Hrollur

Það er hrollur í mér. Og þó sit ég núna við heitan ofn. Var að koma úr bíó. Sá loksins Veðramót. Það var fjandi kalt í bíóinu. Og kalt Ísland á tjaldinu undir lokin. Gamall Land Rover á svelluðum vegi. Segi ekki meir. Þið skuluð sjá myndina. Það er enn hrollur í mér. Ég er auðvitað kuldaskræfa.


Bloggkvöld

Sunnudagskvöld eru góð bloggkvöld. Það er fínt að sitja í rólegheitum og fara yfir stöðuna. Svaf lengi frameftir í morgun og er því eldhress núna. Komst ekki á Kim Larsen-tónleika í gærkveldi, en fulltrúar mínir voru á staðnum og skemmtu sér vel. (Og nú set ég "Súsan himinbláu"af stað.) Við Sigvaldi svili minn fórum norður í Skagafjörð í vikunni og gengum til fjalla á fimmtudaginn og reyndum að draga björg í bú til jólanna. Sigvaldi stóð sig mun betur í veiðiskapnum en ég og stefnir allt í það að hann geti haldið jól, enda er hann gamall selveiðimaður eins og sagði í síðustu bloggfærslu og gott að hafa hann sér við hlið. Svo við vorum alls óhræddir ef ísbirnir hefðu látið á sér kræla. Ég gortaði að vísu af afrekum mínum sem refaskytta við hann þar sem við sátum á Strangalækjargreninu í nóvembersólinni og átum nestið okkar. Og það var spenningur í mér, ekki svo mikið út af rjúpunum, heldur því að vitað var um ær og lamb á heiðinni. Og fyrir gamlan sveitamann og rolluhlaupara kom hugsunin um að rekast á brjálaða kind í fjallinu blóðinu á hreyfingu. Og viti menn, þegar minnst varir geng ég fram á gráa veturgamla kind með dökku lambi. Og þar með voru örlögin ráðin. Það að eiga við einmana kindur upp til fjalla þegar vetur er sestur að getur verið snúið. Einkum er þær hafa vanist á að sleppa. Svo ég hikaði eitt augnablik og hugsaði hvort ég væri nokkur maður til að standa í þessu. En ég var snöggur að bægja slíkum hugsunum frá mér og skildi svila minn eftir með rjúpunum og lagði til atlögu við kindurnar. Ekki kannski atlögu, því ég fór hægt í sakirnar í þetta sinn, nálgaðist þær rólega og reyndi að láta líta út fyrir að mér kæmu þær ekki við ... Og til að gera langa sögu sutta endaði þessi rjúpnaferð hjá mér liggandi ofan á tveim kindum á Bólueyrunum meðan Fúsi mágur sótti kerru. Ég ofan á lambinu og kindin lá á bakinu og ég hélt í hornin, hélt fast og hefði aldrei sleppt. Svona lágum við þrjú góða stund, ég, lambið og ærin veturgamla, og lágum aldeilis grafkyrr. Svo kyrr að við önduðum varla. Ég rogginn, en kindurnar létu ekkert uppi. Kannski fegnar að þessu var lokið, veit ekki. Frelsið var fyrir bí. Það sá maður í augunum á þeim. Það kom ekki hreyfing á okkur fyrr en pabbi kom með bandspotta svona til öryggis. Ég held að hann hafi verið ánægður með strákinn. Svo á föstudaginn var brunað suður, auðvitað með nesti, enda yfir fjallvegi að fara. Síðan tóku við hefðbundin helgarstörf við að skemmta landsmönnum. Og nú eru Bítlarnir teknir við af Kim. Hvíta albúmið er eins og gott viskí og danski þátturinn bíður á spólu því VHS er enn brúkað á þessu heimili.

 


Þögn

Ég fékk kvörtun þegar ég mætti í vinnuna í gærmorgun. Vinir mínir kvörtuðu yfir því hvað ég væri lélegur að blogga. Það liði langt á milli og ef svo héldi fram mundu þeir bara missa áhugann á mér. Ég yrði að herða mig. Ég varð hugsi smástund. Átti ég að móðgast? Eða ætti ég að vera ánægður og upp með mér? Þar sem ég á það til að móðgast ef það er fundið að við mig, þá ákvað ég að taka þessu sem hóli, sperrtist allur upp og gengið nokkuð brattur í dag. Og þá mundi ég eftir innskoti frá bloggvini mínum, Guðmundi Fjarðaforseta, um þögnina, þögnin getur nefnilega verið svo fjandi góð. Ég man eitt haust fyrir nokkrum árum, við söngsmalarnir vorum að skrölta hringinn. Ég keyrði sendibílinn með öllu draslinu. Á leið frá Akureyri austur á Egilsstaði var settur með mér maður til að mér leiddist ekki. Fátt var til skemmtunar; útvarp af skornum skammti, nokkrar slitnar kassettur með Cream og Bowie og svo var auðvitað eitthvað danskt marmelaði með. En okkur félögum leiddist ekki. Eftir að hafa leyst lífsgátuna á gamla kaupfélagshlaðinu í Mývatnssveit var haldið austur. Var létt yfir okkur upp Námaskarð. En það var eins og við manninn mælt; þegar við renndum yfir Jökulsá á Fjöllum lagðist þögn yfir trukkinn. Ekkert heyrðist nema díseldrunurnar og ekki var sagt orð fyrr en Möðrudalsöræfin voru að baki og farið var að halla niður á Jökuldal. Þá stoppuðum við og pissuðum, pissuðum mikið. Héldum svo áfram og vorum búnir að fá málið. En mikið leið okkur vel þessa ferð yfir öræfin, því að tala við vin er gott. En að þegja með góðum vinum, ja þar skilur á milli.  Við Billi vorum góðir vinir áður en við lögðum af stað frá Akureyri. En þögnin á Möðrudalsöræfunum var eins og við hefðum gengið undir torf og svarist í fóstbræðralag. Meira að segja fyrirgaf Billi mér þó hann yrði blautur í fæturna á brún Jökuldals þennan haustdag því ég hafði vit á að standa ofar en hann þegar við pissuðum. Í dag ætla ég að skreppa norður og líta eftir ísbirni. Sigvaldi svili minn ætlar með. Hann er gamall selveiðimaður svo ég er nokkuð rólegur.

 


Ísbjörn

"Ekki er mark að draumum," sagði Sturla forðum daga, en mig dreymdi ísbjörn í nótt. Það er ekki á hverri nóttu sem mann dreymir ísbjörn. Og mér stóð ekki á sama, vaknaði, fór fram og fékk mér vatn. Að vísu man ég sjaldan drauma mína og ég man mjög lítinn bút úr þessum: Mér fannst ég vera staddur uppi á túni heima í Skagafirði. Það var margt fólk með mér, en hvað við vorum að gera er mér hulið. Þá verður mér litið til norðurs og sé hausinn á bangsa gægjast yfir girðingarhorn (þekkti hornið greinilega). "Þarna er ísbjörninn," kallaði einhver, eins og það væri von á ísbirni um hásumar í Skagafirði, því það var sumar í draumnum. Og í sömu svifum vakna ég, svona eins og ég vakni við kallið. Ég er stund að vakna og á meðan hugsa ég um hvernig ég eigi að bjarga fólkinu og hvort það sé bíll þarna uppi á túninu til að flýja á og ég rifja upp í snatri gamlar heimskautasögur og ráð til varnar ísbjörnum. Brátt er ég búinn að sækja byssu og svo er ég kominn í símann og tala við neyðarlínuna og áður en ég veit af er umhverfisráðherra kominn í símann og við berum saman bækur okkar um hvort ég eigi að skjóta dýrið eða láta það sleppa upp fjallið og austur á Silfrastaðafjall því þangað fannst mér það stefna. Þegar hér er komið sögu fæ ég mér vatnið og við það bráir nokkuð af mér. Ég leggst upp í aftur, en mér er ekki rótt og upplifi mikla baráttu við ísbirni alveg glaðvakandi. Um síðir sofna ég aftur. Nú þegar þetta er skrifað er ég nokkuð viss um að ísbjörninn lifði þetta af og fólkið sem var með mér einnig. En ég er líka nokkuð viss um að bangsi er á röltinu í drögunum sem ganga austur úr Bólugilinu og bíður þar eftir mér ...

 


H. H. las Jónas

Hallgrímur Helga fór á flugskeiði gegnum Gunnarshólma hjá Agli í kvöld. Mér fannst það gaman. Hann staldraði við öðru hvoru í ljóðinu svona til að útskýra fyrir manni hvað væri að gerast og hvar maður væri staddur. Tók mann inn í ljóðið. En Hallgrímur fékk ekki að klára. Ég hefði látið hann ljúka við ljóðið. Það var nógur tími. Það liggur ekkert á. Ekki þegar Gunnarshólmi er annars vegar. Og svona í sárabætur:

...

Þar sem að áður akrar huldu völl, / ólgandi Þverá veltur yfir sanda. / Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll / árstrauminn harða fögrum dali granda. / Flúinn er dvergur, dáin hamratröll, / dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda. / En lágum hlífir hulinn verndarkraftur / hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.


Mánudagskvöld

Það er mánudagskvöld og langri vinnuhelgi lokið sem endaði auðvitað með skralli í gærkveldi þannig að dagurinn í dag hefur verið frekar mjúkur og tiðindalaus. Settist niður áðan og horfði á mynd um byltinguna í Rússlandi. Það er svo gaman að hlusta á rússnesku. Þetta er svo fallegt mál og þó ég skilji ekki orð þá er mér sama. Mér þykir líka einhvern veginn svo vænt um Rússa. Þeir eiga svo flott lög og syngja svo fallega. Og nú er ég að hlusta á Don-kósakkakórinn synga Kvöldklukkurnar. Hvað er betra, þegar maður er sjálfur svolítið viðutan, en að hlusta á raddir sem eru vart af þessum heimi?   

Léttúð

"... Hin dásamlega léttúð og hin fullkomna bjartsýni á núið ..." sagði Sigurður Pálsson í Víðsjá á rás 1 í dag. Þetta sló mig aðeins út af laginu, því í morgun er ég lá undir sænginni og safnaði kjarki til að kíkja á daginn samdi ég í huganum frábæra bloggfærslu og hugsaði gott til glóðarinnar. En svo heyrði ég í Sigga og hann tók mig í ferðalag þangað sem hann sat í París og sendi pistla heim í útvarpið. Það var á þeim tíma er allir hlustuðu á sömu stöðina og maður drakk í sig. Ég er staddur úti í hlöðunni útfrá. Það er vorkvöld á hásauðburði. Það er nokkuð létt yfir mér þetta kvöld. Vorsólin skáskaut sér inn um hlöðugluggana og úti var loksins vottur af vori. Og inni var ég liggandi í heystabbanum og leysti samanbarða töðu og við hliðina á mér var Siggi Páls í gráa philips-útvarpinu (þessu með handfanginu og stóru skífunni framaná) og sagði sögur frá Sólarleikhúsinu í París. Ég man að mér sóttist seint baráttan við stabbann, en það kom ekki að sök, Siggi sá fyrir því. Að vísu voru gemlingarnir orðnir bæði þyrstir og svangir, svo það hljómaði söngur úr krónum, þannig að Sigurður mátti hafa sig allan við. Alla leið frá París. Einnig þurfti að láta lömb sjúga og önnur kvöldverk biðu í fjárhúsunum niðurfrá. En eftir þetta vorkvöld í hlöðunni verð ég einhvern veginn alltaf svo glaður þegar ég heyri í Sigga, eins og raunin varð í dag þegar hann ruglaði mig ríminu og minnti mig á bjartsýni á núið.

 


Að vakna

Það fór eins og mig grunaði. Það var erfitt að koma sér á lappir í morgun. Ég rétt dragnaðist framúr, reif menntaskólaunglinginn upp og stakk svo hausnum út um gluggann svona til að gá hvernig heimurinn snéri. Ég fæ alltaf minnimáttarkennd þegar ég sé morguhressu morgunkornsauglýsingarnar og mér finnst ég vera eitthvað svo ömurlegur. Af hverju getur ekki verið stuð hjá mér á morgnanna eins og hjá fallega fólkinu? Því það var ekki stuð hjá okkur feðgum í morgun. Sonurinn svaf ofaní seríosið og ég skellti saman einni samloku fyrir hann. Þögn. Hafði ekki sinnu á að opna útvarpið til að taka skeytin. Og drengurinn að verða of seinn. "Á ég ekki að skutla þér" sagði ég. "Jú takk" sagði hann. Við ókum. Þögn. "Takk pabbi" sagði hann. "Bless" sagði ég og brunaði heim aftur, bar upp blöð dagsins og reyndi að ná áttum. Smátt og smátt bráði af mér og ég mundi hvað við feðgarnir vorum myljandi skemmtilegir í gærkveldi og ég fór að sætta mig við að eiga ekki von um að fá hlutverk í næstu seríosauglýsingu alheimsins. En kannski kæmi ég til greina ef auglýsa ætti hafragraut og súrt slátur. Ég kaupi mysu strax á morgun... 

Eftir miðnætti

Þegar þetta er skrifað er allt komið í ró. Ég lít út um gluggann. Reykjavík hefur slökkt ljósin og breitt yfir haus. Nema ég. Mér finnst ég bestur eftir miðnætti. Þá lifna ég oft við og fer að dunda mér. Og leysi allskonar lífsgátur, en man svo ekki lausnina morguninn eftir. Ég veit samt alveg hvað verður erfitt að vakna í fyrramálið. En mér er alveg sama. Núna. Því það er gaman að ímynda sér að vera einn vakandi og eiga heiminn. En ég á næturvin. Hann vakir í öðru húsi í allt annarri götu. Ég hef aldrei séð hann og veit ekki hvar hann á heima. Ég hef bara séð ljósið í glugganum hans langt í fjarska og hann slekkur alltaf á eftir mér. Ég hef oft hugsað um af hverju hann slökkvi ekki ljósið og fari að sofa eins og annað fólk. En þá man ég eftir mínum glugga. Uppljómuðum.

Gjugg í borg

Þetta barst með vindinum...

 

            Þáttur Yoko:

 

                        Hún þvílíku uppnámi olli

                        og umbylti Björns Inga kolli.

                             Hún borgina braut

                             upp súlu skaut

                        og skildi’ eftir D-lista’ í polli.

 

            Þáttur hinna:

 

                        Þótt Villi með súlunni syngi

                        og sífellt hann dansi í hringi

                             var draumur um völd

                             víst kvaddur í kvöld

                        af krimma - sem nefndur er Bingi.

 

                        Því Bingi er snöggur og sleipur

                        og sleppur frá Villa sem hleypur

                             beint útí vegg

                             og sýpur þar hregg

                        með sílum sem fara með fleipur.

 

                        En Svandís – hún sveiflaði haka

                        og svellið – það byrjaði' að braka.

                              Sprakk svo í mola

                              og menn fóru að vola

                        þá samfylking byrjaði að baka.

 

                        Hann Ómar er yfir sig hrifinn

                        og ætlar að telja öll rifin

                             úr frjálslynda flokknum

                             sem situr á koppnum

                        og kallar: “Hver á að sjá um þrifin?”

                       

                        Hann Bjarni var bjartur í framan

                        en Burgmæster fannst ekki gaman

                             Því hver er að ljúga?

                             Og hverjum að trúa?

                        þá Kastljósið atti þeim saman.

 

                        Hann Dagur er dreyminn á svipinn

                        og dáleidd við horfum á gripinn:

                             Sem stekkur í sloppinn

                             og er ekki loppinn

                        er gufuna setur í hripin.

 

                        Því Rei hann er lausaleikskrói

                        lúsugur hundeltur kjói;

                             sem ástina sprengdi

                             og borgina flengdi

                        en flýtur á örk eins og Nói.

 

                        Svo trúið mér tæpt er að væla

                        og tekur því alls ekki að æla.

                             Því ríkt verður Rei!

                             og stolt siglir fley;

                        hjá Ráðstjórn er gleði og sæla.

                                                                                     Okt. 2007

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband