29.9.2008 | 23:20
Þjóðnýtingardagurinn
Þannig fór nú það. Og gerist hratt. En það þarf að vísu ekki að koma á óvart. Svona hlutir gerast oftast á einni helgi. Svo er maður að velta fyrir sér hvort maður eigi að kaupa ýsuflak með roði eða ekki. Enda veit ég lítið um peninga. Eyði þeim bara. En ég var alltaf á móti að selja Búnaðar- og Landsbanka þarna um árið. Og Símann. Marteinn Mosdal er minn maður. Og svo eignaðist ég smá hlut í banka í dag. Kannski 28.000 krónur sagði góður maður mér. Annars heldur maður bara niðrí sér andandum og bíður. Bíður eftir næsta fréttatíma, næstu sameiningu, næstu þjóðnýtingu. Og hefur á tilfinningunni að enginn ráði neitt við neitt. En eins og ég hef sagt skil ég ekkert í vísitölum og þessháttar. Átti einu sinni lítið hlutabréf og var að hugsa um að leggja það í lítinn Skóda, en þá var allt á uppleið svo ég sló lítið lán fyrir litla Skódanum og beið eftir að litla hlutabréfið yrði stórt. En nú er litla lánið orðið býsna bústið og litla hlutabréfið hefur horast mjög. En hvað um það. Fyrst ég er byrjaður að væla hvað mega þá aðrir segja. Þegar allt sem menn hafa aflað flýgur út um gluggann á einni nóttu. Allt þetta minnir mig á gamla sögu. Einu sinni voru frændur mínir á Húsabakka að draga fyrir í Héraðsvötnunum að vorlagi. Töluvert ísrek var í Vötnunum og von um sjóbirting. Þegar átti að draga netið á land var netið fullt af ís og líka fullt af spegilgljáandi birtingum. Var fast tekið á enda frændur mínir kappsfullir veiðimenn. En ísinn var ansi þungur í drætti svo eitthvað varð undan að láta og urðu þeir að sleppa netinu til að lenda ekki sjálfir í Vötnunum og hvarf þar með bæði ís og birtingur. Auðvitað kom svo sumar og það hef ég grun um að þeir Húsabakkamenn hafi bætt sér upp þennan missi. En það var ekki sleppt fyrr en fullreynt var. Annars er allt gott. Horfði á skemmtilega heimildarmynd um Indland áðan og gleymdi Glitni og svo hefur sonur minn verið að spila Pink Floyd meðan þetta er skrifað. Og það er sko ekkert slor. Silfurgljándi músikk. Eins og nýrunninn birtingur. Eða nýslegin króna.
Athugasemdir
Vel mælt. Mér líður einmitt svona - nema hvað ég hef aldrei átt hlutabréf. Það vermir mitt eilífa Pink Floyd hjarta að næsta kynslóð hlusti líka... enda klassík þarna á ferð.
Lára Hanna Einarsdóttir, 30.9.2008 kl. 02:08
Sá þig í Dagvaktinni, gott að eiga þig loksins á filmu, þú varst magnaður.
Rúnar Birgir Gíslason, 30.9.2008 kl. 06:15
Já við sáum þig líka á skjánum.
Þú varst sko flottastur!
Imba (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 10:47
Já, það var gaman að sjá þér bregða fyrir í Dagvaktinni. Mér hlýnar um alltaf um hjartarætur að heyra fallegu norðlenskuna í fjölmiðlum.
Túrilla, 30.9.2008 kl. 17:30
Ég er búin að sjá 2 mínútur af Dagvaktarþáttunum í haust. Valdi þær vel og naut þess að sjá frænda minn "in action"
Guðrún Harpa (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 19:09
Já Lára mín Pink Floyd er gott að halda að börnum og Rúnar, Imba, Túrilla og Guðrún Harpa: Takk fyrir að horfa. Það var heiður að leika á móti mínum gamla kúarektor Pétri Jóhanni.
Eyþór Árnason, 2.10.2008 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.