Allt hvítt

Ég fann það á mér að eitthvað myndi gerast þegar ég skaust inn í Nóatún áðan og keypti í matinn. Ég fann að loftið var öðruvísi og Esjan eitthvað svo dimm. Svo sleit úr honum eitt og eitt hvítt korn. Og nú þegar horft er út er allt hvítt. Og ég heyri bíl spóla á götunni. En mér er hlýtt. Því manni hlýnaði við eldmessu Steingríms áðan. Mikið andskoti er gaman að hlusta á svona fljúgandi góðan ræðumann. Annars er maður ekki tilbúinn fyrir snjóinn. Maður er orðinn vanur því að fá fyrsta snjóinn um jól. Ekki er ég skíðamaður svo þetta má bíða. En verum róleg, þetta hverfur skjótt og - missum ekki móðinn eins og Illugi Gunnars segir einmitt núna. En hvað er ég að reyna að skrifa blogg og hlusta á alþingismenn á meðan? Ég hef aldrei getað gert tvo hluti í einu. Ég verð að einbeita mér að einu í einu. Og það var kreppuhugur í mér í vinnunni í dag. Snéri við gömlum kössum og flokkaði verkfæri og skrúfur. Best að vera við öllu búinn. Og lenti í því að ýmislegt leyndist á kistubotninum. Var nýbúinn að fjárfesta í forláta járnsög í vinnunni því auðvitað verður maður að eiga járnsög. Finn ég þá ekki á kistubotninum í dag hvorki meira né minna en fjórar járnsagir. Svo nú á firmað fimm járnsagir. Ég hengdi þær allar upp á vegg til að sýna ríkidæmið. En hvort fjármálamenn Íslands verða eins heppnir eins og ég þegar þeir skrapa kistubotna sína veit maður ekki. Ég get allavega lánað þeim járnsög ef þeir hafa týnt lyklum af hengilásum sparikassanna. En auðvitað er allt í voða. Annars ætlaði ég að skrifa um allt annað. En það er verst að ég man ekki hvað það var.

Beitt er núna bláa Davíðs-saxið

bisnesskóngar hittu sjálfan fjandann.

Best er því að halda fast í faxið 

festa gjörð og biðja' um hjálp að handan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svartsýnispúkinn í mér tautar nú fyrir munni sér upprifjaða setningu úr Íslandsklukku Laxness:

 "Guðs miskunn er það fyrsta sem deyr í vondu ári kona góð!" 

Eigðu draumværa nótt.

Árni Gunnarsson, 2.10.2008 kl. 23:49

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Heppinn að eiga kistu með botni! Og gott að vita hvar maður getur fengið lánaða járnsög ef þörf krefur... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.10.2008 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband