Skyrtur - seinni hluti

Það er að vísu með hálfum huga að ég læt skyrtukaflann þann síðari vaða, svo mikið gengur á þessa dagana, en ég læt mig hafa það.

Ég á mér uppáhaldsskyrtu. Ég er búinn að vera svo mikið í henni að hún er eiginlega orðin ónýt. Hún er sundur á olnbogunum og komin göt á hliðarnar og ég er hættur að ganga í henni. En ég hendi henni ekki. Aldrei. Ég man þegar ég gekk inn í búðina í Kringlunni og sá hana. Ég varð hugfanginn. Ég fer sjaldan í fatabúðir og þegar það gerist stend ég og horfi hálf óttasleginn í kringum mig og verð allur eitthvað svo lítill í mér. Mér leið líka stundum svona þegar mamma fór með mig í syðri búðina á Króknum þegar ég var yngri. Samt var frænka mín, hún Stína Sölva, ósköp góð við mig þar sem hún velti sundur efnisströngunum. En þegar ég sá þessa skyrtu í Kringlunni var enginn ótti. Bara vissa. Ég keypti skyrtuna, sem var ekki dýr, og fór alsæll heim. Dreif mig í hana og fann strax hvað var gott í henni. Bretti upp ermarnar og fór í vatterað vesti utan yfir og setti á mig derhúfu. Ég var í gallabuxum og sandölum og leit út eins og þrautreyndur trökkdræver, enda var ég að leggja í Idol-leit um landið. Og þannig brunaði ég um Ísland, fullur öryggis eins og kona í dömubindaauglýsingu.

Og af hverju varð ég svona hrifinn af rauð/svart-köflóttri skyrtu? Skyrtu sem maður gæti ímyndað sér að kanadískir skógarhöggsmenn klæddust við bálið eftir högglangan dag? Er þetta kannski út af Vesturförunum að ég finn einhverja samkennd, eða held ég bara að ég sé töff í þessari skyrtu? Og eins og oft áður kemur tónlistin til hjálpar. Ég rakst nefnilega á gamalt plötualbúm um daginn og þá fékk ég vitrun. Myndin framan á albúminu sýnir ungan mann í köflóttum jakka og gallabuxum og sterklegum skóm standa á fossbrún. Í baksýn er svo áin og er ansi bratt að henni hægra megin, en eyrar og stór tré vinstra megin. Á bakhliðinni er svo mynd af háum fjöllum og þar er maðurinn líka í sama jakkanum og brosir til mín. Kannski er þetta með skyrtuna löngu gleymdur draumur um að líkjast John Denver. Ég veit það ekki. En þarna stendur hann á fossbrúninni blessaður og horfir niður eftir ánni á plötuumslagi frá 1972 og raular í huganum Rocky Mountain high, þannig að ungur maður í annarri sýslu fékk kast og keypti köflótta skyrtu löngu seinna.

Svo var það á menningarnótt í sumar sem leið að ég varð fyrir annarri vitrun. Það var þegar Hanus hinn færeyski stóð í ráðhúsinu sem nú logar og söng sína yndislegu söngva á rauðköflóttu skyrtunni sinni, þannig að mér fannst á tímabili að ég stæði á sviðinu. Munurinn var sá að hans skyrta var heil og ég kann ekki færeysku.

Að vísu fór fyrir mér eins og Pétri forðum daga því ég afneitaði mínum ástkæra John Denver í nokkur ár. Því þegar mín heittelskaða var að gramsa í plötusafninu er við vorum í tilhugalífinu og rakst á þennan ljóshærða fallega dreng á plötuumslaginu rak hún upp vein og leit á mig með viðbjóði. Svo John minn fór djúpt í plöturekkann. En hún elskar Hanus, svo ég á von.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

he he he kannast við svona fataást.....á nokkra boli sem konan hatar en mér finnst töff he he

Einar Bragi Bragason., 25.1.2008 kl. 10:37

2 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Mér finnst þessi skyrta vera jafn mikill hluti af þínum karakter og skallinn á Bubba. Þú verður að finna þér nýja eða láta sauma á þig. Ekki sssspurning!

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 25.1.2008 kl. 19:00

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Bara þú látir ekki Framsóknarflokkinn borga nýju skyrtuna. Maður var búinn að bíða lengi eftir skyrtukafla númer tvö.

Kær kveðja að norðan

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 26.1.2008 kl. 00:17

4 identicon

Eyþór minn  - mikið skrifar þú skemmtilega!

Imba (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 01:08

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég á svona flíkur sem fara ALDREI í rusl eða gjafagáma... ekki að ræða það! Og þú lýsir fjári vel panikk-tilfinningunni við fatakaup. Það eru nefnilega ekki bara strákar sem upplifa þetta - líka stelpur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.1.2008 kl. 01:42

6 Smámynd: Sverrir Þorleifsson

mikið er þetta skemmtilegt, haltu endilega áfram að skrifa um skyrtur - það gæti orðið þín sérstaða

Sverrir Þorleifsson, 28.1.2008 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband