Suður

Og svo eru réttirnar búnar. Ég stend á hlaðinu, horfi á safnið dreifa sér og bíta. Sumar gömlu ærnar fegnar að koma heim, aðrar líta til fjalls með söknuði. Ég fer úr stígvélunum og inn í eldhús þar sem kjötsúpan bíður. Réttirnar eru nefnilega ekki búnar fyrr en kjötsúpudiskurinn er tómur. Og svo er að tygja sig til farar. Suður. Ég tek upp gulrætur með mömmu, hleð bílinn með grænmeti og kartöflum, set réttargallann í poka og loka fyrir. Það er svo skrýtið að lyktin er öðruvísi fyrir sunnan. Ég kveð og það er laumað að mér randalínköku að skilnaði. Og ég renn út Hlíðina. Kem við á einum bæ því ég þarf að láta gera við dekk. Það er ekki hægt að kalla það heppni þegar springur dekk hjá manni, en nú var ég heppinn. Ég lenti í kaffi og sögum. Gömlum sögum sem aðeins verða sagðar við eldhúsborð. Keyrði svo glaður yfir Vötnin með viðgert varadekk. Greiðvikni sveitunga minna hefur ekkert breyst. Leit svo snöggt við á leiðinni upp Vatnsskarðið, teygði mig í spólurnar góðu og Karlakórinn Heimir söng alla leið suður. Þar beið mín heit kjötsúpa. Merkilegt hvernig alltaf er hugsað um mann.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnar Sæmundsson

Takk fyrir. Að þessu sinni gat ég ekki farið norður í réttir en þú náðir svo sannarlega að færa mér réttarstemninguna. Ánægjulegar lesningar.

Sveinn Arnar Sæmundsson, 22.9.2007 kl. 14:04

2 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Stórkostlegt að fá svona lýsingar.

Mun seinna svara þínum punktum varðandi mín skrif

Rúnar Birgir Gíslason, 22.9.2007 kl. 14:12

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Ég hef ekki hitt mömmu þína, en hitt er ég viss um að það er ekki leiðinlegt að koma heim til Sigríðar Hrafnhildar

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 23.9.2007 kl. 14:48

4 identicon

Eyþór farinn að blogga ég á ekki eitt einasta orð og hvernig væri nú að maður fengi að njóta kveðskaparins svo ég tali nú ekki um allar  sögurnar. Þær myndu sóma sér vel hér og svo er Fóstrbræðrafélagi okkar Jón Steinar Ragnarsson að blogga og það er örugglega flottasta bloggið í bænum , það er nú engin smá lesning. kv. Egill  http://prakkarinn.blog.is/blog/prakkarinn/

Egill Aðaslteinsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband