8.3.2009 | 22:12
Gangnafundur á góu
Nú eru komnir þessir björtu köldu góudagar sem kæla mann inn að beini en gefa manni líka von um vor einhvers staðar bak við hæðina. Á föstudagskvöldið var aðalfundur gangnamannafélags Austurdals haldinn í litlu félagsheimili norður í landi. Ég komst ekki, var vant við látinn við réttarstörf í IDOL-söngvaraleitinni. En ég sendi skeyti:
Austurdalur.is 2009 - Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum
Það er stundum erfitt að leggja í hann. Leggja í fjallið eða leggja af stað inn dalinn og þokan um allt og hráslaginn hríslast niður hálsinn. En það er líka oftast spenna og tilhlökkun með í hnakktöskunni og maður herðir sig upp. Og nú þegar ég er lagður af stað til ykkar í gegnum landlínuna er ansi mikið kóf í huganum og erfitt að henda reiður á kennileitum og einhvern veginn langt til byggða. En þá kemur til mín undarlegur galdur sem réttir mig af, það rofar til augnablik og ég tek stefnuna og held áfram. Og galdurinn kemur yfir mig í vinnunni þar sem ég gramsa í gömlum leikmunakössum sem ég pakkaði sjálfur ofan í fyrir tíu árum. Upp úr kössunum kemur margt skemmtilegt, m.a. gamla hakkavélin hennar mömmu sem hún gaf mér þegar hentugri vélar tóku yfir, en margar kjötbollurnar hef ég borðað úr þessari vél. Svo rakst ég á kassettutæki með útvarpi sem leit nokkuð vel út. Þetta hlýtur að vera bilað hugsaði ég, en ákvað samt að stinga því í samband og viti menn: Það kom smábrak og svo sagði hljómfögur karlmannsrödd: ... á útmánuðum, þegar tíminn hefur staðið lengi kyrr, kemur mikill kassi með mjólkurbílnum. Hann er svo þungur að Jóhannes ræður ekkert við hann einn og fær Guðjón í Skarði til að hjálpa sér að drösla honum heim á hlað." Þarna var mættur Böðvar Guðmundsson með sögur úr Síðunni.
Og mér fannst tíminn standa kyrr. Fannst eins og röddin hefði beðið í útvarpinu í 10 ár. Ég fann að ég var á réttri leið og kafaði dýpra í kassann. Upp kom gamalt eintak af Bóndanum, 1. tbl. 8. árg. 1990, og verðið 469 krónur. Spottprís. Þar er mynd af skeggjuðum sköllóttum manni á forsíðunni með texta við hliðina á: Hve mikil völd hefur Steingrímur sem ráðherra? Ég fór að fletta og fann viðtalið við Steingrím frænda og þar er fyrirsögnin: Er tvöfaldur í roðinu." Hó, hó, hó. Hvað er að gerast? Ég fletti lengra og sá að stafrænar myndavélar eru að koma á markað og svo er grein um heimsókn í Staðarskála og þá finn ég lykt af frönskum kartöflum og skil að ég er á leið norður og allt í einu er ég lentur inni í viðtali við Brodda oddvita á Framnesi þar sem hann segir að það sé auðvelt að vera vitur eftir á og skammar Sambandið og segir horfur dökkar í sauðfjárræktinni. Ég fletti lengra og þá dúkkar Jói í Keflavík upp og aðeins lengra eru myndir úr Laufskálarétt haustið 1987. Grétar Geirs með flösku á lofti, greinilega til í allt, og brosandi menn undir vegg huga að hestakaupum. Mér fellur allur ketill í eld ...
Hér kemur smádok, því meðan þessi greinaskil liðu hjá hljóp ég fram og náði mér í smálögg ... Skál dalsins ...
Já, þetta var betra. Það er nefnilega þetta með tímann. Tímann sem hleypur ekki frá manni heldur kemur til manns.
Og þá kemur meira að segja gamli tíminn til manns og allt í einu stend ég við Reiðgilið á Öxnadalsheiði núna í haust sem leið. Þarna stóð ég á gilbrúninni, berjablár á brúninni, og hugleiddi næstu skref; hvernig ég ætti að klóra mig yfir þennan gilfjanda sem ég hljóp yfir á árum áður. Allt í einu var þetta gil eitthvað svo déskoti djúpt og margir klettar og hátt upp úr því hinum megin og fæturnir þyngri en mig minnti þegar ég taldi mig til gagns og fannst ég ódrepandi. Þarna stóð ég berjablár og hikaði augnablik í haustblíðunni og Ísland ekki hrunið en á brúninni eins og ég og sólin baðaði heiðina og ég þyrstur af göngunni og þó búinn að klára alla læki á leiðinni og háma í mig ber. Það var annars með eindæmum hvað mikið var af berjum í haust ... Jæja yfir gilið fór ég og kláraði daginn sem fullgildur gangnamaður á Öxnadalsheiði, sem var reyndar alveg óvart, því ég hafði hugsað mér að dóla með gamla gangnaforingjanum á veginum á heiðinni og hafa það náðugt. En maður segir ekki nei þegar nýi gangnaforinginn biður mann svo fallega að hlaupa mínar gömlu göngur. Ég gleymdi því að ég hef gengið góðærið upp að hnjám hér á malbikinu og glilin og skriðurnar fjarlægst en það var með skriðurnar eins og tímann sem stóð kyrr í útvarpinu í dag og það var svo merkilegt hvað fæturnir tóku við sér í grjótinu, þótt hlaupagosi sé ég ekki lengur. Og síðan í haust hef ég verið haldinn miklu sjálfstrausti og belgt mig út og talið mig fullgildan gangnamann þegar ég hef hitt fólk á götuhornum og stefni ótrauður á göngur í haust.
Og ekki væri verra að komast inn Austurdalinn. En því fylgir sá galli að þar er verið svo mikið á hestum. Ég verð kannski að panta tíma í sumar hjá Sigga Hansen og láta hann teyma undir mér barnahest í Haugsnesinu. Að minnsta kosti þori ég ekki að láta Þórólf æfa mig. Man nefnilega þegar hann setti undir mig hest til að ég kæmist þurrum fótum yfir Geldingsá og það var hestur með vilja og hann tók strauið með vitleysinginn mig yfir ána og stökk heim að kofa og negldi þar niður og ég fram af og ofan í moldina og mátti ganga draghaltur niður allan Austurdalinn en harðneitaði að fara á bak þótt Stebbi væri að reyna að setja undir mig einhvern átta hundruð metra skjóna. Þetta var þegar Hekla gaus og það var rokið í að smala fjöllin svo gaddurinn næði ekki að læsa sig í lífsbjörgina. En ég hef sjaldan upplifað skemmtilegri bíltúr en þegar ekið var upp í Laugafell í þessar öskugöngur með Bjarna minn blessaðan á Sunnuhvoli við stýrið og Stebba á kantinum. Bjarni í feiknastuði við stýrið og hélt jeppanum og Stebba á flugi. Öskugaman. Og ekki skemmtu þeir sér minna kapparnir við Grána yfir ótrúlegri reiðmennsku. En ég skil ekki hvernig ég staulaðist niður dalinn. Og gagnið var minna en ekkert.
En hvað um það. Ég geng óhaltur í dag og gaddféð horfið en tíminn stendur kyrr og Steingrímur enn við stjórnvölinn og Hekla er senn tilbúin.
Mér líður eins og tíminn hafi staðið lengi kyrr eins og sagt var í útvarpinu. Þess vegna verður maður mjúkur og meyr og galdurinn grípur mann og ég grilli í fjöllin því nú er kófið að ganga niður og dagarnir lengjast og gæsirnar fara að koma. Gæsirnar sem verpa gulleggjum í gilinu og stundum detta eggin úr hreiðrunum og fljóta niður ána því fjallaloftið gerir þau svo létt og niðri í sveitinni stöndum við á bökkunum með háfa og net og reynum að fanga fjöreggin og leggjum svo eyrað við og heyrum slitur af stemmu eða fjallahlátri, kíkjum inn og sjáum kirkju með glugga yfir altarinu og kádilják við gilið og svo ég sé óttaglampann í augum ungu gangnamannanna á Hörgárdalsheiðinni forðum daga þegar Stefán Hrólfsson sneri sér að þeim og sagði með þeirri ákefð sem honum einum er lagið: Jæja drengir, nú skuluð þið fara að herð' hann því bráðum förum við að mæta tröllskessum og þær þurfa nú sitt."
Skál dalsins.
Kveðja Eyþór.
Athugasemdir
Takk fyrir þennan ljóðræna töfratexta
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 22:55
(IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 23:07
Þú ert snillingur, var búin að segja það. Halltu áfram að skrifa
Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.3.2009 kl. 23:18
Eina svona hugvekju í mánuði handa mér.
Árni Gunnarsson, 8.3.2009 kl. 23:59
Takk.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 9.3.2009 kl. 00:27
... berjabrekkur, umhhhh
Takk fyrir aðra frábæra sögu.
Kolbrún Valvesdóttir (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 15:02
Takk fyrir,tvær svona hugvekjur í mánuði,mjög skemmtilegt,góður húmor,eins og þú ert sjálfur Eyþór minn,gott að láta lyfta sér smá upp,í þessu krepputali.
Jóhannes Guðnason, 9.3.2009 kl. 19:30
Takk fyrir þetta blogg Eyþór, ég fór í ferðalag við þennan lestur, ferðaðist um Öxnadalsheiðna, kíkti aðeins í Merkigil og Ábæ í leiðinni og sá fyrir mér kappana Árna, Stebba og Bjarna, rifjaði svo upp fund í Héðinsmynni hjá UMFG
takk fyrir mig
Álfheiður (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 23:35
Takk fyrir innlitið lömbin mín.
Eyþór Árnason, 11.3.2009 kl. 23:25
Dásamleg og margslungin frásögn.
Hvenær kemur bókin?
Bjarni Stefán Konráðsson (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.