með nokkra flugelda og kannski eina tertu. Ég hef heyrt kenningu um að karlmenn gætu ekki verið inni á miðnætti, horft á sjónvarpið og séð árið hverfa því þeir myndu fríka út og fara að gráta og til að losna við þann bardaga er staðið úti í kulinu og kveikt í og kuldinn bítur í kinnarnar og kuldatárin renna og ég sýg upp í nefið og kveiki í stærstu bombunni þegar klukkan slær. Fer svo inn og kyssi alla kaldur og hrakinn og það er tekið á móti manni eins og hetju af heiði þótt maður hafi fýrað síðustu mjólkurpeningunum til himins.

            Já nú er kreppa eða svo er mér sagt og samt hagar maður sér nákvæmlega eins og áður, lætur eins og ekkert hafi ískorist. Borgar á báðar hendur uppsett verð fyrir jólin og hananú! Og nú er að koma nýtt ár og og kosturinn við það er sá að ég held að ég verði fljótur að muna að skrifa 2010, já það er eitthvað sem segir mér að ég muni komast fljótt upp á lag með það. Að öðru leyti er árið óskrifað blað eins og alltaf.

Fyrir ári fór ég niður á Hótel Borg og lenti í réttarslag sem slökkti á Kryddsíldinni eins og frægt varð og nú á að reyna aftur annars staðar. Já maður á nú ekki von á slag núna. Enda verð ég ekki með!

            En þetta er búið að vera merkilegt ár fyrir mig. Það er greinilegt að það borgar sig ekki að þykjast vera viss um að allt verði alltaf eins og lífið standi bara í stað. (Eins og hrunið kenndi okkur!) Ég sendi inn handrit að ljóðabók í ljóðasamkeppni, missti fasta vinnu, varð einu ári eldri (en gekk samt upp á Sólheimafjall), svo fékk ég verðlaun fyrir handritið og það kom út bók í haust og ég fílaði mig eins og Susan Boyle. Að vísu eru söngvarar og leikarar meiri seleb en ljóðskáld, en leikurinn er ekki til þess gerður heldur snýst þetta um drauma og þetta er búið að vera afskaplega skemmtilegt og gefandi haust.

            Draumar hafa ræst sem ég vissi ekki að mig væri að dreyma og svona er þetta og takk fyrir mig, takk fyrir allar hamingjuóskirnar sem ég fékk. Það sem gladdi mig mest var hvað allir sem ég þekki (og þekki ekki mikið) voru glaðir yfir þessu og ég er viss um að það er vegna þess að þótt klukkan segi korter í þrjú er enn von ... En eins og ég hef áður sagt skal ég samt reyna að halda mig við jörðina, halda mig við eldinn á bjargbrúninni. Fæ svo að prófa vaðinn og læt mig vaða niður í bjargið og kem vonandi upp með egg sem ég les við eldinn og svo er skriðið í pokana og Tom Waits vaggar manni í svefn og nýja árið er allt í einu komið.

            Á morgun er nýársdagur. Ég ætla að vakna snemma og hlusta á Dómkórinn og biskupinn í Dómkirkjunni og svo forstetann klukkan eitt og svo hringi ég í mömmu og við berum saman bækur okkar um ræður höfðingja og við viljum almennilegar ræður! Við mamma erum sammála um það að ræður mega vera langar ef það er eitthvað í þeim! Og nú vill maður ræður sem segja manni satt, segja manni að draumarnir séu ekki dánir, segja manni að þótt kuldinn bíti í kinnarnar þá komi lásasmiðir vorsins með lömb, lykt af birki og ættarmót með harmonikkum ...

            Gleðilegt ár!

 


Bak við hurð

Takk enn og aftur fyrir hamingjuóskir.  Elsta systir mín segir að nú verði ég að blogga öðru hvoru svo ég gleymist ekki. Ég átti skemmtilega stund í gær þegar ég fór og heimsótti Dómkórinn minn (ath. ég syng ekki í honum, bara hlusta) á æfingu til að þakka fyrir hvað þau sungu fallega fyrir mig á þriðjudaginn. Ég kom á réttum tíma til að hitta á þau í pásunni, laumaðist upp á kirkjuloftið, heyrði daufan söng og fann að það var æfing í gangi svo ég beið. Þarna beið ég að hurðarbaki og hlustaði á stjórann fara yfir raddir og svo hljómaði skyndilega allt svo fallega og ég beið í andakt og fann strauminn gegnum gættina. Svo heyrðist mér stjórinn segja: "Er Eyþór kominn" og þá fattaði ég að ef ég kæmi ekki inn myndi Marteinn æfa áfram og kórinn ekki fá neina kaffipásu þetta kvöldið svo ég lét sjá mig og þarna sat kórinn svo stilltur og prúður eins og börn í sex ár bekk. Þau voru sem betur fer glöð að sjá mig og tóku mér eins og alhvítum hesti. Ég reyndi að þakka fyrir mig með því að lesa tvö ljóð. Það gekk svo vel að ég var klappaður upp! Sagði svo bless og stökk út því söngurinn blífur. Og það er svo merkilegt með þennan kór að maður er alltaf jafnástfanginn af honum, hvort sem hann er í Frúarkirkjunni í Dresden, Hólum í Hjaltadal eða bara bak við hurð.

jæja ...

  Ég veit ekki hvernig ég á að vera, eða haga mér í dag. En takk fyrir öll símtölin, sms og feisbúkk-kveðjur og Lára Hanna skrifar svo fallega um mann að maður fer hjá sér hundrað sinnum. Mér líður svipað og langalangafa mínum sem lenti í því að það var ort um hann erfiljóð því hann var að hrökkva upp af en sá gamli hjarnaði við og upplifði það að lesa erfiljóð um sjálfan sig í bók! Ég er enn hoppandi glaður eftir gærdaginn og hér kemur þakkarræða kallsins.

 

Borgarstjóri, kæru gestir.

 

Ég sé það á öllu, að sumarið er á förum -

Ég sé það á fótataki og andlitum mannanna.

Það er eins og öllum sé kalt

og allir séu að flýja

eitthvað, sem er alltaf komið á undan þeim.

Og þeir hraða sér heim,

heim gegnum myrkrið,

og segja við sjálfa sig þegar inn kemur:

Það var þó gott að ég komst undan!

         

          Sum símtöl fær maður bara einu sinni á ævinni. Það var ekki langt símtalið sem ég fékk nú síðsumars en það var frábært. Á hinum endanum á línunni var spurt: Eyþór? - Já, sagði ég. - Þú sendir inn handrit í ljóðasamkeppni, ekki satt? - Jú ... - Þú vannst! Þannig var nú það og hvað gera bændur þá?

          Jú, maður fer allur úr skorðum inni í sér, hleypur á stólbökum og gengur af göflunum - nákvæmlega eins og Roberto Benigni gerði á Óskarnum hér um árið. Ég varð sem sagt kátur - alveg ofsaglaður eins og Benigni og líka alveg kolringlaður.

          Um kvöldið gekk ég út í gamla Hólavallakirkjugarðinn og skoðaði skáldasteina og hugsaði: Hvaða eftirmæli ætti ég nú að velja mér? Og hvað segir Tómas:

 

... Því hamingja þín mælist

við það, sem þér er tapað,

og þá er lífið fagurt

og eftirsóknarvert,

ef aldrei hafa fegurri

himinstjörnur hrapað

en himinstjörnur þær,

er þú sjálfur hefur gert.

 

          Svo klappaði ég fallega steininum hjá Indriða langafabróður og sagði: „Jæja frændi" og við montuðumst eitthvað um Skagafjörð um stund - fór svo heim, setti Savage Rose á fóninn, tók tappann úr vískíflösku og lét fögnuðinn streyma um mig.

          Og hér er ég nú - og hleyp kátur eftir stólbökum eins og Benigni. Hann fékk að kyssa Soffíu Loren og ég fékk að kyssa borgarstjórann.

          En ég skal reyna að ganga hægt um gleðinnar dyr. En kannski ekki í kvöld. Því maður á að vera glaður ef maður fær verðlaun. Glaður og dansa, dansa fram á nótt. Því á morgun kemur nýr dagur. Og hvað þá? Allt búið? Nei vonandi ekki því nú er haust og í upphafi las ég fyrsta erindið í ljóði Tómasar - Haust í borginni - og svona slær hann botninn í það:

 

En einmitt nú er náðartími skáldsins.

Því haustið kemur

með fangið fullt af yrkisefnum.

Og ýmist eru það bliknuð blóm,

sem minna á hverfulleik hamingjunnar,

eða húmið,

sem minnir á dauðann.

Og skáldið klökknar af innvortis ánægju

yfir öllum þessum hörmum,

sem svo gott er að yrkja um.

 

          Já það er greinilegt að haustið er föruneyti ljóðsins og Tómas hefur líka séð fram í tímann og verið með allt á brautum, því víxillinn í víxilkvæðinu hans segir:

 

Og núna verð ég framlengdur í fertugasta sinn

á fimmtudaginn kemur, þann 6. október.

 

Kannast einhver við daginn? Svona eru ljóð töfrandi - alltaf að koma manni á óvart og framlengja hjá manni lífið.

          En hvenær er maður skáld? Sennilega alltaf og aldrei. Þetta er eitthvað sem kroppurinn ræður einhvern veginn ekki við og sálin lætur glepjast og grípur eitthvað í vindinum - eins og glas af víni og ... ja, hver veit hvað gerist. Stundum lendir maður í gambrastampinum og kemst ekki upp en stundum tekst manni kannski að festa eitthvað á blað sem segir einhverjum eitthvað. Og ef maður er ofboðslega heppinn nær maður að snerta strengi sem bíða einhvers staðar úti í blámanum.

Bíða eftir því að lítið ljóð komi og segi:

Hæ, hér er ég og ég ætla að vera hjá þér í nótt ef þú vilt.

          Sumum finnst kannski asnalegt að gefa út ljóðabók kominn yfir miðjan aldur, en ég verð bara að sætta mig við það að ég er seinþroska og ég segi við ykkur sem eigið sálina í gömlum stílabókum undir koddanum: það er aldrei of seint að opna og hleypa fiðrinu út.

         

          Í raun ættu allir að hafa ljóðabók á náttborðinu sínu, því hvað er betra fyrir vinnuþreytta og atvinnulausa eða að minnsta kosti áhyggjufulla þjóð sem hefur ekkert að gera lengur á kvöldin nema svekkja sig á sokknum draumum; hvað er betra en að leggjast til svefns og sökkva tönnunum í góða ljóðabók og sofna til draumanna. En ef svefninn kemur ekki, þá má reyna að setja saman níðvísu um náungann eða lítið ástarljóð til konu sem kannski liggur andvaka í þorpi fyrir austan eða bara í húsi niðri á Ægisíðu.

          Svo takk, takk öll mín góðu skáld sem hafið ruggað mér í svefn og þá man ég að þegar ég var yngri tók ég brot úr ljóðum og límdi upp á hurðina og upp um alla veggi í herberginu mínu í sveitinni. Ég fann þessar tilvitnanir í kassa um daginn þegar ég var að gramsa í geymslunni; blöðin enn býsna heilleg en skriftin æði farin að dofna og mér varð um og ó, lokaði augunum og var kominn norður í gamla herbergið og þar var snilldin upp um alla veggi innan um byssurnar, Pink Floyd-plakatið, grátandi drenginn - og Mælifellshnjúkur í baksýn.

          Og það getur verið hressandi fyrir minningasálina að kafa í gömlu kassana sína. Þá kemur kannski upp miði á ball með Geirmundi í Miðgarði 1974, póstkort af Gullfossi eða gömul mynd af ungri stúlku í sólarlagi við jökulrætur. Stúlkan þekkist ekki á myndinni enda brotnar birtan þannig að hún hefur sól í höfuðstað. Hún veit ekki að ég tók þesssa mynd - því síður að ég var skotinn henni. - Þá.

          Og þannig er það með ljóð. Ljóð er stundum eins og stelpa sem veit ekki að maður er skotinn í henni. Ljóðmynd sem maður tók af því að maður var skotinn en þorði ekki að segja - þorði ekki að skjóta. En nú, nú er tíminn digital og allir skjóta strax - hægt að framkalla alla sína drauma um leið. Spenningurinn við að opna myndapakkann frá Pedró-myndum er liðinn. Tíminn hefur ekki tíma til að bíða eftir að stúlka með sól í höfðinu gangi á jökul. Og þó. Verum alveg róleg.

          Pabbi minn elskar Davíð Stefánsson. Vertu hjá mér Dísa. En ég - „ég elska alla og engan þó" eins og Shady syngur. Sonur minn elskar einhverja menn frá útlöndum sem segja ljótt í öðru hverju orði.

          En allt er nú þetta það sama í Súdan og Dalakofanum - daumurinn um að verða að manni, láta sér líða vel - elska og vera elskaður - og þegar ég komst að því að barkasöngvararnir frá Tuufaa voru bara menn með tvískiptar raddir að syngja um hesta og stelpur eins og við fyrir norðan þá varð ég hoppandi kátur, svo glaður yfir því hvað lífið er í raun fjandi gott.          Og líka svo skemmtilega hverfult. Dísa - hún er löngu skilin við skáldið og tekin saman við mann sem hefur vit á peningum og býr nú uppvið Elliðavatn og unga stúlkan frá Súdan - hún er löngu hætt að dansa og flutt til New York og syngur heimstónlist á tónlistarhátíðum. Og ég - ég er stundum sviðsstjóri í sjónvarpsþáttum og tel niður 5, 4, 3, 2, 1 ... eða - kannski, kannski er ég bara ennþá gömul refaskytta og hef tjóðrað hvolpinn og bíð ... Takk dómnefnd, takk - ég kyssi ykkur á eftir eins og Benigni kyssti Soffíu. Takk fyrir hjálpina Uppheimar. Mín kæra fjölskylda: Takk. - Og Tómas minn:

 

Ó, fagra veröld, vín og sól, ég þakka þér!

 

Takk.

 


Haustblogg á heiði

Þetta er auðvitað bara hlægilegt. Að rífa sig frá feisbúkk og skrifa blogg. Feisbúkk þar sem fjörið er og faðmurinn hlýr meðan einsemdin ræður hér ríkjum! Nei, bara grín... Nú er kominn fiðringur í fæturna. Er að leggja í hann norður á morgun og ætla í göngur. Ég er farinn að hlakka til og búinn að hlakka til lengi, en fæturnir eru ekki eins vissir, enda vita þeir betur en heilinn. Og hjartað er svona beggja blands, sveiflast milli vonar og ótta um hvort það lifi þetta af eða hreinlega springi. Því ég skal segja ykkur það börnin góð að fara í göngur í Silfrastaðaafrétt er ansi mikið puð. Að vísu miserfitt eftir plássum. Krókárdalur er eitt af þessum plássum sem geta drepið mann. Kannski ekki dalurinn sjálfur heldur óþekkar kindur sem vilja ekki heim. Og þetta er sennilega merki um að maður sé að byrja að ganga í barndóm... að rífa sig upp úr feisbúkkþægindunum og hverfa í fjöllin um stund og reyna að rifja upp gamlar götur, gamlan gangnasunnudag, þegar tunglið lýsti upp landið og inni í kofanum var kveikt á nokkrum kertum og fjallasöngurinn var svo fallegur að fæturnir gleymdu kvíðanum fyrir Krókárdalnum... Og ég skrapp í ríkið áðan og fékk mér einn viskífleyg svona til vonar og vara. En ég lofa að það verður bara notað sem meðal! Einn fyrir svefninn og einn með hafragrautnum. Ég finn strax að ég er allur að koma til. Að lokum vísa eftir Bjarna afa.

Gangnasunnudagur

 

Sveinar runnu sveitum frá,

er syngja kunnu braginn.

Gneistar brunnu götum á 

gangnasunnudaginn.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband