Gömul kærasta

Ég heyrði Anniku Hoydal syngja í útvarpinu í dag og það tók sig upp gömul ást. Ég man hvað ég var skotinn í henni, bæði fannst hún syngja svo vel og svo fannst mér hún líka rosalega sæt þar sem hún horfði á mig með þessum djúpu augum af plötuumslagi með Harkaliðinu í gulu rúllukragapeysunni og hárið svo hvítt. Já drengir mínir... Jæja, annars skaust ég í heimsókn upp á Krókháls minn gamla vinnustað í dag og heilsaði upp á vini. Þeir tóku mér vel, gáfu mér kaffi, en kvörtuðu undan bloggleti hjá mér. Ég sagðist hafa verið í sumarfríi og lofaði bót og betrun. Ég fann að þeir trúðu mér mátulega. Ég ætla líka að ganga vikulega á Esjuna. Ég fór nefnilega í síðustu viku þegar mesta blíðan var og sperrtist allur upp. En ansi var maður þungur á sér og mæddist fljótt. Svo nú á að taka sig á. Byrjaði í gær þegar ég eldaði kjötsúpu sem endist í þrjá daga og það fær enginn neitt á heimilinu fyrr en potturinn er tómur! Enda er ég svo hress núna að mér finnst ég geta hlaupið alla leið upp á Esju í einum rykk. Það er kannski af því að Annika er hér og horfir á mig. Svo styttist í Clapton.

Sumarblogg

Ég fer í klippingu fjórum sinnum á ári. Vetur, sumar, vor og haust. Og stundum fyrir jólin ef ástandið er orðið mjög slæmt. Ætli þetta sé ekki að fara á sama veg með bloggið. Verði bara fjögur blogg á ári. Veit ekki. En auðvitað verður maður að bregðast við ef bloggvinir manns eru farnir að ókyrrast og vilja vita hvort maður sé með lífsmarki. En ég er í sumarfríi þessa dagana og ætla að vera lengi eða þangað til ég verð orðinn blankur, eða þannig. Nú síðasta blogg kvaddi með von um að Rússar yrðu Evrópumeistarar í fótbolta en það fór nú eins og það fór. En þar sem ég lá fyrr í dag sunnanundir vegg Hóladómkirkju og hlustaði á rússneska kalla syngja Ökuljóð og Stenka rasin svo fallega að hafgolan hægði á sér fann ég að nú var mál að byrja að blogga aftur. Svo ég dreif mig suður og settist við tölvuna og stillti á upptöku af tónleikunum í Bræðslunni í gærkveldi. Og það er villikonan Eivör sem syngur fyrir mig í augnablikinu. Annars er allt gott að frétta. Átti góða daga á heimaslóðum um helgina og svo ég taki þetta í réttri röð: Skaust í Mývatnssveit í júní og reyndi við urriða í Laxá með litlum árangri. Skrapp svo á Hellu og tók smá vinnutörn á landsmóti hestamanna. Brá mér þar á eftir til Köben ásamt fjölskyldunni og fór í Tívolí. Lá svo í leti í Vesturbænum og las sveitasögur eftir Jón Kalman og er ekki hættur að lesa því sem betur fer er eitthvað ólesið eftir Jón. En kannski reyni ég að brjótast út úr vananum á morgum og fara í klippingu. Svona afmælisbloggklippingu eða verslunarmannahelgarklippingu. Því nú þegar dimmir á kvöldin fer blóðið að ólga og gott að vera tilbúinn í slaginn.

 


Sólstöður

Nú þegar landið er ísbjarnarlaust (eftir því sem best er vitað) setur að mér smá leiða. Ekki að það komi ísbjörnum neitt við heldur fæ ég alltaf þessa tilfinningu þegar ég fatta það að sumarsólstöður eru að baki og nú fer nóttina að lengja aftur. Ég áttaði mig á þessu í morgun og skildi þá af hverju kvöldin hafa verið svona falleg upp á síðkastið. Eins og sólin hafi verið að segja manni að gleyma ekki að lifa, lifa sig inn í sumarnóttina. En ég verð orðinn góður á morgun enda að leggja í hann norður í Mývatnssveit og þar rennur Laxá og þar búa urriðar sem dansa á sporðunum og éta æðarunga ef þannig liggur á þeim. Svo mér er ekki vorkunn. En það týndist hestur í göngum fyrir norðan í haust. Svo fundust hófför á Kili... Hefur einhver litið við í Gránunesi? Og ekki má gleyma að minnast á Rússana.  Ég held með þeim eftir kvöldið í kvöld. Allt til enda...

Ísbjörn

Hann sefur rótt á sallafínum dúni

en sveitin bíður þess hann vakni' og múni.

Hann dreymir kannski dilkakjöt í maga

dauðleiður á eggjunum á Skaga.

 

Hann dreymir jú um sílspikaða seli

sem synda út um allt á norðurhveli

en eggin étur eins og konfektmola

því óttast menn um kýr sínar og bola.

 

Gullvægt er að gera enga skyssu

gott er samt að hafa hlaðna byssu

ef Bjössi skyldi læðast burt í laumi

því leikstjórinn hann er í þessum draumi.

 

Nú horfir út á hafíslausa sæinn

og hugsar sitt á þjóðhátíðardaginn.

En feginn er nú flökkubjörn á Hrauni

að frelsishetjan skuli vera Bauni. 

 

    Vonandi gengur allt vel. Gleðilega þjóðhátíð.

 


Fótboltadagar


Nú eru góðir dagar. Fótbolti upp á hvern dag. Maður kastar frá sér vinnu, góðu veðri, spjalli við fjölskylduna og uppvaski, sest niður og horfir á fótbolta. Og ég er byrjaður að halda með Hollendingum. Var ekki alveg viss með hverjum ég ætti að halda, en nú er ég viss. Held að vísu líka pínu með Svíum, Rúmenum og Þjóðverjum. Það skilur að vísu ekki nokkur maður af hverju ég held með Þjóðverjum en það á sér langa sögu sem ég segi kannski seinna. Og ekki má gleyma Rússum, ég elska Rússa og svo er þjóðsöngurinn svo flottur. En það dugar ekki alltaf til að þjóðsöngurinn sé flottur því ég hef sjaldan séð aðra eins stemningu og í ítalska liðinu þegar þeir stóðu þétt saman og sungu þjóðsönginn hástöfum og maður hugsaði; þetta lið getur enginn unnið, en annað kom á daginn. Og þetta allt hefur áhrif á mann. Maður er allur léttari og alveg tilbúinn að taka boltann á ristina ef hann skyldi berast til manns, enda brá ég mér í Útilíf í gær og keypti fótboltapumpu á 790 kr. og pumpaði í fótbolta heimilisins og þar sem þeir skoppa hér um stofuna tek ég svona einn og einn innanfótar í nærstadda dyrastafi svo syngur í... Svo ætla ég að skreppa í Höllina á eftir og horfa á handbolta. Ég veit ekki hvað er að gerast með mig...

Næturtónlist

"Nóttin er minn heimur" sagði skáld nokkurt sem dvaldi löngum á kantinum. Kanti hins venjulega lífs. Og það má kannski segja að ég hafi verið á kantinum síðan í apríl. Ekki alveg í sambandi við hitt lífið sem rennur hjá eftir Sæbrautinni, en í sambandi samt, einbeittur að vinna við "Svarta engla"   (spennuþáttaseríu sem verður sýnd á RÚV í haust), einbeittur að framleiða spennu-ópíum fyrir fólkið í stofunum. Ég er einn af valmúafólki Íslands og nóttin er minn heimur og dagurinn svo hverfull og ég man einn dag í apríl - svo kom jarðskjálfti - svo kom ísbjörn - svo kom sumar - og við kláruðum tökur á "Svörtum englum" í gær.                                                                                                                       Ég gekk nótt eina í vikunni heim í Vesturbæinn eftir Sæbrautinni. Gekk hratt í sumarúðanum og fannst minn heimur ansi merkilegur. Svo merkilegur að ég stökk upp á grjótgarðinum við Sólfarið og belgdi mig yfir Faxaflóann. Þar sem ég hreykti mér á grjótinu heyrði ég tónlist. Hún kom frá tónlistarhúsinu nýja. Kranamúsík. Þarna sveifluðust kranarnir klukkan fjögur um nóttina og appelsínugulir menn æfðu steðjakórinn með taktföstum hamarshöggum. Við þessa næturtónlist hrökk ég upp við það að heimurinn snýst enn og nóttin er líka heimur kranamanna, leigubílstjóra og kvenna sem þvo bláköflóttar skyrtur.

 


Að snerta heiminn

Hann var ekki ósvipaður sjálfum sér á myndinni utan á Desire-plötunni, meistarinn sem spilaði og söng í Höllinni í kvöld. Enda var þetta hann sjálfur. Snerti ekki gítarinn, stóð við hljómborðið, greip í munnhörpuna og söng af krafti. Minnti mig stundum á Megas kominn á ellefta passíusálm. Hljómsveitin var í flottum jökkum eins og Dúmbó og Steini og þegar þeir byrjuðu að spila fannst mér eins og hér væri Brimkló komin á góðum degi. Og gæsahúðin kom strax í öðru lagi. Að vísu kom hún ekki aftur en það er þannig með gæsahúð að hún verður ekki pöntuð, hún kemur bara og fer. Og það voru ekki málalengingar á milli laga. Ekki sagt orð. Bara byrjað á næsta lagi. Og það var undir hælinn lagt hvort maður þekkti lagið, kannaðist kannski við einn og einn hljóm eða slitur úr texta. En mikið fjandi var gaman. Og ég sá ekki betur en hljómsveitin skemmti sér vel. Og Dylan sjálfur ekki síður. Ég fékk á tilfinninguna þar sem hann spilaði nett á orgelið að hann væri að gefa okkur smá brot af þeim anda sem sveif yfir vötnum á kjallaraupptökunum (The Basement Tapes) sem gerðar voru fyrir fjörutíu árum. En nú fer  ég inn í stofu og set lag á fóninn: One more cup of coffee... og set miðann í minningamöppuna.

Mark

Ég horfði á heilan fótboltaleik í dag. Og hálfan handboltaleik. Ég sá Man.U. verða meistara og Óla Stef. verða meistara. Ég er að vísu frekar latur við að horfa á fótbolta, en í dag sökkti ég mér niður í sófann og horfði einbeittur á heilan leik. Og ég varð spenntur. Því það er nefnilega þannig með þessa frægu fótboltamenn að manni finnst maður þekkja þá eins og frændur sína eða vini og talar við þá í gegnum sjónvarpið og gefur þeim góð ráð og skammar þá hiklaust ef þeir klikka. Og þegar Giggs var skipt inná hugsaði ég: "Hann skorar." Og augnablikið þegar hann svo skoraði... ég stóð upp og fagnaði eins og ég hefði verið að skora sjálfur og varð allur eitthvað utan við mig og missti samband við veröldina um stund. Þetta var svona eitt af þessum augnablikum sem sannfæra mann um hvers konar snilldarleikur fótbolti er. Og ekki er það verra þegar einn af frændum manns eða vinum skorar.


Grúppía

Ég er búinn að finna það út að besta starf í heimi er að vera grúppía. Fékk að fljóta með sem maki (eða grúppía) í ferð Dómkórsins til Dresden. Fórum sumardaginn fyrsta og komum heim á þriðjudaginn.  Kórinn hélt magnaða tónleika í Frúarkirkjunni í Dresden og söng einnig þar í messu. Og það fær sko ekki hver sem er að syngja þar! Marteinn söngstjóri er frá Meissen sem er rétt hjá Dresden og horfði á himininn loga, sex ára gamall, þegar Dresden var lögð í rúst 1945. En sem sagt; frábær ferð, enda grúppíulífið tiltölulega áhyggjulaust. Svo er Bandið hans Bubba búið eins og allir vita og nafni vann eins og allir vita. Svo er ég farinn að vinna við Svarta engla sem er spennuþáttasería eftir bókum Ævars Arnar. Skapp svo vestur í Bjarkarlund í dag og lék í einni senu í Dagvaktinni. Svo það má segja að það sé stuð þessa dagana og lítill tími fyrir blogg. En ekki veit ég hvort þær voru grúppíur gæsirnar í Hvassafellstúninu sem gáfu mér auga þar sem ég bjó mig undir að beygja upp Bröttubrekku. Þær voru að minnsta kosti farnar er ég kom til baka. En hún var áreiðanlega grúppía gæsin sem stóð bísperrt á þúfu skammt frá Bjarkarlundi... eða var hún kannski bara að bíða eftir vorinu?


Von og spenna

Það er að hlýna. Smá von um vor. En förum að öllu með gát og grenjum ekki þó kólni aftur. Ég er að norðan og býst ekki við vori fyrr en upp úr miðjum maí, ef maður er heppinn. Ef það koma góðir dagar þá er það bónus. Svo finnst mér skógarþrösturinn ansi hljóður en krummi sperrir sig á blokkunum og ljósastaurum. Annars held ég að Raggi rakari sé búinn að jafna sig á flensunni. Miðinn var horfinn úr glugganum í gær. Svo fór ég á mánudagskvöldið og hlustaði á Hjalta lesa meiri Þorstein. Það var ekki fjölmennt, en góðmennt. Svo góðmennt að gamall vinur minn sem þarna var sendi mér ljóðabók með póstinum. Og úrslitaþátturinn í Bandinu er annað kvöld. Það er búið að tengja sprengjurnar og hlaða konfettí-byssurnar svo það er best að vera á tánum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband