Smá vitleysa

Þetta datt inn:

 

Það fór allt til fjandans í haust

og fallið tók æru og traust

Launin - þau lækka

en lánin - þau hækka

og landið var sett uppí naust.

 

Dagarnir líðu, deyfðin tók völdin

en Drottinn heimtaði syndagjöldin.

Svo flugu köllin

um Austurvöllinn

... þú varst sjálfur Guðjón bak við tjöldin.

 

Það má vera þónokkurt flón

sem þykist ei greina hér són

úr pönnum og pottum

frá mórum og skottum

því hér varð sko revúlúsjón.

 

Nú Valhallar-vertíð er lokið

og valdið það staulast hér hokið

um Hallærisplanið.

- Já innmúrað klanið

sem hengdi á axlirnar okið.

 

Fálkinn er þreyttur og þrútinn

og þvær af sér fylkingargrútinn.

En hver grípur geir

og segir: Ei meir!

Og heggur á gordíonshnútinn.

 

Því Dabbi er hnútur og hnykill

hnubbslegur góðærislykill.

sem nú þarf að rekja 

og í myrkur hrekja.

Kóng - sem að sagður er mikill.

 

Samfylking sökk oní fötuna

og sauðirnir lögðust á jötuna.

Þar garðaband brast

og grasrót fékk kast

við Þjóðleikhúskjallaragötuna.

 

Já samfylkingarsöfnuðurinn drakk

sat á barnum orðinn alveg bakk.

En gatan taktinn sló 

og rauður loginn hló -

þá hrunastjórnin endanlega sprakk.

 

Hér framsókn úr forinni stígur

og fortíðarspenann hún sýgur

Burtu með flís

en upp rísi SÍS!

Og fylgið til himins það flýgur.

 

Hann stendur stæltur sem tígur

stórbóndi sem aldrei lýgur.

Trommar með Hönnu

á sótuga pönnu

Steingrímur með sínar kvígur.

 

Já Hanna er heilög í framan 

og helvíti finnst henni gaman

að troða í svaðið

frjálshyggjutaðið.

Svo sofa þau Steingrímur saman.

 

En frjálslyndir á biðstöðinni bíða

blautir - því í kvöld nú fór að hríða.

Og engin kemur rúta

að hirða gamla hrúta

sem fengu' ekki' á fengitíð að - gera gagn.

 

Og bráðum verður Baugur orðinn salli

því bláa höndin svaraði víst kalli!?

En hvað er satt og logið?

Eða beint og bogið?

Á  Væking virðist kominn mikill halli.

 

Þótt hugsjónirnar hverfi út í bláinn 

og heimurinn sé vonlaus bæði' og dáinn;

þarf hér kraft og von

dóttir lands og son

í brjósti ykkar bærist gamli þráinn.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

  Góður..........

(IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 23:27

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Veðrur það reyfað betur?! Snillapungurinn þinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.2.2009 kl. 14:54

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ritdómur að norðan

Mikið er mætur þinn bragur
En mátulega þó fagur
Um stjórnmálagenið
Og stórskuldafenið
Nei sviðsstjórinn er ekki ragur

Kappinn hann kemur að norðan
Með kúnstugann orðannaforðann
Hann raðar að vild
Af rakinni snilld
réttast að nú kæmi orðan

Mér stundirnar styttir um nætur
að spillingar kíkja á rætur
Það besta er fundið
Ef málið er bundið
Ég dáyndis hef á því mætur

Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.2.2009 kl. 16:10

4 Smámynd: Offari

 takk!

Offari, 5.2.2009 kl. 17:46

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Það er alltaf veisla hér að blogginu þínu og ekki skemmir Hólmfríður hana.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 5.2.2009 kl. 19:46

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þegar störin hjalar á engjunum fyrir norðan heiðar leyfir hún sér ekki annað en bundið mál.

Árni Gunnarsson, 5.2.2009 kl. 21:07

7 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Magnaður alltaf!  Takk fyrir þetta.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 17.2.2009 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband