Færsluflokkur: Bloggar
19.7.2009 | 00:57
Júlíkvöld og ættarmótspistill
Það er eitthvað í þessu kvöldi sem lætur mig fá fiðring í fæturna. Kannski er það bara hvað kvöldið er fallegt og fjöllin kalla. Hver veit? Annars er ég að reyna að ná tökum á feisbúkk og gengur illa. Og ekki er skárra að lesa blogg þessa dagana. Yfirdrifin leiðindi um Icesave og ESB en auðvitað þarf að skrifa um þetta helvíti. Jæja en það sem kemur hér er kannski ekkert skárra. Fór á ættarmót afkomenda Halldórs Einarssonar um daginn og flutti þar pistil. Ég ætla að láta hann vaða hérna, en þeir sem eru ekki skyldir mér mega hætta hér. En að sjálfsögðu skyldulesning fyrir ættina!
Ættarmót Halldórs Einarssonar 2009
Gott kvöld og gleðilega hátíð.
Hér stend ég og get ekki annað var einhvern tímann sagt. Já getur ekki annað, segja nú sumir sem þekkja mig! Jú það var einn góðviðrisdaginn í höfuðborg hrunsins að síminn hringir. Ég svara: Eyþór. Já blessaður, þetta er Árni Egilsson frændi þinn hérna fyrir norðan. Já blessaður segi ég. Svo kemur smáspjall um veðrið og sauðburð og horfur á grassprettu. - Kemurðu á ættarmót, spyr Árni svo allt í einu. Ég var ekki viss. - Heyrðu, segir hann, ég ætla að biðja þig að flytja hátíðarræðu á ættarmótinu, svona eins konar skemmtiræðu. - Jaaaa já þú segir nokkuð, segi ég ... en ég er ekki skemmtilegur, ég er frekar alvarlegur. - Nei nei, þú ert helvíti skemmtilegur, segir Árni. - En ... segi ég ... af hverju læturðu ekki Villa bróður þinn messa yfir liðinu, hann er rífandi skemmtilegur, svo er hann líka svo frægur - nærri jafnfrægur og Álftagerðisbræður! - Neeeee, sagði Árni, jú jú, Villi er fínn en ég er hræddur um að hann verði of upptekinn við að bjarga þjóðinni ... Smáþögn í símann. Báðir hugsa næstu skref. Svo segir Árni: - Þetta kitlar þig, er þaggi? Og þar kom það. Ég er nefnilega eins og kallinn á krossgötunum um árið; sjaldan hef ég flotinu neitað. Og hér sit ég uppi með flotkökuna í fanginu og þið verðið að maula hana með mér í kvöld. - Hvað á þetta að vera langt, spurði ég. - Bara svona eitthvað, sagði Árni. - Já auðvitað, hugsaði ég. Hér er ég kominn þar sem sekúndurnar eru ekki heilagar, þó að við í Skagafirði höfum því miður ekki náð eins langt og þeir á Jökuldalnum þar sem kallarnir fóru ekki á fætur fyrr en þeir voru búnir að sofa! Svo kvöddumst við frændur með virktum og þá fattaði ég að það hefur ekkert breyst síðan ég var pínulítill pjakkur heima á Uppsölum.
Það var látið dálítið með mig þá. Elsti sonurinn og talinn hafa öll efni til að verða laukur ættarinnar og meira að segja með þingeysk gen til gáfuauka þó að vísu fylgdi þeim smá framsóknarandvari svona til bragðbætis. En sem sagt; þarna er ég lítill pjakkur í eldhúsinu á Uppsölum og pabbi er búinn að æfa mig í ýmsum ósiðum eins og að herma eftir nágrönnunum; Jóhanni á Silfrastöðum og öllum hinum ... Mömmu kannski ekki til mikillar gleði, enda gat þessi kunnátta mín orðið til vandræða þegar nágrannarnir komu.
Jæja, svo kemur Egill föðurbróðir í heimsókn, pabbi títtnefnds Árna. Egill kom oft heim og hann var einn sá skemmtilegasti gestur sem kom. Hann sagði svo fyndnar sögur og svo hló hann svo fallega. Jæja, Egill kom oft með einhverja framákalla í landbúnaðarmafíunni; Halldór Pálsson, Einar á Hesti eða einhverja hrútasýningakalla sem töluðu hátt allir og hlógu mikið. Nú nú, svo komu Egill og kallarnir upp í kaffi og mamma rétt byrjuð á pönnukökunum, var pjakkurinn ekki mættur á bekkinn og mændi á kallana. Og Egill bregst mér ekki: - Jæja Eyþór minn, hvað segir nú Valdimar í Bólu núna? Og það stóð ekki á svarinu: Það er nú gróflega hætt við því." Og svo lágu þeir úr hlátri kallarnir yfir drengstaulanum á bekknum og ég hló líka og líklega mest að Agli.
Svona var maður plataður þá og svona er maður plataður fimmtíu árum seinna. Bara af annarri kynslóð. Og hér erum við. Komin frá Halldóri, Sigríði og Helgu. Bærilega er fram gengin gemlingahjörðin, hefði kannski langafi minn sagt, eða kannski hefði hann frekar líkt okkur við kvíandi stóð sem stekkur út um allar grundir. Og stóðið bylgjast um Hólminn eins og sunnanvindur og vekur upp ræturnar ...
Því hér í þessum firði, Skagafirði - í miðjunni á veröldinni - liggja þessar djúpu rætur og þær eru svo djúpt gróðursettar í Hólminum þar sem Héraðsvötnin hafa fyllt fjörðinn að þær liggja langt niður fyrir sjávarbotninn gamla. Og þetta finnur maður þegar maður kemur að sunnan og rennur upp á Vatnsskarðið og byrjar að sjá í toppana á Blönduhlíðarfjöllunum. Þá er eins og maður grípi andann á lofti augnablik, eins og maður sem hefur verið lengi í loftlausu herbergi eða ósýnilegum kafbát, og æðarnar fyllast af eldmóði og bensínfóturinn styrkist allur enda hálfdofinn eftir Húnavatnssýsluna. Já skrokkurinn finnur gleðina yfir því að vera kominn heim.
Og ég hef sökkt mér ofan í sögur af gömlum frændum mínum og frænkum. Eiginlega verið í öðrum heimi undanfarið og oft farið út af sporinu, lent hingað og þangað en enda alltaf á Indriða Einarssyni langafabróður. Hann segir svo skemmtilega frá þessari fjölskyldu sem við erum komin af og ætti upphafið að endurminningum hans, Séð og lifað", að vera skyldulesning hjá ættinni. Raunar ætti ekki að leyfa neinu barni í ættinni að fermast nema vera búið að lesa og læra bút úr Indriða og sleppa frekar að læra eitthvað af þessum Icesave-reikningi sem búið er að troða í fólk á undanförnum árum og þið sjáið hvar við erum stödd núna! Já, það væri nú allt annað ef Indriði gamli frændi væri enn endurskoðandi landsreikninganna og Villi seðlabankastjóri. Ja þá væri nú gaman að lifa.
En nú gríp ég Indriða langafabróður þar sem hann er á leiðinni norður; árið er 1901:
Ég var kominn heim aftur, undir eins og ég var kominn yfir fjöllin, og þá hafði ég ekki komið hingað í 29 ár. Norðlingar bera fjörið og glaðværðina utan á sér. Þar hefur ekki rignt kynslóð eftir kynslóð, eins og á Suðurlandi. (Hestarnir eru ljónfjörugir í þurra loftinu, og ef mennirnir gætu ekki tekið það hver eftir öðrum að bera sig á mannfundum og í heimahúsum, þá gætu þeir lært það af hestunum ...)
Indriði kemur fyrst á Krókinn, að vísu bakdyramegin yfir Kolugafjall (þar sem fyrri ísbjörninn var) og heldur svo fram í sveit og hittir Halldór á Grund. Svo segir Indriði frá því er Halldór fylgdi honum fram að Silfrastöðum. Þegar þeir fóru framhjá Miklabæ var komið myrkur og greip myrkfælnin í Indriða enda Miklabæjar-Solveig ljóslifandi í huga hans. Og Indriði segir: Ég sagði Halldóri bróður mínum ekki frá því, því hann hlær að öllu." Hlær að öllu ... segir Indriði um bróður sinn. Þetta er svo fallegt.
Ég sé þá bræður fyrir mér ríða fram Blönduhlíðina. Þetta er í byrjun september og haustdimman byrjuð að sækja á. Það mótar fyrir Mælifellshnjúknum í vestrinu og dimm og brött Blönduhlíðarfjöllin halda við þá í rökkrinu. Þeir eru á góðum hestum en fara ekki mjög hart. Hestamaðurinn Halldór hefur oft verið fljótari í förum. En nú liggur honum ekkert á. Hann veit að klárinn verður heimfús til baka. Það er hlýja í kvöldhúminu, hlýja í grasinu og hlýja á milli bræðranna; embættismannsins og skáldsins úr Reykjavík og járnsmiðsins á Syðstu-Grund. Tveir skagfirskir bræður á hestbaki og þótt þeir hafi ekki sést í 29 ár er eins og þeir hafi aldrei skilið. Kannski í mesta lagi að annar þeirra hafi skroppið í Krókinn. Sum ferðalög eru þannig að maður vonar að þau endi aldrei. Mér finnst einhvern veginn að þeim bræðrum hafi liðið þannig þetta septemberkvöld fyrir hundrað og átta árum.
Indriði gistir á Silfrastöðum og heldur þaðan til Akureyrar og predikar bindindi. Hann var í stúkuferð. Enda maður með reynslu. Hafði dottið alldrukkinn í síki í Köben en bjargaðist af því hann var ekki jafnvitlaus og Þorgeir Hávarsson og kallaði á hjálp eftir smáumhugsun og var bjargað. En hér má kannski skjóta inn í smásögu sem Indriði segir á skemmtifundi í Reykjavík. Þið hafið nú heyrt hana áður en hún er of góð til að sleppa henni. Ég gef Indriða orðið:
Stórstúka Íslands sendi mig norður á Sauðárkrók til að stofna þar stúku. Ég á bróður í Skagafirði sem er ógurlegur drykkjumaður. Ég gerði þessum bróður mínum boð að koma út á Krók og hitta mig. Hann kom snemma dags ríðandi á tveimur gæðingum og hann var með mér allan daginn fram á kvöld. Og það er stærsti sigur, sem ég hef unnið í mínu lífi, að Halldór bróðir minn fór ódrukkinn af Króknum. En auðvitað með tvær í vasanum."
Jæja, eftir að Indriði hefur bjargað Akureyringum frá áfengisbölinu snýr hann aftur í Skagafjörð og kemur í Grund klukkan fjögur á laugardegi. Héraðsvötnin færðu honum glænýjan silung að borða og frænkur hans komu og kíktu á kallinn. Þeir bræður tala svo saman inn í nóttina eða eins og Indriði segir: Við bræðurnir töluðum um fornt og nýtt, þangað til nóttin lá myrk og þögul yfir öllu héraðinu og huldi alla fegurð þess, sem enginn þar borinn maður nokkurn tíma gleymir."
Daginn eftir halda þeir bræður vestur yfir Vötn og hitta gamla vini og ættingja og koma í Krossanes. Dagurinn líður eins og í leiðslu hjá Indriða, hann er annars hugar, það sækja á hann gamlar minningar. Það er gist á Víðimýri og svo er lagt vestur yfir Skarð daginn eftir. Og hann lýsir Vatnsskarðstilfinningunni þegar maður kveður Skagafjörð svo vel að mér finnst að við ættum að skrifa hana á skilti og hengja það upp hjá Stebba G. Niðri í Langadal skilja þeir bræður, og Indriði giskar á að hestar bróður hans hafi mátt greikka sporið eftir að þeir skildu.
Hlær að öllu segir Indriði. Já sem betur fer hlær þessi ætt og mun hlæja áfram, og eins og Jón Röngvaldsson segir um ömmu sína og systur: Þessar rosknu og ráðsettu konur eru svo kátar, hlæja þvílík lifandis ósköp, ég hafði bara alls ekki gert ráð fyrir að aldraðar konur gætu hlegið svona hátt og mikið."
Og dætur og synir Halldórs, Sigríðar og Helgu hafa dreift þessum hlátri um allt. Ég hef dvalið dálítið í gamla tímanum þegar ekki voru alltaf ættarmót og engin feisbúkk til þar sem maður getur fylgst með ættingjum sínum og ekki síst börnum sínum; hvort þau eiga kærustur eða kærasta og så videre. En þrátt fyrir alla tækni og allan nútíma er ekkert sem getur komið í staðinn fyrir að hlæja með góðum frænda og finna vinskapinn, væntumþykjuna og hlýjuna, hlýjuna sem hefur fylgt okkur alla leið úr gömlu smiðjunni á Syðstu-Grund.
Bara núna í vikunni voru Árni og Steini systursynir mínir hjá mér. Þeir eru handlagnir drengirnir og ætla að standsetja hjá mér baðið. En þeir hlæja alltaf að mér. Og svo sagan sem ég heyrði um þá Álftagerðisbræður að eitt sinn þegar þeir voru að undirbúa jarðarför var fjörið svo mikið að aðstandendurnir héldu að verið væri að undirbúa afmæli.
Og hér erum við og höfum verið dugleg að fjölga okkur, en ætt getur ekki fjölgað sér sjálf; ein og sér. Maður verður að leita út fyrir og við höfum sótt okkur úrvalsfólk sem hefur skilið okkur og hleypt á stökk með okkur. Klórað okkur á bakinu og fært okkur kamillute ef við höfum fengið kvef, borið á okkur sólarolíu í útlöndum, ruggað okkur í svefn og leyft okkur að sofa hjá sér. Og það er svo merkilegt með þetta fólk sem kemur inn í ættina að þegar það tengist okkur verður það bara eiginlega skyldara okkur en við erum sjálf!
Þetta fer nú kannski að verða gott hjá mér, en kvöldið er ungt og þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af Uppsalaliðinu þótt ykkur finnist það rólegt; það fer að lifna yfir því svona upp úr miðnættinu. Ég man á ættarmóti er ég dró son minn sjö ára grátandi frá frændum sínum klukkan fjögur um nóttina. Eina sem sá litli sagði var: Pabbi, hví dregur þú mig frá vinum mínum?" Hann er varla búinn að fyrirgefa mér enn - tíu árum síðar! Einu sinni ókum við Grímur Jónasson frændi minn um sveitir Suðurlands í leit að laxi og það hljóp í mig Þingeyingur og ég dásamaði landkosti héraðsins og sagði að við yrðum að rækta allt þetta land og heyja síðan og bjarga heiminum. Þegar við komum upp á Hellisheiðina segir Grímur frekar rólega: Og hver á að éta allt þetta hey?"
Og það er gott að lyfta glasi með Friðriki Hansen frá Sólheimagerði, honum liggur ekkert á. Einu sinni gengum við Friðrik niður Esjuna saman og hann sannfærði mig á leiðinni um að við ættum að ganga í Evrópusambandið ... not! Og í mótmælendahópnum á Austurvelli í vetur stóð Freyr frændi minn í Flugumýrarhvammi með fokkings-fokk-spjald. Ég, nýbarinn af mótmælendum, heilsaði honum samt. Svona er blóðið í okkur blátt. Ég monta mig líka af organistunum í Skálholti og Hólum; frændum mínum frá Mýrarkoti. Svo hefur maður oft slegið sér upp á Álftagerðisbræðrum fyrir sunnan, sérstaklega virkar það vel á konur á góðum aldri. Það er bara eins og að segja Sesam, opnist þú" og maður er kominn á bullandi séns! Eins er það ef maður hittir háspennulíklega kalla á bar og minnist á að maður sé nú skyldur Mannsköðunum - þá er nokkuð ljóst að maður fær frítt að drekka það sem eftir lifir kvölds.
Sem sagt það liggur ekkert á - það er enginn að fara neitt. Og hvert ætti maður svo sem að fara - við búum á eyju! En hvað gerir maður sem er búinn að týna niður að herma eftir Valdimari í Bólu? Jú hann segir: Það var frábært að hitta ykkur hér í kvöld - og reynir aftur: Það er nú gróflega hætt við því. Takk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.6.2009 | 12:21
Þjóðhátíð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2009 | 14:37
Norðanátt
Það er alveg merkilegt að þegar sólin hækkar á lofti lækkar á manni bloggrisið. Maður veit varla hvort maður á að kalla sig bloggara lengur Enda eru allir komnir á feisbúkk og farnir að hugsa um kosningar eða bara langþráð sumar. En hann er enn á norðan og sumstaðar nístir inn að beini.
Flokkur einn með fálka uppá þaki
flýgur sár um dali, nes og tanga.
þeir ganga nú með gullnu vængjablaki
til Golgata á föstudaginn langa.
Svo ætla ég að fela páskaegg í kvöld og láta mig dreyma um sumar. Gleðilega páska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.3.2009 | 22:12
Gangnafundur á góu
Nú eru komnir þessir björtu köldu góudagar sem kæla mann inn að beini en gefa manni líka von um vor einhvers staðar bak við hæðina. Á föstudagskvöldið var aðalfundur gangnamannafélags Austurdals haldinn í litlu félagsheimili norður í landi. Ég komst ekki, var vant við látinn við réttarstörf í IDOL-söngvaraleitinni. En ég sendi skeyti:
Austurdalur.is 2009 - Tölvuskeyti úr höfuðstaðnum
Það er stundum erfitt að leggja í hann. Leggja í fjallið eða leggja af stað inn dalinn og þokan um allt og hráslaginn hríslast niður hálsinn. En það er líka oftast spenna og tilhlökkun með í hnakktöskunni og maður herðir sig upp. Og nú þegar ég er lagður af stað til ykkar í gegnum landlínuna er ansi mikið kóf í huganum og erfitt að henda reiður á kennileitum og einhvern veginn langt til byggða. En þá kemur til mín undarlegur galdur sem réttir mig af, það rofar til augnablik og ég tek stefnuna og held áfram. Og galdurinn kemur yfir mig í vinnunni þar sem ég gramsa í gömlum leikmunakössum sem ég pakkaði sjálfur ofan í fyrir tíu árum. Upp úr kössunum kemur margt skemmtilegt, m.a. gamla hakkavélin hennar mömmu sem hún gaf mér þegar hentugri vélar tóku yfir, en margar kjötbollurnar hef ég borðað úr þessari vél. Svo rakst ég á kassettutæki með útvarpi sem leit nokkuð vel út. Þetta hlýtur að vera bilað hugsaði ég, en ákvað samt að stinga því í samband og viti menn: Það kom smábrak og svo sagði hljómfögur karlmannsrödd: ... á útmánuðum, þegar tíminn hefur staðið lengi kyrr, kemur mikill kassi með mjólkurbílnum. Hann er svo þungur að Jóhannes ræður ekkert við hann einn og fær Guðjón í Skarði til að hjálpa sér að drösla honum heim á hlað." Þarna var mættur Böðvar Guðmundsson með sögur úr Síðunni.
Og mér fannst tíminn standa kyrr. Fannst eins og röddin hefði beðið í útvarpinu í 10 ár. Ég fann að ég var á réttri leið og kafaði dýpra í kassann. Upp kom gamalt eintak af Bóndanum, 1. tbl. 8. árg. 1990, og verðið 469 krónur. Spottprís. Þar er mynd af skeggjuðum sköllóttum manni á forsíðunni með texta við hliðina á: Hve mikil völd hefur Steingrímur sem ráðherra? Ég fór að fletta og fann viðtalið við Steingrím frænda og þar er fyrirsögnin: Er tvöfaldur í roðinu." Hó, hó, hó. Hvað er að gerast? Ég fletti lengra og sá að stafrænar myndavélar eru að koma á markað og svo er grein um heimsókn í Staðarskála og þá finn ég lykt af frönskum kartöflum og skil að ég er á leið norður og allt í einu er ég lentur inni í viðtali við Brodda oddvita á Framnesi þar sem hann segir að það sé auðvelt að vera vitur eftir á og skammar Sambandið og segir horfur dökkar í sauðfjárræktinni. Ég fletti lengra og þá dúkkar Jói í Keflavík upp og aðeins lengra eru myndir úr Laufskálarétt haustið 1987. Grétar Geirs með flösku á lofti, greinilega til í allt, og brosandi menn undir vegg huga að hestakaupum. Mér fellur allur ketill í eld ...
Hér kemur smádok, því meðan þessi greinaskil liðu hjá hljóp ég fram og náði mér í smálögg ... Skál dalsins ...
Já, þetta var betra. Það er nefnilega þetta með tímann. Tímann sem hleypur ekki frá manni heldur kemur til manns.
Og þá kemur meira að segja gamli tíminn til manns og allt í einu stend ég við Reiðgilið á Öxnadalsheiði núna í haust sem leið. Þarna stóð ég á gilbrúninni, berjablár á brúninni, og hugleiddi næstu skref; hvernig ég ætti að klóra mig yfir þennan gilfjanda sem ég hljóp yfir á árum áður. Allt í einu var þetta gil eitthvað svo déskoti djúpt og margir klettar og hátt upp úr því hinum megin og fæturnir þyngri en mig minnti þegar ég taldi mig til gagns og fannst ég ódrepandi. Þarna stóð ég berjablár og hikaði augnablik í haustblíðunni og Ísland ekki hrunið en á brúninni eins og ég og sólin baðaði heiðina og ég þyrstur af göngunni og þó búinn að klára alla læki á leiðinni og háma í mig ber. Það var annars með eindæmum hvað mikið var af berjum í haust ... Jæja yfir gilið fór ég og kláraði daginn sem fullgildur gangnamaður á Öxnadalsheiði, sem var reyndar alveg óvart, því ég hafði hugsað mér að dóla með gamla gangnaforingjanum á veginum á heiðinni og hafa það náðugt. En maður segir ekki nei þegar nýi gangnaforinginn biður mann svo fallega að hlaupa mínar gömlu göngur. Ég gleymdi því að ég hef gengið góðærið upp að hnjám hér á malbikinu og glilin og skriðurnar fjarlægst en það var með skriðurnar eins og tímann sem stóð kyrr í útvarpinu í dag og það var svo merkilegt hvað fæturnir tóku við sér í grjótinu, þótt hlaupagosi sé ég ekki lengur. Og síðan í haust hef ég verið haldinn miklu sjálfstrausti og belgt mig út og talið mig fullgildan gangnamann þegar ég hef hitt fólk á götuhornum og stefni ótrauður á göngur í haust.
Og ekki væri verra að komast inn Austurdalinn. En því fylgir sá galli að þar er verið svo mikið á hestum. Ég verð kannski að panta tíma í sumar hjá Sigga Hansen og láta hann teyma undir mér barnahest í Haugsnesinu. Að minnsta kosti þori ég ekki að láta Þórólf æfa mig. Man nefnilega þegar hann setti undir mig hest til að ég kæmist þurrum fótum yfir Geldingsá og það var hestur með vilja og hann tók strauið með vitleysinginn mig yfir ána og stökk heim að kofa og negldi þar niður og ég fram af og ofan í moldina og mátti ganga draghaltur niður allan Austurdalinn en harðneitaði að fara á bak þótt Stebbi væri að reyna að setja undir mig einhvern átta hundruð metra skjóna. Þetta var þegar Hekla gaus og það var rokið í að smala fjöllin svo gaddurinn næði ekki að læsa sig í lífsbjörgina. En ég hef sjaldan upplifað skemmtilegri bíltúr en þegar ekið var upp í Laugafell í þessar öskugöngur með Bjarna minn blessaðan á Sunnuhvoli við stýrið og Stebba á kantinum. Bjarni í feiknastuði við stýrið og hélt jeppanum og Stebba á flugi. Öskugaman. Og ekki skemmtu þeir sér minna kapparnir við Grána yfir ótrúlegri reiðmennsku. En ég skil ekki hvernig ég staulaðist niður dalinn. Og gagnið var minna en ekkert.
En hvað um það. Ég geng óhaltur í dag og gaddféð horfið en tíminn stendur kyrr og Steingrímur enn við stjórnvölinn og Hekla er senn tilbúin.
Mér líður eins og tíminn hafi staðið lengi kyrr eins og sagt var í útvarpinu. Þess vegna verður maður mjúkur og meyr og galdurinn grípur mann og ég grilli í fjöllin því nú er kófið að ganga niður og dagarnir lengjast og gæsirnar fara að koma. Gæsirnar sem verpa gulleggjum í gilinu og stundum detta eggin úr hreiðrunum og fljóta niður ána því fjallaloftið gerir þau svo létt og niðri í sveitinni stöndum við á bökkunum með háfa og net og reynum að fanga fjöreggin og leggjum svo eyrað við og heyrum slitur af stemmu eða fjallahlátri, kíkjum inn og sjáum kirkju með glugga yfir altarinu og kádilják við gilið og svo ég sé óttaglampann í augum ungu gangnamannanna á Hörgárdalsheiðinni forðum daga þegar Stefán Hrólfsson sneri sér að þeim og sagði með þeirri ákefð sem honum einum er lagið: Jæja drengir, nú skuluð þið fara að herð' hann því bráðum förum við að mæta tröllskessum og þær þurfa nú sitt."
Skál dalsins.
Kveðja Eyþór.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.2.2009 | 22:55
Smá vitleysa
Þetta datt inn:
Það fór allt til fjandans í haust
og fallið tók æru og traust
Launin - þau lækka
en lánin - þau hækka
og landið var sett uppí naust.
Dagarnir líðu, deyfðin tók völdin
en Drottinn heimtaði syndagjöldin.
Svo flugu köllin
um Austurvöllinn
... þú varst sjálfur Guðjón bak við tjöldin.
Það má vera þónokkurt flón
sem þykist ei greina hér són
úr pönnum og pottum
frá mórum og skottum
því hér varð sko revúlúsjón.
Nú Valhallar-vertíð er lokið
og valdið það staulast hér hokið
um Hallærisplanið.
- Já innmúrað klanið
sem hengdi á axlirnar okið.
Fálkinn er þreyttur og þrútinn
og þvær af sér fylkingargrútinn.
En hver grípur geir
og segir: Ei meir!
Og heggur á gordíonshnútinn.
Því Dabbi er hnútur og hnykill
hnubbslegur góðærislykill.
sem nú þarf að rekja
og í myrkur hrekja.
Kóng - sem að sagður er mikill.
Samfylking sökk oní fötuna
og sauðirnir lögðust á jötuna.
Þar garðaband brast
og grasrót fékk kast
við Þjóðleikhúskjallaragötuna.
Já samfylkingarsöfnuðurinn drakk
sat á barnum orðinn alveg bakk.
En gatan taktinn sló
og rauður loginn hló -
þá hrunastjórnin endanlega sprakk.
Hér framsókn úr forinni stígur
og fortíðarspenann hún sýgur
Burtu með flís
en upp rísi SÍS!
Og fylgið til himins það flýgur.
Hann stendur stæltur sem tígur
stórbóndi sem aldrei lýgur.
Trommar með Hönnu
á sótuga pönnu
Steingrímur með sínar kvígur.
Já Hanna er heilög í framan
og helvíti finnst henni gaman
að troða í svaðið
frjálshyggjutaðið.
Svo sofa þau Steingrímur saman.
En frjálslyndir á biðstöðinni bíða
blautir - því í kvöld nú fór að hríða.
Og engin kemur rúta
að hirða gamla hrúta
sem fengu' ekki' á fengitíð að - gera gagn.
Og bráðum verður Baugur orðinn salli
því bláa höndin svaraði víst kalli!?
En hvað er satt og logið?
Eða beint og bogið?
Á Væking virðist kominn mikill halli.
Þótt hugsjónirnar hverfi út í bláinn
og heimurinn sé vonlaus bæði' og dáinn;
þarf hér kraft og von
dóttir lands og son
í brjósti ykkar bærist gamli þráinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.1.2009 | 01:17
Stilla
Ég gleymdi að taka skeytin í kvöld. Veit ekki hvernig spáin er fyrir morgundaginn. Það skiptir kannski ekki miklu máli fyrir mig. Ég held mig inni við. En veðrið í dag (í gær) var merkilegt. Það var að bíða eins og maður sjálfur. Maður þorir varla að anda af ótta við að snjórinn hrynji af trjánum og stemningin hverfi. En kannski er stillan og snjórinn á trjánum að kveðja gömlu stjórnina og svo kemur vindsveipur á morgun og feykir öllu af stað. Hristir trén og hristir upp í manni. Það liggur fjölmiðlatilhlökkun í loftinu. Annars hefur maður aðeins slakað á í biðinni. Jafvel talað um músík og bíómyndir við félagana, yrt á börnin, sett í uppþvottavélina og litið í bók. Ég held að veðrið og snjórinn hafi haft þessi áhrif. Það mættu koma nokkrir svona dagar. Maður vaknar til birtunnar og heldur út í snjóinn og það marrar í snjónum. Maður upplifir gamalt marr. Ég í stígvélum milli húsa... Samt má ekki verða of kalt, nei bara passlega svo ekki frjósi í pípum og þurfi að skella ísvara á bílinn... Nei svona er maður orðinn góðu vanur, vill bara sitja og horfa út um gluggann. Horfa á póstkortið sitt og snúa því svo við og ýta á senda. Kannski sendi ég nýju stjórninni svona póstkort. Mynd af snjóþungu tré, hvítum þökum og kaþólskri kirkju. Og kannski bið þau í leiðinni um eitt: Talið við okkur. Eins og fólk. Ekki eins og tilvonandi kjósendur. Og ég hlakka til að líta á póstkortið mitt í fyrramálið og sjá hvort landpósturinn hefur gripið það með sér. En nú ætla ég að grípa í Jón Kalman; Sumarljós, og svo kemur nóttin. Það er bók sem maður á alltaf að hafa á náttborðinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.1.2009 | 23:06
Á biðstofunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2009 | 14:23
Á brúninni
21. okt. árið 1253 hittast tveir bræður á Öxnadalsheiði milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Annar á vesturleið, hinn á norðurleið. Þetta hefur trúlega verið rétt fyrir ofan Bakkasel eða þar í brekkunum. Þetta voru tveir af Dufgusbræðrum, Björn drumbur og Kolbeinn grön. Þeir bræður eru ekki að smala fé þennan haustdag fyrir 756 árum. Nei, annar var að koma úr brúðkaupsveislu á Flugumýri. Brúðkaupsveislunni sem öllu átti að breyta. Koma á friði. Hinn var á leið að Flugumýri en ekki til að setjast að veisluborði. Hann átti annað erindi. Hvað þeir sögðu og hvernig þeim hefur liðið þarna á heiðinni veit ég ekki en Einar Kárason hefur leikið sér með það í Ofsa.
Af hverju hefur þessi átakanlega fallega mynd af þeim bræðrunum þarna á heiðarbrúninni sótt á mig undanfarna daga? Hvernig tengjast Dufgusbræður mér og mínum tíma? Jú því eftir síðasta gamlársdag finnst mér eins og þeir séu skyldari mér en áður. Allt í einu er ég, vel miðaldra sjónvarpsstarfsmaður sem varla má vamm sitt vita, sýndur sem fyrsta frétt nýs árs í stimpingum við fólk sem ætlar sér að grípa inn í rás vanans og krydda síldina nýju kryddi þennan gamlársdag 2008. Árið 2008, þetta undarlega ár sem allt hrundi og hlaupabrettin byrjuðu að ganga afturábak. Þessari tilraun til Kryddsíldar hef ég áður lýst í bloggfærslu og fer ekki nánar út í það. Þar skrifa ég mig frá þessu sem eins konar áfallahjálp og er nú nokkuð brattur um hríð. En það er eitthvað sem gefur mér gætur og ég finn allt í einu að það eru bræðurnir á heiðinni sem eru að fylgjast með mér. Því þetta var sérkennileg lífsreynsla sem neyðir mann til að staldra við og skoða ýmislegt upp á nýtt. Og það sem ég hrökk mest upp við er það að á einu fréttaskotinu sést einn af þeim svörtu reyna að dírka upp glugga á Hótel Borg með hníf. Og ég skildi það. Ef ég væri mótmælandi væri ég með verkfæri á mér til að geta brugðist við óvæntum aðstæðum, klippt sundur víra, skorið sundur bönd... En þarna sem ég sit heima í stofu og sé þetta er mér skyndilega kippt aftur inn í stimpingarnar á Borginni og ég man að ég ber alltaf á mér verkfæri sem sparar manni sporin í vinnunni. Verkfæri sem er allt í senn töng, skrúfjárn og hnífur og ég kalla það búmannsþingið mitt. Og allt í einu sló mig svo sterkt að ég var líka vopnaður. Ég bara vissi það ekki. En nú veit ég það og það er ekki góð tilfinning. Þetta litla verkfæri sem er búið að vera vinur minn í mörg ár er nærri orðið óvinur minn. En nú bið ég ykkur að lesa varlega og flana ekki að neinu því nú kemur smá hugarflug. Ef innbrotsfólkið hefði komist lengra inn? Ef það hefði komist að dyrunum inn í gyllta salinn? Ef ég hefði misst stjórn á mér? Ef ég hefði misst vitið? Bara augnablik. Ég ætla ekki að svara svona spurningum. Ég veit bara að á þeirri stund sem stimpingarnar stóðu yfir var allt eitthvað svo ósjálfrátt og undarlegt.
Og þá kem ég aftur að vinum mínum á Öxnadalsheiðinni. Ég mundi að ég hafði hugsað til þeirra Dufgusbræðra þegar ég keyrði gegnum Króatíu suður að Adríahafi með Óvinafagnað eftir Einar í töskunni og það fór um mann hrollur og maður fann hvernig sorgin lá í loftinu. Hér heima höfðu Dufgusbræður og þeirra samtímamenn tekið slaginn fyrir okkur. Ég veit ekki hvaða tíma við erum að sigla inn í. En þegar menn boða byltingu, húsbrennur og hýðingar verða menn að tala skýrt. En líka lesa varlega og flana ekki að neinu. Þetta er ekki skrifað til að verja neinn sérstakan. Það verða allir að sjá um sig og sína. Og við verðum að hugsa hvert um annað. Okkur öll. Nei en kannski skrifa ég þetta til að reyna að verja heiður bræðranna á heiðinni, því þeir geta ekki varið sig lengur. Peningasárin eru hryllileg. Stjórnmálaeymdin er ömurleg en þjóðarbardagi eyðileggur sálina. Og ef sálin er farin er ekkert eftir. Þegar ég hugsa um bræðurna standa og faðmast á heiðarbrúninni fyrir ofan Bakkasel, brúninni sem ég hef svo oft staðið á sjálfur, þá finn ég að ég vil ekki standa á þeirri brún framar án þess að hafa sagt: Pössum okkur. Drepum ekki hvert annað.
Ég loka augunum. Myndin er skýr. Þeir bræður faðmast. Kolbeinn grön heldur vestur heiðina út Blönduhlíð og Flugumýri brennur. Björn drumbur heldur norður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
13.1.2009 | 23:24
Svart/hvítt
Það er merkilegt hvað maður sér skrítna hluti út úr öllu þessa dagana. Gamlir og saklausir dægurlagatextar öðlast nýja og beitta merkingu og ljóð láta mann ekki í friði. "Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum..." Samt er ég ekki frá því að sólin sé að hækka á lofti. En í gær datt inn um bréfalúguna almanak frá bankanum. Og þar sem ég reif utan af því plastið hugsaði ég: "Nú er það svart." Almanakið er kolsvart. Og ekki tók betra við þegar ég fór að fletta því. Svart/hvítar myndir. Fínar myndir af svart/hvíta Íslandi. Tók svo gamla almanakið niður af flotta góðærisútvarpinu í eldhúsinu. Og þá var mér öllum lokið. Það gamla (að vísu frá öðrum banka) var með myndum í lit. Svipaðar myndir en í lit. Íslandsmyndir. Myndir frá árinu þegar allt var í lit. Þetta verður þá samkvæmt þessu svart/hvíta árið. En það kemur vor og ekki þýðir að skríða út í horn því þá sér maður aldrei sólina eins og sagt var í Silfrinu um helgina. Annars datt ég aðeins úr hamfarastuðinu um helgina því Idol-keppnin átti hug manns allan. Og það mættu margir með drauma sína og það var mikið fjör sem þið sjáið seinna. Og maður má hafa sig allan við að fylgjast með. En kannski var Njörður P. Njarðvík bestur í Silfrinu þar sem hann lýsti drögum að nýju Íslandi. Og Robert Wade, Guðmundur Ólafsson, Einar Baldursson og Jón Baldvin lögðu í púkkið. Það hressti mann kannski ekki mikið að hlusta á þá, en það er dagljóst að það þarf að segja hlutina eins og þeir eru. Hrista moðið úr pokanum og fá nýtt kerfi á þessu landi. Eins og Njörður sagði. Ef það væri döngun í þeim sem stjórna ættu þeir að gefa út tilskipun á morgun og segja að skólamáltíðir í grunnskólum yrðu ókeypis frá og með næstu helgi. Stjórnvöld gætu líka bætt því við að þau væru ekki viss hvernig þau ættu að borga þetta, en einhversstaðar yrði að byrja. Og ef maður byrjar ekki á að gefa börnunum að borða, hvar byrjar maður þá? Já hvar? Hér kemur upphafið að Söknuði Jóhanns Jónssonar:
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað,
og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums,
hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir
borið með undursamleikans
eigin þrotlausan brunn þér í brjósti,
hvar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.1.2009 | 00:00
Jæja
Ég ætla að byrja á að þakka öllum sem kíkt hafa á bloggið mitt undanfarið. Það eru töluverð viðbrigði að fá allt í einu yfir sig helling af kommentum og fjölda lesenda og flest kommentin eru þannig að ég roðna og veit ekki almennilega hvernig ég á að haga mér. Enn og aftur takk fyrir innlitið. En allt í einu er að koma ný helgi og allt að gerast. IDOLið 2009 leggur í hann á laugardaginn og það verður gaman. Það er eins og margar vítamínsprautur að hitta allt þetta fólk sem kemur og syngur og á sér draum. Og þetta verður langur laugardagur því það eru margir búnir að skrá sig til leiks í söngstjörnuleitinni. En ég er ekki búinn að gleyma Borginni. Það er meira á leiðinni. En áður en það kemur verð ég að kaupa nýja viskíflösku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)