Miðvikudagur

Miðvikudagur. Þetta orð er eiginlega vendipunktur. Síðasta helgi er að fjara út og næsta er að byrja að seytla inn. Þetta hljómar eiginlega eins og hér skrifi mikill djammbolti, en það er misskilningur. Því þegar ég skrifaði miðvikudagur átti það að vera tilvitnun í Stein Steinarr, en völdin voru tekin af mér: "Miðvikudagur. - Og lífið gengur sinn gang..." Ég stóð upp og náði í ljóðasafn Steins og þá tók ég eftir að bókin er ansi lúin. Greinilega mikið lesin og gott að fletta henni. Og þá mundi ég eftir því að ég sökkti mér niður í Stein á vissu tímabili. Því þegar bláu skólaljóðunum sleppti lenti ég í tómarúmi í ljóðheimum, en Steinn dró mig upp (að vísu ásamt fleirum) og ég las og fílaði mig í kofa við Hudson Bay og ...elska það, sem aldrei verður til... Svo gleymum ekki Steini. Honum er stillt út til fermingargjafa. En les hann einhver? En hvernig læt ég. Það er ekki hægt að pína neinn til að fíla þetta eða hitt. En það má reyna smá innrætingu. Það skaðar ekki. Ekki hvað Stein varðar.

Utan hringsins

Ég geng í hring / í kringum allt, sem er. / Og innan þessa hrings / er veröld þín.

Minn skuggi féll um stund / á gluggans gler.

Ég geng í hring / í kringum allt, sem er. / Og utan þessa hrings / er veröld mín.


Rok

Mér finnst hann vera að hvessa. Það hriktir smá í þakinu, ábreiðan blaktir á grillinu, það hvín í glugganum og svalahurðin er ótrygg. Ég hefði betur gert almennilega við hana í sumar. En stundum er ég svona. Læt hlutina damla áfram og syndi með. Ég er stundum hálfgerður selur. Mesta furða hvað ég flýt. Annars er þetta ekkert rok. Þegar maður er fæddur undir Sólheimafjalli í Blönduhlíð og hefur reynt að skríða í húsin til gegninga í austanveðri þá má töluvert ganga á svo maður tali um rok. Enda ef ég hringi norður og karl faðir minn segir að það sé ansi hvasst þá veit ég að það er glórulaust veður.  Austanveður í Blönduhlíð eru ótrúleg. Merkilegt að eitthvað hangi þar uppi. Þarna vaka þúsund metra há fjöllin yfir sveitinni og manni finnst þau svo há að enginn komist yfir nema kannski fuglinn. Og manni finnst að þau ættu að stoppa vindinn. Annað mál með hafgoluna. Hún kemur klukkan ellefu á morgnana stundvís eins og strætó á góðum degi, enda engin fyrirstaða (nema Drangey og Hegranesið) allt norður í Íshaf. En austanvindurinn nær sér svona heldur betur á strik, steypist niður klettana og niður á heiðina, áfram yfir túnin og herðir sig frekar. Þrumar svo yfir bæinn, veginn og niður á eyrar og yfir Vötnin og deyr. Það er svo merkilegt að vestan við Vötnin er bara skaplegt veður. Hér er ég tiltölulega rólegur. Að vísu fer ábreiðan á grillinu fljótlega. Ég held hún sé ekki gerð fyrir svona nudd eins og hér er ævinlega. Ég fer þá bara í Seglagerðina og fæ mér níðsterkt segl. Kem við í Ellingsen, fæ mér snæri og enda í Húsasmiðjunni og kaupi þaksaum, því hér er ekkert kaupfélag.

Rauðmagi og prins

Fór upp í Mosfellssveit í dag og hlustaði á menn segja sögur. Þetta var miðdegisspjall á Gljúfrasteini og þarna voru mættir Björn G. Björnsson, Jón Þórisson og Sveinn Einarsson og sögðu frá vinnu sinni við kvikmyndina Brekkukotsannál árið 1972. Þetta var hin besta stund og komu margar góðar sögur. Jón taldi að það erfiðasta props sem hann hefði unnið með væri kýr sem vildi aldrei leika eins og hún átti að gera og Bjössi sagði frá 50 rauðmögunum sem hann keypti úti á Ægisíðu í mars til að eiga þegar myndatakan byrjaði um sumarið. Voru rauðmagarnir látnir endast fram í nóvember er tökum lauk, en það var víst farið að slá í þá að lokum. Já svona er þetta; síðasta sunnudag horfði ég á mynd um Bjólfskviðu og í dag hlustaði ég á gamlar kvikmyndagerðarsögur og komst að því að það rigndi mikið og leikmyndin fauk í Brekkukotsannál, eða eins og Sveinn sagði: "Við notuðum ansi oft tökuplan B". Svo vinur minn Jón Steinar leikmyndasnillingur með meiru hefur sennilega rétt fyrir sér í athugasemd við síðasta blogg þar sem hann reynir að koma fyrir mig vitinu. Takk Jón minn! Enda sit ég nú hér í Vesturbænum og er alveg sallarólegur og voða feginn að vera bara inni og gera ekki neitt.

Fór á Neskaupstað með liðinu og við  fengum söngvara af Austfjörðum til að syngja fyrir Bubba. Og það er sama hvar maður kemur, það er allt gert fyrir mann. Forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar tók á móti okkur og söng og frúin gaf okkur kaffi. Takk fyrir kaffið og diskinn. Húsráðendur á Rauða torginu pöntuðu rafstöð til öryggis ef það skyldi slá út og Stalín starði á mann ofan af veggnum við barinn. Lenín hafði aftur á móti hægt um sig uppi í hillu Og svo var gott veður. Nema daginn sem við komum heim. Þá var rok. En það kom að sunnan. Þetta var síðasti túrinn út á land í bili. Var ekki laust við að það væri smá depurð eða tregi í hópnum er heim var komið. Er þetta fimmta árið í röð sem sum okkar hafa farið í söngvaraleitir á haustin. Og við getum verið stolt yfir því sem er í húsi. Og þó að nokkrir gemlingar sleppi er alltaf skemmtilegt að heimta útigengið fé.

En aftur að rauðmögunum. Þegar gamla góða prins pólóið skipti um útlit og bragð um árið stökk ég til, heimsótti Ásbjörn Ólafsson og svældi út úr þeim einn pakka af alvöru prins pólói. Þessi pakki á að vera til, djúpt grafinn í pappakassa lengst inni í fullum gámi af gömlu drasli bakvið hús uppi á Laugavegi. Rauðmagasöguna hafði Björn Georg fóstri minn sagt mér í gamla daga og þetta með prins pólóið var tilraun til að sýna að eitthvað hefði síast inn. En hvort ég finn það þegar spurt verður veit ég ekki.   

Ég er hálfnaður með Sandárbókina hans Gyrðis. Ég fer mér hægt. Ég treina mér hana. Ég er þegar orðinn ástfanginn af konu í rauðri regnkápu. Og loðsilungur lætur á sér kræla. Ég er farinn að kannast við mig ...

 


Bjólfskviða

Horfði á heimildarmynd í gærkveldi um kvikmyndina Bjólfskviðu. Horfði með athygli og hreyfði mig ekki úr sófanum. Fjandi skemmtileg mynd fannst mér. Að vísu hef ég ekki séð  viðfangsefnið sjálfa Bjólfskviðu, en ætla að bæta úr því. Þarna skein vonleysið úr hverju andliti og það rigndi eldi og brennisteini og rokið ætlaði allt lifandi að drepa. En leikstjórinn sjálfur tók vindinn í fangið eins og norðlenskur gangnaforingi og einhvern veginn var myndin barin upp á tjaldið. Ég stóð upp úr sófanum, leit út um gluggann og langaði að fara út og búa til bíó. Ég ætti kannski að láta athuga mig... 

Ljóð dagsins

Eftir að hafa lesið "Hvíta tjaldið" eftir Stefán Hörð spurði bloggvinur minn hann Árni Gunnarsson hvort enn væri ort svona á íslensku. Ég var hugsi smá stund og hugleiddi svar. Því að bera saman ljóð er svolítið snúið. Hvíta tjaldið eftir Stefán er auðvitað einstakt og svo skrítið sem það hljómar held ég að það höfði meira til Norðlendinga en annarra. Hef ég þó ekkert fyrir mér í því nema einhverja tilfinningu. Sá ljóðahöfundur sem ég hef lesið mest af á undanförnum árum er Gyrðir Elíasson. Hjá honum finn ég einhvern óm eða andblæ sem passar við mig. Og svo fæ ég haustgjöf í þessari andrá. Á koddanum mínum liggur með haustkveðju frá krökkunum Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson. Ég handleik hana í plastinu og er glaður. Ég hlakka til að lesa. Hún er ekki þykk þessi bók en hún er falleg. Eins og allar bækurnar hans Gyrðis. Fallegar að utan sem innan. Sandárbókina set ég í töskuna mína og fer með hana austur, því í fyrramálið verður flogið yfir jökla og leitað að röddum. (Og af því ég er á leið austur minni ég á bókina  Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást eftir Ingunni Snædal). En það er viðtal við Gyrði í menningarblaði (lesbók) Fréttablaðsins. Og þar kemur fram að Gyrðir sé höfundur fárra og selji bara tvö til þrjú hundruð eintök af hverri bók. Já þetta er skrítinn heimur.

Kvöld í október eftir Gyrði Elíasson

 

Af gulnuðu túninu / horfi ég út á sjóinn / sé skerið með vitanum 

Þegar skyggir / er ég enn á túninu / heyri þyt í hauststráum / og græn ljósin berast / utan af hafinu

Himinninn stráður / stjörnum / og þarna / er tunglið gamla

Ég leggst / í grasið / og þá kvikna / norðurljós

Það eru / ljósin / heima 


Að ná í skottið á sér...

Kannski er ég eins og köttur. Eða ljón frekar. Eða kannski vil ég bara frekar vera ljón heldur en köttur. Veit ekki. En einhvern veginn verður maður að ná í skottið á bloggfærslusjálfinu í sér og senda smásögur af sér út í netheima. Ég flaug norður og átti skemmtilega daga á Akureyri þar sem var sungið fyrir okkur í söngvaraleitinni hans Bubba. Og það er aldrei neitt vesen úti á landi eins og ég hef sagt áður. Það eru allir boðnir og búnir að redda manni ef eitthvað vantar, hvort sem það er meira rafmagn eða öðruvísi stóll eða bara kaffi þegar manni er kalt. Ég fékk sæti við glugga í vélinni norður, en skyggni var lítið er norðar dró svo loftskoðun kennileita var fyrir bí. Komum svo suður á fimmtudagsmorgun og þá var tekið til við að koma næsta þætti í loftið sem tókst svo á föstudagskvöldið. Strax eftir þáttinn fór ég niður í bæ og hitti þar skólafélaga úr Skálholtsskóla, en það eru 32 ár síðan ég var þar. Það var frábært að hitta liðið aftur og mér fannst ég mun yngri og hressari en venjulega þegar ég labbaði upp Túngötuna á leið heim um nóttina! Um hádegi á laugardag var svo tekið til við næsta þátt og hann sendur út um kvöldið. En dagurinn í dag hefur verið rólegur og þar sem ég sit hér og hlusta á fiðlustelpuna æfa sig finnst mér ég hafa náð í bloggskottið á mér. Eitt gerðist auðvitað í vikunni sem ég missti af, en er stoltur yfir. Bassaleikarinn á heimilinu spilaði á tónlistarflughátíðinni með félögum sínum í "<3 Svanhvít!" og eftir stóru systur að dæma var þetta langbesta sveitin á hátíðinni! Svona er nú það. Maður er alltaf að missa af einhverju. En ég missti ekki af þætti á Rás 2 í dag um Kalla Sighvats.  Að geta spilað á orgel eins og hann gerði er auðvitað undur. Ég man bara eftir einu skipti sem ég sá hann spila. Man ekki lengur með hverjum, en það hefur trúlega verið í "gamla Hollivúdd". Þar sat hann við orgelskrifli að mér fannst, allt opið og innvolsið blasti við. En ég man að ég stóð allt kvöldið og horfði á þennan mann spila á sundurtekið orgelið af þvílíkri innlifun og leikni að Ármúlinn varð skyndilega sá staður sem best var spilað á orgel í heiminum...  


Hvíta tjaldið

Á morgun flýg ég til Akureyrar (ásamt fleirum) til að leita að söngstjörnum framtíðarinnar. Það er gaman í þessari "söngsmalamennsku". Maður hittir fullt af hæfileikaríku fólki sem kemur og gefur sál sína augnablik í von um að draumar rætist. Vonandi verður bjart á leiðinni og vonandi fæ ég sæti við glugga. Ég þarf nefnilega að skyggnast um eftir hesti sem er týndur. Ég ætla líka að líta eftir tjaldi sem ég veit að er þarna. Ég hef aldrei séð það, en stundum þegar ég loka augunum finnst mér ég vera nærri því.

Hvíta tjaldið

Áratugum fór hann yfir löndin og er kominn ævilaus til / baka, á Suðurland stiginn kringum sólstöður á leið í / Norðurland. Við eigum samleið sunnan heiðar og / ákveðum að halda á um nóttina. Undir lágnættið / fengum við rautt sólskin í fangið, áðum, og hann sagðist / hafa skilið ævi sína eftir í útlöndum, ætla norður á undan / skugga nokkrum, sá héti Vafi. Er hann hafði þetta mælt / um skuggann sinn, gekk hann landnorður fjöll, en ég tók / hér náttstað, þar sem ég sé ekki lengur til jökla fyrir / skugganum hans. Þið sem fljúgið yfir firnindin í nótt, / sjáið hvítt tjald á heiðinni.

                                                                                                          Stefán Hörður Grímsson


Bíó

Það er orðið framorðið hér í Reykjavík. Líkkistusmiðurinn mælir líkin og hetjan ríður brott. Sögulok. Var að enda við að horfa á "Hnefafylli af dollurum". Það er ekki verið að flækja hlutina í þeirri mynd. Og það er ekki dregið af sér þegar þeir bregða sér á bak. Það er riðið á stökki enda liggur mikið við. Hetjan er svöl. Kastar rétt kveðju á vertinn sem bjargaði lífi hans, svona eins og hann sé á leið út í sjoppu, en ekki að yfirgefa bæinn. Og líkkistusmiðurinn brosir og heldur áfram að mæla...

Betra seint...

Fyrir mörgum árum fór ég inn í plötubúð sem oftar. Eftir að hafa gramsað í rekkunum góða stund fór ég að spjalla við afgreiðslumannninn sem ég kannaðist aðeins við. Ég sagðist vera svo leiður á allri tónlist sem ég ætti og spurði hann hvort hann væri ekki með eitthvað öðruvísi, eitthvað sem myndi hrista upp í mér. Eftir nokkrar uppástungur, sem fengu ekki miklar undirtektir hjá mér, dró hann fram skrítið albúm og spurði: "Hefurðu hlustað á þennan?" Ég kvað nei við og hann setti nálina á plötuna og ég hlustaði. Undarlegir tónar bárust í eyrun. Þetta var skrítin tónlist. Næsta lag kom og ekki batnaði það. Ég bað búðarmanninn að snúa  plötunni við og enn versnaði það. Hvað var hann að láta mig hlusta á? þetta voru meiri andskotans leiðindin. "Mér líst ekki á þetta," sagði ég en þakkaði samt fyrir mig og fór út plötulaus í þetta sinn en afgreiðslumaðurinn sem var að byrja að verða vinur minn horfði á eftir mér sorgmæddur á svipinn. Ég hugsa að honum hafi liðið eins og trúboða sem hefur mistekist að kristna heiðinga. Jæja, árin líða. Í útvarpinu eru stundum spiluð lög með þessum undarlega tónlistarmannni svo ég kemst ekki hjá því að heyra í honum. Meira að segja búnar til þáttaraðir um hann. En ég frelsast ekki. Það eru haldnir tónleikar til heiðurs honum hér á landi og skrifað í blöðin. En ég er þver. Samt áskotnuðust mér fyrir mörgum árum þrjár plötur með honum. Ég nennti aldrei að hlusta á þær. Svo seint í gærkvöldi sit ég inni í stofu og ekkert að gerast í sjónvarpinu, nema Zorro á bíórásinni, og þótt Banderas og Kata Z Jóns séu sæt brá svo við að mér varð litið í plötuskápinn og dró út plötu með lofandi mynd framan á. Það er best að reyna einu sinni enn að hlusta á þennan fjanda, hugsaði ég og setti Swordfishtrombones með Tom Waits á. Kvöldið leið og Tom Waits tók völdin. Ég hlustaði á báðar hliðar frá upphafi til enda og eitt lag þrisvar sinnum og hugsaði að kannski hefði vinur minn í plötubúðinni forðum daga haft eitthvað til síns máls. Ég ætla að hlusta aftur í kvöld. Batnandi manni er best að lifa.

 


Súlan

Kom í bæinn í morgun. Gott flug frá Ísafirði og góðir dagar fyrir vestan. Manni er tekið svo vel, öllu reddað ef maður er með vesen og vantar eitthvað. Svo lendir maður hér og þá breytist allt. Að vísu var morgunninn rólegur, en svo fór allt á flug eins og allir vita. Og út um gluggann hér í Vesturbænum blasir súlan við. Súlan í Viðey. Og hún er flott. Alveg klikkuð. Í augnablikinu heldur hún uppi skýjunum, þráðbein eins og símastaur. Og þó að það hvessi haggast hún ekki. Magnað. Ringó kom. Það var flott. Hann var trommari Bítlanna. Ég heyri útundan mér að þeir sem yngri eru taka þessu súlumáli af meiri léttúð en ég. Það er kannski skiljanlegt. En fyrir mér er þetta galdur, undur og stórmerki. Í útlöndum er að hefjast leit að geimverum og það af fullum þunga. Við getum verið róleg. Við bíðum bara og horfum á súluna. Geimverurnar koma hingað ef þær koma. Súlan sér um það. Svo verður litla stelpan mín þrettán ára á morgun. Tíminn líður. En súlan, hún hefur ekki haggast síðan ég leit út áðan.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband