Svart/hvítt

Það er merkilegt hvað maður sér skrítna hluti út úr öllu þessa dagana. Gamlir og saklausir dægurlagatextar öðlast nýja og beitta merkingu og ljóð láta mann ekki í friði. "Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum..." Samt er ég ekki frá því að sólin sé að hækka á lofti. En í gær datt inn um bréfalúguna almanak frá bankanum. Og þar sem ég reif utan af því plastið hugsaði ég: "Nú er það svart." Almanakið er kolsvart. Og ekki tók betra við þegar ég fór að fletta því. Svart/hvítar myndir. Fínar myndir af svart/hvíta Íslandi. Tók svo gamla almanakið niður af flotta góðærisútvarpinu í eldhúsinu. Og þá var mér öllum lokið. Það gamla (að vísu frá öðrum banka) var með myndum í lit. Svipaðar myndir en í lit. Íslandsmyndir. Myndir frá árinu þegar allt var í lit. Þetta verður þá samkvæmt þessu svart/hvíta árið. En það kemur vor og ekki þýðir að skríða út í horn því þá sér maður aldrei sólina eins og sagt var í Silfrinu um helgina. Annars datt ég aðeins úr hamfarastuðinu um helgina því Idol-keppnin átti hug manns allan. Og það mættu margir með drauma sína og það var mikið fjör sem þið sjáið seinna. Og maður má hafa sig allan við að fylgjast með. En kannski var Njörður P. Njarðvík bestur í Silfrinu þar sem hann lýsti drögum að nýju Íslandi. Og Robert Wade, Guðmundur Ólafsson, Einar Baldursson og Jón Baldvin lögðu í púkkið. Það hressti mann kannski ekki mikið að hlusta á þá, en það er dagljóst að það þarf að segja hlutina eins og þeir eru. Hrista moðið úr pokanum og fá nýtt kerfi á þessu landi. Eins og Njörður sagði. Ef það væri döngun í þeim sem stjórna ættu þeir að gefa út tilskipun á morgun og segja að skólamáltíðir í grunnskólum yrðu ókeypis frá og með næstu helgi. Stjórnvöld gætu líka bætt því við að þau væru ekki viss hvernig þau ættu að borga þetta, en einhversstaðar yrði að byrja. Og ef maður byrjar ekki á að gefa börnunum að borða, hvar byrjar maður þá? Já hvar? Hér kemur upphafið að Söknuði Jóhanns Jónssonar:

Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað,

og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums,

hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir 

borið með undursamleikans

eigin þrotlausan brunn þér í brjósti, 

hvar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Frábært að lesa þessa svart/hvítu færslu þína. Njörður er frábær og það komin í gang vinna í framhaldinu hér og hér getur þú lesið um tvö framtakssöm. Bloggið hefur líka logað um helgina um þetta mál sem von er. Ein spurning, hvers son er Eyþór söngvari sem var hjá Loga á föstudaginn.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.1.2009 kl. 01:13

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Það er ótrúlegur kreppubragur yfir þessu dagatali, það er ljóst. Ég er svo lánsamur að dagatalið sem ég er með hér við hliðina á mér er í lit.

Gott að þurfa ekki að vera minntur á kreppuna í hvert skipti sem maður lítur á dagatalið.

Ég legg til þú hendir þessu dagtali þínu og lifir áfram lífinu í lit og látir ekki einhvern þunglyndan framkvæmdastjóra sem ekki tímdi að láta prenta dagatalið í lit setja svip sinn á eldhúsið hjá þér.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.1.2009 kl. 10:10

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Þakka þér færsluna. Mig minnir að HKL hafi skrifað sérstaklega um þetta hvæði Jóhanns of líkti því við Rússneskt kvæði. Annað svipað kvæði eftir franst skáld sem ort var í fangaklefa og þýtt hefur verið á íslensku, hefur þú heyrt það?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 14.1.2009 kl. 23:19

4 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir innlitið. Og Kristján: Ég átta mig ekki á þessu franska ljóði. Þú hjálpar mér kannski.

Eyþór Árnason, 15.1.2009 kl. 01:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband