Þjóðnýtingardagurinn

Þannig fór nú það. Og gerist hratt. En það þarf að vísu ekki að koma á óvart. Svona hlutir gerast oftast á einni helgi. Svo er maður að velta fyrir sér hvort maður eigi að kaupa ýsuflak með roði eða ekki. Enda veit ég lítið um peninga. Eyði þeim bara. En ég var alltaf á móti að selja Búnaðar- og Landsbanka þarna um árið. Og Símann. Marteinn Mosdal er minn maður. Og svo eignaðist ég smá hlut í banka í dag. Kannski 28.000 krónur sagði góður maður mér. Annars heldur maður bara niðrí sér andandum og bíður. Bíður eftir næsta fréttatíma, næstu sameiningu, næstu þjóðnýtingu. Og hefur á tilfinningunni að enginn ráði neitt við neitt. En eins og ég hef sagt skil ég ekkert í vísitölum og þessháttar. Átti einu sinni lítið hlutabréf og var að hugsa um að leggja það í lítinn Skóda, en þá var allt á uppleið svo ég sló lítið lán fyrir litla Skódanum og beið eftir að litla hlutabréfið yrði stórt. En nú er litla lánið orðið býsna bústið og litla hlutabréfið hefur horast mjög. En hvað um það. Fyrst ég er byrjaður að væla hvað mega þá aðrir segja. Þegar allt sem menn hafa aflað flýgur út um gluggann á einni nóttu. Allt þetta minnir mig á gamla sögu. Einu sinni voru frændur mínir á Húsabakka að draga fyrir í Héraðsvötnunum að vorlagi. Töluvert ísrek var í Vötnunum og von um sjóbirting. Þegar átti að draga netið á land var netið fullt af ís og líka fullt af spegilgljáandi birtingum. Var fast tekið á enda frændur mínir kappsfullir veiðimenn. En ísinn var ansi þungur í drætti svo eitthvað varð undan að láta og urðu þeir að sleppa netinu til að lenda ekki sjálfir í Vötnunum og hvarf þar með bæði ís og birtingur. Auðvitað kom svo sumar og það hef ég grun um að þeir Húsabakkamenn hafi bætt sér upp þennan missi. En það var ekki sleppt fyrr en fullreynt var. Annars er allt gott. Horfði á skemmtilega heimildarmynd um Indland áðan og gleymdi Glitni og svo hefur sonur minn verið að spila Pink Floyd meðan þetta er skrifað. Og það er sko ekkert slor. Silfurgljándi músikk. Eins og nýrunninn birtingur. Eða nýslegin króna.

Slökkt á sjónvarpinu

Ég stökk upp úr sófanum áðan, slökkti á sjónvarpinu og setti Tindersticks á fóninn. Það er frábær hljómsveit. Mér finnst þetta vera vottur af lífsmarki hjá mér að heyra í hljómsveit í útvarpinu á sunnudegi, hljómsveit sem ég hafði aldrei heyrt í, vera svo kominn á tónleika með þeim á Nasa nokkrum dögum seinna og ætla að kaupa alla diskana með þeim sem fyrst. En kannski er þetta bara vitleysa. En það er ekki vitleysa að ég sótti pakka af reyktum laxi í dag alla leið út á Seltjarnarnes en þangað var hann kominn norðan úr Mývatnssveit kofareyktur og fínn. Og það var helgiathöfn að opna pakkann og skella þykkri sneið á brauð með miklu sméri og mjólk með. Mér fannst augnablik eins og ég væri að vakna á réttardagsmorgun fyrir löngu og koma upp í eldhús þar sem laxabrauðið beið. Og ég er búinn að borða margar brauðsneiðar í dag. En nú er kallað. Það er víst að byrja góð mynd í sjónvarpinu. Bless.

Tyrkjaránið 2

Nú brugðið er eldgamla Bleik

ég bjóst ekki við þessum leik

sú fullnæging er ekkert feik 

og frostið það á ekki breik

því Kaupþing er komið í sleik

við kuflklæddan skeggjaðan sjeik

 


Hitabeltisstormur og klukksvar

Nú er hann að bresta á. Stormur og rigning. En það er hlýtt. Annars vaknaði ég tímanlega í morgun til að finna jarðskjálftann. Svo er ég endurnærður eftir gangna- og réttarferð norður um helgina. Segi kannski frá því síðar. Fór líka á tónleika með Tindersticks. Og ég var klukkaður um daginn. Hér kemur klukksvar:

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

Landbúnaðar- hitt og þetta
Brúarsmíði (helvíti hljómar það vel)
Leikstjóri
Sviðsstjóri (í sjónvarpi)

2. Fjórar bíómyndir sem ég held uppá:

Arabíu-Lárens (svo ótrúleg)
Deer Hunter (svo grimm)
Gullæðið (svo mikið yndi)
Land og synir (svo mikið eitthvað. Svo lék Guðný frænka í henni)

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Skagafjörður
Svíþjóð
Þingholtin
Vesturbærinn

4. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

Mér líkar við flesta þætti sem ég vinn við svo ég ætti auðvitað að nefna nokkra en við skulum halda út eins og Sixten í Kontrapunkti sagði og auðvitað er hann fyrstur á blaði
Júróvisjón
Simpson
Bold and the beautiful

5. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Akureyri
Króatía
Köben
Mallorca

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

Afskaplega latur að skoða netið.

7. Fernt sem ég held uppá matarkyns:

Þar fór í verra því ég ét allt eins og kötturinn Bakkabræðra og finnst flest gott
Soðinn Héraðsvatnasilungur
Sviðasulta
Saltket
Berjaskyr með rjóma

8. Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:

Tarsan apabróðir
Guffi og furðufiskurinn
Brunabíllinn sem hvarf
Mold í Skuggadal

Og nú á ég víst að klukka einhverja en ég er alveg uppgefinn eftir þetta. Líður líkt og ég hefði verið kvöldgestur hjá Jónasi eða eitthvað álíka. En þetta er rammhollt að vera klukkaður. Maður kemst nefnilega að svo miklu um sjálfan sig. Og enn bætir í vindinn. En það eru ber í ísskápnum. Og rjómi.


Haustið kemur

Ég verð að viðurkenna að haustið er að detta á. Maður finnur það á morgnanna og í rökkrinu á kvöldin. Og grasið í vegaköntunum er orðið hvítt.  Annars spurði ég einn frænda minn, sem veit ansi margt hvenær haustið byrjaði eignlega. Hann var hugsi augnablik en sagði svo: "Fjórtánda september." Ég er að hugsa um að halda mig við það. Maður er annars allur að jafna sig eftir silfurverðlaunin. Fór í veiðitúr um helgina og nú er botnfylli í frystikistunni góðu af laxi. Og það var ekki laust við hamingu er ég keyrði heim í gær.  Var líka nokkuð drjúgur með mig í dag. Svo uppgötvði ég frábæra hljómsveit áðan. Tindersticks. Hún spilar víst á Nasa á fimmtudaginn. Svo styttist í réttir. Lífið er stundum svo skemmtilegt.

Ævintýri

Það gæti farið svo að þetta yrði langur pistill. Mér líður þannig. Það koma nefnilega þær stundir að maður missir tökin á tilverunni og algleymið tekur yfir. Og þessir tímar eru þannig. Því að fá að upplifa það að sjá silfur um háls drengjanna austur í Kína er svo mikið ævintýri að annaðhvort er að skrifa langan pistil eða þegja. Og ég get ekki þagað. Og hugurinn ber mig mörg ár aftur. Ég er í stofunni heima á Uppsölum ásamt fleirum. Við horfum á handboltastrákana spila um brons á Ólympíuleikum. Við töpum og lendum í fjórða sæti. Ég man vonbrigðin. Ég var eyðilagður. Mér fannst eins og tækifæri til að vinna til verðlauna í handbolta á Ólympíuleikum væri runnið mér úr greipum. Tækifæri runnið út í sandinn horfið í hafið og kæmi aldrei aftur. Þessi stund í gömlu stofunni heima hefur aldrei farið frá mér. Alltaf þegar Strákarnir hafa haldið á stórmót hefur þessi stund komið niður hrygginn. Því maður er í íþróttum til að vinna. Vinna til verðlauna. Fá gull. Standa efstur á pallinum. Halda um hjartað, horfa á fánann og gráta. Og nú þegar ég skrifa þetta þá hlýnar mér öllum og stoltið kemur til mín eins og foss. Því þegar við unnum Spánverjarna þá skeði það. Ævintýrið varð að veruleika. Ég mun aldrei gleyma þeim degi. Ég horfði á hann með vinnufélögum mínum og gekk af göflunum. Mér varð ekkert úr verki það sem eftir var dags. Bara gekk um eins og svefngengill og óskaði ókunnugu fólki til hamingju með daginn. Sofnaði svo örþreyttur um kvöldið eins og eftir þúsund bagga dag. Svo upphófst biðin. Biðin eftir leiknum. Leiknum um gullið. Mér leið einhvern veginn eins og utangátta. Vildi ekki gera neitt vitlaust til að spilla ekki fyrir Strákunum. Hugsaði fallegar hugsanir. Og nóttina fyrir leikinn lifði ég mig inn í verðlaunaafhendinguna og sá fánann uppi og heyrði þjóðsönginn. Ég var heltekinn. Svo kom leikurinn. Ég horfði, skrapp svo frá og vaskaði upp  og horfði með bakinu. Lauk við uppvaskið og horfði til enda. Og horfði á vonbrigðin. Við vorum að keppa um gullið. Að standa á hæsta pallinum er alltaf draumurinn. En svo kom allt smátt og smátt til baka. Þeir stóðu á pallinum. Það komu bros, peningar um hálsinn og fáninn upp. Og ég fann hvernig tárin komu. Og það var svo gott. Þvi það er svo merkilegt hvað það hefur verið laus í manni gráturinn undanfarnar tvær vikur. Því Öskubuskuævintýrið var orðið að veruleika. Eða hvað. Kannski er Öskubuska ekki til því ef hún væri til þá væri gullið okkar. Kannski. En ef til vill bíður hún bara bak við næsta hól með gullið. Maður skyldi aldrei segja aldrei eins og ég um árið er bronsið fór frá okkur. Ég reis upp frá sjónvarpinu hengdi um hálsinn á mér medalíu frá því í skemmtiskokkinu deginum áður og lagði upp í smá fjölskyldureisu norður í land. Með medalíuna um hálsinn. Og nú sit ég hér kominn suður aftur og hlakka til að sjá Strákana á morgun. Maður hefur séð þetta gerast í útlöndum þegar borgir fara á hvolf er fótboltalið koma heim með bikara. Ég er ekki búinn að ákveða hvar ég stend á morgun er þeir renna hjá. Helst langar mig til að klappa þeim á bakið og segja eitthvað hressilegt eins og "Mikið andskoti var þetta flott hjá ykkur" eða eitthvað í þá áttina. En ég þekki mig. Það er ekki víst að ég myndi koma upp orði. Því hvað á maður segja við Stráka sem hafa tekið frá manni sextán ára gömul vonbrigði, lokað oní kassa og sett upp á háaloft. Já hvað á maður að segja við Stráka sem koma heim með silfur um hálsinn? Kannski bara: Til hamingju. Og takk.

Hjartsláttur

Ég er stundum svolítið skrítinn. Síðasti bloggpistill var nöldur og það akkúrat á degi sem ég var í príma góðu skapi og lífið lék við mig. Nýbúinn að borða ber með rjóma og köku enda var afmæli í fjölskyldunni. Fórum nefnilega á Þingvöll um helgina og tíndum ber. Og það er ekki amalegt á síðkvöldum að fá sér skál af berjum með rjóma og miklum sykri. Enda þarf maður eitthvað staðgott ef maður á að lifa af spennu eins og boðið hefur verið uppá í handboltanum undanfarið. Ég hélt í alvöru þegar fimm mín. voru eftir af leiknum í morgun að ég væri á förum. Hjartað hamaðist eins og ég væri búinn að elta gráa tvævetlu inn alla Kotabotna og væri um það bil að merja mig fyrir hana. Svo kláraðist leikurinn og hjartað náði að jafna sig undir hádegið. Og svo er maður svo hjátrúarfullur að maður veit ekki hvernig maður á að vera til að styggja ekki vættirnar fyrir næsta leik. Og svo er hann Óli Stef. Viðtalið við hann í morgun var auðvitað einstakt og sýnir að þessi drengur er þyngdar sinnar virði í gulli. Eins og um daginn þegar hann talaði um hvað handboltaleikur væri margar sekúndur og hver sekúnda skipti öllu máli. Ég skil algjörlega hvað hann er að fara. Maður telur sekúndurnar í beinum útsendingum. Ég elska Óla. Og nú ætla ég að skreppa fram í eldhús og fá mér ber og rjóma. Og mikið af sykri. Horfa svo á heimsmet í 200 m hlaupi. Og meta stöðuna í handboltanum. Og fá smá hjartslátt - aftur.

vs - hvað er það?

Um daginn datt inn um lúguna miði til að minna á fótboltaleik. KR átti að spila heimaleik við FH. Og hvað stendur á miðanum með stórum stöfum: KR vs. FH og síðan kom staður og dagsetning. Hvað á þetta að þýða? Má ekki bara segja að  KR spili við FH á sunnudaginn. Og þetta helvíti heldur áfram. Í blöðunum um helgina var bílasala auglýst með stórum stöfum sem eitthvert bílaoutlet. Ég er alveg að bugast...


Blús í D-dúr op. 3

Nú ágústnóttin breiðir blæju mjúka

það bærist lauf í vígaferlabænum

En hælis fyrir sárfætta og sjúka

sannlega er þörf í einum grænum

 

Á fimmtudegi fjórtánda í ágúst

flaug í gegnum loftið fyrir ljóra

að D-liðið af staðfestu með strákúst

stuggað hefði fast við borgarstjóra

 

Nú sópað hafa senjór út af baugnum

og sólin brátt til viðar niður hnígur

En svekktur galar hauslaus uppá haugnum

hani sem að ekki lengur flýgur.

 

Hann Frímann átti' að fylla Óla stuði

og forða honum burt frá öllu fári

En bratti Óli skellti' á bitru suði

og banabitinn reyndist Gunnar Smári.

 

Nú ólmast um á básnum sínum bláa

borgarstjórnarháaleitisnautið

Því frést hefur að framsókn eigi gráa

furðuskepnu sem að þýðist flautið

 

Og framsókn góða fyllti tóma básinn

og fullnægingarblossar loftið lita

En fölur missti Óli fokkings ásinn

nú förukonur henda í hann bita.

 

Úti á túni tárast vinstri hjörðin

og tregar löngu gleymda hundrað daga

Því svikul reyndist gamla söðulgjörðin

sem söngvarana teymdi milli laga.

 

Svo syngja þau er sópa fóðurganginn

segulstöðvarblús og Svantes-vísur

Og kálfahópur kátur fær í svanginn

kýlir vömb og dregur síðan ýsur 

 

Og það sást til Kobba keyra' í Vesturbænum

kominn var í svörtu vetrarfötin.

En Marsibil er selurinn í sænum

sem syndir um og andar inn í götin.

 

Og prunknir D-menn panta jólaskrautið

en pakkarnir þeir eru upp og niður.

Því leidíin sem leidd var undir nautið

ljóstraði' upp hún væri húsasmiður. 

 


Ágústkvöld

Enn er sumar og blíða þó aðeins andi kaldar á morgnana er maður kemur út. Það er kannski vegna þess að nú er maður byrjaður að vinna aftur og fer út á morgnana, en meðan maður var í fríi vaknaði maður seint og fékk sér morgunmat, las blöðin upp til agna og fékk sér svo kaffi. Leit svo út um gluggann og fékk sér meira kaffi. Þá var kannski komið að því að fara út og athuga málið. Annars er það helst af frétta að fjölskyldan fór á tónleikana með Clapton. Það skemmtu allir sér mjög vel, enda vorum við mætt snemma og reyndum að fíla hitann og blúsinn smaug inn í mann. Ég verð þó að segja fyrir mig að ég náði aldrei gæsahúðarstiginu, en eins og ég hef sagt áður er ekki hægt að panta gæsahúð, annaðhvort kemur hún eða ekki. En mér fannst hljómsveitin frábær og ekki henni að kenna að kallinn spilaði ekki fleiri lög sem maður vildi heyra, því manni finnst nú að þegar svona kallar nenna að koma hingað á annað borð þá eigi þeira bara að spila allt sem þeir kunna. Við erum mætt á tónleika og liggur ekkert á og viljum heyra öll "Undir bláhimni"-lögin. Og mér skilst að gömlu konurnar í Pétursborg hafi ekki verið sviknar er Siddi frændi söng "Kvöldklukkurnar" þar með Heimi fyrir nokkrum dögum. Svo í lokin af að mér komu ólympíuleikarnir í hug... og já Áframmm Ísland. Ég er orðlaus. Og setningarathöfnin. Ég verð aftur orðlaus. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja heldur að tilkynna að við Sólveig Vaka settum fjölskyldumet í að halda badmintonkúlu á lofti. Fyrra metið var að okkur minnir 66 en við settum stórglæsilegt met eitt góðviðriskvöldið í júlí hér úti á Sólvallagötunni. Og nýja metið er 122... og ég hugsa að við eigum meira inni. En var ekki badmintonkúlan (eða flugan) kölluð fokka fyrir norðan í gamla daga?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband