Færsluflokkur: Bloggar
26.2.2008 | 00:07
Kornflex-morgunn
Vaknaði ansi syfjaður í morgun. Reif mig samt framúr og leit út um eldhúsgluggann. Og viti menn. Ég sá ljósið. Ég sá dagsbrún yfir Esjunni. Ég stökk til og söng fjölskylduna á fætur. Brátt voru allir syngjandi eins og í amerískri maís-auglýsingu. Þrátt fyrir sönginn lét ég ekki blekkjast, hélt mínu striki og sauð hafragraut og það var svo merkilegt að söngurinn batnaði með hverri skeið. Hafragrauturinn blífur. Þegar ég renndi svo heim úr vinnunni um hálfsex var enn hábjartur dagur. Sól hátt á lofti yfir Vatnsmýrinni vafin í ský. Það er alltaf svo skemmtilegt þegar maður fattar að það mun koma vor á endanum.
Horfði smá á Óskarinn í nótt. Á næsta ári ætla ég að taka mér frí daginn eftir og horfa á alla útsendinguna. Þetta er svo gaman. Ég verð mjúkur og meyr og lifi mig algjörlega inn í þennan heim. Að vísu hrökk ég við í nótt og fannst eins og einhver væri að ofsækja mig. Jú hver var kosin besta teiknimyndin. Auðvitað RATTATOUILLE. Þetta er auðvitað ekkert annað en grófasta einelti og mér er ekki rótt. Vonandi bjargar morgunljós yfir Esju mér í fyrramálið. Og hafragrauturinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2008 | 00:25
Að vera í stuði
Þegar langt líður á milli bloggskrifa er erfitt að komast af stað aftur. Maður veit ekki hvar á að byrja. En ég byrja í dag. Þetta hefur verið rólegur dagur, enda kom ég heim um miðja nótt eftir mikið stuð á NASA. Þar var júróvisionpartý og Páll Óskar stjórnaði fjörinu. Og þvílíkt fjör. Hávaðinn var ógurlegur, maður bara öskraði í eyrun á fólki, því auðvitað þurfti maður að komast á trúnó. Og Páll Óskar er þjóðargersemi svona eins og fálkinn og Perlan. Hann býr til þvílíka stemmingu að því verður vart lýst. Ég stóð við hliðina á einum sem sagði: "Maður kemur með heila hljómsveit og heldur uppi sæmilegu stuði, en hann er EINN. Og þarna stóð maður í stöppunni dáleiddur af Palla, komst varla á klósettið og alls ekki á barinn ( sem var gott í dag) svo á endanum flaut maður út á Austurvöll og komst heim. En ég missti víst af tónleikum aldarinnar með Þursunum í Höllinni eftir því sem vinir mínir segja.
Annars hef ég verið í stuði undanfarið. Enda fjör í vinnunni. En eitt stendur uppúr. Ég náði meindýrinu sem hefur haldið fyrir mér vöku undanfarið. Ég var búinn að reyna mörg trix eins og ég hef áður sagt en á endanum kom það. Og ég veit að það kemur sumum ekki á óvart. Þegar marsipan og bjór dugði ekki var ekki um annað að ræða en að fara í eitthvað sterkara. Og ég var ekkert að humma við það. Hellti koniaki í eina gildruna og það hreif... Slamm, og málið dautt.
Og nú ætla ég að kíkja á restina af endursýningu á Bandinu og svo horfa á Óskarinn meðan ég hangi uppi.
... og takk fyrir innlit Kiddi, Guðmundur og Heimir og allir hinir. Og Árni: Takk fyrir skemmtilega sögu um mýs og vín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2008 | 22:58
Plata frá '77
Ég dró fram gamla plötu í dag og setti á fóninn. Plötu sem mér fannst alveg frábær í den. Og hún er reyndar ágæt enn þann dag í dag. Plata með Stranglers. Ég man þegar ég hlustaði á hana fyrst fyrir norðan og fannst eins og ég væri að uppgötva eitthvað nýtt. Og svo komu Stranglers til landsins árið 1978. Og ég keyrði suður ásamt fleirum á Cherokee jeppanum mínum K-1313 sem ég keypti af Ödda í Varmahlíð dálitlu áður. Að vísu brotnaði afturrúðan í bílnum daginn fyrir brottför, en það var sniðið masónít-spjald í snatri og skellt í gluggann og allt reyrt fast. Og það dugði suður og til baka, en það var töluvert af ryki í bílnum er heim var komið. En maður var nú ekki að gera sér rellu út af smámunum á þessum árum. Og tónleikarnir voru auðvitað einstakir. Þetta voru fyrstu stóru alvöru tónleikarnir sem ég fór á, tel ekki sveitaböllin með, eða Mána á landsmótinu á Króknum. Enda ekki verið að skreppa af bæ nema maður ætti erindi. En þarna var maður lentur í hrúgu af fólki og hávaða og þetta var upplifelsi. Þetta byrjaði að vísu ekki vel, því ég man ekki betur en að Þursaflokkurinn hafi átt að hita upp, en þegar herlegheitin áttu að byrja stormuðu nokkrir ungir menn fram á sviðið og þar hóf Egill Ólafsson upp raust sína og tilkynnti að Hinn Íslenski Þursaflokkur neitaði að spila, því þeir hefðu verið sviknir um hljóðprufu. Fór þá kliður um salinn. En Pétur Kristjánsson og Póker létu sig hafa það og mér finnst eins og ég sjái Jóa Helga með gleraugun ljóslifandi fyrir mér. Svo komu Stranglers. Mér fannst þeir ógeðslega flottir. Ekki síst bassaleikarinn og orgelleikarinn, enda hef ég alltaf verið veikur fyrir orgelum. Og nú fæ ég bakþanka. Voru það ekki örugglega Þursarnir og Póker sem voru þarna? Jæja, hvað um það. Jói Jakk setti nýja rúðu í Cherokíinn er heim var komið og hann endaði á Akureyri þar sem Rúnar mágur var umboðsmaður hans þar sem hann snjóaði niður á bílastæði á einhverri bílasölu og ég í útlöndum, en það var gott, því ég er rati í bílaviðskiptum og Rúnari tókst að selja jeppann á endanum. Takk Rúnar minn. En er það tilviljun að ég fór að spila Stranglers í dag? Veit ekki. Og það var skrúfað upp í magnaranum og látið vaða, enda bara við feðgarnir heima. Góð plata. Og nafnið: Rattus Norvegicus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2008 | 23:12
Ár rottunnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.2.2008 | 00:42
Sprengiblogg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2008 | 22:21
Bollublogg
Í gær voru bakaðar bollur, pínulitlar og krúttlegar vatnsdeigsbollur. Þær systur sáu um baksturinn. Ég horfði á, smakkaði og leið vel. Bollurnar hurfu svo flestar ofan í okkur meðan spennuþættir sunnudagskvöldsins liðu yfir skjáinn. Og þá er Pressa búin. Ég var ánægður með bílinn minn, en hann lék af krafti í gær. Svo þeytti ég rjóma í morgun og sendi heimasætuna með restina af fínu bollunum í skólann. Hesthúsaði svo nokkrar bollur í vinnunni í dag svo ég er nokkuð sáttur við bolludaginn 2008. Þó væri ég alveg til í eina í viðbót á þessu augnabliki, en svona er lífið. Það bara herðir mann að neita sér um bollu. Og svo er sprengidagur á morgun. Ohhh ég hlakka til. Baunirnar bíða í pokunum og ég legg þær í bleyti ásamt einum lauk strax í fyrramálið. Það lendir á mér að elda annað kvöld, svo ég ætla að sækja tengdó tímanlega og hafa hana á skeiðinni og láta hana smakka baunirnar og segja mér sögur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2008 | 00:24
Að vera í sambandi
Ég held stundum að ég sé ekki í sambandi. Borga stöðumælasektir á síðustu stundu, fer seint að sofa og læt hlutina danka. Og það var ekki fyrr en í dag að ég mannaði mig upp og lét setja nagladekk undir litla Skódann. Ég hélt að það kæmi ekki vetur. En Skódinn er eins og nýr á þessum líka urrandi dekkjum. Og svo er ég nýbúinn að taka niður jólaskrautið. Að vísu eru tvær seríur enn í sambandi. Svo ég reyni. Að vera í sambandi.
Nú tíðkast ekki' að tala' um þjóð í hlekkjum
og túnin bíða eftir þurrum flekkjum
hér glampa slær á gull í þungum sekkjum
og gott er nú að vera' á negldum dekkjum
því ólga fylgir austurlenskum ekkjum
svo endurraða þarf í öllum rekkjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.1.2008 | 22:48
Venjulegur mánudagur
Og bara ágætur greyið. Spáir kólnandi. Best að athuga frostlöginn og finna lopapeysuna. Og ég vann mér inn prik hjá krökkunum í kvöld. Sleppti ýsunni og steikti hamborgara handa þeim í staðinn. Ég er stundum góður. En ég er líka kvikindi. Ég hló að Spaugstofunni. Að vísu of margir hnífar, en ég hló. Sá Brúðgumann um helgina. Í henni er ein fallegasta sena sem ég hef séð í íslenskri bíómynd. Fer í sama flokk og senan í Landi og sonum þegar Jóhann Daníelsson stekkur uppá steininn og syngur fyrir fjöllin, meðan smaladrengirnir vakna. Segi ekki meir. Skellið ykkur í bíó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2008 | 22:30
Skyrtur - seinni hluti
Það er að vísu með hálfum huga að ég læt skyrtukaflann þann síðari vaða, svo mikið gengur á þessa dagana, en ég læt mig hafa það.
Ég á mér uppáhaldsskyrtu. Ég er búinn að vera svo mikið í henni að hún er eiginlega orðin ónýt. Hún er sundur á olnbogunum og komin göt á hliðarnar og ég er hættur að ganga í henni. En ég hendi henni ekki. Aldrei. Ég man þegar ég gekk inn í búðina í Kringlunni og sá hana. Ég varð hugfanginn. Ég fer sjaldan í fatabúðir og þegar það gerist stend ég og horfi hálf óttasleginn í kringum mig og verð allur eitthvað svo lítill í mér. Mér leið líka stundum svona þegar mamma fór með mig í syðri búðina á Króknum þegar ég var yngri. Samt var frænka mín, hún Stína Sölva, ósköp góð við mig þar sem hún velti sundur efnisströngunum. En þegar ég sá þessa skyrtu í Kringlunni var enginn ótti. Bara vissa. Ég keypti skyrtuna, sem var ekki dýr, og fór alsæll heim. Dreif mig í hana og fann strax hvað var gott í henni. Bretti upp ermarnar og fór í vatterað vesti utan yfir og setti á mig derhúfu. Ég var í gallabuxum og sandölum og leit út eins og þrautreyndur trökkdræver, enda var ég að leggja í Idol-leit um landið. Og þannig brunaði ég um Ísland, fullur öryggis eins og kona í dömubindaauglýsingu.
Og af hverju varð ég svona hrifinn af rauð/svart-köflóttri skyrtu? Skyrtu sem maður gæti ímyndað sér að kanadískir skógarhöggsmenn klæddust við bálið eftir högglangan dag? Er þetta kannski út af Vesturförunum að ég finn einhverja samkennd, eða held ég bara að ég sé töff í þessari skyrtu? Og eins og oft áður kemur tónlistin til hjálpar. Ég rakst nefnilega á gamalt plötualbúm um daginn og þá fékk ég vitrun. Myndin framan á albúminu sýnir ungan mann í köflóttum jakka og gallabuxum og sterklegum skóm standa á fossbrún. Í baksýn er svo áin og er ansi bratt að henni hægra megin, en eyrar og stór tré vinstra megin. Á bakhliðinni er svo mynd af háum fjöllum og þar er maðurinn líka í sama jakkanum og brosir til mín. Kannski er þetta með skyrtuna löngu gleymdur draumur um að líkjast John Denver. Ég veit það ekki. En þarna stendur hann á fossbrúninni blessaður og horfir niður eftir ánni á plötuumslagi frá 1972 og raular í huganum Rocky Mountain high, þannig að ungur maður í annarri sýslu fékk kast og keypti köflótta skyrtu löngu seinna.
Svo var það á menningarnótt í sumar sem leið að ég varð fyrir annarri vitrun. Það var þegar Hanus hinn færeyski stóð í ráðhúsinu sem nú logar og söng sína yndislegu söngva á rauðköflóttu skyrtunni sinni, þannig að mér fannst á tímabili að ég stæði á sviðinu. Munurinn var sá að hans skyrta var heil og ég kann ekki færeysku.
Að vísu fór fyrir mér eins og Pétri forðum daga því ég afneitaði mínum ástkæra John Denver í nokkur ár. Því þegar mín heittelskaða var að gramsa í plötusafninu er við vorum í tilhugalífinu og rakst á þennan ljóshærða fallega dreng á plötuumslaginu rak hún upp vein og leit á mig með viðbjóði. Svo John minn fór djúpt í plöturekkann. En hún elskar Hanus, svo ég á von.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.1.2008 | 23:21
Það gengur mikið á
Það lá eitthvað í loftinu í síðustu viku
Í Silfri Egils tóku svo leikar að æsast:
Nú turtildúfur taka niður hringa
og torgin litast rauð svo fellur tárið.
Með hnífasett í bakinu frá Binga
blæðir flokki út í morgunsárið.
En þetta var nú ekkert, því svo kom mánudagur:
Hjá Kjarval gamla klæmdist D í skjóli
því kreistur var nú burtu vinstri safinn.
Og dreyminn stóð með danskortið hann Óli
daginn sem að Bobby F. var grafinn.
Og brímafullir blossar hylltu traustið
en brosin voru treg að koma í fansinn.
Því svipurinn var sami og um haustið
er sviptivinda-Bingi kvaddi dansinn.
Og núna situr Dagur dapur heima
og döpur sitja Svandís, Bingi og Magga.
Í hundrað daga hálfpartinn að dreyma
hlunnfarin nú gráta úti í bragga.
Og vaski gamli Villi er með Óla
valdataflið er til enda leikið.
Í hjólförunum hagsmunirnir spóla
og halastjarnan þurrkar af sér meikið.
Og svo er kominn þriðjudagur:
En Bobby sagði bless við landið kalda
nú brosa aðrir heimar býsna stórir.
Í Laugardælum lunkinn var að valda
og leikur núna kóngspeð Einar fjórir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)