25.1.2009 | 23:06
Á biðstofunni
Já nú er gott að hafa biðlund. Dagurinn í dag hefur farið í að bíða. Hann byrjaði að vísu með afsögn ráðherra sem gerist nú ekki á hverjum degi, en nú í kvöld er það eiginlega gleymt. Slíkur er hraðinn og þvílíkir eru þeir tímar sem við lifum nú. Og fyrir mig sem hef slegið um mig og giskað á næstu leiki í stöðunni hef ég talið ráðlegt í dag að setjast niður á biðstofunni og bíða. Biða með tölvuna í seilingarfjarlægð, útvarpið á lágum styrk og gluggana opna. Því hér í Vesturbænum gerist það. Maður heyrir pottaglamrið frá Austurvelli og finnur straumana frá Granaskjólinu. Annars eru þeir dagar sem liðnir eru frá síðasta bloggi svo sérstakir að þeir verðskulda langt blogg. Og mörg blogg. En þau eru svo sem nógu mörg bloggin. Og ræðurnar. Og viðtölin. Og ég reyni að fylgjast með, reyni að soga í mig ástandið og tala mig hásan við vinnufélaga og vini. Fer mikinn. Og nú sit ég og bíð. Og ég kann að bíða. Sat í dag eins og uppgjafahermaður úr gömlu borgarastríði og horfði yfir þökin í Vesturbænum. Þorrasólin gyllti gömlu þökin, útvarpið suðaði og ég beið. Og ég bíð enn.
Athugasemdir
Listilega vel skrifuð færsla og þú ættir bara að skrifa reynslusögur úr orrahríðinni og gefa út fyrir næstu jól/kosningr/afmæli eða hvað annað tilefni sem þér býðst. Það er bara svo gott að skrifa meðan beðið er. Miklu betra en að leggja kapal í tölvunni eins og ég geri.
Annars prjóna ég stundum og það róar, er núna að "hanna" pyls sem ég hyggst síðan prjóna úr íslenskri ullarbandi og selja. Ef þau seljast ekki í sumar, má senda þau senda þau til Bretlands næsta vetur handa gömlum konum sem eru að krókna í heimsveldinu ríka.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.1.2009 kl. 01:10
Ég bíð með þér... og allir Íslendingar, líkast til.
Lára Hanna Einarsdóttir, 26.1.2009 kl. 09:44
Þetta styttist Lára mín... Og Hólmfríður: Mér tókst ekki að læra að prjóna. Takk fyrir innlitið.
Eyþór Árnason, 29.1.2009 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.