"Ég er á vesturleiðinni..."

Ég legg af stað í fyrramálið. Vestur á firði. Ætlum að leita að nýjum söngstjörnum með Bubba. Það er alltaf pláss fyrir nýjar stjörnur. Það var létt yfir mannskapnum þegar verið var að undirbúa ferðina. Smá spenningur eins og maður væri að fara í sumarbúðir. Það er bara svo gott að finna landið og fólkið. Kannski finnum við nýjan Helga Björns í túrnum. (Ekki það, sá gamli er ágætur) En það er alltaf eftirspurn eftir nýjum stjörnum.

Miðnætti

Ég er búinn að sitja góða stund við tölvuna og skemmta mér við að lesa bloggvini mína og nú er komið miðnætti. Helgin búin og mánudagsnóttin tekin við. Búinn að setja Savage Rose í heyrnartólin og fyrir utan slökkva nágrannarnir ljósin hver af öðrum. Þetta var fín helgi. Vinna bæði föstudags- og laugardagskvöld, en það er það sem koma skal í vetur. Já svona eru örlögin. Og "Laugardagslögin". Sá á blogginu að ekki voru allir sáttir við þau. Horfði á "Silfrið" á nýrri stöð. Ætli Egill lendi ekki á Sýn næst. Komst að raun um eins og ég hef alltaf vitað að ég skil ekkert í bissness og pólitík. Eina sem ég held er að bissnessmennirnir séu komnir langt á undan stjórnmálamönnunum. Móðir mín er í bænum og kom og húsvitjaði í dag. Það hækkaði í frystikistunni og nú finnur hún til sín, þar sem hún heldur utan um vetrarforða fjölskyldunnar. En við mamma skruppum snögga haustlitaferð á Þingvöll, þar sem þjóðin varð til og Jónas og Einar frændi eru grafnir. Veðrið var einstakt og var þetta hinn besti túr. Og nú er allt rólegt. Tómas Koppel þenur nikkuna í eyrunum og Anisette syngur með hjartanu "Min lille sol". Það styttist í að Yoko kveiki ljósið. Svo er að sjá hvort fuglar reyni að tylla sér á súluna. Það yrði gaman. Svo að lokum; ekkert hefur spurst til hestsins sem hvarf í fjöllin.

Síðasta lag fyrir fréttir

Laugardagsmorgnar eru góðir. Ef maður nær að vakna sæmilega snemma, elda hafragraut og lesa  blöðin er maður nokkuð góður. Í dag var þetta tekið á hundavaði af því ég þurfti að mæta í vinnu eftir hádegi. Ég bíð oft spenntur eftir hvað er í lesbók Moggans.  Og hvað fann ég þar? Jú, Stefán Íslandi átti hundrað ára afmæli í gær, 6. okt. Hann er að vísu dáinn blessaður, en samt;hundrað ár eru hundrað ár. Hver var þá Stefán Íslandi? Það er best að lesa lesbókina til að komast að því, en ég man þegar ég var lítill þá fannst mér þetta vera eini Skagfirðingurinn sem var frægur. Á einhvern hátt skynjaði ég frægðina, þó fullorðna fólkið talaði bara um Stebba litla. Og svo meðan ég fékk mér skyr undir tilkynningum á undan fréttum á Gufunni varð ég viss. Þeir klikka ekki á þessu. Stebbi fær að syngja síðasta lag fyrir fréttir. Ég borðaði skyrið og beið. Og hlustaði. Og svo kom lagið. Og það var rétt lag. Ökuljóð. Ég hlustaði og skyrið var óhreyft á meðan. "Stefán Íslandi söng" sagði látlaus þulurinn og endaði á að segja frá því að upptakan væri frá 1937. Það hefur margt gerst síðan. En, ..."Áfram veginn..."


B-hliðin

Ég held að b-hliðin á Abbey Road sé sú plötuhlið sem ég hef oftast hlustað á. Frá upphafi til enda. Án þess að stoppa. Það voru eiginlega helgispjöll að stoppa. Eins og að slökkva á þjóðsöngnum í miðju kafi. Ég sat í gærkveldi og hofði á albúmið. Horfði á þessa mynd af fjórum mönnum á gangbraut. Horfði á þessa menn sem breyttu lífi manns. Horfði svo og hlustaði á Egil tala við Einar Má Jónsson í sjónvarpinu. Mér fannst Einar flottur. Hann hefur verið búsettur fjölda ára í París, en talaði eins og hann hefði aldrei farið neitt. Mesta lagi drukkið kaffi á Kaffi París. Ég dró líka fram ljóðabækur Jónasar Svafár og setti á náttborðið:

það blæðir úr morgunsárinu

móðir lífs er moldin enn / og málið vex á lýðsins tungu / ganga aftur gamlir menn / gráhærðir með frosin lungu

dagsins morgunn er draumasár / dauðinn sefur í beinum dýra / þungt vatn blæðir í húð og hár / og hugsjónir í gaddavíra

 


Gangbraut

Það er blár himinn á myndinni, gangbraut í forgrunni, hvít bjalla hálf uppá gangstétt og fólk í fjarska. Á gangstéttinni hinumegin stendur maður ekki ósvipaður Peter Sellers og horfir til mín. En þetta er nú trúlega ekki hann. Það er ekki mikil umferð svo fjórir menn notfæra sér gangbrautina og ganga yfir. Þeir láta ekki mikið yfir sér þessir menn, og þó. Fyrstu þrír eru býsna fínir, allir í jakkafötum, en sá fjórði er í gallafötum og hefði hann trúlega ekki komist inn í þessum fötum á betri skemmtistaði í R.vík í den. En hann er fallegur. Eins og engill. Sá þriðji í röðinni er berfættur og gengur ekki í takt við hina. Annar í röðinni er í blankskóm og fínum fötum, eins og afi minn þegar hann fór að kjósa. Sá fyrsti er í strigaskóm og hvítum fötum og það er eins og það séu að byrja að vaxa á hann vængir. Hann er líka engill í dag. Og bráðum verður kveikt á ljósinu í Viðey. Því hefur verið fleygt að miðjumennirnir á gangbrautinni komi kannski hingað upp og horfi á ljósið. Það væri viðeigandi. Sumir segja að þeir ætli að búa á Hótel Borg. Ég ætla að finna mér gangbraut og bíða. Bíða og sjá eins og sá sem er svo líkur Peter Sellers.

Að stjórna landinu - helgarpistill

Það fer oft mikill tími um helgar í blaðalestur. Sá í Lesbókinni að Matthías Jó. er með ljóðabók á netinu. Gaman hugsaði ég, því akkúrat núna er ég með eina ljóðlínu eftir hann í hausnum. Hún er úr bókinni sem ég keypti í Krónuhúsinu um daginn... "og þá er einsog þögn við vatnið syngi / og þú sért minning fugls um vatn sem deyr". Fallegt.  Ég les líka alltaf dagbók Þráins í Fréttablaðinu og er allur betri á eftir. Til dæmis kveikti hann í mér í dag. Hann sagðist stundum skilja eftir á förnum vegi bækur sem hann væri búinn að lesa svo aðrir gætu notið þeirra líka. Þetta fannst mér sniðugt. Ég hugsaði með mér að nú ætti ég að taka bók sem ég væri búinn að lesa og labba niður í Grjótaþorp og banka uppá hjá Þráni og segja: "Hér er bók sem ég er búinn að lesa." Svo hugsaði ég meira. Hvaða bók? Og komst að raun um að ég myndi aldrei tíma að gefa bók sem ég ætti! Svona er maður skrítinn. En allt þetta kom mér til að hugsa: Af hverju gerir maður ekki stundum eitthvað óritskoðað? Svo kom það skyndilega án nokkurs undirbúnings eða hugsunar:

Eftir ísbíltúr í dag var ég að keyra framhjá Alþingishúsinu og sé Össur ráðherra á leið í bílinn sinn. Hann var að tala í símann. Alltaf mikið að gera hjá þessum ráðherrum hugsa ég. Um leið og ég renni fram hjá ráðherrabílnum og Össur er að setjast undir stýri sé ég að afturhurðin farþegamegin er hálfopin. Og það skipti engum togum, ég negli niður og snarast út, opna afturhurðina hjá ráðherranun, hann í símanum og hrekkur við við þessa innrás. Ég segi: "Hurðin var ekki alveg lokuð" og skellti aftur hurðinni á ráðherrabílnum, veifaði og stökk upp í minn bíl og hvarf vestur í bæ. Þannig að í dag hef ég staðið mína plikt og hjálpað til við að stjórna landinu með því að spara tíma ráðherrans. Hver þekkir það ekki að þurfa að fara út úr bílnum aftur þegar maður fattar að ljósið í mælaborðinu segir: "Opin hurð"!! En hvað Össur hugsar veit ég ekki.

Fór síðan beint á bókamarkaðinn í gamla Krónuhúsinu og keypti nokkrar ljóðabækur. Já ég veit það. Mér er ekki viðbjargandi. Heimsótti svo tengdó og við skoðuðum gamlar myndir, m.a. af ungum mönnum í vegavinnu norður í landi á þeim árum Þegar menn brúkuðu hest og kerru. Og það minnir mig á það að eftir því sem ég best veit er hesturinn sem hvarf í Tröllaskagann ófundinn.

 

 


Hundar á spjalli

Í útvarpinu (rás 1) er hundur, Þ.e.a.s. þáttur með þeim félögum Eiríki og Hjörleifi sem eru dúettinn "Hundur í óskilum". Þátturinn er á laugardögum kl.18.30 (endurfluttur á þriðjudagskvöldum). Þetta hljómar eins og dagskrárkynning, en átti ekki að vera það. Ég sat úti í bíl áðan og komst ekki inn með kvöldmatinn því þeir félagar héldu mér föstum með sögum og söng. Þeir voru eiginlega ekki komnir úr réttunum ennþá. Í lokin sungu þeir þó um "aðalgjaldkerann ástvinalausa í erlendri milljónaborg". Svo það er ykkur að kenna "hundarnir ykkar" ef fjölskyldan verður dauð úr hungri áður en kvöldmaturinn er tilbúinn. En ég heyrði að það tíðkast enn fornir réttarsiðir í Svarfaðardal, sem nú eru löngu aflagðir í Akrahreppi. Þar setja menn bara undir sig hausinn og draga sitt fé. Sem sagt; þessi hundur er algjört metfé.


Fjörið blikar...

Fjörið blikar augum í,

aldrei hik í spori.

Lundin mikil, hrein og hlý,

hlaðin kviku þori.

Þessi vísa eftir Bjarna afa minn kemur hér til að minna mig á að ég hef aldrei komið í Laufskálarétt. Þetta er líka góð vísa. Og hér set ég mér markmið: Laufskálarétt að ári! Og svo er smá spurning óskyld réttum. Hvernig stendur á því að Húsavík er allt í einu komin í Norðurþing? Ég bara kann ekki við þetta.


Fullt tungl

Þegar ég leit út um eldhúsgluggann áðan sá ég tunglið og hrökk við. Þarna dólaði það í rólegheitum, alveg fullt. Til að vera viss kíkti ég í vasabók rafiðnaðarsamdsins (á ekki almanak Þjóðvinafélagsins) og mér brá. Tunglið var nefnilega fullt í gær. Þess vegna hef ég verið eins og ég var í gær. Jæja sleppum því, en það er eitthvað svo gott við fullt tungl. Að líta út í hlýtt haustið og tunglið á litinn eins og haustlaufin hafi lagst á það og svo einhvernveginn stærra en venjulega. Ég man síðsumarstungl yfir Goðdalakistu sem var svo stórt, að maður var að hugsa um að skreppa upp í kvöldkaffi. Þegar ég sleit mig frá tunglinu hlýddi ég dóttur minni yfir dönsku. Hún gat varla svarað fyrir hlátri, því svo "góður" var framburðurinn hjá mér. Ég komst sem sagt að því að ég kann ekki að bera fram dönsku! Þó gengur mér sæmilega að gera mig skiljanlega við Dani ef ég hitti þá á förnum vegi. Það er vandlifað. En ég hefndi mín á stelpunni með því að draga upp "Kristjaníuplötuna" (en það er frábær baráttuplata fyrir Kristjaníu sem var gefin út 1976) og lét hana syngja með. Svona er maður sniðugur. Annars eru þættir um bókmenntir og listir í sjónvarpinu farnir að tefja mann frá uppvaskinu. Og tunglið og danskan. En Sjö bræður bíða rólegir og hesturinn sem hvarf hefur ekki fundist. 

Bókamarkaður

Það er bókamarkaður þar sem Krónan var við JL- húsið. Ég er veikur fyrir bókamörkuðum. Ég sogast þar inn alveg ósjálfrátt. Þar sem ég var að flýta mér að kaupa í matinn áðan, skaust ég í Nóatún og hvað haldið þið? Dáleiddur rann ég inn á bókamarkaðinn eins og þægt lamb. Ég skautaði yfir eitt borðið, fann síðan ljóðabækurnar útí horni í kælinum þar sem skyrið var. Greip í hvelli þrjár ljóðabækur, brunaði að kassanum og þar fékk ég ábót. Mátti velja mér tvær bækur og Andrés blað í nesti. Það er svo alltaf spennandi augnablik þegar maður fer að athuga hvort þessar nýju bækur séu kannski til í skápnum! Spjaldskráin í hausnum er byrjuð að gefa sig hvað bókaeign varðar. En í þetta sinn var ég heppinn. Ég keypti Matta Jó.: "Árstíðaferð um innri mann" Sigmund Erni: "Sjaldgæft fólk" og hestavísur (hvað annað) "Fjörið blikar augum í" en titillinn er tilvitnun í vísu eftir Bjarna afa. Bækurnar sem ég fékk í ábót voru:"Skóladagbók dramadrottningar 2007-2008"(mun koma að góðum notum) og finnsk saga (skrítið) "Sjö bræður" eftir Aleksis Kivi. Ef ég man rétt var myndaflokkur uppúr þessari bók sýndur í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum. Ég leit svo aðeins yfir bókaskápinn áðan til að skerpa á minninu. Kíki kannski aftur í kælinn á morgun og hinn og...  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband