Á brúninni

21. okt. árið 1253 hittast tveir bræður á Öxnadalsheiði milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Annar á vesturleið, hinn á norðurleið. Þetta hefur trúlega verið rétt fyrir ofan Bakkasel eða þar í brekkunum. Þetta voru tveir af Dufgusbræðrum, Björn drumbur og Kolbeinn grön. Þeir bræður eru ekki að smala fé þennan haustdag fyrir 756 árum. Nei, annar var að koma úr brúðkaupsveislu á Flugumýri. Brúðkaupsveislunni sem öllu átti að breyta. Koma á friði. Hinn var á leið að Flugumýri en ekki til að setjast að veisluborði. Hann átti annað erindi. Hvað þeir sögðu og hvernig þeim hefur liðið þarna á heiðinni veit ég ekki en Einar Kárason hefur leikið sér með það í Ofsa.

Af hverju hefur þessi átakanlega fallega mynd af þeim bræðrunum þarna á heiðarbrúninni sótt á mig undanfarna daga? Hvernig tengjast Dufgusbræður mér og mínum tíma? Jú því eftir síðasta gamlársdag finnst mér eins og þeir séu skyldari mér en áður. Allt í einu er ég, vel miðaldra sjónvarpsstarfsmaður sem varla má vamm sitt vita, sýndur sem fyrsta frétt nýs árs í stimpingum við fólk sem ætlar sér að grípa inn í rás vanans og krydda síldina nýju kryddi þennan gamlársdag 2008. Árið 2008, þetta undarlega ár sem allt hrundi og hlaupabrettin byrjuðu að ganga afturábak. Þessari tilraun til Kryddsíldar hef ég áður lýst í bloggfærslu og fer ekki nánar út í það. Þar skrifa ég mig frá þessu sem eins konar áfallahjálp og er nú nokkuð brattur um hríð. En það er eitthvað sem gefur mér gætur og ég finn allt í einu að það eru bræðurnir á heiðinni sem eru að fylgjast með mér. Því þetta var sérkennileg lífsreynsla sem neyðir mann til að staldra við og skoða ýmislegt upp á nýtt. Og það sem ég hrökk mest upp við er það að á einu fréttaskotinu sést einn af þeim svörtu reyna að dírka upp glugga á Hótel Borg með hníf. Og ég skildi það. Ef ég væri mótmælandi væri ég með verkfæri á mér til að geta brugðist við óvæntum aðstæðum, klippt sundur víra, skorið sundur bönd... En þarna sem ég sit heima í stofu og sé þetta er mér skyndilega kippt aftur inn í stimpingarnar á Borginni og ég man að ég ber alltaf á mér verkfæri sem sparar manni sporin í vinnunni. Verkfæri  sem er allt í senn töng, skrúfjárn og hnífur og ég kalla það búmannsþingið mitt. Og allt í einu sló mig svo sterkt að ég var líka vopnaður. Ég bara vissi það ekki. En nú veit ég það og það er ekki góð tilfinning. Þetta litla verkfæri sem er búið að vera vinur minn í mörg ár er nærri orðið óvinur minn. En nú bið ég ykkur að lesa varlega og flana ekki að neinu því nú kemur smá hugarflug. Ef innbrotsfólkið hefði komist lengra inn? Ef það hefði komist að dyrunum inn í gyllta salinn? Ef ég hefði misst stjórn á mér? Ef ég hefði misst vitið? Bara augnablik. Ég ætla ekki að svara svona spurningum. Ég veit bara að á þeirri stund sem stimpingarnar stóðu yfir var allt eitthvað svo ósjálfrátt og undarlegt.

Og þá kem ég aftur að vinum mínum á Öxnadalsheiðinni. Ég mundi að ég hafði hugsað til þeirra Dufgusbræðra þegar ég keyrði gegnum Króatíu suður að Adríahafi með Óvinafagnað eftir Einar í töskunni og það fór um mann hrollur og maður fann hvernig sorgin lá í loftinu. Hér heima höfðu Dufgusbræður og þeirra samtímamenn tekið slaginn fyrir okkur. Ég veit ekki hvaða tíma við erum að sigla inn í. En þegar menn boða byltingu, húsbrennur og hýðingar verða menn að tala skýrt. En líka lesa varlega og flana ekki að neinu. Þetta er ekki skrifað til að verja neinn sérstakan. Það verða allir að sjá um sig og sína. Og við verðum að hugsa hvert um annað. Okkur öll. Nei en kannski skrifa ég þetta til að reyna að verja heiður bræðranna á heiðinni, því þeir geta ekki varið sig lengur. Peningasárin eru hryllileg. Stjórnmálaeymdin er ömurleg en þjóðarbardagi eyðileggur sálina. Og ef sálin er farin er ekkert eftir. Þegar ég hugsa um bræðurna standa og faðmast á heiðarbrúninni fyrir ofan Bakkasel, brúninni sem ég hef svo oft staðið á sjálfur, þá finn ég að ég vil ekki standa á þeirri brún framar án þess að hafa sagt: Pössum okkur. Drepum ekki hvert annað. 

Ég loka augunum. Myndin er skýr. Þeir bræður faðmast. Kolbeinn grön heldur vestur heiðina út Blönduhlíð og Flugumýri brennur. Björn drumbur heldur norður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Oftast þegar ég les bloggfærslur hleyp ég á orðunum. Reyni að ná merkingunni á sem mestum hraða. Það tekst furðanlega. En í þessari færslu las ég hvert einasta orð og leyfði setningunum að hljóma í huga mér hverri fyrir sig.   Þannig hljómar mín viðurkenning í dag.  Takk fyrir.

Hallmundur Kristinsson, 15.1.2009 kl. 14:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Verulega vel sagt. Það birtast mér stundum sýnir aftan úr grárri forneskju sem stundum er hægt að setja í samband við nútímann. Sturlunga er heillandi og Einar kemur hlutunum vel frá sér. Ég bíð eftir sögum hans um Apavatnsför, Örlygsstaðabardaga og fleiri atburði. Söguefnið er óþrjótandi. Aðrar aldir eru ekki síður áhugaverðar. Ég sé t.d. oft fyrir mér drekkingu Jóns Gerrekssonar, brunann á Grund og margt fleira.

Sæmundur Bjarnason, 15.1.2009 kl. 14:44

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta heitir að endur meta stöðuna og staldra við. Ég finn við þennan lestur að ég er þakklát fyrir minn búsetustað við Miðfjarðará svo fjarri Borginni og bardögunum, á ekki einu sinni vasahníf (maðurinn minn á nokkra). Ég skynja ótta þinn sem alvöru skelfingu, svo stutt frá einhverju sem kannski hefði gerst. Halltu áfram að skrif og það mun hjálpa.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2009 kl. 16:16

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Las þessa færslu og langar til að þakka fyrir mig Þú ert frábær penni og er einkar lagið að vekja mann til umhugsunar. Ég vona svo sannarlega með þér að engin eigi eftir að beita vopnum þannig að það meiði annan en það er alls ekki það sem ég óttast mest.

Ég hef áhyggjur af því hvað við eigum eftir að sitja uppi með þá sem neita að hlusta og axla ábyrgð vegna „peningasára“ þjóðarinnar. Ég óttast að sárin eigi eftir að hafast illa við og fjölga á meðan þeir þverskallast við að víkja.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.1.2009 kl. 23:25

5 Smámynd: Börkur Hrólfsson

En ef þú hefðir bara hagað þér eins og sá hlutlausi aðili, sem þú átt að vera, og bara vikið til hliðar ?. Og bara leyft fólki að fara sínu fram, værirðu þá þessi þátttakandi í mótmælunum, sem þú ert ?, með flashback, svefntruflanir, og stöðuga þörf fyrir áfallahjálp ?.

Blessaður reyndu að slappa af, og vera eins og maður, og hætta þessu væli. Láttu þetta svo verða þér að kenningu, og reyndu aldrei aftur að standa í vegi fyrir 500 reiðum mótmælendum, flestir hefðu haft vit á því, en ekki þú. Því fór, sem fór.

Börkur Hrólfsson, 16.1.2009 kl. 02:48

6 identicon

Kærar þakkir fyrir færslurnar þínar Eyþór - þú ert alveg hreint frábær penni - enda ættaður úr Skagafirði... Ég hef fylgst með þér úr fjarlægð - og verið hreykin af þér - stjórnar þínu liði eins og góðum herforingja sæmir... þú átt líka alla mína samúð að hafa lent í þessum skríl á gamlársdag, skríl sem ekki einu sinni þorir að mótmæla undir nafni og "andliti".  Það er í lagi að mótmæla - ekkert að því - réttur allra - EN - það er EKKI í lagi að ráðast á annað fólk - meiða og særa sálina - og það er ekki í lagi að eyðileggja eigur fólks eða fyrirtækja - þetta lið á að skammast sín - það er mín skoðun - kannski væri rétt að gera eins og áður fyrr - taka upp hýðingar á Austurvelli - maður spyr sig???

Og við Börk Hrólfsson, þann sem skrifar á undan mér - þú ættir að skammast þín - ef þú hefur vit á því - eða ertu  svo veruleikafyrrtur eftir öll mótmælin, að siðgæðisvitund þín er fokin út í veður og vind - eða hefur hún aldrei verið fyrir hendi??? Eyþór var EKKI hlutlaus aðili - hann bar ábyrð - stjórnaði því sem fram fór innan dyra - og hann vann sitt verk vel og af heilindum.

Held svo áfram að fylgjast með blogginu þínu Eyþór - það er bara tær snilldarlesning.  Bestu kveðjur úr Skagafirðinum - við erum stolt af okkar manni.

Jóhanna Björnsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 09:00

7 identicon

Þetta er vel mælt, Eyþór. Þú ert góður.

Gísli Ásgeirsson (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 12:54

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég ætla að sýna þér þá virðingu og tillitssemi Eyþór að sleppa öllum vangaveltum um nokkrar þeirra athugasemda sem hér vöktu athygli mína. Eiginlega finnst mér þessi texti eiga að fá að vera í friði tímalaus í eigin húsi. Og kallast á við þá atburði sem hann vísar til í nútíð og framtíð óáreittur af hvatvísi okkar sem lesa.

Hafðu fyrir þetta heila þökk mína!

Árni Gunnarsson, 16.1.2009 kl. 15:49

9 identicon

Sæll Eyþór.

Það er ótrúlega gaman að koma hér inn á síðuna þína og lesa skrif þín. Ég hvet þig til að ganga skrefið til fulls, ég mun kaupa bókina þína   Þú ert auðvitað meiri maður að setja upplifun þína svona upp fyrir okkur hin, amk trúi ég þér og þinni lýsingu á "síldarævintýrinu"   Og ég hef svo sannarlega áhyggjur af því hvað gerist næst.  Að sjá þetta pakk sem er með hulin andlit er ekki mér að skapi.  Tek það fram að ég fer stundum að mótmæla á Austurvöll, geri það sperrtur, ekki sem hulin persóna. 

Börkur.  Nú þekki ég þig ekki neitt og langar ekkert að kynnast þér miðað við skrif þín.  En ég tel mig geta sett mig í spor Eyþórs, að auðvitað taka menn bara ómeðvitað á móti, þegar maður er í vinnunni sinni og á að passa uppá ákveðna hluti.  Að stíga til hliðar í svona kringumstæðum gera bara gungur, kannski að þú sért einn af þeim.  Ég er viss um að Eyþór og félagar hafa ekki undirbúið þetta, þetta bara gerist og menn hafa nokkur sekúntubrot til að hugsa, á ég að standa í vegi eins eða stíga til hliðar.  Alvöru menn stíga ekki til hliðar fyrir skríl sem hagar sér svona.   Hvað hefðir þú gert við sömu aðstæður og menn með hnífa og hulin andlit hefðu ráðist að þér í þinni vinnu sem leiðsögumaður með 20 ferðamenn á fjöllum.  Kannski stígið til hliðar ?  Nei, andskotinn, þú hlítur að verja hinn hóp...

Kv

Palli

Palli (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 23:03

10 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Kveðja

Ben. Ax.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 17.1.2009 kl. 02:05

11 identicon

Tek undir með Palla. 

Maður með grímu = huglaus og það er engin afsökun að verða fyrir skrásetningu af yfirvöldum, því ef þú trúir á það sem þú ert að gera ætti stoltið að koma upp sem segði síðar , þegar "réttlætinu er fullnægt" sko þetta eru mín afrek, þetta er það sem við unnum að og vildum ná fram.

Og ekki er hægt að skýla sér bak við þá skoðun að ráðist sé að ykkur vegna skoðanna ykkar (mótmælum ykkar) Því það gera mótmælendur,  þeir eru ráðast að skoðunum annara. Og báðir aðilar eiga auðvitað rétt á sínum skoðunum eða er það ekki????  Og hverning viljum við að niðurstaða náist???  Með ólátum, ofbeldi og eignaspjöllum???? Nei og aftur nei. Við viljum kosningar sem fyrst, en þó ekki strax því gefa verður nýjum öflum kost á að vinna að framboði sem mótvægi við núverandi stjórn og það gerist ekki á einni nóttu. 

Höfum friðinn á borði,  en ekki í orði en þó innan velsæmismarka.

eða eins og einhver sagði en vantar endir

Gárungarnir gantast með

góðra manna siði.

(IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 02:31

12 identicon

Blessaður Eyþór, það er verulega gaman að lesa bloggið þitt, þú ert alltaf jafn einlægur og ljúfur, færslan um þína upplifun á Borgini var áhrifarík og skrifuð þannig að ég gat alveg séð hana myndrænt firir mér, að mínu mati varst þú að gera hárrétt verja þitt vinnusvæði tæki, tól og starfsfélaga, líklega hefuru þú nú getað notað sömu tök á þessa mótmæla grislinga eins og á lamhrútana í sveitinni okkar í gamla daga. Sveitastörfin koma oft að góðum notum.  

Álfheiður (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 00:53

13 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Sæll Eyþór.  

Las þessa frábæru færslu þína og hugrenningar um gamlársdag og átökin á  Borginni og tímaflakkið,  skemmtileg og áhugaverð nálgun á þessum atburði sem efalítið hefur valdið þér töluverðu hugarangri .  

Magnús G.

Magnús Guðjónsson, 23.1.2009 kl. 00:12

14 Smámynd: Eyþór Árnason

Kærar þakkir fyrir innlit og athugasemdir.

Eyþór Árnason, 25.1.2009 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband