Færsluflokkur: Bloggar
13.4.2008 | 23:42
Miði á Vesturgötunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2008 | 01:44
Að ná áttum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 23:30
Seldur
Ég var seldur í gær. Ekki það, ég hef oft verið keyptur og seldur. Enda var þessi dagur bara venjulegur og enginn varð var við neitt frekar en Jón Hreggviðsson forðum daga. Og himinninn var fallegur í morgun:
Ég horfði' uppí himinsins roða
og hugurinn fylltist af doða.
Sparkað af Baugi
og líður sem draugi
er dragnast ég uppí til Stoða.
... eða:
Ég horfði' upp í himinsins roða
og hugsaði: Hvað mun hann boða?
Sólbráð og hlýju?
Ólund og klígju?
Svo henti' hann mér uppí til Stoða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.4.2008 | 01:54
Vikan sem leið
Jæja, þá er smá bloggkraftur hlaupinn í mig og best að nýta tækifærið. Ég er viss um að bráðum verður hægt að kaupa svona pillur í kjörbúðum merktar ,,bloggkraftur" í hillunni með súputeningunum. Maður kemur svo með kraftinn heim og hrærir út í sjóðandi vatni og viti menn; bloggið rennur á skjáinn sem aldrei fyrr. Mér finnst annars eins og síðasta vika hafi verið fyrir ári, þetta líður allt svo hratt. Mér finnst samt eins og ég hafi orðið býsna þunglyndur einn morguninn í vikunni þegar fyrirsagnir allra blaða voru í heimsendastíl og greinilegt að allt var að fara til helvítis. En ég fékk mér lýsi og harkaði af mér daginn. Svo tók ég upp á því að hlusta á 28 ára gamla sænska plötu sem ég var alveg búinn að gleyma. Plötu með grúppu sem kallaði sig Nationalteatern og þótti flott í þann tíð er ég var í Svíþjóð (fann hana meira að segja á Yoytúbunni). Og það var eins og við manninn mælt að ég gleymdi öllum áhyggjum og hef verið í smá nostalgíukasti síðan. Maður er auðvitað ekki í lagi! Svo tókum við upp nýjan sjónvarpsþátt sem kallast Svalbarði og héldum áfram með Bubba. Nú eru bara tveir þættir eftir af Bandinu. Svo skrapp ég í Iðnó og hlustaði á Hjalta Rögnvalds lesa þrjár ljóðabækur Þorsteins frá Hamri. Það var ansi magnað. Hjalti las að vísu fimm bækur þennan dag, en ég missti af fyrstu og síðustu. Þetta var í raun mjög merkileg upplifun að sitja í salnum í Iðnó klukkan ellefu á mánudagskvöldið og Hjalti á sviðinu með allt ljóðasafnið í hendinni og las fyrir okkur Lángnætti á Kaldadal. Þarna var einn besti leikari landsins að lesa ljóð eftir eitt besta skáld landsins fyrir sjö sérvitringa: Einn sat við borð fremst í salnum og hafði bókina með sér. Skáld og fullorðinn leikari sátu aðeins aftar. Ég og bókmenntafræðingur sátum þar aðeins aftar og nær Tjörninni og aftast voru svo tveir aðdáendur. Og Hjalti er ekki hættur. Hann ætlar að lesa allan Þorstein. Svo pússaði ég upp grillið í gær og grillaði nokkrar lærissneiðar í útmánaðasólinni. Svo fórum við fiðlustepan í leikhúsið og sáum Hetjur. Stelpunni leist ekkert á þegar inn í salinn var komið og hvíslaði: ,,Það er bara gamalt fólk hérna." En þetta var fín sýning og við skemmtum okkur vel. Það tókst svo að draga mig í langan göngutúr í dag og konan bakaði þessa fínu gulrótarköku og gaf okkur í verðlaun. Ég hlustaði líka á Nationalteatern og Hanus kallinn í dag og búinn að horfa á Mannaveiðar. Já það er ekkert gefið eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2008 | 22:25
Mont
"Sú var tíðin að refaskyttur komu næst prestinum að virðingu í hverju sveitarfélagi" sagði Snorri Jóhannesson í Fréttablaðinu í vikunni. Þetta var kærkomin hressing inn í sálina svona þegar páskarnir voru búnir og hversdagur framundan. Ég tókst allur á loft og hugurinn hljóp aftur upp á heiðar þar sem ég gekk til veiða sem refaskytta sveitarinnar. Ég var nefnilega búinn að gleyma því hvað þetta var mikil virðingarstaða að vera refaskytta. Og ábyrgðarstaða. Maður varð að standa sig og hafa kallana í sveitinni góða. Svona eins og ef presturinn hélt góða útfararræðu. Þá voru allir ánægðir. Svo var þetta ansi spennandi starf. Þú fékkst oft bara einn séns. Eitt skot skot varð að duga. Að vísu gat ljóminn farið af í vosbúð og kulda, en góður félagsskapur (því oftast vorum við tveir saman) og fallegar vornætur standa þó framar í huganum. Ég man hvað það var mikill ævintýraljómi yfir Gísla í Miðhúsum og Steina á Grund er þeir komu í kvöldkaffi og sögðu sögur og eldhúsið hló og svo hurfu þeir í kvöldsólina sem baðaði Sólheimafjallið og ég lítill strákur horfði á eftir þeim og langaði að verða kappi eins og þeir. Svo liðu árin og ég varð refaskytta og stóð næstur prestinum í stiganum. Eftir því sem Snorri segir. Og því má svo bæta við að leitin að páskaeggjunum tókst vel, enda hafði refaskyttan samið frábærar vísbendingar í ratleiknum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.3.2008 | 00:13
Að bíða - föstudagurinn langi
Þessi föstudagur var ekki svo langur. Það var mikil leti hjá mér og mikið hlustað á útvarpið. Sat með Passíusálmana og hlustaði á Megas syngja og tala um þá. Að vísu var skautað yfir 11. sálminn, en hann er ótrúlega flottur hjá meisturunum og það lá við að ég móðgaðist því ég var akkúrat að bíða eftir: "Sút flaug í brjóstið inn." Að öðru leyti var gott að hlusta á þennan þátt og ég komst auðvitað að því að ég veit ekkert um Passíusálmana og kann ekkert í þeim. Sem sagt lagið sem ég var að bíða eftir kom ekki en það kom annað lag sem ég beið eftir í mörg kvöld yfir gömlu útvarpstæki norður í landi fyrir löngu. Það var stundum verið að fikta í tökkunum og leita að hljóðum og tónlist utan úr heimi þegar útvarp Reykjavík var að drepa mann úr leiðindum og maður hafði einhvern grun um að bak við þennan formlega heim væri annar heimur, einhver ævintýraheimur. Stundum þegar skilyrði voru góð í loftinu fann maður radíó Luxemburg. Þar var eitthvað, eitthvað spennandi, en svo langt í burtu. Svo var það eitt kvöldið að ég heyrði lag sem bara greip mig strax og mörg næstu kvöld og ár var reynt að finna það aftur í fjarskanum og stundum heppnaðist það og þá gleymdi maður biðinni og hlustaði sæll þótt stundum væri sándið pínu slitrótt. Þetta var lagið Nights in White Satin með Moody Blues og þar sem ég er að bíða eftir spurningakeppni fjölmiðlanna á Rás tvö eftir hádegið í dag kemur þetta gamla lag alveg óbeðið og undirbúningslaust og ég bara stoppaði og hugurinn flaug til baka og svo hingað aftur og nú brá svo við að það var ekkert brak í útvarpinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.3.2008 | 00:51
Skírdagsblogg
Ligg eða sit réttara sagt uppi í rúmi með nýju tölvu fermingarbarnsins á lærunum og þreifa mig áfram á mjúku lyklaborðinu. Mér finnst ég vera óggislega töff eins og skáldið sagði sjóðheitur allur og búinn að fatta það að fartölvurnar munu ganga af hitapokunum, sem mæður okkar tóku með sér í rúmið, dauðum. Nú stingur maður bara lappanum í samband og skellir honum undir sængina og er í sambandi við alheiminn heitur undir sænginni. Annars hefur þetta verið ljúfur dagur. Var á skralli með gömlum vinum fram undir morgun, en Það hafði ekki teljandi áhrif á heilsu dagsins. Enda rak maður bara hausinn út um eldhúsgluggann þar sem norðanáttin tók sig til og minnti mann á hvar maður væri staddur í veröldinni. Þá var ég ekki búinn að fatta að fara með fartölvunni upp í rúm. Var svo einn heima um stund eftir kvöldfréttir, setti Leonard Cohen á, breiddi dúk yfir sjónvarpið. Var lagður af stað í langt ferðalag með Cohen þegar ég mundi eftir þætti hjá bloggvini mínum Guðna Má. Ég svissaði í græjunum á Cohen og Guðna þar sem hann var að tala við Einar Má um tónlist og skáldskap. Þetta var eins og í gamla daga; ég lá í sófanum og hlustaði á útvarpið. Takk fyrir drengir. Andaktin var svo mikil eftir þetta að ég dró fram Hannes P. og Þorstein frá Hamri og las upphátt fyrir þá sem nenntu að hlusta. Svo ákvað ég nú að athuga aðeins minn gang, fór í plötuskápinn og náði í Davíð Stefánsson og lét hann lesa fyrir mig Kvæðið um fuglana. Einnig náði ég í disk með Þorsteini frá Hamri og það varð heilagt í smástund. Það er að minnsta kosti ljóst að ég les ekki meira upphátt í kvöld. Og nú er allt að verða eðlilegt aftur og kvöldið búið að finna sinn rétta lit. Dúkurinn er horfinn af skjánum og hitapokinn á hnjánum er við það að kveikja í mér. Nú held ég að tölvubúðir í bænum ættu að taka sig til og auglýsa tilboð á hitapokum fyrir ömmur. Þær gætu svo grúskað í ættfræði og selt hlutabréf með nýju hitapokunum sínum. Ekki veit ég hvort Þorsteinn minn frá Hamri er búinn að fá sér svona hitapoka en hann varð sjötugur á laugardaginn. Í den bjuggum við í sama húsi og skáldið. Það var gott. Og það er flott hjá Hjalta Rögnvalds að ætla að lesa Þorstein allan á næstunni. En hér kemur fyrsta ljóðið í fyrstu ljóðabók Þorsteins frá Hamri:
Það var á bæ einum
Það var á bæ einum að gandur mikill úr hvítum skógum
tróð flugstíg úr suðri og norður til fjalla og fylgdi honum
þys álfa og galdur fugla, en eftir voru þrjú tár á laufi; rautt
hvítt svart. En úngur sveinn laut eftir og skeytti því hvergi
þótt hrópað væri á bak; því orð hafði borizt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2008 | 23:52
Ferming
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.3.2008 | 01:53
Kakó
Þriðji þátturinn af Bandinu er í höfn. Hefði samt átt að vera á fundi hjá gangnamannafélagi Austurdals norður í Héðinsminni í kvöld. En svona er lífið. Söngvaraleitin verður að hafa sinn gang. En ég sendi pistil. Hann kemur hér:
Austurdalur.is 2008 - Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum
Í kvöld fékk ég mér kakó. Ekki svona ekta súkkulaði frá Síríusi, enda á maður bara að fá sér svoleiðis nammi á sunnudögum. Ég læt bara Neskvikk í gula dunknum duga og er nokkuð góður þar sem ég stend við gluggann og horfi norður. Kakóið er heitt og ég sýp varlega á, því ég er óttaleg kisa eins og Lína á Kúskerpi sagði við mig í gamla daga. Og þar sem ég stend við gluggann man ég eftir vatnskakóinu. Vatnskakó. Það þótti nú gott. Blandað saman kakói og sykri, sett í litla krukku, stungið ofaní nestiskassann og þar hristist það með sviðakjömmunum og flatbrauði fram á fjöll. Vatn sótt í lækinn, ketillinn settur yfir prímusinn og menn fengu sér vatnskakó. Og voru hressir. Enda fjallavatnið eins og mjólk. Vatnskakó. Mér finnst alltaf einhver Ábæjarstemning fylgja þessu orði. Það var eitthvað svo mannalegt að sitja lítill drengur með heitt kakóglas við eldhúsborð niðri í sveit og kindur hlupu hjá og svo var hóað þannig að undir tók í glasinu. Og það er kvöld í höfuðstaðnum. Í bakgörðum sveima urðarkettir og þunginn frá umferðinni hljómar eins og fljót. Stöðugur, en samt síbreytilegur, eins og niðurinn frá gömlu Jökulsá. Hér er engin þögn. Enda þola menn ekki þögnina lengur. Verða brjálaðir. Það lækkar í bollanum og það setur að mér værð og ég finn hvernig neskvikkið dregur mig til fjalla, inn í kofa, oní poka og nú ræð ég mér ekki lengur því mér finnst að ég sé að elta kollóttan lambhrút á Ábæjartúninu. Hann er erfiður viðfangs og ég átta mig ekki alveg á því hvert ég er að fara með hann eða hvers vegna. Mér finnst samt eins og Jóhann heitinn á Silfrastöðum sé að fylgjast með mér og hafi gaman af. Skyndilega er eins og dimmi aðeins yfir og það koma eins og uppúr engu einhverjir ókunnugir og vilja hjálpa mér að eltast við hrútinn. En við það dofnar áhuginn á hrútnum og ég fer að smala þessum nýkomnu hjálparmönnum inní gömlu réttina. En þeir eru undarlega sleipir og ég missi þá jafnharðan út. Brátt verð ég ansi móður og neyðist til að hvíla mig, en hinir nýju félagar mínir rótast um eyrarnar og skilja eftir sig undarlegar rákir á grjótinu.
Þegar ég hef kastað mæðinni er eins og allt hafi róast. Heyri samt óljóst skrækina í þeim ókunnu þegar þeir leggjast til sunds vestur yfir Jökulsá, en læt það ekki á mig fá og geng upp á bakkann. Liggur þá ekki hrúturinn þar allur hinn rólegasti og jórtrar. Jarmar lágt er hann sér mig. Geng ég þá alveg að honum og sé að hann er fastur í keðju sem bundin er við sáluhliðið. Ég fer ofan í vasa minn og viti menn; upp kemur lúka af heykögglum sem hrússi tekur hraustlega á móti og þá verður mér ljóst að þetta er heimagangur fæddur löngu fyrir síðasta Heklugos.
- Skál dalsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.2.2008 | 00:36
Gamalt hlaup
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)