Æðruleysið

K.K. söng í Kastljósinu áðan. Það var einhvern veginn svo heillandi að hlusta á hann og strákana raða sér í kringum tvo hljóðnema og flytja sönginn um sjóferðina á Æðruleysinu. Já augnablik gleymdi maður hremmingunum og veitir nú ekki af að gleyma sér smá stund. Eða hvað sagði Sæmi Rokk í myndinni um árið: "Ég dansa til að gleyma." En svo verður pása í dansinum og þú strýkur af þér svitann og kemur til sjálfs þín aftur. Stelpan sem þú dansaðir við horfin og þú ráfar um örvæntingarfullur og klukkan að verða þrjú... Nei, nei, þetta átti ekki að verða eitt hamfarabloggið enn, a.m.k. ekki núna, en maður bara ræður varla við sig. Því alltaf versnar þetta. Og svo er hann kominn á norðan. Það stendur hér strengurinn upp götuna og slítur úr honum, slyddufjandi. Við höfum rafmagn ennþá, en það fer sennilega líka. Og hvað þá? Ekkert blogg, ekkert sjónvarp. Svo verður kannski ófært í fyrramálið og ég ekki kominn á nagladekkin. Ofan á þetta bætast svo striðsskaðabæturnar! Ja mikið helvíti. Og þó... Ég nefnilega byrjaði í ræktinni á mánudaginn og búinn að fara þrisvar í vikunni og þetta er svo magnað að þegar ég kem út líður mér eins og nýhreinsuðum hundi og æðruleysið streymir um mig. Svo kemur maður heim og sökkvir sér niður í hamfarirnar. Þið getið því ímyndað ykkur hvað ég varð glaður þegar það kom í ljós að eitthvað undarlegt er að gerast í jörðinni við Upptyppinga og Hekla komin að falli. Svo gósentíðin heldur áfram fyrir hamfarafíkilinn. Lítið sætt túristagos myndi laga stöðuna aðeins. Það gæti líka komið stórgos og meiri hörmungar. En að ná æðruleysinu augnablik er á við gott viskístaup, eða kæfubrauðsneið með kaldri mjólk. Svo getur maður látið K.K. syngja fyrir sig - meðan maður hefur rafmagn. Og ef það fer þá verður maður að syngja sjálfur...

Allt í voða - eintómt flos
orðahnippinga.
Allir líka óttast gos
upp við Typpinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ja, hérna... Það er engu á þig logið, Eyþór! Fyrir utan allt annað veistu hvernig nýhreinsuðum hundi líður.    En líðanin sú hlýtur að vera dásamleg.

Ég er búin að bíða spennt eftir gosi lengi... bara einhverju gosi. Ekki mannskaðagosi þó og skepnurnar verður að passa líka. En gosi.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.10.2008 kl. 23:32

2 Smámynd: Magnús Guðjónsson

Ég  veit ekki hvort er betra núna æðruleysið eða kæruleysið til að komast í gegnum ástandið,  gott gos væri ágætt til að dreifa huganum.. Gangi þér annars vel í ræktinni og passaðu þig á hálkunni..

Magnús Guðjónsson, 24.10.2008 kl. 01:00

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 24.10.2008 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband