Hamfarir - annar hluti

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig hamfaramanninum hefur liðið síðustu viku. Að vísu hef ég ekki getað fylgst nógu vel með fréttum síðustu daga, en það er trúlega bara gott. Því stundum verður maður að hvíla sig á þessum ósköpum til þess að reyna að halda sönsum. Já halda sönsum og passa börnin segja sumir. Ég er kannski ekki mjög góður í því. Ég segi við börnin mín: "Hlustið á fréttir, lesið blöðin og fylgist með þessu, Því þessa tíma eigið þið eftir að rifja upp þegar þið verðið gömul og talið við ykkar barnabörn um skrítna tíma." Annars var ég hrifinn af manninum sem á mig í Silfrinu í dag. Þarna sat hann og horfði beint í augun á þáttastjórnandanum og brá ekki svip og reyndi að svara milli þess sem sprengjurnar dundu á honum. Allt í lausu lofti, sumt farið, annað í straumkastinu og eitthvað horfið í alheimspeningasjóinn, sjóinn sem enginn skilur og er kannski ekki til nema í hausnum á einhverjum sem kunna einhverja frasa sem við svo trúum eins og Fjallræðunni. Ég ætla ekki að líkja mér við þá sem standa í straumkastinu þessa dagana, en ég man eftir því hvernig mér leið þegar ég snemmsumars stóð úti í Horná, hún í flóði og lömbin skullu á mér eins og boltar og ég reyndi að standa af mér strauminn og grípa lömbin og henda þeim til lands eða á grynnra vatn svo þau gætu synt til lands. Svo lenti kannski á manni fullorðin rolla í ullinni, orðin ansi þung og það gat bara farið á einn veg. Maður fór á kaf. En maður kraflaði sig í land og lömb og ær komust á þurrt, en ég man þessi augnabik í straumnum þegar hugsunin var bara að grípa og henda, bjarga lömbum, svo þau gætu lifað eitt sumar í norðlenskum dal. Þannig finnst mér allir standa í straumnum í dag. Það er að vísu ansi misdjúpt á fólki í dag. Sumir sulla berfættir í bæjarlæknum en aðrir lenda í Skaftárhlaupinu. En þjóðin sjálf er að upplifa sitt Kötluhlaup, ekki það Kötluhlaup sem hún hefur beðið eftir síðan 1918, nei eitthvað svo óraunverulegt og ótrúlegt og stundin er svo hröð því það tók eina og hálfa viku að setja landið á hliðina. Og kannski ekki bara á hliðina. Kannski á hvolf. En nú á fólk að tala. Reyna að tala sig til. Tala í sig kjark. Reyna að koma undir sig fótunum á nýjan leik. Byrja að hugsa um nýtt land. Nýjar stefnur. Nýja tíma. Skoða gamla draslið. Henda því gamla sem er ónýtt og eyðilagði svo margt. Til hvers hafa foreldrar okkar, afar og ömmur þrælað alla sína tíð? Fyrir okkur? Til þess að við með okkar andvaraleysi og græðgi látum allt fara til helvítis? Nei gerum forfeðrum okkar ekki þá skömm. ----- Þar hafið þið það kæru lesendur: Þessi pistill er greinilega upphaf á mínum pólitíska ferli! Ég verð samt að gera játningu. Ef ég hefði verið sæmilega múraður þegar ég varð fimmtugur hefði ég ekki hikað við að fá Elton John í afmælið mitt eins og Óli frændi. Mér fannst það flott hjá frænda. P.s. Lesið Pétur Tyrfingsson á Eyjunni, hann er frábær.

Annars varð fiðlustelpan mín 14 ára í dag svo hér voru allir í góðu stuði. Til hamingju með afmælið Sólveig Vaka mín! Svo var ég að vinna á Villa Vill-tónleikunum sem gengu bara vel. Og hér í lokin smá hugleiðing sem varð til í mars sl.

 

Hin nýja Íslandsklukka

 

Það var slegið í klukku í kauphöllinni um daginn.

Gamla kirkjuklukku sögðu þeir í fréttunum,

og það rann upp fyrir mér að nú er loksins

komin í leitirnar klukka sú sem Jón Hreggviðsson

hjó niður á Þingvöllum forðum daga.

Og þó að Laxness segi að Siggi Snorra böðull

hafi brotið klukkuna þar á stéttinni fyrir augum gamla bóndans

úr Bláskógaheiðinni og svarti Jón kveðandi klofvega

á mæninum á meðan held ég að skáldið misminni.

Ég þekkti nefnilega hljóminn úr gömlu Þingvallaklukkunni aftur.

Og það voru fleiri. Því austur við Öxará stóð gömul skálduð Toyota

með útvarpið í gangi. Og ég er ekki frá því að bílstjórinn;

gamall gráhærður maður, nýkominn með Norrænu til landsins,

hafi hugsað sitt, þar sem hann leit á gamla skörðótta exi

sem lá ásamt slitnum kaðalspotta í farþegasætinu.

Og það sló glampa á eggina er sá grái glotti við tönn og tautaði:

„Járnmél bruddu graðhestar.“

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þetta er snilld hjá þér frændi.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.10.2008 kl. 16:32

2 identicon

Takk fyrir að vera frændi minn - og til hamingju með afmælisfrænkuna mína!

Guðrún Harpa (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 21:45

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég vildi að þú værir frændi minn... eða að ég ynni bara ennþá í sama húsi... eða eitthvað.

Þú ert mannbætandi.

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.10.2008 kl. 21:51

4 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Þetta er alger snilldarpistill Eyþór og ég svo heppinn að þú hlýtur eftir öll þess ár að vera næstum því frændi minn.  Ég er algerlega sammála Láru um að þú sért mannbætandi..

Magnús Guðjónsson, 14.10.2008 kl. 14:13

5 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Góður

Heimir Eyvindarson, 14.10.2008 kl. 19:56

6 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir knús og kram... Þið eruð yndi.

Eyþór Árnason, 16.10.2008 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband