17.10.2008 | 00:51
Hamfarir þriðji hluti
Ég er búinn að fara nokkrar ferðir í hamfaraheimunum. Í huganum auðvitað. Orðið reiður og hryggur og bara venjulegur aftur. Því það er ekki eins og mikið hafi breyst hjá manni. Ekki enn. Ég finn að vísu er maður skreppur niður í Nóatún til að fá sér plokkfisk eða kjötbollur í hádeginu að umferðin er minni. Já vel á minnst: Hvar er maður staddur í lífinu? Er ég ekki á sama stað og þegar ég gekk upp í Kjötbúð Tómasar á Leiklistarskólaárunum í hádeginu til að fá mér kjötbollur eða flatbrauð með hangikjöti og rækjusalati eða bara sviðasultusneið! Nú er Tómas horfinn af horninu og ég stekk upp í jeppann og bruna 300 metra niður í Nóatún í gúmmelaðið. Magnað. Í fyrradag kvartaði ég við vin minn og sagði að ég væri hálfleiður því mér fyndist ekki nógu miklar hörmungarfréttir, hlutabréfin á uppleið í heiminum o.s.frv. Hann leit á mig eins og ég væri orðinn brjálaður og spurði hvort mér fyndist ekki nóg að verðbólgan færi í 70% eins og Danir spá. Það sljákkaði aðeins í mér. Annars á maður að lesa ljóð í þessum hörmungum. Ég byrjaði á Jóhanni Jónssyni. Las Söknuð. (Var að hlusta á góðan þátt um þetta ljóð á rás 1 þar sem Vilborg Dagbjartsdóttir gaf manni nýja sýn á það.) Það er auðvitað ljóð sem maður á að geyma undir koddanum; "Hvar hafa dagar..." Gramsaði svo í Degi Sigurðar eitt kvöldið. Mér fannst ansi fyndið að fyrir fimmtíu árum kom hans fyrsta bók út... og hvað hét hún? Jú; Hlutabréf í sólarlaginu. Það verður nefnilega allt svo táknrænt þessa dagana. Gamlir júróvisjontextar öðlast nýja merkingu "...og píanistinn sló sinn lokahljóm..." Og guði sé lof fyrir sólarlagið. Það verður ekki frá okkur tekið, ekki tunglið, ekki Hekla, ekki silfurverðlaun, ekki urriðinn í Laxá í Mývargi (og fyrst ég er lentur norður) ekki þingeyskur eldmóður... Annars varð konu minni að orði eftir síðasta blogg að ég væri farinn að hljóma eins og Steingrímur J. Og ég varð nokkuð upp með mér, því eins og hann sagði í ræðunni frægu átti að loka alla inni og senda út hvítan reyk. En aftur að skáldum. Steinn átti afmæli. Ég fór með lúna bók í rúmið það kvöld. Ég ætla að skrifa um Stein næst. Nema hamfarirnar magnist. "...Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til..."
Athugasemdir
...það var nefnilega vitlaust gefið."
Sjáumst á Austurvelli klukkan þrjú.
Lára Hanna Einarsdóttir, 18.10.2008 kl. 01:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.