Söngur

Ég hef hugsað um það undanfarið hvað sé okkur til bjargar. Hvað sé okkur til bjargar upp úr því botnlausa feni sem við berjumst nú í. Og ég hugsa og hugsa, en það gengur illa því ég hugsa svo hægt og skil svo lítið. Svo má maður ekkert vera að því að hugsa því maður er alltaf að hlusta á fréttir, lesa blöðin, hlusta á allskonar spekinga og maður verður bara ruglaðri og vitlausari eftir því sem meira fer inn í hausinn á manni. Maður hlustar opinmynntur á Sigga Einars og Silfur Egils og svo allt hitt. Keyrði meira að segja framhjá Austurvelli á leið í ísbíltúr þegar eggjakastið stóð sem hæst í gær. Kannski maður mæti næsta laugardag á Austurvöllinn. En ég óttast að næst verði það eitthvað þyngra en egg og jógúrt sem fær að fljúga í Alþingishúsið. En þetta átti ekki að vera hamfarablogg, bara svona smá formáli eða upptaktur að lagi dagsins. Því söngurinn bjargar. Stundum syngur maður sjálfur. Syngur fyrir sig og syngur sig í svefn. Maður söng fyrir börnin sín þegar þau voru lítil og ætlaði að kenna þeim öll ættjarðarlögin og allar söngbækurnar, en varð of seinn eða latur. Svo var alltaf eitthvað í sjónvarpinu eða kannski fannst börnunum þetta ekki skemmtileg lög. En nú er ég að lenda á rangri braut, því ég ætlaði ekki að tala um sönguppeldi ungdómsins. Ekki núna. Ég ætlaði bara að segja að ég fór og hlustaði á konu mína syngja með mínum heittelskaða Dómkór niðri í Dómkirkju í dag. Þarna sungu líka Bergþór Páls og Stúlknakór Kársness og Marteinn og Tóta stjórnuðu öllu saman. Og þetta var svo fallegt. Ég varð svo meyr og eiginlega bara uppnuminn. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem þessi kór kemur tilfinningalífi mínu í uppnám. En það er svo gott að láta syngja sig út úr heiminum. Og finna að galdurinn er staðreynd. Og þau sungu: "Við skulum þreyja þorrann og hana góu..." Svo þarna gekk ég hremmingarlaus út í norðangarrann á Austurvellinum og inn í bílinn sem stóð ósektaður á reykspólaðri gangstéttinni fyrir framan Alþingishúsið. Kom svo í búð á eftir og viti menn; þar hljómaði eitt af uppáhaldslögum mínum úr afþreyingarmaskínu auðvaldsins. Maður er að vísu ekki alltaf í stuði í búðum til að hlusta á Bubba Morthens syngja Rómeó og Júlíu yfir gulrótunum. En þarna hljómaði gamalt Moody Blues-lag eins og lítil smákaka eftir veisluna í Dómkirkjunni í dag. Og svo sem ég sit hér og skrifa hringir vinur minn og syngur fyrir mig í símann lag sem hann var að semja! Já það er eitthvað að gerast. Látum fólkið syngja. Ég skal kenna ykkur ,,Undir bláhimni..." Takk fyrir daginn Dómkór.

 


Í ræktinni

Fór í ræktina í dag. Það er að vísu varla í frásögur færandi, enda ég búinn að lýsa yfir stórum áformum um stinnan maga og stífa vöðva. Það sem er í frásögur færandi er hins vegar að þar sem ég dólaði mér á brettinu með hlaupatrums í eyrunum sá ég á Sky myndir af tíu hættulegustu glæpamönnum Bretlands. Mér brá. Ég kannaðist við þessa menn. Þetta voru allt Íslendingar!

Hamfarir - fjórði hluti

Ég var í svo miklu hamfarastuði áðan meðan ég skóflaði í mig ýsunni að ég gat varla beðið eftir því að komast í tölvuna og hella mér yfir þjóðina. En núna þegar ég er sestur er einhvern veginn úr mér allur vindur. Kannski er ég bara saddur. Hamfarasaddur, eða kannski er það bara ýsan. Hvað er maður svo sem að rembast. Maður á bara að lesa Einar Má og hlusta á Eirík Guðmunds í Víðsjánni til að fá eitthvert almennilegt stöff. Því maður getur orðið svolítið leiður á öllum spekingunum sem skilja leikinn. Peningaleikinn. Ég skil hann ekki. Skil ekki hugtökin. Veit ekkert hvað vísitölur þýða. Veit bara að Skódalánið hefur hækkað heilt helvíti. Þess vegna er gott að hlusta á fólk sem tekur mann á flug. Tekur mann og gerir gott í kroppinn. Mér datt hreinlega í hug eftir að hafa hlustað á Bjögga Thor í gær að sennilega hefði verið besta lausnin þarna um daginn þegar það uppgötvaðist að Glitnir væri á brúninni að láta bara Bjögga og strákana sjá um þetta. Sjá um Ísland. Þeir áttu þetta hvort sem er allt saman. Láta strákana sem eru að spila play-station 3 sjá um þetta. Hinir eru ennþá að spila gameboy-leikina sína. Og nú er aldeilis ástæða til að kalla í John Cleese og láta hann skila lopavettlingunum. Láta Randver fá þá. Ég sagði um daginn, nýbaðaður úr ræktinni, að mér liði eins og nýhreinsuðum hundi. Eitthvað var nú Sæmi vinur minn ekki viss um að það væri svo góð líðan. Það er rétt hjá honum því það var ekkert grín að vera hundur í gamla daga. Hundahreinsunardagurinn var einn af samkomudögum sveitarinnar. Menn brutust með hundana á bæinn þar sem hreinsunin fór fram. Ég segi brutust því þetta var að vetri til og veður misjöfn. Það var byrjað á að reyna að láta þá éta ormalyfið með góðu, þ.e. blanda því í mat. Ef það dugði ekki voru hundarnir teknir og troðið ofan í þá með góðu eða illu. Svo var þeim hent inn í hundakofann þar sem þeir voru allir í einni þvögu og flugust á og gerðu sín stykki. En bændur héldu til stofu og gripu í spil. Spiluðu lengi dags. Svo drifu menn sig út. Þá var oft fallið á rökkur. Við luktartýru við kofadyrnar var svo ráðist til inngöngu og hundarnir gripnir einn af öðrum og komið með þá út. Þar var þeim svo skellt oní tunnu og þeir baðaðir og hent síðan í snjóinn. Voru þeir þá fljótir að fá fæturna og hverfa út í myrkrið. Það þarf varla að taka það fram að þetta var ekki fyrir neinar veimiltítur að fljúgast á við hundana. Enda sumir grimmir og snarvitlausir. Mér er í barnsminni kvöldmyrkur í sveitinni, hundgá niðrá vegi og Lappi snjóbarinn standandi við þvottahúsdyrnar. Og mikið var greyið feginn að koma inn í hlýjuna, fá bita og kúra sig í holuna sína. Skildi samt ekki af hverju hann þurfti að ganga í gegnum þessar hremmingar. Ætli okkur líði ekki svipað og Lappa mínum. Skiljum hvorki upp né niður. En hvar við erum stödd í hreinsunarferlinu er ég ekki viss um... Svo svona til hressingar í lokin: Ég vissi ekki hvert ég ætlaði er ég heyrði í fréttunum í gær að danskir leyniþjónustumenn hefðu fengið það verkefni í kalda stríðinu að athuga hægðirnar úr Khrústsjov gamla. Kallinn var víst í heimsókn í Danmörku og voru lagðar sér pípulagnir að salerni aðalritarans. Þetta var af því að Kanar héldu að hann væri heilsutæpur og ætti kannski ekki langt eftir. En útkoman var sú að Níkíta Khrústsjov var við hestaheilsu. 

Laumuspil lagt var á dúkinn

þá logaði kaldastríðspúkinn

     og skildi' ekki baun

     en skynjaði daun

er skoðaði' úr Khrústjoffi kúkinn.

 

Því það sem gekk niður af Níkíta;

jú, nartað hann hafði í chiquita

     svo greip um sig ótti

     því undarlegt þótti

að alltaf var hann jú að sískíta.

 

 


Létt-blogg

Allt í einu er komin léttmjólk i ísskápinn. Ekki pantaði ég hana. En ég læt mig hafa það. Enda drekk ég mikla mjólk og nota mikið smjör. Og lít vel út. Eða þannig. Mér finnst að vísu er ég lít í spegil á morgnana að ég sé orðinn ansi eitthvað gamall og þreyttur. En ég er miklu skárri á kvöldin. Allt að því fallegur. Og mér fannst eins og ég væri orðinn ungur aftur í gærkveldi þegar ég lá inni í rúmi og hlustaði á eldgamlar plötur með Savage Rose. Nýbúinn að láta gera við gamlan Superscope-magnara sem hefur legið þolinmóður í geymslu í 20 ár. Og það var eins og við manninn mælt að þar sem ég lá þarna með heyrnartólin á hausnum hvarf ég inn í gamla tímann. Fór sálförum og sveif inn í magnarann. Þar söng Annisette fyrir mig einan og Koppel-bræður spiluðu af fítonskrafti og ég dansaði með - grunlaus um hamfarir liðnna daga. Og þegar ég kom til baka fann ég að það var satt. Ég hafði yngst. Ég bíð spenntur eftir því hvort einhver tekur eftir þessu á morgun. Og svo voru Svartir englar að klárast í kvöld. Og Benni Erlings fór á kostum hjá Loga á föstudaginn og ég var líka minntur á að K.K. spilaði Æðruleysissönginn fyrst hjá Loga (af því að ég sagðist hafa séð hann í Kastljósinu í síðasta bloggi). Já maður verður að passa sig! Annars er merkisdagur á morgun því í nótt verða 23 ár frá því Ragnheiður Vala fæddist. Til hamingju Vala mín! Eins og þið sjáið er þetta létt-blogg. Það þýðir ekki að hamfarabloggi sé lokið. Ég er bara að safna kröftum. Þess vegna er gott að skreppa og leggjast í tímavélina. Superscopevélina.

Æðruleysið

K.K. söng í Kastljósinu áðan. Það var einhvern veginn svo heillandi að hlusta á hann og strákana raða sér í kringum tvo hljóðnema og flytja sönginn um sjóferðina á Æðruleysinu. Já augnablik gleymdi maður hremmingunum og veitir nú ekki af að gleyma sér smá stund. Eða hvað sagði Sæmi Rokk í myndinni um árið: "Ég dansa til að gleyma." En svo verður pása í dansinum og þú strýkur af þér svitann og kemur til sjálfs þín aftur. Stelpan sem þú dansaðir við horfin og þú ráfar um örvæntingarfullur og klukkan að verða þrjú... Nei, nei, þetta átti ekki að verða eitt hamfarabloggið enn, a.m.k. ekki núna, en maður bara ræður varla við sig. Því alltaf versnar þetta. Og svo er hann kominn á norðan. Það stendur hér strengurinn upp götuna og slítur úr honum, slyddufjandi. Við höfum rafmagn ennþá, en það fer sennilega líka. Og hvað þá? Ekkert blogg, ekkert sjónvarp. Svo verður kannski ófært í fyrramálið og ég ekki kominn á nagladekkin. Ofan á þetta bætast svo striðsskaðabæturnar! Ja mikið helvíti. Og þó... Ég nefnilega byrjaði í ræktinni á mánudaginn og búinn að fara þrisvar í vikunni og þetta er svo magnað að þegar ég kem út líður mér eins og nýhreinsuðum hundi og æðruleysið streymir um mig. Svo kemur maður heim og sökkvir sér niður í hamfarirnar. Þið getið því ímyndað ykkur hvað ég varð glaður þegar það kom í ljós að eitthvað undarlegt er að gerast í jörðinni við Upptyppinga og Hekla komin að falli. Svo gósentíðin heldur áfram fyrir hamfarafíkilinn. Lítið sætt túristagos myndi laga stöðuna aðeins. Það gæti líka komið stórgos og meiri hörmungar. En að ná æðruleysinu augnablik er á við gott viskístaup, eða kæfubrauðsneið með kaldri mjólk. Svo getur maður látið K.K. syngja fyrir sig - meðan maður hefur rafmagn. Og ef það fer þá verður maður að syngja sjálfur...

Allt í voða - eintómt flos
orðahnippinga.
Allir líka óttast gos
upp við Typpinga.


Steinn

Hvað kveikir í manni? Jú það getur verið ýmislegt. Fer eftir í hverju þú ert að kveikja. Ég man til dæmis ekki eftir því að Bláu skólaljóðin hafi kveikt áhuga á Steini Steinarr hjá mér. Kannski kveiktu þau ekki hjá mér neinn áhuga á ljóðum almennt. Ég bara man það ekki. Ég man þó að mér fannst Fjallganga eftir Tómas skemmtileg og Sálina hans Jóns míns kunni ég utanbókar. Enda var Davíð aðalskáldið á mínu bernskuheimili. A.m.k. fannst pabba það. En skólaljóðin enda á Steini Steinarr. Og mér finnst eins og það hafi ekki verið látið mikið með hann. Hann hafði búið til bull, sögðu menn, sem hann kallaði Tímann og vatnið. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki grautað mikið í því ljóði, en það skiptir nú ekki máli. Það sem skiptir máli er að Steinn er einn af þeim sem komu mér til manns. Hjálpaði mér að verða að manni. Ég man ekkert hvenær ég fer að lesa hann, en ég veit bara það að hann kveikti í mér. Kveikti í mér áhuga á að lesa ljóð og hjálpaði mér uppgötva heiminn. Það er einhvern veginn þannig að á vissu tímibili í lífi manns varð maður sjálfur Steinn. Allt sem hann hafði skrifað passaði einhvern veginn fyrir mann, var alveg eins og maður hefði hugsað og sagt þetta sjálfur og alltaf fann hann hvernig manni leið. Já það er sennilega það. Hann vissi alltaf hvernig manni leið. Og hvað er betra en að eiga skáld að vini sem veit hvernig manni líður og talar fyrir mann svo aðrir skilji mann betur. Svo heldur maður áfram að lesa og eignast nýja vini og Steinn einhvern veginn víkur til hliðar, en fer ekki langt. Hann er bara þolinmóður uppi í hillu og bíður eftir því að maður þurfi á honum að halda. Þegar ég var ungur maður fyrir norðan skreytti ég herbergið mitt með tilvitnunum í skáldskap og þá aðallega ljóð, fannst þetta gefa mér innblástur við heyskapinn. Ég man að á herbergishurðinni var miði með tilvitnum í viðtal Matta Jó við Stein:

"... Ég er uppalinn í sveit, eins og þú kannski veizt, og þegar ég var lítill drengur, var ég stundum sendur í kaupstaðinn, eins og það var kallað. Í raun og veru finnst mér ég ennþá vera í einhverri slíkri kaupstaðarferð, langri og yfirnáttúrlegri kaupstaðarferð, en ég hef gleymt því, hver sendi mig, og einnig því, hvað ég átti að kaupa."

 


Hamfarir þriðji hluti

Ég er búinn að fara nokkrar ferðir í hamfaraheimunum. Í huganum auðvitað. Orðið reiður og hryggur og bara venjulegur aftur. Því það er ekki eins og mikið hafi breyst hjá manni. Ekki enn. Ég finn að vísu er maður skreppur niður í Nóatún til að fá sér plokkfisk eða kjötbollur í hádeginu að umferðin er minni. Já vel á minnst: Hvar er maður staddur í lífinu? Er ég ekki á sama stað og þegar ég gekk upp í Kjötbúð Tómasar á Leiklistarskólaárunum í hádeginu til að fá mér kjötbollur eða flatbrauð með hangikjöti og rækjusalati eða bara sviðasultusneið! Nú er Tómas horfinn af horninu og ég stekk upp í jeppann og bruna 300 metra niður í Nóatún í gúmmelaðið. Magnað. Í fyrradag kvartaði ég við vin minn og sagði að ég væri hálfleiður því mér fyndist ekki nógu miklar hörmungarfréttir, hlutabréfin á uppleið í heiminum o.s.frv. Hann leit á mig eins og ég væri orðinn brjálaður og spurði hvort mér fyndist ekki nóg að verðbólgan færi í 70% eins og Danir spá. Það sljákkaði aðeins í mér. Annars á maður að lesa ljóð í þessum hörmungum. Ég byrjaði á Jóhanni Jónssyni. Las Söknuð. (Var að hlusta á góðan þátt um þetta ljóð á rás 1 þar sem Vilborg Dagbjartsdóttir gaf manni nýja sýn á það.) Það er auðvitað ljóð sem maður á að geyma undir koddanum; "Hvar hafa dagar..." Gramsaði svo í Degi Sigurðar eitt kvöldið. Mér fannst ansi fyndið að fyrir fimmtíu árum kom hans fyrsta bók út... og hvað hét hún? Jú; Hlutabréf í sólarlaginu. Það verður nefnilega allt svo táknrænt þessa dagana. Gamlir júróvisjontextar öðlast nýja merkingu "...og píanistinn sló sinn lokahljóm..." Og guði sé lof fyrir sólarlagið. Það verður ekki frá okkur tekið, ekki tunglið, ekki Hekla, ekki silfurverðlaun, ekki urriðinn í Laxá í Mývargi (og fyrst ég er lentur norður) ekki þingeyskur eldmóður... Annars varð konu minni að orði eftir síðasta blogg að ég væri farinn að hljóma eins og Steingrímur J. Og ég varð nokkuð upp með mér, því eins og hann sagði í ræðunni frægu átti að loka alla inni og senda út hvítan reyk. En aftur að skáldum. Steinn átti afmæli. Ég fór með lúna bók í rúmið það kvöld. Ég ætla að skrifa um Stein næst. Nema hamfarirnar magnist. "...Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til..."

 


Hamfarir - annar hluti

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig hamfaramanninum hefur liðið síðustu viku. Að vísu hef ég ekki getað fylgst nógu vel með fréttum síðustu daga, en það er trúlega bara gott. Því stundum verður maður að hvíla sig á þessum ósköpum til þess að reyna að halda sönsum. Já halda sönsum og passa börnin segja sumir. Ég er kannski ekki mjög góður í því. Ég segi við börnin mín: "Hlustið á fréttir, lesið blöðin og fylgist með þessu, Því þessa tíma eigið þið eftir að rifja upp þegar þið verðið gömul og talið við ykkar barnabörn um skrítna tíma." Annars var ég hrifinn af manninum sem á mig í Silfrinu í dag. Þarna sat hann og horfði beint í augun á þáttastjórnandanum og brá ekki svip og reyndi að svara milli þess sem sprengjurnar dundu á honum. Allt í lausu lofti, sumt farið, annað í straumkastinu og eitthvað horfið í alheimspeningasjóinn, sjóinn sem enginn skilur og er kannski ekki til nema í hausnum á einhverjum sem kunna einhverja frasa sem við svo trúum eins og Fjallræðunni. Ég ætla ekki að líkja mér við þá sem standa í straumkastinu þessa dagana, en ég man eftir því hvernig mér leið þegar ég snemmsumars stóð úti í Horná, hún í flóði og lömbin skullu á mér eins og boltar og ég reyndi að standa af mér strauminn og grípa lömbin og henda þeim til lands eða á grynnra vatn svo þau gætu synt til lands. Svo lenti kannski á manni fullorðin rolla í ullinni, orðin ansi þung og það gat bara farið á einn veg. Maður fór á kaf. En maður kraflaði sig í land og lömb og ær komust á þurrt, en ég man þessi augnabik í straumnum þegar hugsunin var bara að grípa og henda, bjarga lömbum, svo þau gætu lifað eitt sumar í norðlenskum dal. Þannig finnst mér allir standa í straumnum í dag. Það er að vísu ansi misdjúpt á fólki í dag. Sumir sulla berfættir í bæjarlæknum en aðrir lenda í Skaftárhlaupinu. En þjóðin sjálf er að upplifa sitt Kötluhlaup, ekki það Kötluhlaup sem hún hefur beðið eftir síðan 1918, nei eitthvað svo óraunverulegt og ótrúlegt og stundin er svo hröð því það tók eina og hálfa viku að setja landið á hliðina. Og kannski ekki bara á hliðina. Kannski á hvolf. En nú á fólk að tala. Reyna að tala sig til. Tala í sig kjark. Reyna að koma undir sig fótunum á nýjan leik. Byrja að hugsa um nýtt land. Nýjar stefnur. Nýja tíma. Skoða gamla draslið. Henda því gamla sem er ónýtt og eyðilagði svo margt. Til hvers hafa foreldrar okkar, afar og ömmur þrælað alla sína tíð? Fyrir okkur? Til þess að við með okkar andvaraleysi og græðgi látum allt fara til helvítis? Nei gerum forfeðrum okkar ekki þá skömm. ----- Þar hafið þið það kæru lesendur: Þessi pistill er greinilega upphaf á mínum pólitíska ferli! Ég verð samt að gera játningu. Ef ég hefði verið sæmilega múraður þegar ég varð fimmtugur hefði ég ekki hikað við að fá Elton John í afmælið mitt eins og Óli frændi. Mér fannst það flott hjá frænda. P.s. Lesið Pétur Tyrfingsson á Eyjunni, hann er frábær.

Annars varð fiðlustelpan mín 14 ára í dag svo hér voru allir í góðu stuði. Til hamingju með afmælið Sólveig Vaka mín! Svo var ég að vinna á Villa Vill-tónleikunum sem gengu bara vel. Og hér í lokin smá hugleiðing sem varð til í mars sl.

 

Hin nýja Íslandsklukka

 

Það var slegið í klukku í kauphöllinni um daginn.

Gamla kirkjuklukku sögðu þeir í fréttunum,

og það rann upp fyrir mér að nú er loksins

komin í leitirnar klukka sú sem Jón Hreggviðsson

hjó niður á Þingvöllum forðum daga.

Og þó að Laxness segi að Siggi Snorra böðull

hafi brotið klukkuna þar á stéttinni fyrir augum gamla bóndans

úr Bláskógaheiðinni og svarti Jón kveðandi klofvega

á mæninum á meðan held ég að skáldið misminni.

Ég þekkti nefnilega hljóminn úr gömlu Þingvallaklukkunni aftur.

Og það voru fleiri. Því austur við Öxará stóð gömul skálduð Toyota

með útvarpið í gangi. Og ég er ekki frá því að bílstjórinn;

gamall gráhærður maður, nýkominn með Norrænu til landsins,

hafi hugsað sitt, þar sem hann leit á gamla skörðótta exi

sem lá ásamt slitnum kaðalspotta í farþegasætinu.

Og það sló glampa á eggina er sá grái glotti við tönn og tautaði:

„Járnmél bruddu graðhestar.“

 

 

 


Hamfarir

Það er stundum sagt hér á mínu heimili að ég sé hamfarafíkill. Eldgos, jarðskjálftar og aðrir stórir hlutir eins og landsleikir í handbolta við Svía eiga hug minn allan. Ég stekk líka stundum út í glugga þegar ég heyri í slökkviliðinu. Þetta gengur nú samt ekki svo langt að ég elti slökkviliðið en það munar stundum litlu. Ég hrekk líka við ef ég heyri þyrluna fljúga yfir þakið hjá mér á óveðurskvöldum. Fer jafnvel áhyggjufullur til útlanda, því ef það kæmi Kötlugos, hvað þá? Svo þið getið ímyndað ykkur hvernig ástandið er núna á heimilinu. Það er hlustað á alla fréttatíma og allir vefmiðlar lesnir plús dagblöðin. Og maður er litlu nær. Hamfarir eru einhvernveginn þannig að þú verður bjargarlaus. Þú stendur bara og bíður eftir því að hraunið komi á þig. Eða hleypur undan. Manni líður akkúrat núna eins og það sé búið að boða jarðskjálfta en bara ekki nákvæmlega hvenær. Svo maður stendur í dyragættinni og bíður. Þegar Suðurlandsskjálftinn varð 17. júní hér um árið kom annar nokkrum dögum síðar. Það var komið fram yfir miðnætti og við hjónin að horfa á sjónvarpið. Fer þá allt að hristast. Ég stekk upp úr sófanum og hleyp að plötuspilaranum og græjunum sem ég var nýbúinn að kaupa, gríp traustataki um þær og held fast meðan skjálftinn ríður yfir. Skeytti engu um konu og sofandi börn. Þetta sýnir auðvitað að ég er asni eða þá að ég kann ekki að bregðast við jarðskjálftum. En græjurnar eru alla vega í góðu standi í dag. Losnaði samt aðeins við hamfarahugsanir í dag er við skruppum til Keflavíkur og hlustuðum á fiðlustelpuna spila á strengjasveitamóti. Það fyllti mann bjartsýni að hlusta á alla þessa krakka strjúka sína strengi. Þarna voru Mózart og Lennon og McCartney ásamt fleiri stórmennum og meira að segja hljómuðu lög úr Kardimommubænum. Ég held að fólki hafi fundist það viðeigandi að spila smá Kardimommubæ. Munið bara að ljónið má ekki verða of svangt. Þá étur það af ykkur tærnar.  

Allt hvítt

Ég fann það á mér að eitthvað myndi gerast þegar ég skaust inn í Nóatún áðan og keypti í matinn. Ég fann að loftið var öðruvísi og Esjan eitthvað svo dimm. Svo sleit úr honum eitt og eitt hvítt korn. Og nú þegar horft er út er allt hvítt. Og ég heyri bíl spóla á götunni. En mér er hlýtt. Því manni hlýnaði við eldmessu Steingríms áðan. Mikið andskoti er gaman að hlusta á svona fljúgandi góðan ræðumann. Annars er maður ekki tilbúinn fyrir snjóinn. Maður er orðinn vanur því að fá fyrsta snjóinn um jól. Ekki er ég skíðamaður svo þetta má bíða. En verum róleg, þetta hverfur skjótt og - missum ekki móðinn eins og Illugi Gunnars segir einmitt núna. En hvað er ég að reyna að skrifa blogg og hlusta á alþingismenn á meðan? Ég hef aldrei getað gert tvo hluti í einu. Ég verð að einbeita mér að einu í einu. Og það var kreppuhugur í mér í vinnunni í dag. Snéri við gömlum kössum og flokkaði verkfæri og skrúfur. Best að vera við öllu búinn. Og lenti í því að ýmislegt leyndist á kistubotninum. Var nýbúinn að fjárfesta í forláta járnsög í vinnunni því auðvitað verður maður að eiga járnsög. Finn ég þá ekki á kistubotninum í dag hvorki meira né minna en fjórar járnsagir. Svo nú á firmað fimm járnsagir. Ég hengdi þær allar upp á vegg til að sýna ríkidæmið. En hvort fjármálamenn Íslands verða eins heppnir eins og ég þegar þeir skrapa kistubotna sína veit maður ekki. Ég get allavega lánað þeim járnsög ef þeir hafa týnt lyklum af hengilásum sparikassanna. En auðvitað er allt í voða. Annars ætlaði ég að skrifa um allt annað. En það er verst að ég man ekki hvað það var.

Beitt er núna bláa Davíðs-saxið

bisnesskóngar hittu sjálfan fjandann.

Best er því að halda fast í faxið 

festa gjörð og biðja' um hjálp að handan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband