Niðurrekstur

Eftir laxinn og spjall við gesti að sunnan lögðum við Ella systir og Stebbi sonur hennar af stað fram í afrétt til að reka safnið til réttar. Þannig háttar til að á laugardag og sunnudag er afréttin smöluð og um þrjúleytið á sunnudag er safnið komið í girðingarhornið hjá Valagilsá. Þá á eftir að reka það niður í Silfrastaðarétt og tekur það um fimm tíma að reka féð þessa leið og oft lenti maður í myrkri við réttina. Nú er kominn nýr vegur um Norðurárdalinn svo reksturinn var öðruvísi en áður. Frá Kotá og niður á Skeljungshöfða var búið að girða rekstrarleið, þröngan gang, og höfðu menn vissar áhyggjur af því hvernig hann myndi reynast. En allar áhyggjur reyndust ástæðulausar. Féð rann vel eftir ganginum og við rákum þetta í smáhópum og maður var laus við að elta féð upp um allar brekkur. En þar sem ekki er búið að taka allan nýja veginn í notkun var rekið eftir þjóðveginum niður að Kotá. Og ég hljóp í brekkurnar til að ná þeim rollum niður sem tóku strauið af veginum og upp í Kotaheiðina. Ég hljóp... ég veit ekki hvað skal segja. Jú bara sannleikann: Ég komst ekkert áfram, gekk upp og niður af mæði á fyrsta spretti, áttaði mig svo á stöðunni og gætti að mér eftir það. Samt fannst mér ég gera mikið gagn, ég hóaði mikið og kastaði grjóti og það virkaði allt eins og í gamla daga. Og svo tókst okkur að búa til lengstu bílalest sem sést hefur í Norðurárdal, Því þeir sem voru svo óheppnir að lenda á eftir safninu urðu að dóla á eftir því alla leið niður að Kotá og var þungt í sumum. En þetta verður í síðasta skipti sem það  gerist. Og svo var safnið komið niður að rétt. Rökkur var fallið á og andinn var góður. Það myndast alltaf sérstök stemning þegar verið er að reka inn í réttina en safnið er geymt  þar yfir nóttina. Það er sérstök list að reka fé inn í rétt. Þú verður að hafa gott samband við þá sem eru við hliðina á þér, þrengja ekki of mikið að og hafa yfirsýn yfir safnið. En alltaf sleppa nú nokkrar sem verður að elta og er ekki laust við að það hressi mann. En þetta hafðist nú allt og stóra hliðinu var lokað. Jarmurinn lagðist yfir kvöldið. Pabbi og kallarnir fóru hring í réttinni og tékkuðu á hvort allir dilkar væru ekki tryggilega lokaðir. Svo var rennt heim og tekið til matar síns og rifjaðar upp gangnasögur frá því maður var og hét. Og svo voru sagðar nýjar sögur... Því það gerist alltaf eitthvað nýtt; eins og gangnahesturinn sem sneri við á leið niður Horn og stökk frá mönnum og hestum og hvarf inn fyrir Gloppugil með hnakk og beisli og hefur ekki sést síðan eftir síðustu fréttum. En þetta er nóg því næst eru réttir...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, það var gaman í réttunum í gamla daga. Ég fór oft i Ölfusréttir þegar þær voru rétt við Hveragerði. Þær voru allar hlaðnar úr grjóti og það var einmitt vandasamt að reka inn í dilkinn sem dregið var úr.

Mér er alltaf minnisstætt hvað ég vorkenndi hundgreyinu sem Magnús Hannesson sparkaði af alefli í kviðinn á, vegna þess að hann gelti of mikið. 

Sæmundur Bjarnason, 21.9.2007 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband