5.1.2009 | 23:02
Ljóð fyrir svefninn
Tvennir tímar
Hérna á klöppunum
stóð einhver áður
og lék á harmóniku
í kvöldlogni svo
sorgblíð lög að
konur grétu í
þorpinu handan
vogsins og
harðleitir karlmenn
sugu upp í nefið
Nú leikur brimið
á stórviðarsög
klettanna
og enginn vill
hlusta
Eftir Gyrði Elíasson (úr ljóðabókinni Indíánasumar)
Bloggar | Breytt 6.1.2009 kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2009 | 03:33
Kryddsíld - Bardaginn á Borginni
Formáli
Ég er uppalinn í Skagafirði. Þar logar sagan á hverri þúfu. Manndráp og húsbrennur. Stundum þegar ég var ungur og keyrði út Blönduhlíðina og fór framhjá skilti við veginn sem vísar til fjalls og á stendur Örlygsstaðir sló þessari hugsun ofan í hausinn á mér: Hvernig var þetta? Hvernig var þetta að vakna upp á Miklabæ, heyra ópin handan við Vötnin og sjá flokkinnn koma yfir? Ná ekki vopnum sínum og vera drepinn í gerði upp við Örlygsstaði ef þú hafðir ekki vit á að hlaupa upp í Miðsitjuskarð? Kannski skil ég þessa forfeður mína aðeins betur í dag, því allt í einu lenti ég í stríði. Var í fyrstu frétt á nýársdag á undan fyrsta barni ársins. Já takk! Lenti í stríði? Já ég játa það strax. Ég er barn. Ég hélt að þetta myndi ekki fara svona. Þar sem Örlygsstaðabardagi var ekki tekinn upp á myndband eða disk verður maður að láta söguna duga. Sagt er að söguritari hafi verið í bardaganum. Ég var í bardaganum á Borginni. Ég ætla núna að skrifa söguna eins og hún kom mér fyrir sjónir. Þetta verður ekki frásögn stríðsfréttaritarans heldur frásögn sviðsstjórans sem var inni í húsinu og eðlilega lituð af því.
Morgunninn
Ég vaknaði, fór í sturtu og dreif mig út til að sækja sendibíl með dótinu, áramótaskrauti og alls konar tæknidrasli. Hitti félaga og við lögðum í hann á Borgina. Inn með draslið og byrjað að vinna. Kapphlaup við tímann. Ná að verða tilbúnir. Fór út rétt fyrir hádegið og það var allt eins og það átti að vera. Við í kapphlaupi. Nýárshlaupararnir lagðir af stað. Líka í kapphlaupi. Allt með felldu. Flaggskipið okkar, upptökubíllinn Farsæll RE309, sem er reyndar kafbátur þegar vel er að gáð, var kominn á sinn stað á stéttinni, klukkan í Dómkirkjunni sló. Búið að draga línurnar eða kaplana inn í hús og mynd og hljóð tilbúið í pípunum. Matur og farið yfir planið og rætt aðeins um hvað gæti gerst ef mótmælin sem var vitað af yrðu of hávær og hvað ætti að gera ef reynt yrði að fara inn í húsið. Eða klippt á kaplana. Ég dró það í efa. Ef eitthvað þvílíkt gerist verður hringt á lögguna.
Eftir matinn
Formenn byrja að mæta. Gamli fiðringurinn kemur. Allt að gerast. En ég er ekki viss. Ég er hugsi. Við verðum að loka dyrunum betur þar sem kaplarnir koma inn. Vorum ekki með neitt í höndunum. Ég snara mér aftur fyrir hús og finn þar spýtnabrak, stel mér spýtu og dreg inn á Borgina og bý til þennan fína slagbrand til að hægt sé að binda hurðina aftur. Ekki var þessi spýta mjög burðug og hefði ekki dugað í hrútaspil í sveitinni. Ég áttaði mig ekki á því að ég væri að fara í stríð. Hljómsveit og söngvari mættir. Menn ársins mæta. Allir formenn mættir nema forsætisráðherra. Vissum að hann yrði seinn fyrir. Hljóðprufa og stradivariusinn í stuði. Allir setjast. Hljóðnemar festir. Ég hleyp út og loka hliðinu í portinu. Heyrði hávaða og sá bregða fyrir hettuklæddu fólki. Inn og hurðinni hallað og slagbrandur fyrir og gafferteip fyrir rifuna. (Slagbrandur - öllu má nú nafn gefa.) Og það er talið niður. Kafbáturinn fer niður. Sjónpípurnar uppi.
Kryddsíld
Það var ekki fyrr en þátturinn var farinn í loftið að ég tók eftir hávaðanum. Húsið var barið utan. Kíkti fram í Silfur, það nötraði allt og skalf. Einhver umræða var við kryddsíldarborðið, en ég missti af henni. Fann samt að fólki leið ekki vel. Sendi síldardiskana inn. Þá kom það. Kallið frá drengjunum mínum: "Þeir eru búnir að brjóta upp hurðina. Þeir eru komnir inn." Ég hljóp fram og við mér blöstu opnar dyr og svartir skuggar dansandi í desemberbirtunni. Slagbrandurinn fíni brotinn. Ég hljóp í dyrnar og leit yfir sviðið. Sennilega til að meta stöðuna. Gera menn það ekki í stríði? Og augnabik fannst mér eins og tíminn stæði kyrr. Mér finnst eins og slatti af svörtu fólki hafi verið kominn inn í portið. Einhverjir voru uppi á hliðinu. Aðrir á leiðinni niður. Þetta augnablik þegar allt var kyrrt fannst mér eins og allir horfðu á mig og væru að meta stöðuna. Ég reyndi að meta stöðuna. Ég veit ekkert hvernig ég mat hana. Það var bara eitt í stöðunni: Verja vígið. Komst aldrei annað að eitt augnablik. Og hringja á lögguna. Þeir svörtu mátu stöðuna. Svo lögðu þeir í hann.
Bardaginn
Það er kannski tilgangslaust að lýsa bardaganum. Hann er að mestu til á myndbandi. En það sem ekki sést vel er hvernig manni leið. Inni í sér. Það er best að taka það fram í byrjun að bardagi er kannski ekki rétta orðið. Hnoð, nudd eða stimpingar eru kannski réttari orð. Og hróp og köll. Sennilega rosalegur hávaði. Svolítið eins og í réttum. Stóðréttum. Og þó, þetta var líkara því að kljást við kálfa. Samt leið manni eins og þetta væri stríð. Þarna vorum við í byrjun fjórir drengir. Fjórir litlir hobbitar og móti okkur streymdi her. Her af svörtu andlitslausu fólki. Andlitslausir Orkar. Og það var svo skrítið að ég sagði ekki neitt. Gat ekki sagt neitt. Hafði ekkert að segja við andlitslaust fólk. Orka. Og við tókumst á. Og ég náði einum. Og tók utan um hann. Hélt þéttingsfast. Ætlaði aldrei að sleppa. Hann hnubbaðist á móti eins og lax nýkominn úr neti og sagði lágt: "Slepptu mér, ég er ekki í stríði við þig." Ég tautaði á móti: "Þið farið aldrei hér inn." Og dansinn hélt áfram. Dansinn við andlitslausa drenginn. Þegar hér var komið sögu hafði hobbitunum borist hjálp frá kokkaliðinu og barstúlkurnar voru komnar í slaginn. Barstúlkurnar á Borginni. Glímukappinn hefði orðið stoltur af liðinu sínu. En við máttum undan síga. Þunginn jókst og hrópin hækkuðu. Við vorum að verða undir. Svarta liðið átti bara fimm metra eftir að hurðinni inn í Gyllta salinn. Þangað sem förinni var greinilega heitið. Ég fann að nú leið að úrslitastund. Ég er enginn Aragon með álfasverð eða Legolas með margar örvar á lofti í einu, bara lítill hobbiti eins og hinir drengirnir mínir sem ég vissi ekki hvernig leið. Sá svona útundan mér að þeir voru enn á fótum og gáfu allt. En þótt ég fyndi að úrslitastundin nálgaðist vissi ég ekki hvað gera skyldi. Fann bara að ég yrði að standa á fótunum og berjast, verja salinn, verja fólkið sem mér var trúað fyrir. Og mér finnst að ef þessi óundirbúna orusta hefði staðið aðeins lengur þá hefði kannski eitthvað gerst sem maður vill helst ekki hugsa um. Eitt finn ég. Ég hefði barist. Meðan ég hefði staðið í fæturna. En allan þennan tíma og ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, ég tala bara út frá mér og það er kannski nokkuð merkilegt. Mér fannst þetta heiðarlegur bardagi. Undarlega drengilegur. Þeir andlitslausu ætluðu inn. Við ætluðum ekki að hleypa þeim. Og það var aldrei talað um það okkar á milli. Föruneytið skipulagði ekki vörnina. Hún bara varð eins og hjá ungum drengjum í fótbolta. Og eins með Orkana. Þeir sigu á okkur hægt og bítandi. Samt eins og þeir væru ekki alveg vissir hvert þeir væru að fara. Kannski þekktu þeir okkur. Kannski kunnu þeir ekki við að taka á okkur. Og hvað með mig? Ég veit ekki hvern ég var með í fanginu, ég veit ekki hverjum ég var að hrinda. Kannski voru þetta frændur mínir, tengdasonur minn, drengir sem ég hef málað með leikmyndir eða maðurinn í næsta stigagangi. Ég gat ekkert sagt. Ég tala ekki við andlitslaust fólk. En eins og í bíómyndunum þegar vonin er að bresta heyrðist hljóð á hæðinni. Allir litu upp og löggan streymdi niður dalinn. Og þá var eins og allt færi í fastar skorður. Varnarliðið ósamstæða forðaði sér bak við lögguvegginn og það var eins og Orkunum létti. Nú kunnu þeir leikinn. Það var eins og alda færi um hópinn, þeir settust niður og byrjuðu að syngja og biðu. Biðu eftir gasinu. Eins og lömb biðu eftir að vera mörkuð. Eða brennimerkt. Biðu með stolti eftir gasinu. Og þar með hljóp ég frá vígvellinum. Ósærður. Og inn í gyllta sal. Mundi að þar var Kryddsíld í gangi.
Gyllti salurinn
Ég fór að smala hljómsveitinni og óperusöngvaranum. Þeir höfðu fundið sér var og voru í sæmilegu ástandi. Ég rak þá á sína staði og leit yfir salinn. Spurnarsvipurinn skein úr andlitunum. Formennirnir reyndu að halda andlitinu en óskuðu sér örugglega langt í burt. Handan við vegginn stóð löggan og innrásarliðið. Og hávaðinn, lætin, reykur og brunabjöllur. Þetta átti Nýi kvartettinn að kljást við. Og þeir byrjuðu að spila. Ave María eftir Kaldalóns, svo undurblítt. Maður hélt kannski að það myndi hrífa og allir myndu leggjast niður og hlusta. Hlusta á Kaldalóns. Og þá fann ég það. Titanic var að sökkva. En kannski vissu það ekki allir. En ég fann að hljómsveitin vissi það. Fiðluleikarinn leit oft til dyra, viðbúinn með straddann. Píanóleikarinn sökk í píanóið og sellóleikarinn hélt í strengina. Söngvarinn stóð kyrr með Kaldalóns í fanginu og brunabjölluna í eyrunum. Næst þegar ég heyri þetta lag mun ég muna þegar ég sökk. Því þegar laginu var að ljúka var kippt fast í einn kapalinn, myndavélakapalinn. Og það var tekið fast. Þetta var ekki kálfur, þetta var líkara dráttarklár. Og maður kastaði sér á kapalinn. Og það komu fleiri. En það tók fljótt af. Myndavél 3 hvarf úr loftinu. Maður fann að þetta fór að styttast. Titanic var farið að hallast. Og hrópin héldu áfram úti og inni og í samskiptakerfi kafbátsins Farsæls og gylltu síldarskútunnar Titanic. Maður heyrði: Vél 1 farin! Vél 4 farin! Vél 5 farin! Ég á bara eina vél! Svo var þögn í heyrnartólinu. Þá vissi maður að þetta var búið. Tilraun til Kryddsíldar 2008 var lokið. Sjónpípurnar voru brunnar. Hljóðtaugin var brunnin. Farsæll RE 309 kafaði í djúpið.
Hvað svo?
Einhver mundi eftir mönnum ársins. Silfurmönnum tveimur sem hírðust úti í horni ásamt einum löggumanni og tveimur handjárnuðum innrásarmönnum. Þeir báru sig vel. Enda spilað haldbolta í útlöndum og komið heim með pening. (Ég fattaði bara ekki að lokka þá með í vörnina í bardaganum. Þeir hefðu örugglega verið betri en enginn.) Þeir voru drifnir inn, fengu blóm og diplóma. Formönnunum var hjálpað að grafa upp yfirhafnir sínar og töskur og fengu lögreglufylgd að bílum sínum. Við settumst niður og sleiktum sárin. Stríðið geisaði áfram úti. Við byrjum að taka saman. Við kunnum það.
Húmar hægt að kvöldi
Já lentir þú í stríði? Varst þú í slagnum? Er þetta ofstopamaðurinn? Já ég lenti í stríði. Stríði sem ég hafði ekki búið mig undir. Ekki tilbúinn með vopnin. Skildirnir enn bundnir saman eins og í Skagafirði forðum. Já ég er í stríði við andlitslaust fólk. Og ég er líka í stríði við það fólk sem stendur með innbrotsliðinu. Fólkið á Austurvellinum sem hvatti til dáða. Það fór yfir mína línu. En það er allt í lagi. Það fólk hefur andlit. Ég get rifist við það. Ég get farið með því á kaffihús. Ég get hlustað á það og kannski verið sammála því um stóra stríðið. Því við litlu hobbitarnir erum ekki með hringinn. Við erum sennilega að leita eins og allir aðrir að hinum illa hring. Og ef hann finnst - hvað þá? Gollrir býr í oss öllum. En á Miklabæ voru menn höggnir forðum daga. Og ortu kvæði sem halda nafni þeirra á lofti meðan land byggist. Ég er ekki svo mikill bógur. En meðan ég er í þessu starfi sem ég er í, sviðsstjóri í sjónvarpi, mun ég halda áfram. Þetta er ekki flókið. Ég er sviðsstjórinn. Ég ræð hver kemur í sett. En kannski ræð ég ekki við drauga.
1.1.2009 | 21:42
Gleðilegt ár
Jæja, 2009 er komið. Hvað skal segja? Jú auðvitað gleðilegt ár og takk fyrir þau gömlu. Næsti mánuður fer í að læra nýtt ártal. Nýársdagsmorgunn heilsaði með rigningu, en ég reif mig á fætur og brunaði í Dómkirkjuna og hlustaði á biskupinn og tók undir í þjóðsöngnum. Það er gott að sitja í kirkjunni og hugsa sitt ráð. Eftir atburði gærdagsins ekki síst. Kannski var maður bara eins og Sturla forðum sem var leiddur milli allra höfuðkirkna í Róm. Og fólk hafði á orði hversu hörmulega hann var leikinn sá fríði maður. En það var gott veganesti fyrir gærdaginn að vera búinn að horfa á Lord of the Rings, allar þrjár myndirnar, um jólin (þó sú þriðja bara taki jafnlangan tíma og að keyra til Skagafjarðar) og lesa Ofsa eftir Einar Kárason og glugga í Sturlungu. Þá kemur Ásbirningurinn upp í manni. Kannski ekki til í að drepa mann og annan. En tilbúinn að verja vígi sitt, með kjafti og klóm. En þetta blogg átti nú ekki að vera nein herhvöt, bara smá nýárskveðjur til ykkar allra og láta vita að ég sé bara nokkuð góður þrátt fyrir slaginn. Svo var líka Tommi Tomm að syngja fyrir mig Jón var kræfur karl og hraustur svo það er ekki annað hægt en vera nokkuð brattur. Svo er bara að sofa aðeins, vakna svo og reyna að horfa framan í þetta nýja ár sem rignir yfir mann og mun færa okkur vetur, vor og sumar með nýjum silungi.
Ég drukkið hef kaffi með korg
og kátur hef setið við dorg.
Nú kaffið er kalt
gengið er valt
og svo var ég barinn á Borg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.12.2008 | 15:02
Gleðileg jól
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2008 | 23:41
Töffarastrengur
Nú er slitinn strengur. Töffarastrengur. Man einn morgun í bítið - Ísland í bítið og bítlastrákurinn frá Keflavík mættur með hjartagítarinn í spjall og spil - hlýr og glaður að vanda. Notar tímann, stillir. Bassatöffarinn stillir - stillir í bítið. Svo slitnar strengur. H-strengurinn slitnar á örlagastundu. Vont að spila á fimm strengi svona snemma dags. Gramsað í gítartöskunni og upp kemur strengur en það er kallað: ,,5, 4, Rúnar í sett! 3, 2, 1." Kappinn stekkur inn. Ég set streng í - spjallið rúllar: ,,Þú ert örvhentur Rúnar." ,,Nei það var Paul." Tíminn flýgur, Golli stillir, spjallið búið. ,,Eigum við ekki að fá eitt lag að lokum." Og það er stuð í bítið og gítar undir. Sex strengja hjartagítar... Slitinn er strengur. Hjartastrengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2008 | 17:37
Von
Það mætti halda að eftir síðustu færslu hefði ég horfið til Spánar með Guðna og setið þar að sumbli á Klörubar í góðu yfirlæti. Svo er nú ekki. Maður hefur reynt að baksa þetta svona hér uppi á þessu landi sem er svo kalt að gítarar afstilla sig stöðugt, enda uppaldir í heitu löndunum eins og Egill Ólafsson segir. En ég er búinn að horfa á tónleikadiskinn með Þursaflokknum. Og þvílík snilld. Ég er algjörlega heillaður. Þarna í Laugardalshöllinni á þorra hefur verið framinn galdur sem gott er að sækja í þegar hörmungarnar hellast yfir. Maður fyllist von. Og svo fórum við konan í Norræna húsið á fimmtudaginn og hlustuðum í baðstofustemningu á Valgeir og Egil spila og syngja nokkra gamla slagara. Þessum tónleikum verður útvarpað á nýársdag. Hvet ykkur til að hlusta (ef þið fílið þessa kalla). Og vonin var enn glaðvakandi er ég keyrði Sæbrautina í dag. Á aðra hönd voru að vísu tómar Wall Street-hallir, en handan við flóann voru Akrafjall og Skarðsheiði staðföst eins og alltaf. Og Esjan var ótrúlega lítið sjúkleg þar sem hún liggur eins og sofandi hundur. Það er svo gott að eiga fjall sem passar mann. Passar mann eins og tryggur hundur. Og svo renndi stórt skip drekkhlaðið af gámum inn sundin. Kannski ekki alveg drekkhlaðið en það voru margir gámar fullir af hafragrjónum, hveiti, kornflexi og sykri og svo fann ég á lyktinni að kaffi var með í för. Og vonandi smá viskílögg. Annars fór ég í tvö partí í gærkveldi. Og fór létt með. Svo var kvenpeningurinn að koma heim með kaldar tær frá því að kveikja á jólatrénu á Austurvelli. Mér skilst að Grýla hafi verið flott. En gúllasið mallar í pottinum og svo skreppur maður á eftir í Dómkirkjuna og fær aðventusprautu. Það er von... ,,Sæmundur Klemensson ei deyr."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.11.2008 | 13:06
Á Kambabrún
Sárt var leikinn sólarlags um bil
hann Sámur gamli - drekkum fast hans minni.
Nú siglir Goðinn sólarlanda til
og Suðurland er höfuðlaust að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.11.2008 | 23:49
Ég er gæs
Ég er gæs. Aligæs. Búinn að standa með trektina í trantinum og taka við stöffinu sem troðið hefur verið í mann undanfarið. Og nú er komið að því að ná í lifrina. Henni verður pakkað í áldósir (takk fyrir álið) og send til ríku landanna þar sem gúrme-liðið mun gæða sér á mér. Hluta af mér. (Lifrin er nefnilega aðallífærið sagði vinur minn eitt sinn. Afgangurinn af skrokknum er til að þjóna lifrinni.) Þessi vinur minn hafði rétt fyrir sér. Og ég er tilbúinn. Stöffaður upp í háls og bíð. Ég er gæs. Hamfaragassi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.11.2008 | 22:31
Hamfarir - fimmti hluti
Ég veit nú ekki hvort þetta er réttur titill á þessari bloggfærslu, en það er gott að byrja með þetta því þetta er hvort sem er yfir hausnum á okkur hvort sem manni líkar betur eða verr. Annars er gott að lesa dr. Gunna á baksíðu Fréttablaðsins í dag þar sem hann segist ekki nenna að vera reiður endalaust. Og ég hef ekki verið reiður í nokkra daga. Maður ætti auðvitað að vera bálreiður alla daga en mér hefur reynst það erfitt um ævina að vera reiður mjög lengi í einu. Og svo er þetta við hvern maður á að vera reiður. Eins og ég sagði í færslu fyrir nokkru tel ég mig vera hamfaramann í þeirri merkingu að hafa mikla þörf fyrir að fylgjast með hamförum. Og ég er að því þessa dagana. Er að gera vinnufélaga mína vitlausa með þessum mikla áhuga á ástandinu. Mér finnst eins og ég þurfi að drekka þetta allt í mig. Kannski svo ég geti sagt seinna: Ég var þarna þegar Ísland hrundi. En auðvitað er maður eins og þegar gaus í Heimaey og Sjónvarpið sendi gosið út í staðinn fyrir stillimyndina. Maður sat í stofunni heima og horfði á gamla svart-hvíta Blaupunkt-sjónvarpið senda gosstrókana í loft upp, sat og horfði og fannst ekki mikið gerast, en hraunið hækkaði og askan hækkaði og lánið af Skódanum hækkar og lán vina minna hækka og ég sit og horfi á stóra flatskjáinn (!?) minn og trúi öllum og safna í hamfarabankann. Og skil ekki neitt. Hvað gerðist eiginlega? Hvernig fór þetta svona? Og svo þegar ég ætla að byrja að semja framboðsræður þá enda ég bara á að reyna að berja saman vísu. Maður er greinilega ekki gott efni í pólitíkus... En þarna í Eyjum náðu þeir í dælur og sprautuðu á hraunið dag og nótt. Hvort það bjargaði höfninni veit ég ekki, en ég vona að menn séu núna að tengja dælurnar í þessum hamförum. Það sést a.m.k. mikil buna ennþá.
Ég veit að vísu ekki hvort það flokkast undir hamfarir að Bjarni Harðarson bloggvinur minn sagði af sér þingmennsku. En ég sakna Bjarna af þingi. Hann er sveitamaður eins og ég tel mig vera líka á góðum degi. Enda þykir mér líka sérstaklega vænt um Tungnamenn. Bæði eru þetta nágrannar mínir hinum megin við Kjöl (það er eins og ég sé enn fyrir norðan) og svo hef ég dvalið þar við leik og störf. En auðvitað kom kvikindið upp í manni:
Biskupstungna-Bjarni er
bögusmiðum mikils virði:
Áframsendi úlfaher
ástarbréf úr Skagafirði.
... Og svo koma í lokin hamfarastökur sem hafa truflað mig við uppvaskið:
Óskastundin yfirgaf
æskublundinn sæta
siglir lundin senn í kaf
sárir hundar þræta
Dalakofa drengir sjá
draumaofninn hrynja
hlusta dofnir hjartað á
hnígur klofin brynja
Kveður svarta krummagrey
kalin hjarta ljóðin
lýsið bjarta logar ei
lánum skartar þjóðin
Krepputöngin klípur mig
kaldur söngur hljómar
lánaþröngin lamar þig
Líkaböngin ómar.
Ja hvur fjandinn. Þetta er nú ljóti harmagráturinn. Maður ætti að reyna að setja saman eitthvað hressandi heldur en þennan fjanda. Ég skal reyna að rífa mig upp á r...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)