Söngur

Ég hef hugsað um það undanfarið hvað sé okkur til bjargar. Hvað sé okkur til bjargar upp úr því botnlausa feni sem við berjumst nú í. Og ég hugsa og hugsa, en það gengur illa því ég hugsa svo hægt og skil svo lítið. Svo má maður ekkert vera að því að hugsa því maður er alltaf að hlusta á fréttir, lesa blöðin, hlusta á allskonar spekinga og maður verður bara ruglaðri og vitlausari eftir því sem meira fer inn í hausinn á manni. Maður hlustar opinmynntur á Sigga Einars og Silfur Egils og svo allt hitt. Keyrði meira að segja framhjá Austurvelli á leið í ísbíltúr þegar eggjakastið stóð sem hæst í gær. Kannski maður mæti næsta laugardag á Austurvöllinn. En ég óttast að næst verði það eitthvað þyngra en egg og jógúrt sem fær að fljúga í Alþingishúsið. En þetta átti ekki að vera hamfarablogg, bara svona smá formáli eða upptaktur að lagi dagsins. Því söngurinn bjargar. Stundum syngur maður sjálfur. Syngur fyrir sig og syngur sig í svefn. Maður söng fyrir börnin sín þegar þau voru lítil og ætlaði að kenna þeim öll ættjarðarlögin og allar söngbækurnar, en varð of seinn eða latur. Svo var alltaf eitthvað í sjónvarpinu eða kannski fannst börnunum þetta ekki skemmtileg lög. En nú er ég að lenda á rangri braut, því ég ætlaði ekki að tala um sönguppeldi ungdómsins. Ekki núna. Ég ætlaði bara að segja að ég fór og hlustaði á konu mína syngja með mínum heittelskaða Dómkór niðri í Dómkirkju í dag. Þarna sungu líka Bergþór Páls og Stúlknakór Kársness og Marteinn og Tóta stjórnuðu öllu saman. Og þetta var svo fallegt. Ég varð svo meyr og eiginlega bara uppnuminn. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem þessi kór kemur tilfinningalífi mínu í uppnám. En það er svo gott að láta syngja sig út úr heiminum. Og finna að galdurinn er staðreynd. Og þau sungu: "Við skulum þreyja þorrann og hana góu..." Svo þarna gekk ég hremmingarlaus út í norðangarrann á Austurvellinum og inn í bílinn sem stóð ósektaður á reykspólaðri gangstéttinni fyrir framan Alþingishúsið. Kom svo í búð á eftir og viti menn; þar hljómaði eitt af uppáhaldslögum mínum úr afþreyingarmaskínu auðvaldsins. Maður er að vísu ekki alltaf í stuði í búðum til að hlusta á Bubba Morthens syngja Rómeó og Júlíu yfir gulrótunum. En þarna hljómaði gamalt Moody Blues-lag eins og lítil smákaka eftir veisluna í Dómkirkjunni í dag. Og svo sem ég sit hér og skrifa hringir vinur minn og syngur fyrir mig í símann lag sem hann var að semja! Já það er eitthvað að gerast. Látum fólkið syngja. Ég skal kenna ykkur ,,Undir bláhimni..." Takk fyrir daginn Dómkór.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Það er svo róandi að hlusta á góðan samstilltan kór. - Að ég tali nú ekki um karlakór. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 10.11.2008 kl. 21:12

2 identicon

Auðvitað áttu að mæta á Austurvöll á laugardögum Eyþór minn.

Auðvitað!

Imba (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband