Færsluflokkur: Bloggar

Hesturinn sem hvarf

Eg hef aldrei skilið hesta. Er þó uppalinn í Skagafirði. Hefur þetta stundum háð mér í samskiptum við fólk hér sunnan heiða að þegar talið berst að uppruna mínum og þegar það kemur í ljós að ég kann ekkert á hesta dofnar oft áhugi viðmælenda minna. Eins og það hafi keypt köttinn í sekknum að tala við Skagfirðing sem kann ekki á hross (fyrir norðan vita þetta allir). En mér þykir vænt um hesta og oft saknað þess að vera ekki í hópi þeirra sem kunna að meðhöndla hross. Í göngum í Silfrastaðaafrétt fyrir viku gerðist það sem menn rekur ekki minni til að hafi gerst áður, að tygjaður reiðhestur stökk frá öðrum hestum og mönnum og lagði á fjall og hefur ekki fundist enn. Það hefur verið flogið yfir svæðið með þekktum flugkappa sem þræddi þarna alla dali og líklegar slóðir verið gengnar en ekkert fundist. Það hefur að vísu oft komið fyrir að gangnamenn hafi misst frá sér hesta en þá hafa þeir rokið niður og stoppað við afréttargirðinguna. því finnst mönnum þetta vera með  ólíkindum að vel taminn hestur taki upp á slíku. Eru sumir farnir að vona að hann komi fram í Laufskálarétt um næstu helgi.

Víkur nú sögunni á hlaðið í Sóheimum í Blönduhlíð. Heimilisfólk úti við. Suður og niður á túninu voru tveir hestar á beit.  Skyndilega hættir annar þeirra, rauður hestur sem hét Sporður, að bíta, lítur upp, horfir vestur yfir Vötn og stekkur af stað.  Hann  stekkur  niður túnið, yfir veginn, allar girðingar og leggur í Vötnin. Fer upp sneiðinginn hjá Stapa og hverfur yfir í Lýdó. Það var hringt yfirum en ekki náðist að stoppa hestinn. Seinna fréttist af honum vestur í Svartárdal og síðan ekki söguna meir fyrr en sunnan jökla í uppsveitum og þá kominn heim. Sporður kom aldrei í Skagafjörð aftur.


Viðtal í lesbók

Ég hef alltaf verið veikur fyrir Finnum. Þeir eru stundum svo feimnir og sorgmæddir á svipinn, spila og syngja sinn finnska tangó með hjartanu og þaðan koma Leningrad Cowboys. Í lesbók Moggans á laugardaginn er yndislegt viðtal sem Lárus Ýmir tekur við leikstjórann Aki Kaurismaki. Ég ætla að klippa það út og geyma. Annars leið helgin með góðu matarboði og smá vinnu í dag. Hringi norður á morgun og spyr um hestinn sem hvarf.

Leningrad Cowboys

 


Suður

Og svo eru réttirnar búnar. Ég stend á hlaðinu, horfi á safnið dreifa sér og bíta. Sumar gömlu ærnar fegnar að koma heim, aðrar líta til fjalls með söknuði. Ég fer úr stígvélunum og inn í eldhús þar sem kjötsúpan bíður. Réttirnar eru nefnilega ekki búnar fyrr en kjötsúpudiskurinn er tómur. Og svo er að tygja sig til farar. Suður. Ég tek upp gulrætur með mömmu, hleð bílinn með grænmeti og kartöflum, set réttargallann í poka og loka fyrir. Það er svo skrýtið að lyktin er öðruvísi fyrir sunnan. Ég kveð og það er laumað að mér randalínköku að skilnaði. Og ég renn út Hlíðina. Kem við á einum bæ því ég þarf að láta gera við dekk. Það er ekki hægt að kalla það heppni þegar springur dekk hjá manni, en nú var ég heppinn. Ég lenti í kaffi og sögum. Gömlum sögum sem aðeins verða sagðar við eldhúsborð. Keyrði svo glaður yfir Vötnin með viðgert varadekk. Greiðvikni sveitunga minna hefur ekkert breyst. Leit svo snöggt við á leiðinni upp Vatnsskarðið, teygði mig í spólurnar góðu og Karlakórinn Heimir söng alla leið suður. Þar beið mín heit kjötsúpa. Merkilegt hvernig alltaf er hugsað um mann.   


Réttir

Réttir, bara þetta orð, hljómurinn og lyktin og áður en þú veist af ert þú staddur í réttinni miðri umvafinn sauðfé og einblínir á mörkin. Pabbi stendur við dilkinn og segir manni til: "Þarna er ein kollótt, þessi gamla hornbrotna, þarna upp við vegginn, móflekkóttur hrútur"... og svo framvegis.  Þetta er gaman. Einu sinni fór í taugarnar á mér þegar verið var að kalla á mann og segja manni að taka nú þessa kind, því mér fannst ég vera fullfær um að finna þær sjálfur. Það fer ekki í taugarnar á mér lengur.  Enda búinn að viðurkenna fyrir sjálfum mér að karl faðir minn hefur sérstakan radar í hausnum þegar sauðfé er annars vegar. En ég var seigur núna, nokkuð fljótur að sjá mörkin og svo eru allir bæir með númer nú til dags. Svo var ég ansi lipur við að ná fénu og þar hef ég sko engu gleymt! Ég geng rólega um réttina, miða út ærina eða lambið og geri svo leifturárás. Mér finnst ég vera snillingur í þessu! En þegar maður var lítill gátu svona árásir endað á því að liggja á bakinu í drullunni og allir hlógu, en maður stóð upp aftur. Og fer aftur í réttir. Réttir. Það er eitthvað við þetta orð. Það er dregið sundur, spjallað við sveitungana og það sést ekki vín á nokkrum manni, bara skroppið í kaffi í skúrinn hjá kvenfélaginu og féð síðan rekið heim þar sem bíður heit kjötsúpa. Réttir. Þar sá maður fyrst á ævinni fullan mann, almennilegan hundaslag, menn að skamma fjallskilastjórann og fólk sem maður vissi ekki að væri til í sveitinni.  En það var ekki mikið sungið. Það var á gangnasunnudaginn sem var sungið, þá var sungið meðan einhver rödd var til. En það er önnur saga og efni í annan pistil. En ég held að Akrahreppsbúar ættu að halda sinni gömlu Silfrastaðarétt aðeins lengur. Fara fram í kofa á fimmtudagskvöldi. Smala föstudag og laugardag og reka niður. Rétta síðan á sunnudegi. Ég hef trú á því að þeir sem vilja fara í göngur fái frí á föstudegi. Það er einhvern veginn léttara að fá frí á föstudegi en mánudegi. Og ég ætla að mæta í réttir að ári, þó að ég sé ekki lengur skrifaður fyrir markinu mínu í markaskránni, en það er í góðum höndum hjá Drífu og Fúsa. Réttarstígvélin eru enn í bílnum... ég þvæ þau bráðum...

 


Niðurrekstur

Eftir laxinn og spjall við gesti að sunnan lögðum við Ella systir og Stebbi sonur hennar af stað fram í afrétt til að reka safnið til réttar. Þannig háttar til að á laugardag og sunnudag er afréttin smöluð og um þrjúleytið á sunnudag er safnið komið í girðingarhornið hjá Valagilsá. Þá á eftir að reka það niður í Silfrastaðarétt og tekur það um fimm tíma að reka féð þessa leið og oft lenti maður í myrkri við réttina. Nú er kominn nýr vegur um Norðurárdalinn svo reksturinn var öðruvísi en áður. Frá Kotá og niður á Skeljungshöfða var búið að girða rekstrarleið, þröngan gang, og höfðu menn vissar áhyggjur af því hvernig hann myndi reynast. En allar áhyggjur reyndust ástæðulausar. Féð rann vel eftir ganginum og við rákum þetta í smáhópum og maður var laus við að elta féð upp um allar brekkur. En þar sem ekki er búið að taka allan nýja veginn í notkun var rekið eftir þjóðveginum niður að Kotá. Og ég hljóp í brekkurnar til að ná þeim rollum niður sem tóku strauið af veginum og upp í Kotaheiðina. Ég hljóp... ég veit ekki hvað skal segja. Jú bara sannleikann: Ég komst ekkert áfram, gekk upp og niður af mæði á fyrsta spretti, áttaði mig svo á stöðunni og gætti að mér eftir það. Samt fannst mér ég gera mikið gagn, ég hóaði mikið og kastaði grjóti og það virkaði allt eins og í gamla daga. Og svo tókst okkur að búa til lengstu bílalest sem sést hefur í Norðurárdal, Því þeir sem voru svo óheppnir að lenda á eftir safninu urðu að dóla á eftir því alla leið niður að Kotá og var þungt í sumum. En þetta verður í síðasta skipti sem það  gerist. Og svo var safnið komið niður að rétt. Rökkur var fallið á og andinn var góður. Það myndast alltaf sérstök stemning þegar verið er að reka inn í réttina en safnið er geymt  þar yfir nóttina. Það er sérstök list að reka fé inn í rétt. Þú verður að hafa gott samband við þá sem eru við hliðina á þér, þrengja ekki of mikið að og hafa yfirsýn yfir safnið. En alltaf sleppa nú nokkrar sem verður að elta og er ekki laust við að það hressi mann. En þetta hafðist nú allt og stóra hliðinu var lokað. Jarmurinn lagðist yfir kvöldið. Pabbi og kallarnir fóru hring í réttinni og tékkuðu á hvort allir dilkar væru ekki tryggilega lokaðir. Svo var rennt heim og tekið til matar síns og rifjaðar upp gangnasögur frá því maður var og hét. Og svo voru sagðar nýjar sögur... Því það gerist alltaf eitthvað nýtt; eins og gangnahesturinn sem sneri við á leið niður Horn og stökk frá mönnum og hestum og hvarf inn fyrir Gloppugil með hnakk og beisli og hefur ekki sést síðan eftir síðustu fréttum. En þetta er nóg því næst eru réttir...

 


Norður

Ég lagði í hann á sunnudagsmorguninn. Aldrei þessu vant hafði ég sett eitthvað af fötum ofan í tösku kvöldið áður, endurnærður eftir Ian Anderson. Ég tek alltaf mikið af fötum og drasli með mér ef ég skrepp bæjarleið og fjölskyldan hlær alltaf jafnmikið að mér. Svo fór ég í kassettuhauginn góða og greip handfylli af snilld til að hafa í bakhöndinni.  Stígvélin og gönguskórnir biðu í bílnum, til í slaginn. Og ég lagði af stað. Ég verð alltaf óþreyjufullur áður en ég held af stað norður, verð jafnvel skapvondur, rek á eftir fjölskyldunni og geng um gólf. En nú var ég einn á ferð svo það var bara ég til að reka á eftir. Þegar ég renndi svo framhjá Þingvallaafleggjaranum setti ég sjálfstýringuna á og leið áfram. Áður en ég vissi af nálgaðist ég Borgarnes og datt ekki í hug að stoppa fyrir puttalingum sem norpuðu í kantinum við Borgarfjarðarbrúna. Tónlistarvalið var til fyrirmyndar. Það var danskt í þetta sinn, Jomfru Ane Teatret,  Lone Kellerman, Röde Mor og Savage Rose. Ég hefði ekki getað boðið puttalingunum upp á að hlusta á þetta alla leiðina. Þeir hefðu klikkast. En ég klikkaðist ekki, skánaði bara. Því að hlusta á plötuna Wild Child frá árinu 1976 með Savage Rose er engu líkt. Söngkonan Annisette alveg tryllt og Þeir Koppel-bræður... Já segi ekki meir...  Svona leið þessi ferð, greip andann á lofti á Holtavörðuheiðinni þegar hallaði norðuraf, fékk slyddu á mig í Víðidalnum, slapp við Blönduóslögguna (enda á krúsinu), veifaði Stebba G. á Stapanum og hringdi í tengdó og sagði henni hvað Glóðafeykir væri fallegur. Þar með kominn í Blönduhlíðina og renndi í hlað, móðir mín á tröppunum og fagnaði týnda syninum og skellti laxi í pottinn. En frammi í afrétt voru gangnamenn að koma að og brátt yrði safnið rekið til réttar. Ég var í stuði.

 


Að kvöldi réttardags

Rauð til viðar sólin seig,

sopin hinsta dreggin.

Hundur upp við manninn meig,

maðurinn út í vegginn.

 (Höf. Hjörleifur Jónsson, Gilsbakka)


Að upplifa fortíðina

Var í Háskólabíói og hlustaði á eitt af goðunum mínum sjálfan Ian Anderson. Þarna var kallinn með fína hljómsveit og spilaði og söng eins hann ætti lífið að leysa. Skrítið er þetta líf. Ekki datt manni í hug fyrir 30 árum að gæinn með flautuna ætti eftir að standa nokkra metra frá manni í tónleikabíói í Reykjavík og teyma mann eins og töframennirnir í sögunum gerðu. Þetta var gott kvöld. Í fyrramálið held ég norður og rek fé til réttar og á mánudaginn ætla ég í réttirnar og vonandi mun ég draga nokkur lömb með markinu sneitt aftan og blaðstýft framan, en undirritaður var lengi skráður (og er kannski enn) með það í markaskránni. En enga hef ég flautuna að vopni svo ég gríp bara í hornin og vona það besta ...

Haustið kom á gluggann

Í nótt hafa vindarnir blásið / á norðurgluggann og sagt: / Við erum haustið.

Þannig byrjar ljóðið "Haustið kom á gluggann" eftir Stefán Hörð Grímsson, en það kom upp í hugann er ég brá mér lopapeysuklæddur út í kvöld. Haustlegur vindur stóð upp götuna en ég kominn í lopapeysuna albúinn í slaginn. Stóð í slagveðri við Urriðaá á Mýrum í gær ásamt Inga svila mínum og þessi litla á, Urriðaá, sem oftast er fær á tékkneskum gúmmískóm, var orðin að stórfljóti svo við þurftum að vaða hana öxl í öxl svona til öryggis. Og manni varð kalt á höndunum. Ég varð svo krókloppinn að ég náði vart að þræða maðk á öngul, hvað þá hnýta flugu á. Langt síðan ég hef orðið svona loppinn. Maður verður nánast ósjálfbjarga og mun ég setja inn eina góða "loppusögu" síðar. Og það kom á daginn að gott er að eiga frystikistu! Við komum heim með fjóra laxa og vorum ansi masknir með okkur. Ég grátbað svo félaga minn um að fá að geyma hans fiska í fínu kistunni. Hann brást vel við, enda drengur góður, og nú lúrir stolt frystikista í Vesturbænum með botnfylli af löxum, eða botnhyl eins og stundum var sagt þegar maður var búinn að fylla dolluna sína í berjamó forðum daga. En nú frjósa trúlega öll ber í nótt, svo það er fátt til bjargar nema ef væri Ian Anderson sem spilaði og söng í Kastljósi í kvöld. Og Stefán Hörður, sem heldur áfram:

Og ég hef hlýtt á vindana / og hjúfrað mig niður, / hjúfrað mig niður og sagt: / Sofa, sofa.

En frá spegli draums / hefur spottandi mynd þín / blasað við mér / bleik og þögul.

Og ég hef risið upp við dogg, / róað mitt angur og sagt: / Sofa, sofa.

 


Helgarskýrslan

Ég held að sunnudagskvöld sé gott til að setjast niður og ná áttum. Ef ég lít til baka þá fékk ég mikið áhyggjukast um hádegi á föstudaginn. Gamli Nokia-síminn minn dó og fékkst ekki í gang þó Siggi Einars vinur minn legði hendur yfir hann, rifi hann í spað og setti hann saman aftur. Takk Siggi minn! Ja, nú voru góð ráð dýr. Andskotinn, það eru örugglega allir að hringja í mig var tilfinningin sem greip mig. En viti menn, ég komst yfir gamalt símaræksni sem enginn vildi nota og er alsæll. Að vísu kann ég ekkert á hann en það gerir ekkert til. Það er ekki víst að neinn hringi. Eftir smá partý í vinnunni á föstudaginn sótti ég pizzur handa familíunni og kvöldið leið. Settist við tölvuna um ellefuleytið og ætlaði að skrifa en fór að hlusta á Jónas tala við Jón Baldvin. Það var gaman. Það er alltaf gaman að hlusta á fólk sem stendur ekki í og hefur frá einhverju að segja. M.a. sagði Jón frá því að hann hefði haft ritara. Þá bætti Jónas við að skáld nokkurt hefði haft þrjá ritara og gengið á milli herbergja og verið með þrjár sögur í takinu. "Churchill var með 12 ritara þegar best lét," sagði þá Jón, "enda stóð hann í heilli heimsstyrjöld." Maður ætti kannski að fá sér ritara.

En nú slær niður í hugann öðru föstudagskvöldi er ég var staddur í vinnuferð í Vestmannaeyjum ásamt félögum mínum að leita að söngstjörnum framtíðarinnar. Var vinnu lokið um kvöldið, búið að lesta bílana, allir frekar dasaðir og stefnan í Herjólf morguninn eftir. Ekki hreyfðist flipi á dós, lítið í sjónvarpinu svo við kveiktum á Kvöldgestum á rás eitt og stemningin var baðstofuleg. En Þá var hurðinni skyndilega hrundið upp og inn snaraðist einn úr unga genginu sem gisti í öðru húsi og var galsi í honum. En það dró að vísu fljótt niður í honum. Ekkert heyrðist nema malið í kvöldgestinum. Þarna stóð sá nýkomni eins og steinrunninn á miðju gólfi og starði á okkur eldri mennina. Kvöldgesturinn malaði og Jónas spurði. Svo fékk drengurinn málið og sagði: "Hvað er þetta? Hvar er ég? Er þetta elliheimið Grund?" Fór nú kliður um kofann, menn ræsktu sig og vörpuðu af sér brekánum, teygðu sig í næstu dós, flipinn laus og við teknir í sátt og gott ef við sungum ekki "Minning um mann" er líða tók á. En hver kvöldgesturinn var man ég ekki.

Laugardagurinn fór í vinnu við Spánverjaleikinn. Eini kosturinn við það var að geta horft á leikinn úr glerhúsinu í nýju stúkunni því ekki get ég montað mig af mínu vinnuframlagi! Þegar ég kom heim sá ég svo lokin á góðri þýskri mynd um Stasí. Gleymdi mér svo við góða tónlist inn í nóttina. Sunnudagur er búinn þegar þetta er skrifað. Ég var rólegur, var eitthvert slen í mér. Fékk mér samt kaffi hjá Önnu systur sem ég geri  alltof sjaldan. Grillaði svo í kvöld eins og besti húsfaðir í vesturbænum og er allur að koma til. Skrepp í Borgarfjörð í kvöld að veiða og byrjaður að hlakka til. Ég held það sé það besta við veiðitúra. Að hlakka til... og setja saman stöngina. Hitt veltur á ýmsu. Og þar með er helgarskýrslu lokið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband