Færsluflokkur: Bloggar
6.9.2007 | 22:59
Kasetta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.9.2007 | 00:11
Frystikista
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.9.2007 | 00:49
Grjót
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.8.2007 | 22:57
Silungar, seinni hluti
Fyrri hluti silunganna endaði ofaní potti með sjóðandi vatni og svo borðaði maður silung með nýjum kartöflum og bræddu smjöri og allt var gott. Það var samt merkilegt að þegar þessi dásamlegi norðlenski silungur var kominn upp á disk hér sunnan heiða var eins og vantaði eitthvað, eitthvað örlítið, eitthvað sem enginn tók eftir nema kannski ég. Eg lagðist í rannsóknir. Hvað var þetta? Er sunnlenska vatnið úr Gvendarbrunnunum ekki nógu gott til að sjóða í? Notaði ég vitlausa potta? Saltaði ég of mikið? og svo framvegis. Ég ræddi þetta við fólk og allir sögðu að ég væri klikkaður. Nema kannski Anna systir sem styður mig oft í svona málum. En loksins hitti ég mann sem skildi mig. Eg spurði Sigga Hall hvort þetta gæti verið að töfrar silungsins dofnuðu við það að vera étinn í öðrum sýslum. Hann skildi mig strax og sagði að þetta væri alveg rétt, því hér fyrir sunnan vantaði angan umhverfisins sem ég og silungarnir væru aldir upp við. Og þá "fattaði ég djókinn" og sá að silungurinn blífur. En aðeins að veiðiskap aftur. Það kemur glampi í augun á karli föður mínum er hann minnist þeirra dýrðartíma þegar mátti draga fyrir. Þá fóru þeir Jóhann á Kúskerpi einu sinni í viku og drógu fyrir í landi Uppsala og Kúskerpis. Þetta var auðvitað mjög mannúðleg veiðiaðferð, bara hesturinn út í hylinn og gjarnan á hrokasund, svo bugað upp á eyri og kviss, bang, fiskarnir á land og rotaðir. Það var í þá daga. Og fjörið þegar þeir fengu stóru laxana, þá var víst handagangur í öskjunni enda ekkert grín að takast á við nokkra óþreytta "fermingardrengi" í einu. En eins og ég sagði áðan; silungurinn blífur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.8.2007 | 00:18
Mótmæli
Var að enda við að horfa á skemmtilega heimildarmynd í sjónvarpinu um popp og pólitík. Í myndinni voru viðtöl við allskonar skemmtilegt fólk, fólk sem hafði sungið og stungið í steininn fyrir vikið og fólk sem hafði breytt heiminum. Og ég mundi eftir því sem maður gleymir stundum hvað popptónlist getur haft mikil áhrif. Og lika hvað hann er oft átakanlega vondur þessi heimur. Svo ég stóð upp úr sófanum og sagði jess ég ætla að mótmæla, en var ekki viss hverju og mundi fljótt að ég er mjög lélegur mótmælandi. Skil raunar ekkert í því vegna þess að stundum finnst mér ég hafa mjög ríka réttlætiskennd. Ég er kannnski svona latur og líka friðarins maður og þó ég nái að æsa mig í sófanum þá nær það ekki niður stigann og út á götu, hvað á niður á torg. En nú þarf maður ekkert torg, maður hefur bloggið. Sjálft alheimstorgið. Þetta var ég bara að fatta núna! Svo nú mega allir óþverrar heimsins vara sig! Ég hef að vísu tekið þátt í einum mótmælum. Þegar við mótmæltum fjölmiðlafrumvarpinu forðum daga með fundi niðri á Austurvelli og lögðum banana á tröppur Alþingishússins. En það var svo skrítið að eftir á fannst mér þetta hálf asnalegt að leggja banana á tröppur. Hefði ekki verið nær að borða þessa banana. Ég veit ekki. Kannski er maður bara skoðanaleysingi sem kann ekki að mótmæla. En tónlistin lifir og vonandi halda menn áfram að semja söngva sem hrista upp í öllu og hvetja menn til dáða. Og svona í lokin; hlustið á Eivöru syngja lagið um systur sínar þær Elísabetu og Elínborgu. Það er einstök sál í því lagi. Svo styttist í silunga seinni hluta...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2007 | 01:49
Laugardagskvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2007 | 23:58
Silungar, fyrri hluti
Hér um daginn minntist ég á silung úr Héraðsvötnum og Ingólfur frændi spurði strax hvað væri merkilegt við þá enda hann sjálfur alinn upp við Mývatnssilung, sem er til siðs að bera á borð fyrir kóngafólk. Ekki veit ég hvort kóngafólki hefur verið boðinn silungur úr Héraðsvötnum en það ætti auðvitað að gera. Ég er frá Uppsölum í Blönduhlíð sem er innarlega í Skagafirði og fyrir neðan renna Héraðsvötn um eyrarnar. Stundum háttaði þannig til að Norðuráin náði að renna út til okkar og þá fengum við ármót þar sem blátær Norðuráin blandaðist grugginu í Vötnunum. Ef að rigndi eða ekki var hægt að vera í heyi þá hljóp maður stundum með stöng niðureftir og kastaði í Norðurána. Silungurinn í Vötnunum og Norðuránni sem nú er til umræðu er sjógenginn fallegur fiskur, og talaði maður oftast um bleikju. Ekki var nú hægt að treysta á stöngina við veiðiskapinn svo við veiddum í lagnet sem var vitjað um kvölds og morgna. Ef netið var í Vötnunum var fiskurinn spegilgljáandi en þegar hann kom upp í Norðurána var hann býsna fljótur að roðna á kviðnum. Það var oftast ekki fyrr en síðustu vikuna í júlí sem fór að veiðast hjá okkur. Maður fylgdist með á næstu bæjum hvort þeir væru byrjaðir að leggja og svo þegar Jóhann á Kúskerpi fór að verða var, þá var manni ekki til setunnar boðið. Ágúst var svo aðalveiðitíminn já og stundum töluvert fram í september. Og svo komu laxar, þá var maður rogginn. Stórir laxar voru reyktir og ég man enn bragðið af laxabrauðinu að morgni gangnasunnnudags. Þriggja til fjögurra punda laxar voru soðnir til háðtíðarbrigða, en ég held að flestum hafi þótt bleikjan betri. Og þar kemur það. Þessi umræddi silungur er einstakur á bragðið. Ég kann að vísu ekki að lýsa bragði, en það segir sína sögu að ef þú ert alinn upp á Héraðsvatnasilungi lætur þú ekki bjóða þér hvað sem er. Maður fékk hann í hádegismat stundum alla virka daga og steiktan um helgar og kannski silungasúpu ef maður var heppinn. Já vel á minnst, silungasúpa, það var algjör snilld. Á kvöldin var svo ,,ruslið" borðað. En það er silungshausar, hrogn, svil og lifur og einstaka laxhaus flaut stundum með. Frábært með heitum kartöflum. Það þótti manndómsmerki að stinga upp í sig einum silungshaus og éta hann allan og skilja ekkert eftir! En það var misjafnt hvað þessi sælutími varði lengi. Veiðin var misjöfn frá ári til árs. En það er einhvern veginn þannig í dag að ég man betur góðu árin. Eftir að ég kom til borgarinnar fékk ég (og fæ enn) stundum sendingar að norðan. Maður mætti spenntur niður á BSÍ og beið eftir Norðurleið. Vokkaði svo yfir bílstjóranum sem fann á endanum nettan kassa krossbundinn með baggabandi. Maður var snöggur heim, opnaði kassann og þar lágu vandlega pakkaðir inn í arfa, já venjulegan haugarfa, fjórir silfurgljáandi silungar og poki með kartöflum var til hliðar. Og nú er mál til komið að setja vatn í pott ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.8.2007 | 14:29
Hanus
Fyrir mörgum árum eignaðist ég nokkrar færeyskar plötur. Umslagið á einni var nokkuð sérkennilegt og hét platan "Gaman og álvara" og undir stóð Hanus syngur Poul F. og kom út 1988. Platan var sett á og síðan hef ég ekki verið samur maður. Þarna spilar og syngur svarthærður maður fyrir mann lög og ljóð sem ég einhvern veginn var alltaf að bíða eftir að heyra. Og hver er Hanus? Hanus G. Johanson söngvaskáld er fæddur í Klakksvík 18.6. 1950 og eins og stendur utan á áðurnefndu plötuumslagi; "það þekkja allir Hanus í Færeyjum"! Hvað gerist svo á "kolblárri menningarnótt". Ég les það í smáa letrinu í Mogganum að einhverjir Fæeyingar skemmti í Ráðhúsinu. Gaman, hugsa ég og les lengra og hrekk við. Ég sé nafnið Hanus. Ég finn hvernig gleðin grípur mig. Hanus kemur. Og menningarnótt rennur upp. Hleyp 3 km í skemmtiskokkinu ásamt yngri dóttur minni og við fáum pening. Upp í Hallgrímskirkju og hlusta á konu mína syngja ásamt dásamlegum Dómkór. Svo humarsúpa á Lækjarbrekku úti og undir teppi! Og svo var lent í Ráðhúsinu og þar á sviðinu var Hanus í rauðköflóttu skyrtunni sinni sem er nákvæmlega eins og mín sem ég er alltaf í. Já þarf að segja meira. Hanus er að vísu ekki svartur lengur, hann er orðinn ansi gráhærður, en allt annað var til staðar. Hann náði að galdra fyrir mann þann galdur sem einn maður getur gert með rödd og gítar. Svo var allt búið. Augnablik dagsins var slegið... Takk fyrir komuna Hanus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2007 | 10:05
Kominn heim
Síðastliðinn hálfan mánuð hefur fjölskyldan dvalið við hafið bláa miðjarðar eins og skáldið sagði og sinnt sólböðum og strandlífi eins og þar er siður. Það er kannski ofsagt að ég hafi bakað mig til skaða, því mér líður best í skugganum og rek tærnar aðeins út í sólina til að vera viss um að þetta sé nú satt að veröldin geti verið svona notaleg. Var annars duglegur við bóklestur. Byrjaði á Ævari Erni; Svörtum englum, síðan Góði dátinn Svejk, svo Óvinafagnaður eftir Einar Kára. bók sem allir ættu að lesa, þá hringlaði ég hingað og þangað í Gerplu og á leiðinni í vélinni heim hálfan Svartfugl eftir Gunnar G. Ég veit ekki hvort þessi listi segir eitthvað um mann en nokkur voru manndrápin að minnsta kosti. Og margt líka fallega sagt. Eins og þegar Svarthöfði í Óvinafagnaði segir eftir Flóabardaga: ,,Við höfðum allt grjótið..." Þetta er eitthvað svo óviðjananlega fallegt og segir allt. En þegar hugurinn hreinsaðist af mannvígum og hetjuskap þá var spilað, hlaupið í sjóinn og reynt á matargerðarlist Mallorkabúa. Ég lærði að spila ný spil og leggja kapla sem ég kunni ekki áður svo ég þurfti að reyna á mig. Og nú veit ég að ólympíuleikarnir verða í Peking að ári. Að vísu var á stefnuskránni að kenna afkvæmunum almennilega nokkra sígilda söngva eins og ,,Kvöldið er fagurt" o.s.frv. svo hægt væri að láta vaða glannalega á ættarmótum og þorrablótum. En það varð útundan. Svona er lífið, þrjátíu stiga hiti í gær, síðan næturkulið og undarleg birta af nýjum degi sem ber norðanátt yfir flóann og maður man allt í einu, já akkúrat svona er þetta. En sögur af silungum úr Héraðsvötnum fara að koma því nú er nóttin öll að braggast og þá ganga silungarnir...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.7.2007 | 01:24
Himinninn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)