Réttir

Réttir, bara þetta orð, hljómurinn og lyktin og áður en þú veist af ert þú staddur í réttinni miðri umvafinn sauðfé og einblínir á mörkin. Pabbi stendur við dilkinn og segir manni til: "Þarna er ein kollótt, þessi gamla hornbrotna, þarna upp við vegginn, móflekkóttur hrútur"... og svo framvegis.  Þetta er gaman. Einu sinni fór í taugarnar á mér þegar verið var að kalla á mann og segja manni að taka nú þessa kind, því mér fannst ég vera fullfær um að finna þær sjálfur. Það fer ekki í taugarnar á mér lengur.  Enda búinn að viðurkenna fyrir sjálfum mér að karl faðir minn hefur sérstakan radar í hausnum þegar sauðfé er annars vegar. En ég var seigur núna, nokkuð fljótur að sjá mörkin og svo eru allir bæir með númer nú til dags. Svo var ég ansi lipur við að ná fénu og þar hef ég sko engu gleymt! Ég geng rólega um réttina, miða út ærina eða lambið og geri svo leifturárás. Mér finnst ég vera snillingur í þessu! En þegar maður var lítill gátu svona árásir endað á því að liggja á bakinu í drullunni og allir hlógu, en maður stóð upp aftur. Og fer aftur í réttir. Réttir. Það er eitthvað við þetta orð. Það er dregið sundur, spjallað við sveitungana og það sést ekki vín á nokkrum manni, bara skroppið í kaffi í skúrinn hjá kvenfélaginu og féð síðan rekið heim þar sem bíður heit kjötsúpa. Réttir. Þar sá maður fyrst á ævinni fullan mann, almennilegan hundaslag, menn að skamma fjallskilastjórann og fólk sem maður vissi ekki að væri til í sveitinni.  En það var ekki mikið sungið. Það var á gangnasunnudaginn sem var sungið, þá var sungið meðan einhver rödd var til. En það er önnur saga og efni í annan pistil. En ég held að Akrahreppsbúar ættu að halda sinni gömlu Silfrastaðarétt aðeins lengur. Fara fram í kofa á fimmtudagskvöldi. Smala föstudag og laugardag og reka niður. Rétta síðan á sunnudegi. Ég hef trú á því að þeir sem vilja fara í göngur fái frí á föstudegi. Það er einhvern veginn léttara að fá frí á föstudegi en mánudegi. Og ég ætla að mæta í réttir að ári, þó að ég sé ekki lengur skrifaður fyrir markinu mínu í markaskránni, en það er í góðum höndum hjá Drífu og Fúsa. Réttarstígvélin eru enn í bílnum... ég þvæ þau bráðum...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband