3.1.2009 | 03:33
Kryddsíld - Bardaginn á Borginni
Formáli
Ég er uppalinn í Skagafirði. Þar logar sagan á hverri þúfu. Manndráp og húsbrennur. Stundum þegar ég var ungur og keyrði út Blönduhlíðina og fór framhjá skilti við veginn sem vísar til fjalls og á stendur Örlygsstaðir sló þessari hugsun ofan í hausinn á mér: Hvernig var þetta? Hvernig var þetta að vakna upp á Miklabæ, heyra ópin handan við Vötnin og sjá flokkinnn koma yfir? Ná ekki vopnum sínum og vera drepinn í gerði upp við Örlygsstaði ef þú hafðir ekki vit á að hlaupa upp í Miðsitjuskarð? Kannski skil ég þessa forfeður mína aðeins betur í dag, því allt í einu lenti ég í stríði. Var í fyrstu frétt á nýársdag á undan fyrsta barni ársins. Já takk! Lenti í stríði? Já ég játa það strax. Ég er barn. Ég hélt að þetta myndi ekki fara svona. Þar sem Örlygsstaðabardagi var ekki tekinn upp á myndband eða disk verður maður að láta söguna duga. Sagt er að söguritari hafi verið í bardaganum. Ég var í bardaganum á Borginni. Ég ætla núna að skrifa söguna eins og hún kom mér fyrir sjónir. Þetta verður ekki frásögn stríðsfréttaritarans heldur frásögn sviðsstjórans sem var inni í húsinu og eðlilega lituð af því.
Morgunninn
Ég vaknaði, fór í sturtu og dreif mig út til að sækja sendibíl með dótinu, áramótaskrauti og alls konar tæknidrasli. Hitti félaga og við lögðum í hann á Borgina. Inn með draslið og byrjað að vinna. Kapphlaup við tímann. Ná að verða tilbúnir. Fór út rétt fyrir hádegið og það var allt eins og það átti að vera. Við í kapphlaupi. Nýárshlaupararnir lagðir af stað. Líka í kapphlaupi. Allt með felldu. Flaggskipið okkar, upptökubíllinn Farsæll RE309, sem er reyndar kafbátur þegar vel er að gáð, var kominn á sinn stað á stéttinni, klukkan í Dómkirkjunni sló. Búið að draga línurnar eða kaplana inn í hús og mynd og hljóð tilbúið í pípunum. Matur og farið yfir planið og rætt aðeins um hvað gæti gerst ef mótmælin sem var vitað af yrðu of hávær og hvað ætti að gera ef reynt yrði að fara inn í húsið. Eða klippt á kaplana. Ég dró það í efa. Ef eitthvað þvílíkt gerist verður hringt á lögguna.
Eftir matinn
Formenn byrja að mæta. Gamli fiðringurinn kemur. Allt að gerast. En ég er ekki viss. Ég er hugsi. Við verðum að loka dyrunum betur þar sem kaplarnir koma inn. Vorum ekki með neitt í höndunum. Ég snara mér aftur fyrir hús og finn þar spýtnabrak, stel mér spýtu og dreg inn á Borgina og bý til þennan fína slagbrand til að hægt sé að binda hurðina aftur. Ekki var þessi spýta mjög burðug og hefði ekki dugað í hrútaspil í sveitinni. Ég áttaði mig ekki á því að ég væri að fara í stríð. Hljómsveit og söngvari mættir. Menn ársins mæta. Allir formenn mættir nema forsætisráðherra. Vissum að hann yrði seinn fyrir. Hljóðprufa og stradivariusinn í stuði. Allir setjast. Hljóðnemar festir. Ég hleyp út og loka hliðinu í portinu. Heyrði hávaða og sá bregða fyrir hettuklæddu fólki. Inn og hurðinni hallað og slagbrandur fyrir og gafferteip fyrir rifuna. (Slagbrandur - öllu má nú nafn gefa.) Og það er talið niður. Kafbáturinn fer niður. Sjónpípurnar uppi.
Kryddsíld
Það var ekki fyrr en þátturinn var farinn í loftið að ég tók eftir hávaðanum. Húsið var barið utan. Kíkti fram í Silfur, það nötraði allt og skalf. Einhver umræða var við kryddsíldarborðið, en ég missti af henni. Fann samt að fólki leið ekki vel. Sendi síldardiskana inn. Þá kom það. Kallið frá drengjunum mínum: "Þeir eru búnir að brjóta upp hurðina. Þeir eru komnir inn." Ég hljóp fram og við mér blöstu opnar dyr og svartir skuggar dansandi í desemberbirtunni. Slagbrandurinn fíni brotinn. Ég hljóp í dyrnar og leit yfir sviðið. Sennilega til að meta stöðuna. Gera menn það ekki í stríði? Og augnabik fannst mér eins og tíminn stæði kyrr. Mér finnst eins og slatti af svörtu fólki hafi verið kominn inn í portið. Einhverjir voru uppi á hliðinu. Aðrir á leiðinni niður. Þetta augnablik þegar allt var kyrrt fannst mér eins og allir horfðu á mig og væru að meta stöðuna. Ég reyndi að meta stöðuna. Ég veit ekkert hvernig ég mat hana. Það var bara eitt í stöðunni: Verja vígið. Komst aldrei annað að eitt augnablik. Og hringja á lögguna. Þeir svörtu mátu stöðuna. Svo lögðu þeir í hann.
Bardaginn
Það er kannski tilgangslaust að lýsa bardaganum. Hann er að mestu til á myndbandi. En það sem ekki sést vel er hvernig manni leið. Inni í sér. Það er best að taka það fram í byrjun að bardagi er kannski ekki rétta orðið. Hnoð, nudd eða stimpingar eru kannski réttari orð. Og hróp og köll. Sennilega rosalegur hávaði. Svolítið eins og í réttum. Stóðréttum. Og þó, þetta var líkara því að kljást við kálfa. Samt leið manni eins og þetta væri stríð. Þarna vorum við í byrjun fjórir drengir. Fjórir litlir hobbitar og móti okkur streymdi her. Her af svörtu andlitslausu fólki. Andlitslausir Orkar. Og það var svo skrítið að ég sagði ekki neitt. Gat ekki sagt neitt. Hafði ekkert að segja við andlitslaust fólk. Orka. Og við tókumst á. Og ég náði einum. Og tók utan um hann. Hélt þéttingsfast. Ætlaði aldrei að sleppa. Hann hnubbaðist á móti eins og lax nýkominn úr neti og sagði lágt: "Slepptu mér, ég er ekki í stríði við þig." Ég tautaði á móti: "Þið farið aldrei hér inn." Og dansinn hélt áfram. Dansinn við andlitslausa drenginn. Þegar hér var komið sögu hafði hobbitunum borist hjálp frá kokkaliðinu og barstúlkurnar voru komnar í slaginn. Barstúlkurnar á Borginni. Glímukappinn hefði orðið stoltur af liðinu sínu. En við máttum undan síga. Þunginn jókst og hrópin hækkuðu. Við vorum að verða undir. Svarta liðið átti bara fimm metra eftir að hurðinni inn í Gyllta salinn. Þangað sem förinni var greinilega heitið. Ég fann að nú leið að úrslitastund. Ég er enginn Aragon með álfasverð eða Legolas með margar örvar á lofti í einu, bara lítill hobbiti eins og hinir drengirnir mínir sem ég vissi ekki hvernig leið. Sá svona útundan mér að þeir voru enn á fótum og gáfu allt. En þótt ég fyndi að úrslitastundin nálgaðist vissi ég ekki hvað gera skyldi. Fann bara að ég yrði að standa á fótunum og berjast, verja salinn, verja fólkið sem mér var trúað fyrir. Og mér finnst að ef þessi óundirbúna orusta hefði staðið aðeins lengur þá hefði kannski eitthvað gerst sem maður vill helst ekki hugsa um. Eitt finn ég. Ég hefði barist. Meðan ég hefði staðið í fæturna. En allan þennan tíma og ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, ég tala bara út frá mér og það er kannski nokkuð merkilegt. Mér fannst þetta heiðarlegur bardagi. Undarlega drengilegur. Þeir andlitslausu ætluðu inn. Við ætluðum ekki að hleypa þeim. Og það var aldrei talað um það okkar á milli. Föruneytið skipulagði ekki vörnina. Hún bara varð eins og hjá ungum drengjum í fótbolta. Og eins með Orkana. Þeir sigu á okkur hægt og bítandi. Samt eins og þeir væru ekki alveg vissir hvert þeir væru að fara. Kannski þekktu þeir okkur. Kannski kunnu þeir ekki við að taka á okkur. Og hvað með mig? Ég veit ekki hvern ég var með í fanginu, ég veit ekki hverjum ég var að hrinda. Kannski voru þetta frændur mínir, tengdasonur minn, drengir sem ég hef málað með leikmyndir eða maðurinn í næsta stigagangi. Ég gat ekkert sagt. Ég tala ekki við andlitslaust fólk. En eins og í bíómyndunum þegar vonin er að bresta heyrðist hljóð á hæðinni. Allir litu upp og löggan streymdi niður dalinn. Og þá var eins og allt færi í fastar skorður. Varnarliðið ósamstæða forðaði sér bak við lögguvegginn og það var eins og Orkunum létti. Nú kunnu þeir leikinn. Það var eins og alda færi um hópinn, þeir settust niður og byrjuðu að syngja og biðu. Biðu eftir gasinu. Eins og lömb biðu eftir að vera mörkuð. Eða brennimerkt. Biðu með stolti eftir gasinu. Og þar með hljóp ég frá vígvellinum. Ósærður. Og inn í gyllta sal. Mundi að þar var Kryddsíld í gangi.
Gyllti salurinn
Ég fór að smala hljómsveitinni og óperusöngvaranum. Þeir höfðu fundið sér var og voru í sæmilegu ástandi. Ég rak þá á sína staði og leit yfir salinn. Spurnarsvipurinn skein úr andlitunum. Formennirnir reyndu að halda andlitinu en óskuðu sér örugglega langt í burt. Handan við vegginn stóð löggan og innrásarliðið. Og hávaðinn, lætin, reykur og brunabjöllur. Þetta átti Nýi kvartettinn að kljást við. Og þeir byrjuðu að spila. Ave María eftir Kaldalóns, svo undurblítt. Maður hélt kannski að það myndi hrífa og allir myndu leggjast niður og hlusta. Hlusta á Kaldalóns. Og þá fann ég það. Titanic var að sökkva. En kannski vissu það ekki allir. En ég fann að hljómsveitin vissi það. Fiðluleikarinn leit oft til dyra, viðbúinn með straddann. Píanóleikarinn sökk í píanóið og sellóleikarinn hélt í strengina. Söngvarinn stóð kyrr með Kaldalóns í fanginu og brunabjölluna í eyrunum. Næst þegar ég heyri þetta lag mun ég muna þegar ég sökk. Því þegar laginu var að ljúka var kippt fast í einn kapalinn, myndavélakapalinn. Og það var tekið fast. Þetta var ekki kálfur, þetta var líkara dráttarklár. Og maður kastaði sér á kapalinn. Og það komu fleiri. En það tók fljótt af. Myndavél 3 hvarf úr loftinu. Maður fann að þetta fór að styttast. Titanic var farið að hallast. Og hrópin héldu áfram úti og inni og í samskiptakerfi kafbátsins Farsæls og gylltu síldarskútunnar Titanic. Maður heyrði: Vél 1 farin! Vél 4 farin! Vél 5 farin! Ég á bara eina vél! Svo var þögn í heyrnartólinu. Þá vissi maður að þetta var búið. Tilraun til Kryddsíldar 2008 var lokið. Sjónpípurnar voru brunnar. Hljóðtaugin var brunnin. Farsæll RE 309 kafaði í djúpið.
Hvað svo?
Einhver mundi eftir mönnum ársins. Silfurmönnum tveimur sem hírðust úti í horni ásamt einum löggumanni og tveimur handjárnuðum innrásarmönnum. Þeir báru sig vel. Enda spilað haldbolta í útlöndum og komið heim með pening. (Ég fattaði bara ekki að lokka þá með í vörnina í bardaganum. Þeir hefðu örugglega verið betri en enginn.) Þeir voru drifnir inn, fengu blóm og diplóma. Formönnunum var hjálpað að grafa upp yfirhafnir sínar og töskur og fengu lögreglufylgd að bílum sínum. Við settumst niður og sleiktum sárin. Stríðið geisaði áfram úti. Við byrjum að taka saman. Við kunnum það.
Húmar hægt að kvöldi
Já lentir þú í stríði? Varst þú í slagnum? Er þetta ofstopamaðurinn? Já ég lenti í stríði. Stríði sem ég hafði ekki búið mig undir. Ekki tilbúinn með vopnin. Skildirnir enn bundnir saman eins og í Skagafirði forðum. Já ég er í stríði við andlitslaust fólk. Og ég er líka í stríði við það fólk sem stendur með innbrotsliðinu. Fólkið á Austurvellinum sem hvatti til dáða. Það fór yfir mína línu. En það er allt í lagi. Það fólk hefur andlit. Ég get rifist við það. Ég get farið með því á kaffihús. Ég get hlustað á það og kannski verið sammála því um stóra stríðið. Því við litlu hobbitarnir erum ekki með hringinn. Við erum sennilega að leita eins og allir aðrir að hinum illa hring. Og ef hann finnst - hvað þá? Gollrir býr í oss öllum. En á Miklabæ voru menn höggnir forðum daga. Og ortu kvæði sem halda nafni þeirra á lofti meðan land byggist. Ég er ekki svo mikill bógur. En meðan ég er í þessu starfi sem ég er í, sviðsstjóri í sjónvarpi, mun ég halda áfram. Þetta er ekki flókið. Ég er sviðsstjórinn. Ég ræð hver kemur í sett. En kannski ræð ég ekki við drauga.
Athugasemdir
Flott færsla, skemmtileg lesning. Gaman að hitta fyrir færslu um þetta úr innsta kjarna sem er svona yfirveguð.
Oddur Ólafsson, 3.1.2009 kl. 04:17
Sæmundur Bjarnason, 3.1.2009 kl. 04:44
Prýðilega Skagfirsk frásögn þetta hjá þér Eyþór -og gleðilegt ár til þín og þinna.
Var einmitt að ljúka við Ofsann hans Einars Kára, sem eins og við vitum er byggð á Sturlungu. Þetta var eiginlega bara beint framhald af þeim stíl, nema hvað að sem betur fer fuku bara nokkrir kaplar en ekki hausar í "Bardaganum um Borgina".
Þú stóðst þig á þinni vakt -sem er kannski meira en sagt verður um sum þeirra sem voru mætt í kryddsíldina...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 3.1.2009 kl. 05:23
Fín frásöng Eyþór og trúverðug. En þegar ég koma þarna að með mína myndavél áður en neinn fór yfir hliðið fór ég framhjá fullt af löggum ( og tók myndir af þeim), löggum á mótorhjólum og löggum í bílum fyrir framan Borgina og hjá Dómkirkjunni - en afhverju var engin lögga inni hjá ykkur til að mæta mótmælendum, - ef þyrfti?
Helgi Jóhann Hauksson, 3.1.2009 kl. 07:27
Gott hjá þér að taka þetta saman, Eyþór, já, og að standa þína vakt
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 08:07
Frábær lýsing, takk fyrir þetta.
Rúnar Birgir Gíslason, 3.1.2009 kl. 08:20
Þakka fyrir pistilinn og já segi það bara - frábær still!
Ef fréttir væru skrifaðar í þessum eða líkum stíl væri unun að lesa blöðin og þeim færi örugglega ekki fækka, þetta er íslenska - ljóslifandi.
Ég vann lengi á hótelum og veitingahúsum og hjartað tók nokkur aukaslög þegar ég sá (á myndbandi) að kokkurinn og fleirri starfsmenn voru komnir í vörnina. Nákvæmlega á þann hátt hefði ég og starfsfélagar mínir brugðist við, ekkert annað hægt að gera í stöðunni og þá skipta pólitískar skoðannir okkar engu, við verjum vinnustað okkar og þau samkvæmi sem þar fara fram.
Það er leiðinlegt að heyra bloggara kenna þessum starfsmönnu um ofbeldið, ja það er ekki leiðinlegt - það er bara hjákátlegur barnaskapur.
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 3.1.2009 kl. 08:26
ég á við: "Blöðin - og þeim færi örugglega ekki fækkandi"
Dagblöð virðast vera deyjandi fyrirbæri. Það eru sjálfsagt ýmsar kenningar og stefnur í blaðamennsku og skrifum blaðamanna, en þessi bloggfærsla minnti mig á þá tíma þegar blaðamenn settu mann vel inn í atburðarásina, þeir voru á staðnum og gátu lýst aðstæðum og hugarfari þáttakenda, oft frá mörgum sjónarhornum.
Blogg færslan er eðlilega frá sjónarhorni Eyþórs og annara verjenda, en virðist vera heiðarleg og sönn.
Hvenær tók æsifréttamennskan yfir fréttaflutning á Íslandi? Og hvenær þjónum við bloggarar lákúru æsingsins, kjaftasögu og slúðurs? Jæja, við erum mannleg svosem.
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 3.1.2009 kl. 08:44
Þú ert í hópi betri rithöfunda, Eyþór. Og hafðu það!
Ég hef aldrei skilið þá sem kjósa að tjá sig andlitslausir. Mér finnst sú tjáning falla máttlaus niður sem slík; auðvitað geta andlitslausir unnið spjöll, en það er ekki tjáning. Nema þeir sýni sitt rétta andlit.
Hallmundur Kristinsson, 3.1.2009 kl. 11:05
það er spurning hvort sviðsmaðurinn þyrfti ekki að fara að koma frá sér nokkrum sviðsverkum. Mikið afskaplega var þetta skemmtileg lesning. Þó að það sé kannski ekki beint ætlun þín. Greinilega frábær penni hér á ferð Eyþór.
Takk fyrir þessa frásögn. Gefur sterka mynd af því hvernig fólki í innsta hring hefur liðið á meðan á látunum stóð.
Jóna Á. Gísladóttir, 3.1.2009 kl. 11:33
Gott að fá þessa lýsingu frá velskrifandi, heiðarlegum þáttakanda. Ég var ekki á staðnum. En ég var á móti því að Kryddsíldinni væri send út. Alveg einsog ég horfði ekki á ávarp forsætisráðherra og forseta á RÚV. Þetta fólk er ekki lengur sameiningartákn okkar og að vera að hampa því með bjór og höttum og innantómu hjali finnst mér ögrun við þjóðina, og þessvegna fannst mér það gott að Kryddsíldin var stoppuð og þau skyldu þurfa að læðast út bakdyramegin.
En mér þótti vont að sjá bræður berjast á myndbandinu. Meira um það seinna. Þessi skrif þín leiða nefnilega til ýmissa þanka sem þarf að melta, takk fyrir það.
María Kristjánsdóttir, 3.1.2009 kl. 12:31
Skemmtileg lýsing innan frá. Hafðu þökk fyrir frá einum sem stóð úti í portinu og mótmælti þar.
AK-72, 3.1.2009 kl. 12:43
Þakka kærlega fyrir greinagóða skýrslu, innblásna en trúverðuga.
Það er sómi að svona sviðsstjóra, hans drengjum, barstúlkum og kokkum.
Ég skynja ugg Hjörleifs Valssonar með dýrustu fiðlu landsins, sem spilaði þrátt fyrir aðsteðjandi ógn.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.1.2009 kl. 12:48
Þetta er snilldar pistill, sýnir í hnotskurn hvernig bækur geta verið betri en bíómyndir. Ég skil viðbrögð Eyþórs mætavel. Hann tekur starf sitt alvarlega og hefur ekki þurft áður að mynda sér skoðun á því hvernig best sé að bregðast við slíkri uppákomu sem þessari.
Það er verðugt verkefni að skilgreina hvernig best væri að bregðast við slíkum uppákomum. Persónulega tel ég óverjandi að misbeita valdi og nota efnavopn fyrr en búið er að reyna friðsamlegri nálgun.
Ég hefði viljað sjá meiri skörungsskap meðal prúðbúinna ráðamanna við Kryddsíldarborðið. Það hefði mátt óska eftir talsmanni frá hópnum. Semja um að viðkomandi fengi að lesa upp yfirlýsingu í útsendingu gegn því að hópurinn leyfði þættinum að halda áfram.
Eyþóri óska ég áframhaldandi farsæld í starfi, með þeim fyrirvara að ekki megi leggja allt í sölurnar fyrir það, tæki og tól er ávalt hægt að bæta.
Sigurður Ingi Jónsson, 3.1.2009 kl. 12:57
Þakka þessi skrif, mjög læsileg og það sem meira er: fullkomlega trúverðug. Það er sannarlega tilbreyting að lesa svona vönduð og yfirveguð skrif af þessum vettvangi. Vissulega veldur það áhyggjum að starfsfólk fyrirtækja þurfi eitt að standa vaktina gegn ofbeldisfólki. Hvar var lögreglan eiginlega? Friðelskandi fólk vill ekki svona uppákomur. Gangi þér sem best í starfi þínu og þakka á ný þessi flottu skrif.
Gaius (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 13:00
Takk fyrir þessa tímabæru hugleiðingu, Eyþór. Það var dapurlegt að sjá myndbandið sem sýnir átök starfsmanna Hótels Borgar, Stöðvar 2 og mótmælenda. Þetta getur ekki verið það sem við viljum kalla yfir okkur hér í fámenninu.
Bjarni Jónsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 13:19
Sæll Eyþór,
Þetta er pund fyrir pund einhver skemmtilegasta bloggfærsla sem ég hef lesið.
Takk kærlega fyrir mig.
Haukurinn, 3.1.2009 kl. 13:28
Miklar þakkir frá mér fyrir þennan frábæra texta Eyþór. Þú munt aldrei fá að vita til fulls hversu stoltur ég er af því að vita að þetta var skrifað af Skagfirðingi.
Árni Gunnarsson, 3.1.2009 kl. 13:37
Frábær texti, frábær stíll, frábær lýsing og sannverðug.
EN
Hvernig stendur á að þú og hinir starfsmennirnir, venjulegir landar okkar sem hrunið hefur örugglega farið misvel með, takið ykkur lögregluvald ? Hvernig stendur á að þið farið að tuskast við fólk ? Hvernig stendur á að þið sjáið ykkur sem Hobbittana ? Genguð þið ekki í her Ocrana ?
Magnús Waage (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 13:51
"Loksins, loksins," segi ég nú bara og skrifa. Maður öðlast hreinlega von við slík skrif mitt í allri bölsýninni. Frábær frásögn og enginn getur efast um að hér er satt og rétt sagt frá. Öfgalaus skýrsla og nánast listræn á köflum, og svo þessi heilbrigða afstaða til starfsins, sem maður vill trúa að sé hefðbundin íslensk afstaða. En vissulega undrast maður hve sein lögreglan var á vettvang. Starfsfólk sjónvarpsstöðvar, kokkar á hóteli og barstúlkur eiga ekki að þurfa að standa í átökum við hettuklædda mótmælendur sem enginn veit hve langt ætla að ganga.
Gunnlaugur A. Jónsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 13:53
Ég tek undir með öðrum að þetta er vel skrifaður og skemmtilegur texti.
En ég hef eina spurningu. Hvernig í ósköpunum dettur örfáum starfsmönnum sjónvarpsstöðvar að reyna að varna margfalt stærri hópi fólks inngöngu í Borgina? Það skiptir engu máli hvort maður telji mótmælin hafa átt rétt á sér eða ekki, að ætla sér að stoppa tugi manns einn síns liðs til að tækjabúnaður vinnuveitanda manns skemmist nú örugglega ekki verður að flokkast undir heimskulegan hetjuskap.
Svona eins og að standa í vegi fyrir nauti svo það sleppi ekki út og eigandi þess tapi fé. Og fussa svo og sveia þegar maður liggur í jörðinni með glóðarauga, og segja að nautið hafi bara ekkert átt að reyna að komast út.
Jens (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 14:20
Takk fyrir þetta Eyþór.
Frábær og góð lýsing. Sem hjálpar vonandi mótmælendum að skilja og skilgreina, að það eru ekki allir staðir sjálfsagðir eða boðlegir til mótmæla. Og aðgerðir á svona stað skemma meira fyrir málstaðnum en hitt.
Og þess utan að best er að vinna með fjölmiðlum í mótmælum. Jafnvel þótt manni líki ekki eigendur hans.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 14:24
Þetta hefur örugglega verið skrýtin upplifun!
Bestu kveðjur frá öðrum Skagfirðingi á Skaganum!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.1.2009 kl. 14:30
Við Skagfirðingar um land allt ærumst af solti yfir Eyþóri.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.1.2009 kl. 15:04
Þakka þér fyrir að gefa okkur innsýn í líðan þess sem að ósekju dregst inn í hringiðuna.
Starfsfólki S2 og HB, öryggisvörðum FME, starfsmönnum þingsins og öðrum sem eru innlyksa þegar "óskipulögð" og "friðssöm" mótmæli fara "óvart úr böndunum".
Ábyrgð lögreglu er mikil. Það er hluti af þeirra starfi. En ábyrgð andlitslausra "einstaklinga" sem búa til þessar aðstæður og halda svo fram sakleysi sínu er ekki síðri.
Þessi pistill ætti að vera skrifaðu innan í andlitsgrímu hvers þess sem óskipulega ætlar ekki að koma fram sem hópur og meinar ekkert persónulegt þó einn og einn steinn sé látinn fljúga.
Vilhjálmur Hjálmarsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 15:35
Magnús Waage, tóku þessir starfsmenn sér ekki bara nákvæmlega sama 'vald' og mótmælendurnir? Það að koma í veg fyrir eignatjón og jafnvel eitthvað verra er ekki að taka sér 'lögregluvald'.
egill (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 16:18
Frábær lýsing, trúi því að menn hafi verið vel þreyttir andlega og líkamlega eftir þessa útsendingu.
En eitt finnst mér merkilegt, menn sem spyrja hvernig mönnum detti í hug að reyna að standa í vegi svona hóps fólks. Kannski af því að það er þeirra hlutverk að sjá til þess að þátturinn fari í loftið eins og hann á að gera. Af því þeir bera ábyrgð á tækjabúnaðnum, þótt að þeir eigi hann ekki endilega. Það er vinnann þeirra. Er það heimskuleg hetjudáð að vilja skila sýnu verki?
Ekki myndi ég hleypa grímuklæddum ungling inná minn vinnustað til þess að skemma vinnutækin mín, ég myndi bregðast nákvæmlega eins við. Þótt að það sé einhver annar en ég sem eigi tækin.
Jón Hilmar Gústafsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 16:38
Takk Eyþór ! Vonandi verður þetta til þess að fólk hættir að verja ANDLITSLAUSA FÓLKIÐ.
Sverrir Guðjónsson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 17:30
Með allra skemmtilegustu færslum sem ég hef séð, flott sjónarhorn innan frá. Þakkir frá einum grímuklæddum úr portinu.
Björn Gísli Gylfason, 3.1.2009 kl. 18:05
Er munur a nafnlausri kosningu og nafnlausum motmaelum? Eg veit thad ekki. Thad eina sem eg veit er ad thessi motmaeli komu sterkar vid tha sem verid var ad motmaela en oll 13 motmaeli Hardar Torfa til samans.
Annars lifleg og skemmtileg lesning, eg aetla rett ad vona ad Orlygsstadabardagi verdi afram einstakur i Islandssogunni thegar arid 2009 er verdur a enda....
Sveinn (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 18:53
Já þetta er í hópi betri bloggfærslna sem ég hef lesið, mjög ánægjulegt að fá að deila þessu sjónarhorni með þér og hafðu þakkir fyrir það.
Sóley Björk Stefánsdóttir, 3.1.2009 kl. 19:00
Sem skagfirðingur og vinur allra hobbita segi ég: Frábær myndræn og lifandi frásögn! Ein besta færsla sem ég hef lesið hér á blogginu og hef ég lesið þær margar.
Ævar Rafn Kjartansson, 3.1.2009 kl. 19:54
Vel skrifað og fróðlegt að fá þessa innanbúðarlýsingu. Ég votta höfundi samúð, en hann er einn af fjölmörgum fórnarlömbum þeirra sem sköpuðu úlfúð og reiði meðal þjóðarinnar.
En hvernig datt ykkur í hug að takast á við þetta fólk? Það er ekki í starfslýsingu ykkar. Og hvers vegna ættuð þið að meina þeim inngöngu sem vilja mótmæla talsmönnum forgangshópa sem alltaf eiga inngang í fjölmiðla (án tillits til eignarhalds).
Mér er illa við fólk sem hylur andlit sín og beitir ofbeldi, því ekkert réttlætir slíkt athæfi. En ég er ekki síður hrædd við það þegar fjölmiðlar taka sjálfir þátt í að stjórna atburðarásinni. Sama með hvaða hætti það er gert.
jóhanna (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 19:58
Flott færsla Eyþór. Bardagamenn hafa ekki alli undirbúið það stríð sem þeir sjálfir lenda í.
Benedikt Sigurðarson, 3.1.2009 kl. 20:03
Eyþór er greinilega maður úr innsta Hring - Baugsveldisins.
Sérdeilis vel krydduð frásögn og alls ekki eins súr og Kryddsíldin hans Sigmundar Ernis.
En í svartálfanna bænum ekki leika þennan hallærislega leik að stilla öllu upp í góðu Hobbitana og vondu Orcana. Þú ert jú bara sviðsstjóri en ekki leikstjóri. Hélt kannski að sBaugararnir hefðu kennt sínu fólki að sitja kjurr á sínum básum. En verði þér að góðu Eyþór, að verja Skagafjörðinn þinn. Sennilega verður þá Hof þeirra Lilju Pálma og Baltasars þitt höfuðvígi sem þú ætlar að verja með kjafti og klóm í Lokasennu. (Allir í sund í hléinu!)
Rétt upp hend sem vill ganga í Varnalið Stöðvar 2 fyrir 1500 kall á tímann.
Guggan (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 20:19
Ég þekki Eyþór frá fornu fari og veit að það er ekki tilviljun að hægt sé að kalla hann "sviðsstjóra Íslands." Nú sé ég að hann gæti gert tilkall til fleiri titla. Takk, Eyþór.
Ómar Ragnarsson, 3.1.2009 kl. 20:24
Það er mikill minnihluti sem hylur andlit sitt á mótmælum, aðeins anarkistar vegna þess að þeir vilja vera persónulausir í aðgerðum sínum og forðast að hafa leiðtoga. Hvernig væri að hætta að hugsa út í þetta smáatriði?
ps. Þetta var vel skrifað hjá þér en aðeins of stolt frásögn af "baráttu" þinni við andlitsleysingjana, sem voru nb circa 10% af mótmælendunum.
Andlitslaus (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 20:43
Góð lýsing og skemmtileg með ýmsar tengingar við kvikmyndir sem gerir frásögnina mynræna.
Þó sumir vilji gagnrýna þína nálgun og starfsmanna að þessari 'innrás' þá skil ég hana vel. Frá ykkar sjónarhóli voruð þið að verja eigið virki sem þið báruð sannarlega ábyrgð á.
Enn sannar bloggheimurinn sig með því að gefa manni innsýn í þennan tilgreinda atburð frá öllum hliðum.
Ignito, 3.1.2009 kl. 21:11
Heill og sæll Eyþór
Góð frásögn af undarlegum og sorglegum atburðum... Ég hef nú unnið við þær nokkrar Kryddsíldirnar og hugsa alltaf til ykkar á þessum degi og það var undarlegt að fylgjast með þennan dag og átta sig á því hvað var í gangi..
Bestu kveðjur frá Hvanneyri
Guðrún Bjarnadóttir
Gudrun Bjarnadottir (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 21:17
Sæll Hobbiti nr. 1
Takk fyrir þetta. Þessi góðu skrif setja þessa atburðarrás í gott samhengi fyrir mig.
Þó ég hafi nú migið í saltann sjó þá var þessi "borgar" lífsreynsla þung, þá aðallega sálarlega. Að berjast gegn andlitslausu fólki og reyna að tala einhvert sens í það, án nokkurs árangurs. Maður veit ekki hvað andlitslaust fólk er tilbúið að gera, ég bara veit það ekki. Það hlustaðar ekki á nein rök heldur bara ýtti okkur "Hobbitum" BURT og ætlaði inn.
Ég er friðarsinni en það kom að engu gagni þarna.
Mér er spurn hvað hefði gerst hefðu þau andlitslausu komist inn fyrir vegg "Hobbitanna" og andspænis gestum þáttarins.
Eyþór! enn og aftur snilldarskrif.
mbk, "Hobbiti#2
Jóhann Bjarni Kjartansson (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 21:19
Ja hérna! Vissulega fær penni en að draga svart/hvít skil á milli sín sem saklausu Hobbitana og hinna vondu Orka. Held að það væri auðveldlega hægt að snúa þessum formerkjum við þegar við spyrjum að því hverju er verið að berjast fyrir.
Þú Eyþór gerir þér e.t.v. ekki grein fyrir því að þú vinnur fyrir hringinn eina - Baug - og það sem þú kallar hina vondu Orka er fólkið sem vill uppræta spillinguna sem þrífst í skjóli yfirvaldanna sem vernda hringinn eina.
Þannig gæti Alþingi verið Mordor í leit af hringnum sínum sem það týndi þegar bankarnir þeirra féllu í hausinn á þeim. Hver er Sauron? Erfitt að átta sig á því þar sem nokkrir koma til greina og e.t.v. er Sauron ekki bara ein manneskja heldur allt aflið illa saman komið á einum stað (Alþingi).
En hvað sem allri pólitík líður þá er ljóst að sagan er skrifuð af sigurvegurunum og við spyrjum að leikslokum hverjir voru hinu raunverulegu hobbitar og hverir orkarnir illu (helst lít ég á mig sem einn af riddurum Rohans - vill halda mig utan við stríð og ofbeldi en þarf líklega að lokum að rísa upp og tryggja fall Saurons - því máttur hans er mikill og friður minn verður ekki mikill ef hann fær aftur til sín hringinn eina - held að þú og þínir samstarfsmenn séuð e.t.v. líkari riddurum Rohans en hobbitunum - sem einir eru knúnir áfram af réttlætishugsjóninni og geta varast mátt hringsins eina, eitthvað til í því?)
Þór Jóhannesson, 3.1.2009 kl. 21:56
Frábær pistill hjá þér Eyþór. Vona að þið þurfið ekki að upplifa svona aftur. Sorglegt að þátturinn komst ekki í loftið :( og að menn skyldu meiða sig þarna.
Steinunn Rósa Einarsdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 23:53
Þú ert frábær penni og örugglega frábær sviðsstjóri. Þeir sem ekki eiga að vera í settinu fara ekki þangað meðan þú getur barist á móti. Hvenær er stríð og hvenær er ekki stríð, ég upplifði þetta sem skemmdarverk sem hugsað var til að skaða og skemma fyrir fullt af fólki. Fólki sem var á staðnum, hvort heldur var fyrir framan vélarnar eða fyrir aftan þær. Þarna var var verið að flytja vandað efni til áhorfenda sem hafa margir hverjir horft á Kryddsíldina í mörg ár sem part að gamalársdegi. Þarna var verið að skemma, skaða og meiða. "Svona gera menn ekki" sagði maður nokkur hér um árið.
Þú hefur staðið marga vaktina, en sennilega ekki lent í svona löguðu áður í vinnunni. Kannski slegist í Miðgarði eða Bifröstinni, en þá við gaura með andlit.
Kærar þakkir fyrir pistilinn, hann er góður og líka heiðarlegur, en það er meira en segja má um sum skrifin á blogginu undanfarið. Þar er fólk borið allskonar sökum og kallað ýmsum ónöfnum, en svoleiðis gerir Skagfirðingurinn ekki.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.1.2009 kl. 23:57
Það er aldeilis stíliseringin og myndlíkingaflaumurinn.
Ég sá þessa atburði frá öðru sjónarhorni en bara í sjónvarpi og á vefmiðlum og þótti þetta afar kjánalegt af hálfu Stöðvar 2 og fréttaflutningurinn með eindæmum öfugsnúinn. Þið sem þetta skipulögðuð sáuð þessa atburðarás greinilega fyrir eins og þú lýsir sjálfur en höfðuð ekki vit á að panta öryggisverði til að sjá um öryggi gesta og starfsfólks. Hafa þessir gestir ekki margir verið með öryggisverði með sér undanfarnar vikur?
Mér fannst það afar kjánalegt að horfa á ykkur tæknimennina, kokkana og barstúlkurnar í hlutverkum dyravarða að meina fólkinu inngöngu. Það var því dyravörður en ekki tæknimaður sem varð fyrir pústrum eins og sagt var í fréttum.
Hvað hélduð þið að fólkið myndi gera annað en það að hrópa eitthvað kjánalegt eins og það gerði á pöllum alþingis og trufla þannig útsendinguna. Fyrst þið höfðuð ekki fyrirhyggju á að útvega öryggisverði áttuð þið ekki að vera blanda ykkur eða óþjálfuðu starfsfólki Hótel Borgar í þessi átök. Mér sýnist megnið af fólkinu hafa verið vel innan marka í sinni hegðun, þó það leynist alltaf einn og einn sauður í fjöldanum eins og kom í ljós þegar hagfræðingur Seðlabankans gekk þarna um fyrir utan með hnefan á lofti að snapa sér fæting.
Þeir sem héldu að glanssýningin Kryddsíld gæti gengið eins og síðustu ár í beinni útsendingu úr Hótel Borg þar sem allt að 10000 manns hafa komið á mótmælafundi eru ótrúlega bláeygðir og síst af öllu hæfir til að segja okkur fréttir, eins og kom í ljós í fréttaflutningi Stöðvar 2. Þeir hafa engan sens fyrir þeirri reiði sem ólgar í þjóðfélaginu, þeim kaflaskiptum sem hafa orðið á hag íslendinga og því hvað þetta froðusnakk er tilgangslaus. Heldur Sigmundur virkilega að þetta sé eini vettfangurinn fyrir stjórnarandstöðuna til að mæta þessu fólki eins og hann sagði? Hefur hann einhvern tíma komið inn í Alþingishúsið? Hann hefði átt að hafa vit á að breyta Kryddsíldinni hressilega, og þá að taka hana upp í öruggara húsnæði og jafnvel taka hann upp fyrirfram.
Páll Guðjónsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 00:16
Ég er búin að bíða eftir frásögn þinni, síðan ég sá fréttirnar á nýársdag.
Snilldarfrásögn, og spennan, á meðan á "varnaratriðinu" stóð, sem var við það að ná hámarki þegar þeir sem raunverulega áttu að standa vörð, mættu á svæðið, þá féll allt í réttan farveg, eða þannig.
Löggan mætt og línan skýrðist, bardagamennirnir gátu hætt að reyna að þrýsta sér inn, og settust þá niður og fóru að syngja. -
Takk fyrir þennan snilldarpistil, það er gott að fá þessi skrif frá fyrstu hendi, og það frá manni sem maður getur treyst að fer með rétt mál. -
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 4.1.2009 kl. 00:20
Þvílíkt Drama. Stærir þig af því að vera frá Skagafirði þar sem sagan gengur út á manndráp og húsbrennur. Þvílíkt og annað eins til að stæra sig af. Svo koma flestir Skagfirðingar hér inn til að mæra þig, já það vantar ekki loftið í ykkur. Svo er vitnað í skáldsögur að auki. Hjá hverjum vinnur þú? Ég veit svosem svarið við því. Samdi hann kannski þessa ritgerð fyrir þig eða færðu borgað fyrir þetta? Veist þú ekki að m.a. yfirmaður þinn meðal margra annara eru búnir að setja Ísland á hausinn. Ertu hissa á því að fólk sé örvæntingafullt og reitt? Hvílíkur Hobbiti.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 4.1.2009 kl. 01:48
Mér finnst alveg með endemum að fólk skuli virkilega taka þann pól í hæðina að þið sem stóðuð vaktina hefðuð átt að hleypa þessu grímuklædda fólki inn á Hótel Borg. Og svo þetta að af því það er hægt að tengja sama stöð 2 og Jón Ásgeir þá hafi verið allt í lagi að láta fólkið vaða inn, skemma og skandalisera að vild. Mátti kannski misþyrma ríkisstjórninni eða hvað. Það er sorglegt hvernig tekist hefur til við að æsa fólk upp og brengla allt sem kalla má heilbrigða skynsemi.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.1.2009 kl. 02:32
Sæll Skagfirðingur -
Frábær frásögn og nauðsynleg - því miður held ég að hún dragi ekki úr ofbeldisliðinu - til þess er ofstækið of mikið - hrokinn - sjálfsréttlætingin og afneitunin. Kennitalan hér fyrir ofan hefði kanski orðið að konu ef hún hefði fæðst og verið alin upp hjá Skagfirðingum. Að ekki sé talað um ef hún væri ein úr þeirra hópi. Einhvernveginn dettur manni í hug við lesturinn að þessa kennitölu skorti eitthvað sem hraustur Skagfirðingur gæti hæglega veitt henni enda vanir knapar.
En nóg um það -kveðjur og þakkir til þín - þú varst þér og þínum til sóma.
Ólafur I Hrólfsson
Ólafur Ingi Hrólfsson, 4.1.2009 kl. 02:36
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja þetta, en þessi frásögn er bæði mjög trúverðugur vitnisburður um sjónarhornið innanfrá, og einkar lipurlega skrifuð. Og er ég ekki einu sinni Skagfirðingur nema að einum fjórða hluta.
Ég skil orka-lýsinguna þannig að þetta hafi horft svona við þér, sem er skiljanlegt. Það er auðvitað ógnvekjandi að standa andspænis svörtum múg sem maður veit ekki til hvers er líklegur. Ég skil að þú hafir snúist til varnar, og ég hugsa reyndar að ég hefði gert það líka. Þarna gengu borgarar inn í hlutverk sem lögreglan hefði átt að sinna. (Veigameiri slagbrandur hefði líka verið góð hugmynd, sem og að taka þáttinn ekki upp á Hótel Borg heldur Hveravöllum eða Kolbeinsey.)
Annars tek ég undir það sem María sagði, sorglegt þegar bræður berjast, þegar sú staða kemur upp að skuldugir vinnandi menn glími við aðra skulduga vinnandi menn í stað þess að standa saman gegn höfuðpaurunum.
Vésteinn Valgarðsson, 4.1.2009 kl. 03:28
Kærar þakkir fyrir vel skrifaða, fróðlega og trúverðuga frásögn.
Sennilega er þetta bar upptakturinn af öðru og miklu meiru en tíminn mun leiða það í ljós.
Sigurður Þórðarson, 4.1.2009 kl. 10:05
Ótrúlega myndræn og lifandi frásögn af þessum atburðum.
Það er ljóst að á síðasta ári gerðust hér atburðir sem hafa gjörbreytt samfélaginu okkar.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.1.2009 kl. 15:16
Frábær frásögn af leiðindar atburði alveg með ólíkindum að fólk skuli vera með svona skemmdarstarfsemi slíkt eyðileggur bara mátt mótmæla alla veganna þá hef ég ekki lengur áhuga á að fara niður á austurvöll um helgar til að láta vita að mér standi ekki á sama um ástandið.
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla treysti á og hlakka til að sjá og vinna mér þér nk laugardagskvöld.
kv Sæmi
Sæmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 17:18
Takk fyrir góða frásögn, ekki við öðru að búas af Skagfirðingi, svo ég mæri þig eins og aðrir Skagfirðingar, fyrst það fer svona í taugarnar á sumum.
Þessum sumum eins og Sólveigu vil ég benda á, að ég sé ekki neitt í frásögn Eyþórs sem bendir til þess að hann sé að verja þann málstað sem verið var að mótmæla, hugsið nú aðeins áður en þið æpið í vandlætingartón. Ég sé þetta sem frásögn manns sem var að verja þau verk og verkefni sem hann bar ábyrgð á og honum bar skilda til. þar er ekkert samasem merki á milli að hann sé að verja stefnu pólitíkusana eða skoðanir annara almennt. Eyþór var að sinna sínu starfi og verja það. Að gera honum upp skoðanir í kjölfarið er fáranlegt og ykkur sem það gerið til mikillar minkunnar. Ég er mótmælandi en ég hefði samt sem áður gengið í lið með barstúlkum og tæknimönnum í þessu máli og ekki hugsað mig um tvisvar hvað það varðar.
Kv frá Skagfirðingi
(IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 19:08
Takk.
Eyþór Árnason, 4.1.2009 kl. 22:13
Flott lýsing. Vel gert. Þetta myndi kallast "inside information" á einhverri útlenskunni.
Aðeins þyrftu "leikstjórarnir" að marka betur stefnuna í þessum mótmælum. Á að hvetja til eignaspjalla og ofbeldis eða markvissra mótmæla og funda almennings líkt og verið hafa? Með fullri virðingur fyrir óánægju, vona ég að betri leiðin verði valin í samfélagi sem kallast siðað.
Auðvelt að vera vitur eftirá , en þetta var dómgreindarbrestur hjá Stöð 2. Sumbl og veitingar í gyltum veislusal í beinni með þátttöku æðstu ráðamanna. Rosalega mikið 2006 eitthvað. Ekki nú. Ekki þarna. Vatn hefði dugað í venjulegu setti.
Valdimar Guðjónsson (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 22:18
Ég er Eyfirðingur en er vinur Skagafjarðar, gengur það?
En eitt finnst mér merkilegt, menn sem spyrja hvernig mönnum detti í hug að reyna að standa í vegi svona hóps fólks. Kannski af því að það er þeirra hlutverk að sjá til þess að þátturinn fari í loftið eins og hann á að gera. Af því þeir bera ábyrgð á tækjabúnaðnum, þótt að þeir eigi hann ekki endilega. Það er vinnann þeirra. Er það heimskuleg hetjudáð að vilja skila sýnu verki?
Ekki myndi ég hleypa grímuklæddum ungling inná minn vinnustað til þess að skemma vinnutækin mín, ég myndi bregðast nákvæmlega eins við. Þótt að það sé einhver annar en ég sem eigi tækin.
Þetta er það sem ég vildi sagt hafa en Jón Hilmar hér að framan komst bara svo að orði? Ég hefði akkúrat gert það sama ef þetta hefði verið minn vinnustaður. En það að svona margir er undrandi á þessu, getur verið að þessi hugsunarháttur sé að deyja út?
Takk fyrir frábæran pistil Eyþór
Anna Guðný , 4.1.2009 kl. 23:44
Mér þykir mjög vænt um Eyfirðinga, er þaðan úr öðrum leggnum, þó ekki hafi ég búið þar eins og í Skagafirði svo þú dugar að mínu viti alveg fullkomlega Anna Guðný.
(IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 00:19
Góð lýsing og ljóst að Eyþóri hefur ekki leiðst að standa í þessu og upplifað þetta eins og hann væri staddur í bíómynd.
Það sem gerðist á Hótel Borg er engu að síður kaldur og bitur raunveruleikinn. Viðbrögð hræddrar, ráðvilltrar og svívirtrar þjóðar, sem hefur verið nauðgað af fámennri klíku stjórnmálamanna og auðmanna. Í hópi nauðgaranna fer eigandi Stöðvar 2 framarlega í flokki.
Það á að sjálfsögðu ekki að bitna á undirmönnum og leitt ef ágætt og samviskusamt starfsfólk Stöðvar 2 og Hótels Borgar varð fyrir barðinu á æstum mótmælendum.
Ég átel hinsvegar yfirmenn fjölmiðilsins að rjúfa ekki útsendingu fyrr og setja starfsmenn og gesti þáttarins í stórhættu. Réttast hefði verið að taka upp þáttinn á einhverjum óvæntum stað, þar sem vitað var að yrðu mótmæli.
Ég set síðan spurningarmerki við það að starfsmennirnir skyldu setja sig í hættu við að verjast hópnum. Ómögulegt að segja til um í hve miklu andlegu jafnvægi sumir þarna hafa verið. Við megum þakka fyrir að enginn af starfsmönnunum er grænmeti í dag.
Loks um þátt lögreglunnar: Henni ber engin skylda til að standa vörð um vettvang þar sem verið er að taka upp skemmtiþátt. Ef fjölmiðill er að taka upp svona þátt, sérstaklega ef vitað er að mótmæli verða, á hann sjálfur að bera kostnað af öryggisgæslu og borga hana fullu verði. Ekki láta skattgreiðendur borga. Nóg eru nú eigendur Stöðvar 2 búnir að kosta ríkissjóð.
Theódór Norðkvist, 5.1.2009 kl. 09:44
Mjög vel skrifað. Skemmtileg lesning af órólegum atburðum.
Fæ það aldrei skilið, að fámennur hópur fólks sem hér hafa skrifað athugasemdir skuli vera að reyna réttlæta þá vesalinga sem hylja andlit sýn.
Mér virðist að þessi fámenni hópur hafi fengið panik við að lesa svo trúverðuga og vel skrifaða lýsingu af atburðunum, og geri þá allt til að sverta og níða höfundinn.
Ásbjörn (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 14:25
Algjörlega frábær lesning.
Spurning vaknar í mínum huga: Hinir grímuklæddu mótmælendur vilja ekki láta vita hverjir eru að mótmæla, er það til að ef þeir slasa einhvern, þá sé það á hreinu að það var ekkert persónulkegt. Svona eins og á Gaza, þar fara mannslíf í hrönnum, en einginn drepur neinn persónulega? Er þetta málið?
Jón Halldór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 16:46
Frábær skrif hjá þér og skemmtileg frásögn. Það er gaman að fá að heyra frásögnina frá einhverjum öðrum en anarkista eða fréttamanni sem að vorkennir mótmælandanum svo að vera beittur harðræði af hálfu lögreglunnar.
Maður á bara bágt með að halda sönsum og það liggur við að það sjóði uppúr af bræði við það hvað ákveðinn hópur af vitleysingum heldur að hann sé að bjarga okkar lýðræði en fattar bara ekki hvað þeir eru að gera mikið ógagn.
Ég er samt ansi hræddur um að þetta sé bara byrjunin mótmælin eiga eftir að verða ennþá harðari. Þetta fólk sleppur við nánast allar ákærur og í góðri trú um að verða ekki kærðir þá fara ærslabelgir af stað að gera ekkert annað en að skemmtasér einmitt í svona stríðsleik. Magnað að einn úr hópnum hafi meira að segja lýst því yfir að hann væri ekki í "stríði" við ykkur.
Það væri réttast að sækja þetta fólk til saka af fullri hörku, ég held það vanti samt bara hreðjar undir saksóknara og dómsvaldið. Þeir þora því bara því miður ekki.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 17:03
Theódor, gott og gillt að ætlast til þess að Stöð 2 sjái um öryggisgæslu sjálfir. Ég held samt að lögin hérlendis eru bara ekki nógu góð við menn sem vilja verja sig.
Öryggisverðirnir hefðu ekki leyfi til að bera nein vopn, og hefðu ekkert til að standa straum við mótmælendum nema hendurnar. Og þær mættu þeir heldur ekki nota, þeir mættu benda mótmælendum kurteisislega á að fara eða þeir neyðist til að kalla til lögreglu. Innan þess lagalega ramma sem við búum við hefðu einkareknir öryggisverðir því verið mæta gagnslausir.
Í Ameríku hefðu öryggisverðir verið í fullum rétti til að skjóta þessa mótmælendur og því spurning vort mótmælendur hefðu haft hug á að ráðast þarna inn. Þar sem þetta er jú einkaeign.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 17:08
Best hefði verið að Stöð 2 hefði bara flutt þáttinn í annað húsnæði án þess að það kæmist upp. Í því felst engin uppgjöf, aðeins verið að vernda starfsmenn sem eru ekki ráðnir til að standa í stríðsátökum (til þess er kaupið hjá þeim væntanlega ekki nógu hátt.)
Að minnsta kosti hefðu þeir átt að kaupa löggæslu hjá lögreglu- eða sýslumanni líkt og aðstandendur útihátíða þurfa að gera. Það lá fyrir að hættan á ólátum var til staðar.
Theódór Norðkvist, 5.1.2009 kl. 17:31
Kolbrún Valvesdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 17:42
Theódór, það hefði verið töluvert gáfulegra. Þaðsýnir líka ákveðið merki um hroka að hálfu stöð 2 að láta sig það engu varða þótt vitað hafi verið að mótmæli væru fyrirhuguð.
Það er eins og þeir vilji bara átökin og kannski er það raunin. Þetta seldur jú fréttir.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 17:45
Kolbrún, menn sem vinna að því að steypa valdinu frá en þora ekki að sýna andlit sitt sökum þess að þeir eru hræddir við að valdið eigi eftir að misþryma þeim síðar???
Ber það ekki soldið mikið meðsér að þeir hafi enga trú á árangri sínum??? Tilhvers eru þeir þá eiginlega að þessu ???
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 17:48
Fróðlegt að lesa hér kommentin. Ég sjálf er á móti ofbeldi og skemmdarverkum. En er með mótmælum þ.e. friðsælum eins og sést á minni heimasíðu. Mér sýnist á myndbandinu (fræga sem mbl.is er að reyna að fjarlægja á sem flestum síðum) að lögreglan og tveir bræður Klemenssynir séu að beita mesta ofbeldinu þ.e. Óskar Klemensson hagfræðingur í Seðlabankanum og bróðir hans Guðmundur svæfingalæknir koma þeir síðast í myndbandinu. Einn lögreglumaður varð fyrir slysi, sem mér finnst miður en af völdum hvers veit ég ekki og það eyðilagðist víst einn kapall hjá Stöð 2. En það eitt að síðuhöfundur er frá Skagafirði fær fjölda bloggara til kommenta jákvætt. Segir þetta ekki okkur allt? Er þetta ekki svona í stjórnmálunum líka þ.e. maður þekkir mann? Eru þetta ekki viðhorf sem skemma? Ef segjum Eyþór kæmist í áhrifastöðu, hvað myndi hann ekki gera fyrir nágranna sína? Akkúrat þetta er vandamál okkar fámennu þjóðar.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 18:20
Arnar Geir: Það gefur auga leið að þeir vilja breytingar, eða er það ekki augljóst? Þetta fólk tekur eflaust niður hetturnar ef og þegar þeir ná sínu fram, þ.e. að koma ríkisstjórninni frá og hreinsa til í valdablokkunum. Annars er ég sammála þér í fyrri færslunni.
kveðja,
Kolbrún Valvesdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 18:20
Kolbrún, ég veit það fullvel að þetta fólk vill breytingar, það vill ég líka. Aðferðir mótmælenda hafa mér hinsvegar ekki þótt mjög málefnalegar þótt auðvitað eru menn með viti í þeirra röðum.
Það er svo aftur að þetta ofbeldi sem er í röðum sumra mótmælenda er algerlega tilgangslaust. Ofbeldi er ekki og hefur aldrei verið nein lausn og má aldrei réttlæta. Það sem ég var einfaldlega að segja er að eins og þú benntir á væri þetta fólk að berjast fyrireinhverju. Og af hræðslu við að ná ekki sýnu markmiði þá felur það andlit sitt. Okei gott og gillt en hvað veistu um mörg fótbolta eða handbolta lið, fyrirtæki, félagasamtök eða stjórnmálaflokka eða í raun hvað sem er. Sem hafa náð árangri en ekki vitað að þeir myndu ná honum. Ef eins og þú sagðir að ástæðan fyrir grímunum er sú að þeir eru hræddir við stjórnvöld þá er þetta töpuð orussta einfaldlega sökum þess að þeir trúa því ekki sjálfir að þeir geti unnið hana.
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 18:32
"En það eitt að síðuhöfundur er frá Skagafirði fær fjölda bloggara til kommenta jákvætt."
Sólveig... hvaða forsendur hefur þú til að fullyrða svona??? Þú hefur greinilega týnt húmornum í "kreppunnni"
Þetta er svo fáranleg fullyrðing að maður veit ekki alveg hvort á að hlæja eða gráta yfir svona kjánaskap. Bara svo það sé á hreinu þá þekki ég t.d ekki Eyþór, og mér vitanlega aldrei hitt hann, og þú þekkir greinilega ekki Skagfirðinga ef þú heldur að þar séu almennt einhverjir halelújakórar.
(IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 18:33
Þú ert Skagfirðingur er það ekki Sigurlaug? Það útskýrir færslu þína. Svo held ég Sigurlaug að mjög fáir sem hafa misst vinnu sína og jafnvel horfa fram á að missa allt sitt hafi einhvern húmor fyrir því, það teldist heimska. Ekki það að ég hafi misst neitt ennþá en veit um marga og enginn getur verið öruggur með sitt.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 18:40
Rökstyddu, hvernig útskýrir það færslu mína að ég sé Skagfirðingur, hvað eru eiginlega að meina????
(IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 18:57
Arnar Geir: Ef þú lest fyrri færsluna mína þá tek ég fram að ég hafi bara ekki gert upp við mig hvort fólk eigi að hafa rétt á að mótmæla klútaklætt eða ekki. Miðað við það sem sést á myndböndunum eru þeir í miklum minnihluta sem hylja andlit sín.
Mér finnst hins vegar að enginn hafi rétt til að beita ofbeldi, klútaklæddur eða ekki klútaklæddur. Ég vil ekki að grjóti sé kastað í fólk, ég vil heldur ekki að piparúða sé úðað yfir fólk og ég vil ekki að hnefar séu látnir tala (Klemenzbræður).
Ég skil ekki af hverju þú heldur svona fast í að mótmælendur trúi ekki á málstað sinn. Auðvitað trúir fólk á málstaðinn, annars stæðu þau ekki í þessu. Ef og vonandi þegar hreinsunarstarf hefur farið fram verður réttlætið í fyirrúmi og enginn þarf að hylja andlit sitt . Lestu fyrstu færslu mína aftur, þar færi ég rök fyrir hvers vegna ég tel þau kjósa að hylja andlitin.
Kolbrún Valvesdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 18:58
"Staðreyndir: Skagfirðingur í húð og hár" Stendur þetta ekki á höfundasíðu þinni? Það sem ég er að meina Sigurlaug eins og ég sagði í fyrra kommenti mínu að aðalmein okkar Íslendinga er skyldleiki við hvort annað. Ég er kannski komin út fyrir þessa færslu síðuhöfundar en spilling allra stjórna á Íslandi (spilling sem er ástæða fyrir þessum mótmælum) er einkavinavæðing nóg er að vera samsveitungur.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 19:06
Sigurlaug þetta er að gerast á þessu bloggi. Skagfirðingar finna til samkenndar þó þeir þekki hvorn annan ekki neitt. Kommentin við þetta blogg eru alveg útúr korti. Þeir sem kommenta eru ekki að hugsa um hvað mótmælin ganga útá einungis frásögn eins manns sem reynist vera Skagfirðingur. Fólk hugsar ekki raunsætt.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 19:11
það skýrir ekki orð þín Sólveig, því þú gefur í skyn að bara af því að ég er Skagfirðingur muni ég vera sammála öllum úr sömu sveit, sem er náttúrulega bara bull og vitleysa. Ég er stolt af því að vera úr Skagafirði ...já, en sammála öllum Skagfirðingum... NEI.... langt því frá, og því er þessi fullyrðing fáranleg.
Ég rökstuddi mitt comment fullkomlega, óháð ætt og uppruna.
(IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 19:18
Það er fjöldinn allur að Skagfirðingum búinn að kommenta hér jákvætt. Ég talaði aldrei sérstaklega til þín upphaflega það er þitt mál ef þú hefur tekið það til þín.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 19:21
Sólveig þú alhæfðir um alla Skagfirðinga, sem blogguðu jákvætt, tel mig því ekki undanskilda þar hjá þér, enda bera svör þín til mín ,þess merki að ég var sett í þann dilk af þér. En læt hér staðar numið, þar sem farið er að snúa út úr.
Með kveðju frá Skagfirðingi.
(IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 19:53
Nei ekki alla Skagfirðinga, bara þá sem hafa svarað hér. Með kveðju frá ekki Skagfirðingi heldur sjáfstætt hugsandi Reykvíkingi.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 5.1.2009 kl. 19:58
Bara smá innskot sem bætir kannski ekki úr skák: Ég er víst hálfur Þingeyingur.
Eyþór Árnason, 5.1.2009 kl. 21:05
Maður lifandi.... þú skemmileggur allt og ég hálfur Eyfirðingur
(IP-tala skráð) 5.1.2009 kl. 21:12
Sæll Eyþór og Gleðilegt ár!
Bráðskemmtileg frásögn hjá þér..... ertu ekki á rangri hillu? Ættir að skrifa meira, þú er góður penni.
Kveðja
Linda Gísla Vestfirðingur og Hvergerðingur
Linda Samsonar Gísladóttir, 5.1.2009 kl. 21:19
"Skemmtileg frásögn" Góður Penni" Er fólk virkilega svo heiladofið að það fattar ekki hvað skáldsagan þín fjallar um. Í hvaða raunveruleika lifir þetta fólk?
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 6.1.2009 kl. 01:13
Ég ákvað að sleppa inngangi um uppruna en demba mér beint í hrósið. Þetta er frábærlega vel skrifað hjá þér! Þegar saga þessara mómælaöldu, sem hefur hrifið sum okkar með sér, verður skrifuð þá finnst mér nauðsynlegt að þessi flotta og einstaklega vel skrifaða frásögn standi þar! Sjónarhorn þitt á atburði síðastliðins gamlársdag ætti að verða ómetanlegur vitnisburður í slíkri bók.
Annars er ég mótmælandi sjálf og tek undir flest það sem María og Vésteinn segja hér að ofan. Þó sérstaklega niðurlagsorð þeirra beggja.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2009 kl. 01:46
Þetta er mjög áhugaverð og vel skrifuð lýsing hjá þér og ég vil þakka þér fyrir að deila þessu sjónarhorni með öðrum landsmönnum. Ég verð að segja að þarna fannst mér mótmælendur ganga allt of langt - ofbeldi er að mínu mati aldrei rétta leiðin. Þegar farið er að skemma eigur manna og slasa fólk þá er kominn tími til að stoppa við og hugsa sinn gang. Ég hef mikla samúð með þér og öðrum þeim sem urðu fyrir árásum við vinnu ykkar á gamlársdag.
Það sem mér finnst hins vegar óhugnalegast að sjá einstaklinga ganga berserksgang með hulin andlit og líkjast þannig einna helst einhverjum leigumorðingjum úr lélegum bíómyndum. Í raun finnst mér eins og það sé búið að taka mótmæli almennings í hálfgerða gíslingu, ég neita í.þ.m. að slást í flokk með andlitslausum ofbeldismönnum sem virðast ætla að nýta sér aðstæður til að meiða og skemma.
Guðrún (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 11:20
Sólveig.
Við lifum ekki í þínum "raunveruleika".
Ég tel mig þó allavega hafa einhvað til að vera heiladofinn í, en það getur maður augljóslega ekki sagt um þig.
Mér finnst í lagi að þú seigir álit þitt á pistlinum en fæ ekki skilið þörf þína að nöldra yfir fólki fyrir að hafa ekki sömu skoðun og þú.
Ásbjörn (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 13:07
Ásbjörn
Fólk má alveg og gjarnan hafa aðra skoðun en ég á hlutunum, annars væri lítið gaman að lifa. Minn raunveruleiki í dag er annar en fyirir hrun Íslands sl. haust, það þykir mér miður. Ég vinn í þannig vinnu að ég verð vör við hvað er eða réttara sagt hvað er ekki að gerast í þjóðfélaginu og hlutirnir fara versnandi. Ég kvíði vaxandi atvinnuleysi ekki bara fyrir mig heldur marga aðra líka. Mig tekur sárt að horfa upp á fólk sem er í kringum mig missa allt sem það átti. Fólk sem lifði ábyrgu lífi og tók ekki beinlínis þátt í góðærinu. Mig hryllir við því að arfleifð okkar til barna okkar og verðandi barnabarna er sá skuldaklafi sem ég segi að glæpamenn hafi stofnað til. En ef Nýja Ísland yrði græðgislaust og spillingarlaust þjóðfélag þá er kannski einhver tilgangur með þessu öllu en ég er ekki að sjá það gerast. Þetta er minn raunveruleiki í dag. Því miður.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 6.1.2009 kl. 18:34
Sólveig, viljiru sjá nýja Ísland sem græðgislaust og spillingarlaust land þá er ég hræddur um að þú verðir að taka þátt í því að móta það samfélag.
Það er á ábyrgð okkar ríkisþegna að vanda vel þegar við kjósum yfir okkur næst. Og það er meira að segja okkar sem virkilega viljum fá það land að gera allt sem í okkar valdi stendur til að það verður mögulegt!
Það eru nýjir og betri tímar framundan!
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 18:53
Arnar, við tökum öll þátt í því að móta þetta samfélag. Ef ætti að kjósa í dag þá hef ég ekki áhuga á að kjósa neinn af þeim stjórnarflokkum sem eru í boði í dag. Hér þarf ný öfl. Nýja flokka og burt með alla einkavinagreiða. Ég tel okkur þurfa faglegt fólk sem vinnur á faglegum nótum. Ef svo yrði þá væru sko betri tímar framundan.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 6.1.2009 kl. 19:41
Þú ert snilli kæri Eyþór. Frábær pistill. Gleðilegt ár.
Yngvi Rafn Yngvason (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 22:29
Sólveg, það er allt í vinnslu ;)
Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 09:17
Sælt veri fólkið, gaman að sjá svona marga sýna áhuga á heiðarlegum frásögnum :) Ég vil taka það fram í byrjun að ég er dóttir Eyþórs Árnasonar og einstaklega stolt af því sem og hef alltaf verið stolt af honum sjálfum og öllu því sem að hann gerir. Mig langaði bara aðeins að kommenta á manninn sjálfan og beini orða minna þá aðallega til þeirra sem hafa tekið uppá því að níða höfund þessarar frásagnar t.d. hún Sólveig Þóra Jónsdóttir. Pabbi minn, án þess að vera ýkja eitthvað, er einfaldlega einn sá besti, alheiðarlegasti, vinnusamasti og yndislegasti maður sem þekkist! Þetta er maður sem hefur aldrei á ævinni verið vondur við einn eða neinn og fer ekki að byrja á því núna, sem sýnir sig t.d. í því að hann byrjar ekki rífa sig við þá sem sjá sér fært um reyna að byrja á einhverjum skítslag. Pabbi minn er leikari og eins og Ómar orðaði það svo vel þá er hann sviðstjóri Íslands, hann vinnur hjá Saga Film og svona á venjulegum degi þá er hann að taka upp hina og þessar kvikmyndir og leikna sjónvarpsþætti og svo þegar það vantar alvöru mann í sjónvarpssettið til þess að stjórna öllu með ljúfri hendi þá er Eyþór alltaf kallaður til. Persónulega finnst mér algjörlega út í hött að tengja allt þetta sem gerðist við einhverja pólitík eða eigendur viðkomandi sjónvarpsstöðva, mér er ekki kunnt um það að pabbi og Jón Ásgeir séu einhverjir vinir eða kumpánar. Málið snýst bara algjörlega um það að þarna voru samankomnir einstaklingar (tæknimenn, kokkar og barstúlkur) sem voru að vinna sínu vinnu, algjörlega óháð því sem þeir voru að vinna við, við vitum ekki nema margir sem hafa verið að vinna þarna bakvið tjöldin séu líka mótmælendur og á móti núverandi stjórn en auðvitað eins og sannir fagmenn þá láta þeir sínar skoðanir ekki hafa áhrif á sínu daglega vinnu. Þegar ég sá myndbandið fræga þá var ég bæði reið yfir því að það væri að ráðast á pabba minn og líka stolt yfir því að horfa á pabba, Jóa og Gísla með hattinn taka svona rösklega á þessum, ég vil segja heiglum, því í mínum huga þá er sá sem þorir ekki að sýna andlit sitt heigull, sérstaklega í ljósi þess hvers þau voru að mótmæla. Ég er sjálf fylgjandi öllum þessum mótmælum og mæti stundum á fundi og mér finnst svona hegðun skemma fyrir málstaðnum. Snúum aftur að máli dagsins, sem virðist vera orðið pabbi minn :). Ég elska pabba minn útaf lífinu og er svo mjög stolt af því að við séum Skagfirðingar og Þingeyingar, bara útaf þeirri ástæðu að allir eiga að vera stoltir af því hvaðan þeir koma, óháð uppruna. Eyþór Árnason er einfaldlega fagmaður í alla staði og mun aldrei láta neinn reyna að eyðileggja starf sitt því að hann er heiðvirður maður og svo er hann einnig einn besti penni sem ég þekki, hann er rómantískt skáld, yndislegi hobbita pabbi minn :) Bestur kveðjur til allra sem eiga eftir að lesa þessa færslu og vita alveg nákvæmlega hvað ég er að tala um og svo einnig til þeirra sem eiga að eftir að kynnast honum.
Ragnheiður Vala Eyþórdóttir.
P.s. allur þessi hasar hefði svo ekki komið á betri tíma því við familían vorum öll búin að eyða mjög, mjög miklum tíma yfir jólin að horfa á allar Lord Of The Rings myndirnar og andstætt því sem pabbi minn heldur fram þá finnst mér ég nú sjá mikinn Aragorn í honum, aðalhetjan sem berst fyrir réttlæti og vinnur sig inn í hjartað hjá öllum sem kynnast honum :)
Ragnheiður Vala Eyþórsdóttir (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 20:50
Góð færsla Ragnheiður Vala sem ber vott um allt það góða sem þú hefur frá foreldrum þínum og ástríku uppeldi.
:-) :-)
Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.1.2009 kl. 21:15
góð færsla hjá þér Ragnheiður Vala. Og það er sko alveg rétt Pabbi þinn er Snilingur og Hann er Sviðstjóri Íslands
Halli Linkur (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 22:32
Ragnheiður: Ég hef kynnst pabba þínum lítillega og et tekið undir allt það sem þú segir um hans persónu. Ég kynntist honum á Landsmóti hestamanna í Skagafirði en ég sá um staffaeldhúsið þar og þurfti aðstoð við að leysa nokkur mál sem komu upp þar. Hann var annar þeirra sem reyndist mér þannig að hann greiddi fljótt og vel úr öllu því sem ég leitaði með til hans. Ég get þess vegna tekið undir allt það sem þú segir um hann sem persónu og fagmann. Mér sýnist reyndar að hann hafi fulla ástæðu til að vera stoltur af þér líka, sem hann er eflaust.
Án þess að vera með nein leiðindi þá skil ég vel að þú kallir þá, sem hann stóð á móti á gamlárskvöld, heigla í ljósi þess hvað þér þykir vænt um hann en ég er ekki sammála þér þar. Ég skil alveg viðbrögð pabba þíns þó mér finnist það í sjálfu sér varasamt ef fólk vill frekar verja hugsanlegar skemmdir á tækjum heldur en skemmdir á fólki. Mér finnst Vésteinn Valgarðson sem kommentar hér að ofan draga það svo vel fram sem ég hugsaði eftir þessa lesningu að ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma.
Hinu dáist ég af, óháð hvar okkur greinir á, hvað pabbi þinn er frábær penni. Hvernig hann segir frá þessum atburðum án haturs og án þess að vera með alvöru skítkast út í einn eða neinn. Ég dáist líka af þeim kærleik sem þú sýnir pabba þínum með að bæta athugasemd þinni við þau sem komin eru og það líka af yfirvegun og skynsemi. Ég vildi þess vegna staðfesta að ég veit að það sem þú segir um persónu, færni og fagmennsku pabba þíns er satt og rétt.
Ég vona svo að þú upplifir það ekki sem leiðindi þó við séum ekki fullkomlega sammála um hina hlið málsins sem er framganga mótmælenda þennan dag.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.1.2009 kl. 22:42
Ég er hins vegar sammála Ragnheiði Völu um heigulsháttin. Menn bera við að það sé til að forðast einhvers konar skráningar og að það leiði til nokkurs konar persónuskerðingar og framvegis. Mér finnst þetta hins vegar bera vott um að menn hafi ekki trú á því sem þeir eru að gera, og að því sé vissara að láta það ekki sjást að menn hafi látið ófriðlega, þá er auðveldara að smæla framan í "óvininn" seinna meir, og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinum eftirmálum. það er nefnilega ekki alltaf þægilegt að þurfa bera ábyrgð.
(IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 00:55
Mig langar að svara þér Ragnheiður Vala Eyþórsdóttir, já ég er vonda konan sem gagnrýndi skrif pabba þíns. Ég var ekki að gagnrýna persónuna Eyþór Árnason sjálfan þar er hafsjór á milli. Einhvernvegin varð ég reið þegar ég sá þessi skrif og viðbrögðin við þeim. Því það er mikið búið að ganga á í þjóðfélaginu eins og þú hlýtur að vita. Það sem gerðist þarna á gamlársdag er nefnilega einmitt tengt póltitík þ.e. mótmælin. Ég er meðmælt friðsælum mótmælum. Svo eru vissir hópar mótmælenda sem kjósa að hylja andlit sín, ég veit ekki af hverju það er en það hlýtur að vera ástæða fyrir því. Kannski einhver annar geti svarað því. Svo á fólk vissulega að vera stolt af uppruna sínum en alls ekki að notfæra sér hann. Þannig kom það mér fyrir sjónir í pistlinum. Það skiftir í raun og veru engu máli hvaðan af landinu við erum því við erum fyrst og fremst Íslendingar og eigum að standa saman sem slíkir. Pabbi þinn ber ekki ábyrgð á sínum vinnuveitendum, það veit ég en sumt segir maður í reiði. Pabbi þinn má vera stoltur að eiga dóttur eins og þig. Hann er örugglega jafn frábær og þú.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 8.1.2009 kl. 01:11
Þetta er nú meira skagfirðinga-rúnkið!
Flestum sem skrifa athugasemdir hér virðist ómögulegt að sjá heildarmyndina. Þetta snýst ekki um Skagafjörð, sviðsstjóra, Stradivariusa, síldar, Sigmund Erni eða silfurdrengi. Ekki um andlitsleysi, myndavélakapla eða píanóleikara.
Þetta snýst um einstak sið- og dómgreindarleysi manna sem buðu ráðamönnum til margréttaðrar matarveislu með bjór og snafs og slepjulegu froðusnakki. Þessir sömu ráðamenn bera langmesta ábyrgð á því að íslenska þjóðin er efnahagslega gjaldþrota. Bera ábyrgð á því að okkar samtími er að breytast í hamfaratíma. Bera ábyrgð á því að komandi kynslóðir þurfa að búa við skuldaánauð og stórskaddað velferðarkerfi.
Ef ykkur finnst þessar staðreyndir (já, staðreyndir) skipta minna máli en gæði og góðmennska sviðsstjóra og ætterni hans, þá er ykkur ekki bjargandi.
Lifi Byltingin!
Hörður (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 04:38
Já við Skagfirðingar höfun nú alltaf verið nokkuð góð í að veita sjálfum okkur ánægju, í hvaða formi sem það er. það kannt þú greinilega ekki Hörður, og spurning hvort þú ættir ekki að prófa bara sjálfur, gætir byrjað á því að syngja Skál og syngja, það er alltaf mjög hressandi, tala nú ekki um, því það er að koma helgi
Held nú reyndar að það sért þú sem sérð ekki heildarmyndina fyrir fýlunnni sem situr í nefinu á þér gæskur. Hvers vegna ertu á móti því að rökræður fari fram á milli stjórnar og andstöðu??? Það hefur ekki skilað nokkrum sköpuðum hlut að rjúfa útsendingu. Og hver er þa tilgangurinn, nema þá klár öfund yfir að fá ekki síld líka, og vera ekki boðin í hópinn. Og ef þetta er allt í einu nú orðið siðleysi hvað var það þá á árum áður???? Man ekki eftir að hafa heyrt neitt um þetta siðleysi fyrr. Þarna var verið að reyna halda í hefðina, sem við flest allavega byggjum þessa hátíð á, þ.e jól og áramót, og þetta var orðin hefð. Það vill svo til að meirihluti þjóðarinnar kaus þessa stjórn og er þar með að súpa seiðið af því, og ef þú vilt að það sé lýðræði verður að virða það. Ef við viljum losna fyrr við þá, gerist það akúrat með umræðum en ekki grjótkasti og ofbeldi, nú ef þú hefur ekki þor og dug í að ræða hlutina skaltu finna einhvern fyrir þig sem þú treystir til þess. Þannig nærð þú árangri en ekki með skítkasti.
(IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 09:49
Sæl
Hér sé fjör í umræðum
Ástæða þess að ég kem með meira hér inn er sú að ég skil ekki alveg þá gagnrýni sem sumir hafa komið með vegna nálgunar Eyþórs að þessum atburði.
Ég gat ekki lesið úr grein hans neina afstöðu sem slíka. Sem sviðstjóri bar hann ábyrgð á að allt gengi snurðulaust fyrir sig í útsendingu. Tekur m.a.s. fram að frásögn sé lituð en helst kemur sá litur fram í að líta á sig og sína sem hetjurnar að verja virki sitt en tekur ekki afstöðu á einhverjum málstað.
Enda horfi ég á þetta sem lýsingu á atburðarrás frá manni sem upplifði í eigin persónu og frá hans sjónarhorni. Ég get ekki séð annað en sé mjög heiðarlega framsett og sé enga ástæðu til að rengja hana.
Né heldur hef ég ástæðu til að rengja aðrar frásagnir í svipuðum dúr frá aðilum sem voru meðal mótmælenda.
Nægar eru vel ýktar sögur á bloggheimum um þennan atburð til að myrkva sýn almennings á hvað raunverulega átti sér stað. En þessi ásamt öðrum gefa manni góða mynd af atburðinum og því enn og aftur minnist ég á hversu gott það er að hafa bloggheiminn svo maður geti metið svona hluti sjálfur á eigin forsendum
Ignito, 9.1.2009 kl. 18:27
Takk fyrir frábæran pistil, sem flestir kunna að meta nema mestu öfgamenn. :)
Svala Jónsdóttir, 9.1.2009 kl. 20:41
Það sést á myndbandi sem var tekið af einhverjum inni í húsinu að sá, sem fékk skrámu og eitthvert mar undir öðru auganum, var einn þeirra sem tók á móti mótmælendum sem ætluðu sér inn á Hótel Borg þennan dag. Það sést á myndbandinu að það kemur eitthvað ógreinilegt fljúgandi að utan og lendir í andlitinu á viðkomandi. Sá víkur sér undan um leið og tekur undir, mig minnir vinstri, kinn. Það hefur komið fram að þetta hafi verið skaft af blysi. Meira veit ég ekki og ég man því miður ekki hjá hverjum ég sá þetta myndband hér á Netinu. Biðst afsökunar á því að ryðjast hérna fram með þetta svar við einni að spurningunni sem þú varpar fram hér að ofan. Læt Eyþóri eða öðrum eftir að svara öðrum spurningum þínum.
Langar að nota tækifærið og taka undir athugasemd Ingitos. Það að útsendingarlið og starfsfólk Hótel Borgar gekk í það sem lögreglan átti að standa í er þó að mínu viti alls ekki hafið yfir alla gagnrýni. Hins vegar sést það á myndum frá atburðum að framganga þeirra var eins laust við ofbeldi eins og stympingar af því tagi sem þær og frásögn Eyþórs lýsa geta orðið. Mér finnst það ekki síst aðdáunarvert við frásögn Eyþórs að hann tekur enga áberandi afstöðu eins og Ingito bendir á og þar koma heldur ekki fram neinir fordómar gagnvart mótmælunum sem slíkum eða þeim sem tóku þátt í þeim.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.1.2009 kl. 22:13
Veisti Eyþór ap ég er búinn að horfa á þetta og hugsaði allan timann um hversu skrítið og hversu illa þér hlyti að líða í svona,,,,,,að jafn léttlindur brosálfur eins og þú þurfir að lenda svona er svakalegt
Einar Bragi Bragason., 11.1.2009 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.