Færsluflokkur: Bloggar

Eyrarrós

Ég var pínu spældur að kallarnir mínir að norðan skyldu ekki fá eyrarrósina hjá Dorrit. Þeir brunuðu suður og héldu uppi fjörinu á Bessastöðum og drógu ekki af sér. Pöpullinn hrökk í kút þegar þeir settu í gang. Sungu meðal annars Undir bláhimni. Hvað annað? Að sleppa að synga Undir bláhimni við svona tækifæri væri bara eins og ef Paul sleppti að syngja Yesterday fyrir drottninguna. En þeir fengu vín og snittur. Að vísu fannst þeim blandan full dauf, enda ekki vanir neinu sulli þessir drengir. Og eyrarrósin er fallegt blóm og ég er hættur að vera spældur, því Mugison og co eiga allt gott skilið. Hamingjubúgikveðjur vestur.

 


Fyrsta blogg 2008

... Já það er komið nýtt ár. Ég held ég sé að ná því að skrifa rétt ártal. 2008. Annars reynir ekki svo mikið á þetta hjá mér nú til dags, en það reyndi verulega á þetta þegar ávísanahefti voru notuð. Þá var maður alltaf að skrifa einhverja vitleysu, að maður tali nú ekki um þegar maður missti sig og skrifaði full frjálslega einhverjar upphæðir sem komu svo prentaðar á gulum miðum seinna. En gleðilegt ár og takk fyrir gömlu. Og kærar þakkir fyrir innlit og athugasemdir hjá mér. Eins og þeir sem hafa kíkt inn hafa orðið varir við eru rólegheit á þessari síðu sem stendur, en maður veit aldrei! Ég hef horft óvanalega mikið á sjónvarpið undanfarið og það var mikið að gera í dag og kvöld við sjónvarpsgláp. Fór reyndar með Vöku og sá leikinn við Tékkana í handboltanum og horfði svo á síðari hálfleikinn á plúsnum þegar ég kom heim svona til að vita hvað hefði gerst. Því þegar maður er óvanur að horfa á lifandi handbolta veit maður ekkert hvað er að gerast. Maður missir af mörkum og það er enginn að segja manni hvað sé í gangi eins og í sjónvarpinu. En ég verð nú að segja mér til hróss að þegar ég horfði á leikinn í sjónvarpinu þá fann ég að ég hafði séð leikinn áður. Ég vissi hvað myndi gerast næst og vissi meira að segja svona hér um bil hvað þulirnir myndu segja. En það er gaman að sjá alvöru handboltaleik. Manni verður ljóst að þetta er ekki leikur fyrir neinar veimiltítur. Við sátum alveg upp við völlinn svo maður fann alveg átökin og kraftinn. Og svo sá ég hvað Óli Stef. er góður handboltamaður. Hann er bara einstakur. Svo var auðvitað horft á fréttir, Sjálfstætt fólk, Pressu og danska þáttinn svo maður er hálf dasaður. Ég horfi spenntur á Pressu þó ég kunni hana utan að og ég er búinn að sætta mig við að danski þátturinn sé endalaus. Og þegar ég horfði á Gylfa Ægisson hjá Jóni Ársæli mundi ég eftir ferð með Norðurleið fyrir mörgum árum. Það voru fáir með rútunni þegar lagt var af stað frá BSÍ. Aftursætið hafði ungur maður í fallegri lopapeysu lagt undir sig og gítarinn sinn. En það fór lítið fyrir honum og ég gaf honum engan gaum. Það hefur svo trúlega verið í Húnavatnssýslunum, en þær voru langar á þessum árum, að við tókum tal saman ég og gítareigandinn í aftursætinu. Þá kom í ljós að þetta var Gylfi Ægisson. Ekki man ég hvort hann var mjög þekktur þá, en ég fattaði alla vega hver hann var þegar hann kynnti sig. Við spjölluðum lengi saman, sennilega alveg að afleggjaranum á Uppsölum. Hann dró upp brennivínsflösku og vildi gefa mér, en ég hafði litla lyst. Hann var ánægður með það, sagði að brennivínið væri að fara með sig til helvítis. Saup síðan á. Sat svo með gítarinn og spilaði ofurlágt til að trufla ekki aðra farþega, sem eins og áður sagði voru ekki margir. Þannig skildum við. Ég með töskuna við póstkassann á Uppsölum og hann í aftursætinu á Norðurleið, með gítarinn. Ég kominn heim, hann á leiðinni. Síðan hefur mér þótt vænt um Gylfa Ægisson. Og nú er ég búinn að setja Erik Satie á fóninn. Takið eftir: Fóninn. Síðan ætla ég að kíkja í Sigga Páls undir svefninn, en ég hef verið með honum í París undanfarin kvöld.

Gamlársdagur 2007

Gamlársdagur er runninn upp. Ég sit og hlusta á Mugiboogie. Algjör snilld. Og jólin hafa farið um mann mjúkum höndum. Jón Kalman er kominn úr plastinu og var lesinn með andakt. Enda er  Himnaríki og helvíti bók sem maður á að drekka í sig. Og lesa hægt. Sumt er svo flott að það er eiginlega ekki hægt. Snilldarbók. Nú er ég að lesa Böðvar; Sögur úr Síðunni. Þar er líka snilld á ferðinni. Mér finnst ég hafa átt heima í Síðunni, ég lifi mig svo inn í þessar sögur. Ég er líka búinn að fletta bókinni um Akrahrepp, en á eftir að lesa. Enda er það engin smá lesning. Sá mig ungan og fallegan á mynd með gangnamönnum árið 1977. Svo er ég líka búinn að grípa í ljóðabókina með fallega nafninu eftir Þórarin Eldjárn og ná sambandi. En eins og sjá má er þetta ekki mikil yfirferð í lestri og bíða margar bækur. Það er einhvern veginn svo um jólin, að ég horfi óvenju mikið á sjónvarp og svo borða ég óvenju mikið og sef óvenju mikið. Og fjölskyldan spilaði partý-spilið í gærkveldi og skemmti sér vel. Og nú er lítið eftir af árinu. Bara sofa, vakna, Kryddsíld á Borginni, bað, veisla, skaupið og svo horfa á gamla árið hverfa inn í flugeldarokið og það nýja skríða á land. Og kæru vinir: Takk fyrir skemmtilegt bloggár og gleðilegt nýtt ...

Jólatungl

Nú er Kertasníkir að leggja af stað og hann fær gott skyggni á leiðinni, því jólatunglið er í stuði og búið að kveikja á súlunni. Hangiketið er í pottinum og laufabrauðið bíður í dunknum og allt er að verða tilbúið. Ég verð að vísu að skreppa í búð í fyrramálið og kaupa mér sokka svo ég fari ekki í jólaköttinn. Titanik er í sjónvarpinu og akkúrat núna eru þeir að spila "Hærra minn guð til þín" og allt er að farast. En ég ætla að hlusta á jólakveðjur í útvarpinu og smakka á hangiketinu. Og kæru bloggvinir og allir úti í bloggheimum: Kíkið á tunglið. Það er fallegt. Gleðileg jól.

Þriðjudagskvöld.

Kvöldið leit ágætlega út þar sem við sátum yfir ýsunni í kvöldmatnum. Fórum eftir matinn með fiðlustelpunni út á Nes þar sem hún spilaði með skólahljómsveitinni sinni á bókasafninu. Að spili loknu hlustuðum við á Jón Kalmann lesa úr bókinni sem er enn í plastinu á náttborðinu mínu, Auði A. Ólafs lesa úr bókinni Afleggjarinn og Friðrik G. Olgeirsson lesa úr Snert hörpu mína, ævisögu Davíðs frá Fagraskógi. Eftir menningarskammtinn stukku ég og menntaskóladrengurinn til tengdó og færðum einn skáp. Þegar við lentum heima tók kökuilmur á móti okkur því fiðlustelpan hafði slegið í köku og jólalykt í húsinu. Og hér sit ég nú og hlusta á Kim Larsen. Gott aðventukvöld.

Skyrtur - fyrri hluti

Ég verð seint talinn sundurgerðarmaður í klæðaburði. Það geta vinnufélagar og heimilisfólk vottað. Þó er fataskápurinn minn troðfullur. Mest eru það bolir merktir einhverjum sjónvarpsþáttum og maraþonhlaupum. Þó maður hafi ekki hlaupið meira en skemmtiskokk undanfarin fjórtán ár verður maður var við að fólk lítur til manns með lotningu, sérstaklega seinni partinn í ágúst, og hugsar: "Sko þennan. Hann hefur hlaupið þessi. Ansi er hann magnaður." Og ég læt mér vel líka. En ég ætlaði ekki að skrifa um boli. Eða gera úttekt á fataskápnum. Það kemur bara seinna. Ég ætlaði að skrifa um skyrtur. Ég bregð mér stundum í fínar skyrtur. Eða minnsta kosti þokkalegar. Og flestar eru þeirrar náttúru að það þarf ekki að strauja þær eftir þvott. Því ég verð að gera játningu; ég kann ekki að strauja. Jæja, þá er ég búinn að segja það. Konan straujar, því þó hún sé búin að gefast upp á að suða í mér svona á virkum dögum hvernig ég er til fara, þá vill hún að ég sé þokkalegur þegar mikið stendur til. Og hún hefur fullan stuðning minn í því að kenna syni okkar straukúnstirnar, því þar sem hún stóð við brettið í gær gekk sonurinn framhjá og hún greip hann glóðvolgan með járninu. Að vísu varð ekkert úr verklegri kennslu, því drengurinn varð fölur og fár og bar fyrir sig allskonar afsakanir. Sagðist m.a. þurfa að læra undir próf. Þar var hann sniðugur, því það má ekki stygga fólk í prólestri. En nú er það orðið skjalfest; drengurinn skal verða föðurbetrungur og læra að strauja. En þá missir hann af þeirri tilfinningu að fara í nýstraujaða skyrtu sem elskan hans hefur farið höndum um! Það eru breyttir tímar ...

 


Skyr

Börnin mín eru léleg að borða skyr. Að vísu var annað uppi á teningnum þegar þau voru lítil ef ég man rétt. Þá gat maður troðið í þau, svo allt stóð á blístri. En þegar þau eru hjá ömmu sinni fyrir norðan, þá er annað upplit á þeim. Þá háma þau í sig skyrið og biðja um meira og hafa aldrei fengið annað eins sælgæti. Ég hef grun um að móðir mín brúki meiri sykur en ég. Svo er skyrið beint úr mjólkurbílnum. Óhrært. Ég sá mér leik á borði um daginn og kom suður með tvær dollur, sem pabbi reddaði beint úr mjólkurbílnum. Óhrært skyr merkt KEA. Og í kvöld var gerð tilraun með miklum sykri. Sonurinn lét sem hann væri sáttur og fermingarbarnið tilvonandi var mjög jákvætt. Hvorugt bað um meira. Og ég sit uppi með það að mér tekst ekki að hræra skyr eins og mamma.

Hulduhestur

... sem hvarf í göngum í haust sem leið norður í landi. Eins og hefur verið minnst á í gömlum bloggskrifum var þetta allt hið undarlegasta mál. Taminn hestur sem ákvað skyndilega að hlaupa frá hinum hestunum og taka strauið inn allan Seljárdal og hverfa. Það dugði ekki til þótt riðið væri brunastökk á eftir honum. Sá hestur spyrnti að lokum við fótum, uppgefinn, og horfðu knapi og hestur á eftir flughestinum hverfa í fjöllin. Já hesturinn bókstaflega hvarf í Tröllaskagann. Sumir halda að hann hafi verið heillaður af huldufólki, kannski verið hingað kominn frá því, eða huldufólkið þurft að flytja. Heyrði spurt í útvarpinu hvort hestar hefðu sál og þá í framhaldi hvort þeir gætu gengið aftur. Sá sem spurður var taldi það víst að hestar hefðu sál. Og þeir voru líka vissir gömlu kallarnir í gangnakofanum í Hálfdánartungum, þegar glaumur gangnasunnudagsins var hljóðnaður og menn að festa blund. Þá var riðið í hlað, hundarnir ruku upp og úti fyrir hringlaði í beislum. Menn kíktu út og höstuðu á hundana. Tungl var yfir Hörgárdalsheiði og veður kyrrt. Þegar búið var að róa hundana gerði gangnatunglið mönnum ljóst að ekki hafði fjölgað í hópnum. Það voru "hinir" hestarnir sem vildu vera með. Og kannski einn og einn genginn gangnamaður. Hvort það hringlar óvænt í beislum í Heiðarlandi næsta haust veit maður ekki. En ég veit að þeir gömlu verða viðbúnir. Hvað sótti svona á klárinn að hann hljóp inn í fjöllin? Beið einhver eftir honum á hinum Vallabökkunum bak við fjöllin? Í bókinni 36 ljóð eftir Hannes Pétursson er ljóð sem kallar stundum til mín:

Hestar bíða ferðar / til borgar erlendis - í námur.

Einn dag er þeim róið fram / í flutningaskip á legunni.

Fyrr en nokkurn grunar / fleygir sér yfir borðstokkinn / hvítur foli sem grípur / geyst sundið til lands! / Hann syndir, syndir / í suðurátt, að fjarðarbotni ...

öslar upp í fjöru / og á flugahlaupi / stefnir hann saltblautur / inn sveitirnar, heim, heim!

 


Bækur á náttborði

Nú er staflinn á náttborðinu orðinn ansi hár. Æði margt ólesið, en sumt eitthvað gamalt til að glugga í. Jón Kalmann liggur í plastinu, vil ekki opna fyrr en ég er tilbúinn. Neðst liggur Sturlunga og bíður eftir að ég lesi um Örlygsstaðabardaga. Að vísu ekki alveg satt, því undir Sturlungu leyndust Barkakýli úr tré eftir Þorstein Guðmundsson, Hávamál og söngbók MFA. Þar næst kemur Gísli Konráðsson með þátt um Reynistaðabræður, svo ljóð eftir Sigmund Erni, Valgerði Ben., Jónas Svafár, Matta Jó., og Gyrði. Einnig er þarna ljóðasafn með úrvali eftir nýrómantíska kappa. Þá er gamalt tímarit MM og svo Flugdrekahlauparinn sem allir segja að ég verði að lesa. Jamm. Ég veit eiginlega ekki af hverju ég er að telja þetta allt upp. Kannski fannst mér augnablik eins og ég væri staddur í útvarpsþætti á Rás 1 þar sem ég hefði verið kallaður í viðtal um bækurnar á náttborðinu. En það er nú ekki þannig. Rokið hvín í þakinu hér í Vesturbænum og kannski er ég bara spældur yfir að hafa aldrei verið kallaður í svona þátt og látinn segja hvað ég hefði nú lesið sniðugt og hver væri mín uppáhalds bók! Kannski eins gott. Það myndi bara enda í einhverju rugli. En efsta bókin er eftir Gyrði Elíasson. Tvö tungl heitir hún. Ég var að fletta henni í gærkveldi og í einu ljóðinu er minnst á hest sem hugsar: "...væri gaman að / eiga veiðistöng núna þegar urr- / iðinn kemur..."  Og þá datt mér í hug annar hestur...

Hiti

Ef ég var með hroll í gærkveldi, þá er ég með hita í kvöld. Ég held nú samt að ég standi alveg í 37 gráðum, en samt er ég funheitur. Ég hlustaði og horfði á Eivöru í sjónvarpinu áðan. Og maður er bara ekki samur eftir. Hún er svo mikil villikona, en syngur samt svo blítt að maður tárast. Svo breytist hún á augabragði í pönkara og maður hlær. Svo á næsta andartaki verður hún fugl og maður er ekki viss hvort hún er þessa heims eða annars. 

hjarta mítt:

míni eygu sukku í djúpa hav í / nátt, og hjarta mítt brann eins / og eldur, og sjálvt um luftin / var ísaköld, so vermdu meg / tínar heitu hendur. nei, aldri eg / gloyma man tvey eygu so rein, / og andlitið so yndisligt, blítt, / og um eg ikki tá var farin heim, / tá mundi tú stolið hjarta mítt.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband