Hamfarir - fimmti hluti

Ég veit nú ekki hvort þetta er réttur titill á þessari bloggfærslu, en það er gott að byrja með þetta því þetta er hvort sem er yfir hausnum á okkur hvort sem manni líkar betur eða verr. Annars er gott að lesa dr. Gunna á baksíðu Fréttablaðsins í dag þar sem hann segist ekki nenna að vera reiður endalaust. Og ég hef ekki verið reiður í nokkra daga. Maður ætti auðvitað að vera bálreiður alla daga en mér hefur reynst það erfitt um ævina að vera reiður mjög lengi í einu. Og svo er þetta við hvern maður á að vera reiður. Eins og ég sagði í færslu fyrir nokkru tel ég mig vera hamfaramann í þeirri merkingu að hafa mikla þörf fyrir að fylgjast með hamförum. Og ég er að því þessa dagana. Er að gera vinnufélaga mína vitlausa með þessum mikla áhuga á ástandinu. Mér finnst eins og ég þurfi að drekka þetta allt í mig. Kannski svo ég geti sagt seinna: Ég var þarna þegar Ísland hrundi. En auðvitað er maður eins og þegar gaus í Heimaey og Sjónvarpið sendi gosið út í staðinn fyrir stillimyndina. Maður sat í stofunni heima og horfði á gamla svart-hvíta Blaupunkt-sjónvarpið senda gosstrókana í loft upp, sat og horfði og fannst ekki mikið gerast, en hraunið hækkaði og askan hækkaði og lánið af Skódanum hækkar og lán vina minna hækka og ég sit og horfi á stóra flatskjáinn (!?) minn og trúi öllum og safna í hamfarabankann. Og skil ekki neitt. Hvað gerðist eiginlega? Hvernig fór þetta svona? Og svo þegar ég ætla að byrja að semja framboðsræður þá enda ég bara á að reyna að berja saman vísu. Maður er greinilega ekki gott efni í pólitíkus... En þarna í Eyjum náðu þeir í dælur og sprautuðu á hraunið dag og nótt. Hvort það bjargaði höfninni veit ég ekki, en ég vona að menn séu núna að tengja dælurnar í þessum hamförum. Það sést a.m.k. mikil buna ennþá.

Ég veit að vísu ekki hvort það flokkast undir hamfarir að Bjarni Harðarson bloggvinur minn sagði af sér þingmennsku. En ég sakna Bjarna af þingi. Hann er sveitamaður eins og ég tel mig vera líka á góðum degi. Enda þykir mér líka sérstaklega vænt um Tungnamenn. Bæði eru þetta nágrannar mínir hinum megin við Kjöl (það er eins og ég sé enn fyrir norðan) og svo hef ég dvalið þar við leik og störf. En auðvitað kom kvikindið upp í manni:

Biskupstungna-Bjarni er 

bögusmiðum mikils virði:

Áframsendi úlfaher

ástarbréf úr Skagafirði.

... Og svo koma í lokin hamfarastökur sem hafa truflað mig við uppvaskið:

Óskastundin yfirgaf

æskublundinn sæta

siglir lundin senn í kaf

sárir hundar þræta

 

Dalakofa drengir sjá 

draumaofninn hrynja

hlusta dofnir hjartað á 

hnígur klofin brynja

 

Kveður svarta krummagrey

kalin hjarta ljóðin

lýsið bjarta logar ei

lánum skartar þjóðin

 

Krepputöngin klípur mig 

kaldur söngur hljómar

lánaþröngin lamar þig 

Líkaböngin ómar.

 

Ja hvur fjandinn. Þetta er nú ljóti harmagráturinn. Maður ætti að reyna að setja saman eitthvað hressandi heldur en þennan fjanda. Ég skal reyna að rífa mig upp á r...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Veistu það ljúfur að þú ert einn besti hagyrðingur þessarar þjóðar. Það eflir manni móð að vita af svona perlum eins og þér.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.11.2008 kl. 13:44

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Æi frændi, ég vissi að þú værir flottur en þú ert flottari en ég hét.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.11.2008 kl. 01:29

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir innlitið elskurnar og takk fyrir kommentin. Nú er best að hætta að yrkja!

Eyþór Árnason, 15.11.2008 kl. 23:51

4 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Nei, endilega ekki hætta. Það er of mikill skaði að við hættum báðir! En ég kannast við þetta með uppvask og yrkingar....

Hallmundur Kristinsson, 16.11.2008 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband