28.10.2008 | 23:54
Hamfarir - fjórði hluti
Ég var í svo miklu hamfarastuði áðan meðan ég skóflaði í mig ýsunni að ég gat varla beðið eftir því að komast í tölvuna og hella mér yfir þjóðina. En núna þegar ég er sestur er einhvern veginn úr mér allur vindur. Kannski er ég bara saddur. Hamfarasaddur, eða kannski er það bara ýsan. Hvað er maður svo sem að rembast. Maður á bara að lesa Einar Má og hlusta á Eirík Guðmunds í Víðsjánni til að fá eitthvert almennilegt stöff. Því maður getur orðið svolítið leiður á öllum spekingunum sem skilja leikinn. Peningaleikinn. Ég skil hann ekki. Skil ekki hugtökin. Veit ekkert hvað vísitölur þýða. Veit bara að Skódalánið hefur hækkað heilt helvíti. Þess vegna er gott að hlusta á fólk sem tekur mann á flug. Tekur mann og gerir gott í kroppinn. Mér datt hreinlega í hug eftir að hafa hlustað á Bjögga Thor í gær að sennilega hefði verið besta lausnin þarna um daginn þegar það uppgötvaðist að Glitnir væri á brúninni að láta bara Bjögga og strákana sjá um þetta. Sjá um Ísland. Þeir áttu þetta hvort sem er allt saman. Láta strákana sem eru að spila play-station 3 sjá um þetta. Hinir eru ennþá að spila gameboy-leikina sína. Og nú er aldeilis ástæða til að kalla í John Cleese og láta hann skila lopavettlingunum. Láta Randver fá þá. Ég sagði um daginn, nýbaðaður úr ræktinni, að mér liði eins og nýhreinsuðum hundi. Eitthvað var nú Sæmi vinur minn ekki viss um að það væri svo góð líðan. Það er rétt hjá honum því það var ekkert grín að vera hundur í gamla daga. Hundahreinsunardagurinn var einn af samkomudögum sveitarinnar. Menn brutust með hundana á bæinn þar sem hreinsunin fór fram. Ég segi brutust því þetta var að vetri til og veður misjöfn. Það var byrjað á að reyna að láta þá éta ormalyfið með góðu, þ.e. blanda því í mat. Ef það dugði ekki voru hundarnir teknir og troðið ofan í þá með góðu eða illu. Svo var þeim hent inn í hundakofann þar sem þeir voru allir í einni þvögu og flugust á og gerðu sín stykki. En bændur héldu til stofu og gripu í spil. Spiluðu lengi dags. Svo drifu menn sig út. Þá var oft fallið á rökkur. Við luktartýru við kofadyrnar var svo ráðist til inngöngu og hundarnir gripnir einn af öðrum og komið með þá út. Þar var þeim svo skellt oní tunnu og þeir baðaðir og hent síðan í snjóinn. Voru þeir þá fljótir að fá fæturna og hverfa út í myrkrið. Það þarf varla að taka það fram að þetta var ekki fyrir neinar veimiltítur að fljúgast á við hundana. Enda sumir grimmir og snarvitlausir. Mér er í barnsminni kvöldmyrkur í sveitinni, hundgá niðrá vegi og Lappi snjóbarinn standandi við þvottahúsdyrnar. Og mikið var greyið feginn að koma inn í hlýjuna, fá bita og kúra sig í holuna sína. Skildi samt ekki af hverju hann þurfti að ganga í gegnum þessar hremmingar. Ætli okkur líði ekki svipað og Lappa mínum. Skiljum hvorki upp né niður. En hvar við erum stödd í hreinsunarferlinu er ég ekki viss um... Svo svona til hressingar í lokin: Ég vissi ekki hvert ég ætlaði er ég heyrði í fréttunum í gær að danskir leyniþjónustumenn hefðu fengið það verkefni í kalda stríðinu að athuga hægðirnar úr Khrústsjov gamla. Kallinn var víst í heimsókn í Danmörku og voru lagðar sér pípulagnir að salerni aðalritarans. Þetta var af því að Kanar héldu að hann væri heilsutæpur og ætti kannski ekki langt eftir. En útkoman var sú að Níkíta Khrústsjov var við hestaheilsu.
Laumuspil lagt var á dúkinn
þá logaði kaldastríðspúkinn
og skildi' ekki baun
en skynjaði daun
er skoðaði' úr Khrústjoffi kúkinn.
Því það sem gekk niður af Níkíta;
jú, nartað hann hafði í chiquita
svo greip um sig ótti
því undarlegt þótti
að alltaf var hann jú að sískíta.
Athugasemdir
Sæll, góð samlíking þetta. Ég held því miður að við séu stödd þar sem verið er að koma ofaní okkur ormalyfinu.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 29.10.2008 kl. 09:17
Þú ert svo skemmilegur Eyþór minn.
Ég náði í skottið á þessum hundahreinsunar aðförum og í Tungu voru alltaf svo margir hundar og einn var grimmur þannig að ég var pínu rög. Ég man að við stákarnir voru aftur í fólksvagninum auk ca.3-5 hunda og svo var þeim sleppt á hlaðið á Silfrastöðum eftir að hundahreinsunarmaðurinn sem ég man ekki hvað heitir tróð töflunni niður í kok. Þá tóku við fjölda hundaslagsmál, þar sem allir hundar af Kjálkanum tókust á í svaðalegum áflogum. Enginn tók þessar riskingar nærri sér nema börnin og dýravinurinn Hjörsi, hinir kærðu sig kollótta ef að ég man rétt , spjölluðu um daginn og veginn, stukku svo inn í þvöguna og gripu í hnakkadrambið á sínum hundi og fóru heim.
Sigríður Gunnarsdóttir, 29.10.2008 kl. 12:18
Snilld!
Heimir Eyvindarson, 30.10.2008 kl. 22:25
Ég er ekki viss um að ég geti bætt neinu við það sem Heimir sagði...
Lára Hanna Einarsdóttir, 31.10.2008 kl. 02:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.